Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

14. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á skattadegi Deloitte, 14. janúar 2016

Ágætu fundarmenn

Það var mikil áskorun fyrir nýja ríkisstjórn að fylgja eftir þeirri stefnu sinni að loka fjárlagagati, sem stefndi í að verða undir 30 milljarðar þegar ný ríkisstjórn tók við 2013, og fylgja á sama tíma eftir þeirra stefnu sinni að lækka skatta. Ég man vel eftir því að menn brostu dálítið í kampinn á þinginu þegar við sögðum að við myndum lækka skatta og að áherslurnar byggðu á því að einfalda skattkerfið, gera það gegnsærra, draga úr álögum og loka fjárlagagatinu á sama tíma.

En þetta hefur tekist. Viðsnúningurinn hefur verið kraftmeiri en flest okkar bjuggust við og svo mikill að eftir því hefur verið tekið.

Það var líka eftirminnileg upplifun að heyra á sínum tíma að það væri ekki hægt að lækka skatta vegna stöðunnar í ríkisfjármálun og svo tveimur árum síðar að það væri óábyrgt að lækka skatta vegna þess að þenslan í hagkerfinu væri orðin slík að ekki væri hægt að auka á hana.

Ég tel að við höfum tímasett okkar breytingar á skattkerfinu prýðilega.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði til upprifjunar. Sumt af því sem ég ræddi um á skattadeginum síðast voru atriði sem við höfðum þá áform um að hrinda í framkvæmd en höfum í millitíðinni komið til leiðar. Ég nefni í þeim efnumbreytingarnar á tekjuskatti einstaklinga en þar felst meginbreytingin í því að við eyðum út einu þrepi. Mig langar að staldra aðeins við þetta. Ég er sammála því að það sé meðal annars tilgangur tekjuskattskerfis einstaklinga að jafna ráðstöfunartekjur. En svo greinir okkur í stjórnmálunum oft á um það hversu langt eigi að ganga í þeim efnum.

En þegar við tókum af 2 prósentustig og lækkuðum í raun og veru skattbyrðina á millitekjufólk í landinu, og við erum líka að lækka skattbyrðina á lægstu tekjur, þá var því haldið fram að við værum að rústa tekjujöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins. Þetta er alrangt í mínum huga. Það gleymist líka að sé persónuafslátturinn tekinn með, erum við í raun með óendanlega mörg skattþrep.

Eftir sem áður er skattbyrðikúrfan mjög svipuð og hún áður var en við höfum dregið línuna aðeins niður fyrir millitekjur og lægri tekjur. Það held ég að sé ein ástæða þess að á endanum tókust samningar á vinnumarkaði á síðasta ári. Nefna má að í samningunum á almenna markaðinum var megináherslan á lægstu laun en skattaáherslur ríkisstjórnarinnar hjálpuðu til við að ljúka samningunum fyrir millitekjufólk, til dæmis fyrir þá sem eru hjá VR.

Svo er það umræðan um hæsta þrepið. Fólk spyr: Hvers vegna ekki að vera með hátekjuskatt hér á Íslandi, eins og alls staðar annars staðar? Sumir ganga svo langt að vísa í Warren Buffet og segja að hann vilji hátekjuskatt, hvers vegna þá ekki íslenski fjármálaráðherrann?

Í fyrsta lagi, var Warren Buffet ekki að tala um eiginlegan hátekjuskatt. Hann var að tala um muninn á milli skattlagningar þeirra sem hafa miklar fjármagnstekjur og svo hinna sem þurfa að greiða skatt af launatekjum sínum. Það var grundvallaratriði. Hann var að segja að þeir sem byggja afkomu sína eða hafa meginhluta tekna sinna í fjármagnstekjum í Bandaríkjunum, þeir sleppa með miklu lægri skattbyrði heldur en launafólk og vísaði til ritara síns í því tilviki. Mér fannst af þeim sökum þetta dæmi ekki ganga vel upp. Í öðru lagi eru þá önnur lönd nefndtil dæmis í Evrópu. Bent er á að í Frakklandi hafi verið tekinn upp hátekjuskattur. En hvers konar hátekjuskattur er það? Ein milljón evra, meira en tíu milljónir króna á mánuði. Og þá eru menn farnir að tala um hátekjuskatt. En á Íslandi er umræðan komin á þann stað að það sé orðið sjálfsagt að vera með sérstakt, mjög íþyngjandi skattþrep, á rétt rúmlega millitekjur, eða í um 700 þúsund krónum..

Þetta er auðvitað umræða sem ekki gengur upp ef betur er að gáð. Samanburðurinn gengur einfaldlega ekki upp. Í öðrum löndum sem menn vilja nota til samanburðar er ekki verið að tala um sérstaka, íþyngjandi viðbótarskattlagningu í tekjuskattinum fyrr en komið er aðmjög háum launum, til dæmis 1-5% allra hæstu launa.

Og enn flækjast málin þegar sama fólkið og villað við eigum að vera með þriðja sérstaka háa skattþrepið á 700-800 þúsund króna laun, styður síðan verulegar launahækkanir til þeirra sem eru með töluvert hærri laun en það. Samanber umræðuí þinginu umkjaradeilur eins og þá sem átti sér stað á síðasta ári, þar sem í hlut eiga launþegar sem eru langt yfir efsta skattþrepinu og menn styðja kröfur sem þar koma fram en eru á sama tíma að tala fyrir sérstöku þriðja skattþrepi. Ég fæ það ekki til þess að ganga upp í mínum huga að það sé rökrétt samhengi í að það þurfi að hækka laun þeirra sem eru í efsta þrepinu en á sama tíma að tryggja að þeir launþegar falli undir sérstakt skattþrep.

Þetta vildi ég nefna vegna þess að mér finnst það gleymast í almennri umræðu um tekjuskattskerfið að við erum með kerfi sem á grundvelli persónuafsláttarins er í raun og veru með óendanlega mörg skattþrep og það er alveg öruggt að sá Íslendingur sem hefur hæstu launin á Íslandi, hann borgar hæsta hlutfall launa sinna í skatt.

Þessar breytingar hafa verið metnar af fjármálaráðuneytinu til tekjutaps fyrir ríkið. Við mat á tekjuáhrifum breytinga í tekjuskattskerfinu höfum við yfirleitt skoðað hlutina í tvívíðu módeli. Við tökum yfirleitt ekki með í reikninginn að það geta verið hvatar fólgnir í því að lækka skatta sem leiðir til þess að fólk vinnur meira sem á endanum skilar sér í auknum tekjum.

Við gerðum ráð fyrir að það yrði um fimm milljarða tekjutap á þessum forsendum á árinu 2014 og síðan 11 milljarða tekjutap til viðbótar þegar milliþrepið sem fór niður um helming og fellur út á næsta ári er komið að fullu til framkvæmda. Þá hafa verið lögfestir tilteknir skattalegir hvatar með séreignasparnaðarleiðinni,frítekjumark vaxtatekna hækkað og frá og með áramótum lækkar virkur fjármagnstekjuskattur á leigutekjur á íbúðarhúsnæði úr 14% í 10% til þess að styðja betur við virkni á leigumarkaðnum.

Að öðru leyti höfum við einbeitt okkur að einföldunar- og skilvirknimálum. Ég tel t.d. að breytingarnar sem við höfum gert á virðisaukaskattskerfinu hafi heppnast mjög vel. Þær voru ekkert óumdeildar og ég hef nú staðið á þessu sviði að ræða það oftar en einu sinni hvernig við hugsuðum þetta. Við sáum tækifæri til þess að gera breytingar sem voru til lækkunar á móti t.d. hækkun neðra þrepsins. En við fórum niður í lægsta almenna þrep virðisaukaskatts sem við höfum haft frá því virðisaukaskattskerfið var tekið í gagnið, sem er 24% og er hvergi lægra á Norðurlöndunum.

Þess vegna hef ég alltaf sagt – þegar búið er að afnema vörugjöldin og fella niður tolla, þá er íslensk verslun komin í samkeppnislega sambærilega stöðu og verslun á Norðurlöndunum, varðandi þessa þungu þætti í opinberum gjöldum.

Það er einmitt annar punktur, að við höfum farið í töluvert miklar breytingar á þessum málaflokkum. Vörugjöldin eru eldra mál en núna um áramótin tókum við af tolla, sérstaklega á föt og skó. Um næstu áramót ætlum við að halda áfram og afnema alla tolla þannig að ekkert standi eftir nema sumar matvörur. Það sem ég hafði í hug þegar við lögðum þetta fram var í fyrsta lagi að í heildarsamhengi hluta skiluðu þessi gjöld tiltölulega litlum tekjum. Í öðru lagi þá væri ástæða til þess að létta undir með neytendum á Íslandi og halda aftur af verðlagi. Í þriðja lagi eru frjáls viðskipti einfaldlega góð í eðli sínu. Ég held að menn verði að gæta sín á því að halda um of í prinsippið um að það megi aldrei nein tollalækkun eiga sér stað án þess að eitthvað annað fáist á móti. Það kann að eiga við á ákveðnum sviðum og kannski sérstaklega í utanríkisverslun með matvæli og þess vegna er það kannski einkum þar sem við höldum áfram í ákveðna tolla. Þar eru þjóðríkin mjög dugleg í að halda á lofti hagsmunum sínum. En í þessari miklu flóru annarra tolla tel ég að sömu sjónarmiði eigi ekki við með sama hætti.

Þegar allt kemur til alls: Ríkið getur horft á þetta frá sínum sjónarhóli, en hver er á endanum að borga tollana? Það er auðvitað fólkið í landinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að flestir þeir sem eru hér inni kannast við umræðuna um opinber gjöld eða álagningu sem er erfitt að réttlæta. Fyrir utan það að enginn skilur heldur þessa tolla, ég hef verið í mesta basli við það sjálfur. Það eitt að fá listann yfir það sem við leggjum toll á er meiriháttar flókið mál, sem er ekki til merkis um gegnsætt, skilvirkt og skiljanlegt gjaldakerfi. Því ákáðum við einfaldlega að afnema alla þessa tolla.

Ég nefni hér líka nokkur önnur mál eins og einföldun á stimpilgjöldum, það að auðlegðarskatturinn rann út, útvarpsgjaldið hefur aðeins lækkað, og við höfum haldið aftur af hækkunum á krónutölugjöldum og sköttum. Með þessu safnast upp heilmiklar skattalækkanir sem við höfum náð að innleiða og beita okkur fyrir það sem af er kjörtímabilinu. Á tímabilinu 2013-2017 er þetta um 33 milljarða króna skattalækkun á ársgrundvelli, þegar seinna skrefið af tekjuskattslækkuninni kemur til framkvæmda og tollaafnámið er að fullu gengið í gegn. Þetta er um 5% af áætluðum skatttekjum á árinu 2017. Ef afnám auðlegðarskattsins er talið með er talan komin í rétt um 44 milljarða króna. Hægt er að skoða þessar tölur áfram miðað við fjölda Íslendinga og fjölda fjölskyldna og færa fyrir því rök að við höfum lækkað árlega skatta á hverja fjögurra manna fjölskyldu um sem nemur 400 þúsund krónum. Þetta er nokkuð sem ég tel skipta verulega miklu máli en ég tek eftir því að samkvæmt nýlegri könnum telja flestir Íslendingar að það sé enn svigrúm til þess að lækka skatta. Okkar verkefni verður áfram að fylgja eftir þeirri stefnu. Okkar áherslur hafa verið skýrar, við höfum á þessu kjörtímabili lagt mesta áherslu á skatta sem einstaklingar bera. Við höfum þó gert smávægilegar breytingar, eins og til dæmis þær sem ég nefndi áðan og snerta verslunina. Við höfum líka stigið fyrstu skrefin til lækkunar tryggingagjalds sem munar um 4 milljörðum króna á ári. Næstu helstu áherslur tel ég að eigi að vera fyrir atvinnustarfsemina í landinu.

Um þessar mundir er að hefjast vinna við að teikna upp langtímaáætlun í ríkisfjármálum á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál. Við eigum líka samtal við vinnumarkaðinn um það hvernig hægt sé að lækka tryggingagjaldið frekar. Ég er mjög opinn fyrir því að ræða það taka frekari skref í þá átt á gildistíma þeirra kjarasamninga sem nú er verið að ljúka. Á sama tíma vil ég líka sjá hvernig við náum öðrum markmiðum. Þetta er svolítið eins og hjá fjöllistamanni sem er að snúa mörgum diskum. Það þarf að horfa á þá alla til þess að tapa ekki einum í gólfið og þar með ákveðnum markmiðum sem maður vill á sama tíma ná. Hér má nefna lækkun skulda ríkisins og vel fjármagnaðri samneyslu.

Ég nefni hér í lokin að lækkun skatta skilar sér til fólks. Mín upplifun af þjóðfélagsumræðunni í dag er að það sé vaxandi krafa á að ríkið leysi alla hluti fyrir fólk. Mér finnst ágætt að hafa í huga, af því að við erum hér að ræða skattfé, að ekki er til nein sjálfbær og náttúruleg uppspretta skattfjár. Þegar allt kemur til alls er ákveðin ranghugmynd í gangi um að ég búi yfir einhverri sérstakri kistu opinbers fjár. Eins og einhvers staðar var sagt þá er ekki til neitt opinbert fé, það er bara til skattfé, sem annaðhvort er greitt af fólkinu í landinu eða lögaðilum. Því hefur það bein áhrif á þá sem eru uppspretta teknanna þegar sífellt koma fram kröfur um að ríkið leysi alla hluti með framlögum, sem allt of oft gleymist í umræðunni.

Ég þakka kærlega fyrir tækifærið til að vera með ykkur í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta