Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

13. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á Skattadegi Deloitte, 13. janúar 2015

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að ávarpa Skattadaginn. Það er ágætur siður að byrja nýtt ár á því að líta yfir nýlegar breytingar á skattalögum og ræða þær á vettvangi sem þessum. Erindi um skattstofna sveitarfélaga er áhugavert sér í lagi vegna samspils útsvarsins og tekjuskattsins sem ríkið leggur á og áhrif þessarar skattlagningar hins opinbera á tekjur einstaklinga þar sem ríkið greiðir í raun útsvar þeirra sem nýta persónuafslátt til að greiða útsvar að hluta eða fullu. Af þeim sökum hef ég svarað því þannig til, þegar ég hef verið spurður að því hvort ekki standi til að lækka skatta á lægstu laun, að spurningunni hljóti öðrum þræði að vera jafnframt beint að sveitarfélögunum í landinu og hvort ekki standi til að lækka útsvarið. En að tekjuskatti einstaklinga kem ég að betur seinna í ræðu minni.    

Í upphafi kjörtímabilsins var lagt upp með þau grundvallaráform að lækka skatta og álögur á einstaklinga og fyrirtæki.  Um leið vildum við bæta og einfalda skattkerfið, m.a. með endurskoðun þess frá öllum hliðum samhliða innleiðingu jákvæðra hvata á sem flestum sviðum. Skattar eiga að vera einfaldir, sanngjarnir og lágir þannig að fólk geti ráðstafað sem stærstum hluta af eigin tekjum í samræmi við þarfir sínar og langanir.

Fjölmargt hefur áunnist á þessu rúmlega eina og hálfa ári sem liðið er af kjörtímabilinu.

  •       Fyrsti áfangi í lækkun á tekjuskatti einstaklinga kom til framkvæmda í ársbyrjun 2014 sem áætlað var að myndi auka ráðstöfunartekjur þeirra um 5 mia.kr. á ári.
  •       Lækkun tryggingagjalds í áföngum á tímabilinu 2014-2016 var samþykkt á haustþingi 2013.  Þegar hún er að fullu komin til framkvæmda verða fjórir milljarðar eftir hjá fyrirtækjunum árlega, sem ella rynnu í ríkissjóð. Gerðar voru samhliða innbyrðis breytingar á samsetningu gjaldsins. Ég vil halda því til haga í umræðunni um tryggingagjald, sem menn segja að sé enn of hátt, að það hefur lækkað og við lögfestum strax 2013 brúttólækkun á tryggingagjaldinu. 
  •       Séreignarsparnaðarleiðin svokallaða sem er hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna húsnæðisskulda heimilanna varð að veruleika.
  •       Fjársýsluskattur lækkaði úr 6,75% í 5,5%.
  •        Þá hefur löggjöf um stimpilgjald tekið stakkaskiptum til einföldunar og stimpilgjöld  á veðskjölum felld niður til að einfalda fólki að endurfjármagna húsnæðislán sín.
  •        Einnig er að rétt að nefna brotthvarf auðlegðarskatts sem féll úr gildi í árslok 2013 og var lagður á í síðasta sinn árið 2014. Skatturinn var á sínum tíma lagður á vegna óvenjulegra aðstæðna í ríkisfjármálum og átti eingöngu að vera tímabundinn. Sú ákvörðun var látin standa þótt það hafi einhverjum ekki þótt sjálfsagt eftir kosningar. 
  •       Við höfum breytt ýmsum reglum um tekjuskatt lögaðila og má þar til dæmis nefna brottfall hinnar svokölluðu 20/50 arðgreiðslureglu, reglur um afleiður og lögfestingu nýrra reglna um milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila.

Samanlagt eru tekjuáhrif ýmissa skattalækkana á fyrsta ári kjörtímabilsins nálægt 25 ma.kr. þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Á móti þessum skattalækkunum vegur hækkun á bankaskatti og sérstaka fjársýsluskattinum sem leiða til þess að ríkissjóður fær þrátt fyrir allt auknar tekjur. Langmest áhrif hafa þar breytingarnar sem gerðar voru á skattalegri meðferð slitabúanna. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að stjórnvöld séu að kasta frá sér tekjustofnum.

Snemma árs 2014 setti ég af stað heildarendurskoðun á virðisaukaskattslöggjöfinni og almennu vörugjöldunum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að fyrsta áfanga í þeirri vinnu lauk með gildistöku ýmissa lagabreytinga nú um áramót, breytinga sem ég er mjög stoltur af að hafi orðið að veruleika.  

Með þeim náðist afar mikilvægur áfangi í að einfalda íslenskt skattkerfi, auka vægi neysluskatta í tekjuöflun ríkissjóðs í stað tekjuskatta, auk þess sem lagður er grunnur að betri skattskilum til framtíðar. Minni munur milli skattþrepa og breiðari skattstofn virðisaukaskatts er lykillinn að því.

Afnám almenna vörugjaldsins samhliða þessum mikilvægu breytingum á virðisaukaskattinum er stórt skref og löngu tímabær aðgerð að afnema úrelta neyslustýringu á um 800 vöruflokkum án þess að stefna markmiðum um hallaus fjárlög í hættu.   

Þá tel ég einnig nauðsynlegt að nefna úttekt sem ég óskaði eftir á stjórnsýslu skattamála með það fyrir augum að framkvæmd skattamála væri sem virkust. Úttektin leiddi í ljós að ýmislegt mætti bæta á vettvangi skattframkvæmdar. Fyrsta áfanga í endurbótum í þá veru er þegar lokið með sameiningu yfirskattanefndar og ríkistollanefndar og fleiri lagfæringum á löggjöf um yfirskattanefnd.

Brautin  fyrir betra og einfaldara skattkerfi hefur þannig þegar verið rudd  að hluta og við blasir að halda áfram á sömu braut út kjörtímabilið.

Af gefnu tilefni vil ég fjalla aðeins nánar um milliverðlagningarreglurnar sem nú hafa tekið gildi og eru eitt af umræðuefnum fundarins.

Ég beitti mér fyrir lögfestingu þessara reglna strax á árinu 2013. Lagabreytingarnar gengu í gildi 1. janúar 2014 og í framhaldi af lögfestingunni var ráðist í það verkefni að skrifa reglugerð með nánari útfærslu á þeim. Sú reglugerð var svo birt í lok síðasta árs og tók hún gildi þann 1. janúar sl.  

Með nýju milliverðlagningarreglunum er stigið jákvætt skref fyrir íslenskt viðskiptalíf með innleiðingu sambærilegra reglna og gilda í öðrum ríkjum OECD. Reglurnar fela þó í sér auknar skyldur fyrir stærri fyrirtæki sem nú þurfa að uppfylla skjölunarskyldu vegna viðskipta sinna við tengda aðila.

Ég tel að þessar reglur hafi verið innleiddar og kynntar tiltölulega hægum skrefum með það að markmiði skapa skýrari leikreglur um verðlagningu milli tengdra aðila án þess að íþyngja viðskiptalífinu um of.

Ég vil að lokum vekja athygli á því að nú er til meðferðar hjá Alþingi stjórnarfrumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á núgildandi milliverðlagningarreglum, með það að markmiði að draga úr þeirri byrði sem innlend fyrirtæki kunna að verða fyrir vegna skjölunarskyldu, þannig að íslensk fyrirtæki sem einungis eiga í viðskiptum við tengda aðila á Íslandi þurfi ekki að skjala slík viðskipti sérstaklega.

En þá að öðru sem framundan er.

Tímabært er nú að huga að breytingum á tekjuskatti einstaklinga og stefna að því að lækka skatta á einstaklinga, fækka skattþrepunum og skoða samhliða samspil tekjuskattskerfisins og bótakerfið. Það er ekki einfalt að fara í grundvallarbreytingar á þriggja þrepa tekjuskattskerfi, en vilji minn stendur til þess og að leita leiða til að draga úr flækjustiginu sem því fylgir, einkum vegna tekjutengingar bótakerfanna sem við höfum innleitt. Samspil þessara atriða geta leitt til jaðarskatta sem eru yfir 50 prósent.

Þetta vil ég taka til sérstakrar skoðunar með það að markmiði að hvatarnir sem ég nefndi í upphafi séu ávallt réttir og að kerfið letji fólk ekki til þess að leggja meira á sig og bæta kjör sín. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að breytingar í þessa veru geti litið dagsins ljós sem allra fyrst. Þetta er eitt af þeim forgangsverkefnum sem unnið verður að í ráðuneytinu á þessu ári.

Endurskoðunin á lögum um virðisaukaskatt mun halda áfram og þegar liggur fyrir áætlun um framhald vinnunnar út þetta kjörtímabil sem ég mun kynna nánar innan tíðar. Helstu atriði sem koma til skoðunar eru reglur um kaup og sölu á  rafrænni þjónustu til og frá útlöndum sem og byggingastarfsemi.  

Skattlagning á bifreiðum og bifreiðaeldsneyti er svo svið sem ég tel brýnt að verði tekið til heildarendurskoðunar, ekki síst í ljósi þeirra öru tæknibreytinga sem orðið hafa og við blasa á næstu árum.

Þá tel ég nauðsynlegt að fara grannt yfir tollakerfið okkar í ljósi þeirra radda sem heyrast að álagning tolla geri það að verkum að íslensk verslun standi höllum fæti.

Að lokum nokkur orð um tryggingagjald. Eins og áður er komið fram hafa þegar verið samþykktar breytingar á tryggingagjaldi fram til ársins 2016 en ég vil ég þrátt fyrir þær breytingar sem við höfum gert taka það til frekari skoðunar. Það var um 3% af vergri landsframleiðslu árið 2006 en 2013 var það komið í um 4%. Við munum leita leiða til að lækka tryggingagjaldið eftir því sem ástandið í ríkisbúskapnum býður upp á. Það er eitt af stóru málunum fyrir atvinnulífið í landinu að halda því eins lágu og aðstæður bjóða upp á.

Góðir fundarmenn. Ég þakka ykkur fyrir áheyrnina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta