Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar, 14. apríl 2016
Landsvirkjun er stöndugt fyrirtæki sem ásamt fjármálafyrirtækjunum, er ein verðmætasta eign ríkisins. Hún hefur gengið í gegnum ýmis tímabil með þjóðinni og var uppbygging Landsvirkjunar hvorki átaka- né áhættulaus og mörg verkefnin sem farið hefur verið í umdeild. Hitt má heita óumdeilt að við Íslendingar höfum - og höfum haft - ríka þörf fyrir að nýta með skynsamlegum hætti þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða svo renna megi styrkari stoðum undir lífskjörin í landinu.
Það má glöggt sjá í dag hve miklu það hefur skilað okkur sem þjóð að hafa unnið að uppbyggingu fyrirtækisins og hve miklu það varðar fyrir framtíðarkynslóðir. Allir þeir sem hafa komið að málum í gegnum tíðina eiga mikið lof skilið fyrir framsýnina, eljuna og dugnaðinn.
Nú er yfirskrift þessa ársfundar, auðlind fylgir ábyrgð, og á hún vel við þá stefnu sem Landsvirkjun hefur markað í starfi sínu.
Góðir fundarmenn.
Í gegnum tíðina hafa svokölluð tilfinningarök einatt þótt léttvæg í umræðunni um orkunýtingu og orkuöflun. Sú tilfinning að þykja vænt um ákveðið svæði, telja það ómetanlegt vegna fegurðar eða sérstöðu, eða vegna samspils þess við umhverfi sitt - og vilja þess vegna vernda það þrátt fyrir rök um þjóðhagslegan ávinning, eða miklar tekjur í sveitarsjóð. Þessi rök hafa ekki á öllum tímum komist að með sanngjörnum hætti.
Þegar við lítum í eigin barm bærast þar sjálfsagt slíkar tilfinningar til einhvers staðar eða einhverra landsvæða. Staða þar sem við getum ekki hugsað okkur, að háspennulína skeri útsýnið eða lón fylli dali. Og ekkert í heiminum gæti breytt þeirri skoðun okkar. Þannig værum við tilbúin að seinka uppbyggingu mikilvægra innviða, eða gefa til frambúðar eftir einhver efnisleg gæði til þess að halda í slíkan eftirlætisstað.
Þannig líður mörgum Íslendingum og það er jákvætt að þessi hugsunarháttur verði æ ríkari. Það er jákvætt að svigrúm gefist til að fara ofar í þarfapýramída samfélagsins þegar ákvarðanir um framtíð okkar eru teknar.
Það er því óþarfi að fara í einhverja flokkadrætti - og draga upp þá mynd að fólk sé annað hvort með eða á móti Íslandi, með eða á móti íslenskri náttúru - með eða á móti því að leyfa komandi kynslóðum að njóta þess sem landið hefur boðið okkur.
Sjálfsmynd Íslendinga er nátengd náttúru landsins. Ímynd landsins út á við byggist á fegurð, víðáttu og ósnortinni náttúru. En náttúran hefur gildi í sjálfri sér, ótengt því hvaða ímynd og sjálfsmynd við viljum viðhalda. Og það er það sjónarmið sem ég tel að vegi æ þyngra í mati á því hvernig og hversu mikið við Íslendingar teljum að við getum þegið af gnægtaborði landsins - móður náttúru.
Góðir fundargestir.
Við Íslendingar höfum á umliðnum 17 árum, síðan vinna við fyrsta áfanga rammáætlunar hófst, lært mikið um samspil náttúru og orkuvinnslu og öðlast talsverða færni og getu til að rannsaka virkjanakosti þannig að saman fari mat á möguleikanum um aukna orkunýtingu og vernd náttúrunnar. Þessir valkostir hafa verið vegnir og metnir á grundvelli sjónarmiða um sjálfbærni, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis eins og atvinnuuppbyggingar og varðveiðslu náttúrugæða.
Um síðustu mánaðamót lagði verkefnastjórn rammaáætlunar fram drög að lokaskýrslu að 3. áfanga verndunar- og orkuáætlunar þar sem fjallað er um og gerð tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða. Ég tel afar brýnt að við fylgjum eftir því að sú vandaða umgjörð sem mótuð hefur verið með lögum, og byggist á rammaáætlun og mati á umhverfisáhrifum, verði ekki raskað og fagleg og ýtarleg umræða fari fram á opinberum vettvangi um þessi atriði sem leiði til niðurstöðu sem geti stuðlað að víðtækri sátt um skipan þessara mála. Það er til skaða fyrir þá góðu samstöðu sem varð til í upphafi og var grunnur að þeirri löggjöf sem öll þessi vinna byggist á hvernig okkur hefur tekist á vettvangi stjórnmálanna að takast á við þau álitaefni sem fyrirsjáanlegt væri að kæmu upp. Menn hafa farið í skotgrafirnar, en það er nauðsynlegt að huga að því að grunnhugsunin að baki allri vinnunni var að hugsa ekki til næsta árs eða þarnæsta, heldur næstu áratuga og enn lengra. Að hugsa til langs tíma þarf að verða okkur eðlislægara.
Ég ætla að það sé svo, að yfirgæfandi meirihluti þeirra sem kemur að stjórnmálum vinni að málum með það að markmiði að þau skili skynsamlegri og heillavænlegri niðurstöðu fyrir landsmenn alla. Frekari nýting orkuauðlinda og verndun umhverfis er slíkt grundvallarmál sem snertir hagsmuni allra landsmenn, og komandi kynslóða, að við sem að stjórnun landsmálanna komum verðum að hefja okkur yfir hefðbundið pólitískt dægurþras og leiða rammaáætlun fram og til lykta á grunni þeirrar faglegu vinnu og víðtæka samráðs sem haft hefur verið að leiðarljósi. Í þeim efnum ætti ekki að þurfa að taka fram að horfa þarf til allra þátta, þ.m.t. efnahagslegra áhrifa. Mat á kostum verður líka að taka tillit til skynsamlegs mats á orkuþörf - ekki eingöngu hversu langt er hægt að ganga eða hversu hátt verð áhugasamir kaupendur væru tilbúnir að bjóða fyrir endurnýjanlega orku.
Uppbygging raforkuflutningskerfisins er mál af svipuðum toga og snertir þætti samfélags- og umhverfis með sama hætti og mat á virkjunarkostum. Tillaga um matsáætlun um Sprengisandslínu er nú til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Í máli sem þessu þarf að vanda sérstaklega vel til verka. Hálendi Íslands er einstakur staður á heimsvísu og tillagan því skiljanlega umdeild. Það er áhugavert að fylgjast með hvernig við Íslendingar förum í gegnum umræðu af þessum toga og undirskriftasöfnun í þessu máli hefur vakið mikla athygli. Það er samstaða um verndun hálendisins, en stundum finnst manni sem ekki sé nógu mikið gert úr því hvað við höfum þegar verndað. Í þessu máli hlýtur að vega þungt að aðrir valkostir eru líka í boði til að byggja upp flutningsraforkukerfið - sem er sannarlega er brýnt viðfangsefni og varðar mikla þjóðhagslega hagsmuni sem má ekki dragast mikið meira að ráðist verði í. Þess vegna, vegna alls þessa, hljóta þeir kostir, þar sem aðrar leiðir eru í boði að koma fyrst til skoðunar.
Þessi tvö mál nefni ég hér sérstaklega, rammaáætlunina og uppbyggingu raforkuflutningskerfisins, vegna þess að ég tel að þetta séu einna bestu dæmin um að góð áform á pólitíska sviðinu um að vinna málefnalega og faglega, en sú vinna mistekst oft þegar kemur að því að taka ákvarðanir um það sem lagt var upp með. Við þurfum því í þeim efnum að gera betur, gera miklu betur
.***
Í ríkisfjármálunum hafa veður skjótt skipast í lofti, ekki síst með uppgjöri slitabúanna og stöðugleikaframlögum þeirra í tengslum við undanþágu frá fjármagnshöftum. Fram undan er annað stórt skref, sem vænta má að verði stigið fyrir mitt þetta ár, þar sem tekið verður á kvikum krónum sem þrýst hafa á að komast út úr hagkerfinu.Þar með verður stærstu hindrunum í vegi afnáms rutt úr vegi, með talsverðum ávinningi fyrir þjóðarbúið en staða þess er nú betri en hún hefur verið um áratugaskeið. Það er einnig fyrirséð að arðgreiðslur orkufyrirtækja í eigu ríkisins, einkum Landsvirkjunar, geti vaxið mjög innan nokkurra ára vegna meiri fjárhagslegs styrks. Miklar áskoranir eru hins vegar framundan í opinberum fjármálum vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, aukinna velferðarútgjalda og innviðauppbyggingar.
Fyrir ári, á þessum vettvangi, varpaði ég fram þeirri hugmynd að koma á fót sérstökum sjóði um arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja ríkisins. Með slíkum sjóði mætti hefja uppbyggingu á varasjóði okkar Íslendinga, sem um leið væri hugsaður sem stöðugleikasjóður til að jafna út sveiflur í efnahagslífinu. Ég talaði þá um að skynsamlegt væri að einungis hluti ávöxtunar sjóðsins yrði til ráðstöfunar í þjóðhagslega arðbær verkefni, fjárfestingar í innviðum, rannsóknum, þróun og menntun. Að öðru leyti gæti sjóðurinn verið mikilvægt hagstjórnartæki sem tryggði að við legðum til hliðar í uppsveiflu og gætum stutt við hagkerfið í niðursveiflu.
Í framhaldinu hefur hópur úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu og forsætisráðuneytinu aflað gagna um markmið og uppbyggingu þjóðarsjóða og fundað með Landsvirkjun og fleiri aðilum.
Sérstaklega hefur verið litið til Noregs þar sem slíkur sjóður hefur verið rekinn með góðum árangri, ekki á grundvelli sjálfbærrar orkunýtingar heldur með öðru sniði, en grunnhugsunin er sú sama og árangurinn hefur verið góður. Í byrjun janúar átti ég fund með norska fjármálaráðuneytinu og norska olíusjóðnum til að afla betri upplýsinga um starfsemi hans, hlutverk, fjármögnun og ráðstöfun.
Mikilvægt er að sjóður sem þessi vinni eftir skýrum markmiðum. - Enn og aftur að okkur auðnist að hugsa til langs tíma. - Mér þykir einsýnt að meginviðfangsefni sjóðsins yrði að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu. Markmiðin lúta því einkum, eins og ég kem hér ítrekað inn á, að sveiflujöfnun, varúðarsjónarmiðum og sjálfbærni opinberra fjármála. Önnur markmið, einskonar yfirmarkmið, kynnu að tengjast trausti, lánshæfi, aga og kynslóðajöfnuði.
Hlutverk sjóðsins yrði þannig að byggja upp þjóðhagslegan sparnað með því að taka við og ávaxta fjárhagslegar eignir ríkissjóðs sem til hans yrðu lagðar og í öðru lagi, að ráðstafa fjármunum til ríkissjóðs í samræmi við ákvæði laga. Fjármögnun sjóðsins yrði með þeim hætti að til hans yrðu lagðar fjárhagslegar eignir, einkum arðgreiðslur orkufyrirtækja og þess vegna nefni ég þetta ítrekað hér á þessum fundi, en arðgreiðslur LV, vaxandi arðgreiðslugeta, er tilefni þess að þessi hugmynd fæðist. Einnig má hugsa sér að verðbréf í eigu ríkissjóðs sem tengjast orkufyrirtækjum og mögulega aðrar fjárhagslegar eignir rynnu til sjóðsins, svo sem fjármunir í eigu ríkissjóðs sem varðveittir eru í gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands samkvæmt sérstöku samkomulagi við bankann.
Fyrir ári sagði ég að samstaða um stofnun slíks sjóðs væri grundvallaratriði og ég myndi leita eftir henni. Það er ánægjulegt að segja frá því að á fundi mínum með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á þingi fann ég breiðan stuðning við þá grunnhugsun sem birtist í þessum tillögum - að við Íslendingar ættum samhliða áframhaldandi uppbyggingu landsins að leggja til hliðar til að jafna út sveiflur og styrkja efnahagslega stöðu okkar.
Ég hef lagt til við ríkisstjórn að skipaðir verði tveir hópar, annars vegar þriggja manna starfshópur sem fái það hlutverk að gera frumvarp til laga um sjóðinn og hins vegar hópur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi sem veiti álit sitt á vinnu frumvarpshópsins.
Þetta er mál sem allir flokkar á Alþingi geta sameinast um og verið stoltir af að leggja grunn að fyrir komandi kynslóðir. Mál sem þetta verður að lifa ríkisstjórnir og byggja á sameiginlegum skilningi á því að hugsað er til langs tíma.
Þrátt fyrir að sterkir vindar hafi blásið um vettvang stjórnmálanna að undanförnu er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram með þetta mál en gert hefur verið ráð fyrir því að frumvarp yrði tilbúið til þinglegrar meðferðar næsta vetur. Æskilegt væri að flokkarnir kæmu sér saman um að halda þá áætlun.
Góðir fundarmenn.
Betri skuldastaða, hærri eiginfjárstaða en nokkru sinni og vaxandi arðgreiðslugeta eru til marks um hve vel hefur verið haldið á stjórn fyrirtækisins.
Mig langar því hér að lokum að óska stjórnendum og starfsfólki Landsvirkjunar til hamingju með árangurinn á síðasta ári, sem er það söluhæsta í sögu fyrirtækisins.
Við Íslendingar þurfum oft að minna okkur á hve vel við stöndum í samanburði við aðra þá sem byggja þessa jörð. Um þessar mundir virðist sama hvert litið er, á nær öllum sviðum efnahagsmála er bjart framundan - opinber fjármál að færast til betri vegar og grunnstoðir hagkerfisins sterkar: Sterkir fiskistofnar í hafinu, ör uppbygging í ferðaþjónustu og fjölbreyttum iðnaði, orkuframleiðslan að skila miklum arði og vaxandi eftirspurn eftir hreinni orku.
Við erum svo sannarlega gæfusöm þjóð