Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. maí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Fjármálaeftirlitsins

Bjarni Benediktsson

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Fjármálaeftirlitsins, 28. maí 2014:

 

Stjórnarformaður FME, forstjóri og aðrir fundargestir.

Þegar síðasti ársfundur Fjármálareftirlitsins var haldinn, fyrir sléttu ári, var ríkisstjórnin fimm daga gömul. Við skiptingu verka milli ráðuneyta voru málefni fjármálamarkaðarins færð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.  Sú hugsun bjó þar að baki að umgjörð fjármálamarkaðarins er mikilvægt efnahagsmál sem fer best með öðrum þáttum hagstjórnarinnar.

Nú eru liðin hátt í sex ár frá hruni fjármálakerfisins og miklar breytingar hafa átt sér stað. Vissulega voru þær mestar í upphafi, en Fjármálaeftirlitið hefur vakað yfir hverju skrefi. Það er mikils virði fyrir íslenskt fjármálakerfi að FME hafi í farteskinu reynslu af því að eiga við slíkar aðstæður.

Um leið þarf að líta fram á veginn og huga að því í þróun starfseminnar sem best hentar þjóðarhag til lengri tíma.  Ljóst er að það alþjóðlega bankakerfi sem byggt var upp hér fyrir hrun, skapaði fjölda starfa og skilaði tímabundið tekjum í þjóðarbúið, en það hafði sem skuggahlið gríðarlega áhættu fyrir landsmenn.  Sú áhætta kom á gjalddaga haustið 2008.

Við eigum að stefna að því að byggja hér á landi öflugt fjármálakerfi, sem getur með myndarlegum hætti þjónustað íslensk heimili og fyrirtæki, og stutt við heilbrigðan vöxt hagkerfisins, en um leið eigum við að forðast áhættusækna starfsemi, einkum þegar áhættan einangrast ekki við þá sem til hennar stofna.

Við höfum öll dregið mikinn lærdóm af síðustu árum. Meðal annars um mikilvægi þess að hafa umgjörð um starfsemi banka sem gerir það að verkum að kostnaður af erfiðleikum og falli þeirra lendi á eigendum og lánveitendum bankanna en ekki almenningi. Í því sambandi er nýtt regluverk um aukið og bætt eigið fé banka auk nýrrar umgjarðar fyrir skilameðferð banka mikilvæg.

Að auki þurfum við að líta til reynslu undanfarinna ára hvað varðar tímalengd slita fjármálafyrirtækja og eftirlit með virkum eignarhlut.

Það er alls óviðunandi að stór hluti íslenska bankakerfisins sé til lengri tíma í höndum aðila sem hafa engin áform um að vera langtímafjárfestar á íslenskum bankamarkaði, heldur þvert á móti hafa lýst því yfir að þeir vilji hverfa á braut með áhættufé sitt sem fyrst.  

Góðir fundarmenn

Fátt er jafnmikilvægt fyrir íslenskan fjármálamarkað og losun fjármagnshafta. Umfangsmikill undirbúningur hefur staðið yfir undanfarna mánuði fyrir þá vinnu. Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um að ráða sérstaka framkvæmdastjórn um losun fjármagnshafta. Þetta felur í sér mikla breytingu, en hingað til hefur fjöldi fólks verið í fullu starfi við að fylgja eftir höftunum og tryggja rétta framkvæmd þeirra, en strangt tiltekið aðeins einn haft losun þeirra að meginstarfi. Framkvæmdastjórninni verða fengnir erlendir ráðgjafar sem vinna munu með stjórnvöldum að því að skilgreina nánar þau efnahagslegu viðmið sem þurfa að liggja til grundvallar þegar ákvarðanir verða teknar um næstu skref.  Þar er einkum verið að horfa til skilyrða fyrir undanþágum frá höftunum, meðferð aflandskróna og áhrifa annarra þátta á greiðslujöfnuð landsins næstu árin.

Í almennri umræðu um fjármagnshöft ber iðulega á því að rætt sé sérstaklega um stöðu slitabúanna og möguleika þeirra til að greiða kröfuhöfum út eignir.  Minna er gert úr möguleikum hins almenna íslendings til sérlausna - heimilanna, fyrirtækjanna, lífeyrissjóðanna og allra hinna sem eru fastir í þessum sömu höftum og slitabúin.  Þetta ber með sér að kröfuhafahópum hafi orðið nokkuð ágengt í því að telja fólki trú um, að skjót og farsæl lausn fyrir slitabúin gagnist heildarhagsmunum okkar.  Fjölmiðlar spyrja sjaldnast um áhrif haftanna á heimilin og fyrirtækin en þeim mun oftar um hvort samtal hafi átt sér stað við kröfuhafa.  Þeir virðast lítt uppteknir af stöðunni fyrir íslenskan almenning ef vanhugsaðar undanþágur yrðu veittar erlendum áhættufjárfestum.

Heildarhagsmunir okkar liggja umfram allt í því að þróa heildstæða lausn sem skilur ekki íslenskan almenning eftir í súpunni þegar tilteknir aðilar hafa sótt það af gjaldeyri sem þeim nægir.  Jafnræði er lykilhugtak hér.  Að áhættu sé dreift og enginn fái sérlausn.

Vissulega er eftirsóknarvert að flýta eins og unnt er lausn á málinu en það væri glapræði að skipta á skjótri lausn og efnahagslegum stöðugleika.  Sjálfur hef ég oftar en einu sinni talað fyrir því að ég vildi lausn fyrr en síðar.  Það hefur þó ávallt verið háð því að réttu skilyrðin væru til staðar.   Fram til þessa hafa væntingar slitabúanna verið óraunhæfar. 

Verkefnið er að tryggja, að samhliða afnámi gjaldeyrishaftanna séu lífskjör í landinu varin, að jafnræði gildi og að þeim mikla árangri sem þegar hefur náðst verði ekki varpað fyrir róða að ástæðulausu. 

Segja má að við stöndum á tvenns konar krossgötum:

Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa áherslur á alþjóðavettvangi hvað varðar málefni fjármálamarkaða breyst. Auknar kröfur eru gerðar um samþættingu eftirlits með einstaka markaðsaðilum annars vegar og markaðnum í heild hins vegar.

Þessi samþætting birtist skýrt í nýju, evrópsku regluverki sem gefur tækifæri til að beita nýjum stýritækjum. Þessi stýritæki hafa í senn áhrif á einstaka fjármálastofnanir og fjármála- og hagkerfið í heild. Alþingi brást við þessari þróun með því að samþykkja lög um fjármálastöðugleikaráð fyrir þinglok. Unnið er að því í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að undirbúa starfsemi ráðsins, en vænta má fyrsta fundar þess síðla sumars.

Í ljósi alls þessa umróts og breyttra krafna hef ég falið nefnd sem vinnur að heildarendurskoðun á lögum um Seðlabankann að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Nefndin fer í þá skoðun með opnum huga og hagsmuni íslensks efnahagslífs að leiðarljósi.

Verulegar breytingar hafa orðið á umgjörð fjármálamarkaða í Evrópu undanfarin ár. Þessar breytingar taka bæði mið af eðlisbreytingu Evrópusambandsins eftir samþykkt Lissabon-samningsins árið 2009 og lærdómum evrópskra stofnana í kjölfar fjármálakreppunnar. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að framselja í auknu mæli völd til sérstakra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði; stofnana sem EES-ríkin standa utan og samræmast illa eðli EES-samningsins.

EES/EFTA-ríkin hafa leitað lausna á þessum vanda undanfarin ár með það að markmiði að tryggja virkni innri markaðarins. Það skiptir EFTA/EES-ríkin miklu máli að lausn fáist á þessum vanda en slík lausn verður annars vegar að rúmast innan heimilda stjórnarskráa EFTA-ríkjanna og hins vegar að byggja á grundvallarþáttum EES-samningsins. Í þessu sambandi heyri ég oft kallað á breytingar á stjórnarskránni en það er mikil einföldun á málinu. Ekkert ríki sem ég þekki til væri reiðubúið að framselja jafn víðtæk völd og hér um ræðir til alþjóðlegrar stofnunar sem það á ekki fulla aðilda að.

Við munum halda áfram að leita lausnar á þessum vanda sem rúmast innan stjórnarskrárinnar og EES-samningsins  og við hyggjumst gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru í góðu samstarfi við Evrópusambandið. Hver sem útkoman verður er ljóst, að miklar breytingar felast í nýrri umgjörð fyrir Fjármálaeftirlitið. Nýja umgjörðin krefst hvoru tveggja í senn aukinnar einsleitni regluverks á innri markaðnum og svigrúms þjóðríkjanna til þess að beita þjóðhagsvarúðartækjum og stífari kröfum þar sem við á. Hið nýja landslag krefst því aukinnar samhæfingar, bæði við önnur EES-ríki og við aðrar þær stofnanir sem koma að málefnum fjármálamarkaðarins, ekki síst Seðlabankann og ráðuneytið. 

Nýlegar tillögur um framtíð Íbúðalánasjóðs og nýja umgjörð á íbúðalánamarkaði marka vatnaskil. Byggja á aðkomu ríkisvaldsins að þessum markaði á góðri greiningu á hugsanlegum markaðsbrestum, en ekki á mismunandi áherslum ólíkra stjórnmálastefna á hverjum tíma.

Allar þær tillögur sem komið hafa fram þurfa að taka mið af því lagaumhverfi sem hér gildir um starfsemi fjármálafyrirtækja. Áður en ráðist verður  í veigamiklar breytingar á kerfinu þyrfti að kanna hvort ná mætti markmiðum annars vegar í gegnum lög um sértryggð skuldabréf og hins vegar veðlánalög sem unnið er að í ráðuneytinu.

Að öllu þessu sögðu er ljóst að Fjármálaeftirlitsins bíða mörg og margvísleg verkefni á næstu árum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka stjórn, forstjóra og starfsfólki vel unnin störf og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta