Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 2017
Talað orð gildir
Góðir fundarmenn,
það er ánægjuefni að ávarpa þessa samkomu í fyrsta sinn. Landsvirkjun er burðarstoð í innviðum ríkisins, vel rekið fyrirtæki sem nýtir verðmætar auðlindir landsins til hagsbóta fyrir landsmenn alla.
Myndbandið sem við sáum rétt í þessu var fallegt og áhugavert. Efni þess má túlka á ýmsa lund. Það má til dæmis sjá í myndbandinu þá náttúrufegurð sem Ísland býr yfir og er ástæðan fyrir því að obbi þeirra ferðamanna sem sækja landið heim nefnir náttúruskoðun sem eina meginástæðuna fyrir heimsókn sinni. Þetta ýtir undir mikilvægi þess að Landsvirkjun vinni í góðri sátt við landsmenn þar sem jafnvægi er á milli virkjunar og verndar. Ósnortin náttúra er líka auðlind.
Í sjávarútvegi höfum við um árabil rekið stefnu sem stuðlar að því að við skilum fiskimiðunum jafngóðum eða betri til komandi kynslóða. Þessari stefnu eigum við líka að framfylgja á öðrum sviðum. Ferðaþjónustan nýtir sér líka sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og þar þarf að gæta að því að við ofbjóðum ekki náttúrunni með ágangi. Vanda þarf til umgjarðar ferðamannastaða þannig að ferðamenn fari sér ekki á voða og spilli ekki gæðum náttúrunnar.
Það sama gildir auðvitað um orkufyrirtæki. Virkjun er inngrip í náttúruna, en miklu skiptir að frágangur mannvirkja sé með þeim hætti að sem minnstum skaða valdi. Þar hafa íslensk orkufyrirtæki nær alltaf verið til fyrirmyndar, einkum í frágangi virkjunarmannvirkja og umhverfi þeirra. Því verður aftur á móti ekki á móti mælt að rafmagnslínur geta verið alvarleg sjónmengun. Mér er það vel ljóst að jarðstrengir eru enn sem komið er mun dýrari en loftlínur, en þá kemur aftur að orðum mínum áðan: Ósnortin náttúra er líka auðlind.
Ég mun hér fara nokkrum orðum um stefnu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum, hugmyndir um þjóðarsjóð og að síðustu segja nokkur orð um rammaáætlun.
Kæru fundarmenn,
ríkisstjórnin ætlar að hverfa frá þeirri stefnu að orkuauðlindir landsins eigi fyrst og fremst að nýta til þess að laða að stóriðju og í staðinn mun hún auka fjölbreytni atvinnulífsins, skapa jákvæðar aðstæður fyrir græna atvinnustarfsemi og umhverfisvæna tækniþróun og framleiðslu og grænar samgöngur.
Unnið er að því innan umhverfisráðuneytisins með aðkomu annarra ráðuneyta að skapa stefnu sem bit er í gegn loftslagsbreytingum. Þar þarf að horfa á ýmsa þætti og það sem fellur undir fjármálaráðherrann sem hér stendur er að búa svo um hnúta að hagrænir hvatar séu til þess að vernda náttúruna. Þar er skattkerfið skilvirkt tæki, en sjónarhornið þarf þó alltaf að vera breitt.
Stóraukin rafvæðing samgangna er afleiðing af alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins í loftslagsmálum og samhliða svar við kalli nútímans. Íslendingar hafa allar forsendur til að vera í fararbroddi og við eigum að setja markið hátt.
Í ráðuneytinu er unnið er að uppfærslu á almennri eigandastefnu ríkisins fyrir hluta- og sameignarfélög, þar með talda Landsvirkjun. Við stefnum að því að drög verði kynnt til umsagnar innan skamms.
Samhliða er unnið að gerð viðauka við almennu stefnuna sem fjallar sérstaklega um málefni orkugeirans. Drögin að þeim viðauka verða birt til umsagnar á haustmánuðum. Án þess að fjalla sérstaklega um innihald þeirrar stefnu áður en vinnunni lýkur get ég þó sagt að ekki er stefnt að því að breyta eignarhaldi ríkisins á Landsvirkjun.
Orkugeirinn á Íslandi er ein af grunnstoðum atvinnulífs og góðra lífskjara á Íslandi. Fyrst var virkjað vatnsafl á Íslandi við upphaf 20. aldar og Íslendingar eru ein orkuríkasta þjóð heims á hvern íbúa í mörgum skilningi. Auk þess að fullnægja orkuþörf heimila, hefur orka Íslands verið öflugt tæki til iðnvæðingar, atvinnuuppbyggingar og til þess að laða að erlent fjármagn til stóriðjuframkvæmda.
Mikilvægt að ríkið tryggi að eðlileg og viðunandi arðsemi náttúrulegra raforkuauðlinda landsins skili sér til almennings í einhverju formi. Þá kem ég að næsta máli.
Kæru fundarmenn,
á ársfundum undanfarin tvö ár, hefur forveri minn í Arnarhvoli talað um þjóðhagsvarúðarsjóð. Talsverð vinna hefur þegar verið unnin í ráðuneytinu til undirbúnings stofnunar slíks sjóðs. Nú hefur nýr vinnuhópur verið skipaður og hann er að störfum.
Eins og kom fram í myndbandinu hér að framan eru nokkur ár í að Landsvirkjun geti með góðu móti farið að greiða umtalsverðar fjárhæðir í arðgreiðslur. Spurningin hefur verið hvað gera eigi við þessar arðgreiðslur.
Freistingin er að láta þær renna inn í ríkissjóð og fara þar í hefðbundinn rekstur ríkisins. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að heppilegra sé að búið verði svo um hnúta að þessar sérstöku greiðslur fari í sjóð til sérstakra nota.
Þessi not gætu verið margvísleg: Sveiflujöfnun í hagkerfinu, trygging gegn alvarlegri náttúruvá, kynslóðajöfnun eða stuðningur við nýsköpun og þróun. Allt eru þetta eru dæmi um not sem hægt er að hugsa sér, sum geta gengið saman en með önnur markmið geta þau stangast á.
Ég er þeirrar skoðunar að trygging gegn stóráföllum sé einna efst á blaði. Slík stóráföll geta verið Kötlugos, skæður sjúkdómsfaraldur sem núverandi lyf vinna ekki á eða vistkerfisbrestur á fiskimiðum. Þá gæti slíkur sjóður lagst á árarnar þegar fara þarf í stórfelldar fjárfestingar sem fjárfestingasvigrúm reglulegs rekstrar ríkisins ræður ekki við. Allt að einu er nú unnið að mótun tillagna og þar litið til reynslu annarra þjóða.
Ég tel að eðlilegt sé að sjóður af þessari tegund fjárfesti aðeins utan Íslands, þannig að staðbundin áföll hér á landi skapi ekki hættu á því að eignir sjóðsins rýrni þegar til hans á að grípa.
Eftir stendur spurningin um hvaða peningar verða til umráða. Gengið hefur verið út frá því að Landsvirkjun muni draga vagninn við fjármögnun sjóðsins og það finnst mér skynsamlegast eins og sakir standa. En hver ákveður hversu mikill arður er greiddur út og hvenær? Er það Landsvirkjunar, sjóðsins eða fjármálaráðherra?
Miðað við sviðsmyndir sem upp hafa verið dregnar gæti sjóðurinn stækkað býsna hratt, þannig að í hann bættust á hverju ári arðgreiðslur sem gætu numið milli 0,5 og 0,8% af VLF eða milli 10 og 20 milljarðar króna á ári. Með þessu móti gæti sjóðurinn á tíu árum hafa vaxið í nærri 7% af VLF og á 20 árum upp í um 20% af VLF, ef miðað er við hóflega ávöxtun og 15 milljarða framlag á ári.
Ljóst er að mörgum spurningum verðum við að svara á næstu misserum.
Kæru fundarmenn,
fyrir Alþingi liggur nú rammáaætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta. Hún var lögð fram að nýju af nýjum umhverfisráðherra og er samhljóða tillögu fyrri ráðherra, sem sáttagjörð og málamiðlun milli þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem togast á.
Ekki er ljóst hvernig málinu mun reiða af í þinginu. Mögulegt er að annað skipti í röð muni ekki nást samstaða um þá áætlun sem liggur fyrir.
Það væri afleit niðurstaða. Ef ferlið—rammaáætlun sem rammaáætlun—nær ekki samstöðu í þinginu er pólitískur kostnaðurinn af því mikill. Niðurstaðan yrði að horfið yrði til gamla fyrirkomulagsins þar sem sérlög voru um hverja virkjun, heildarsamhengi hlutanna tapast og einstakar virkjanir verða meira undirorpnar skammtímasjónarmiðum heldur en langtímasjónarmiðum.
En pólitísku afleiðingarnar yrðu víðtækari; þær sýndu að samræður þvert á flokkslínur, faglegar úttektir og heildarsýn væru til viðbótar við að vera seinlegri og alls ekkert líklegri til að brúa bil milli stjórnmálaflokka og þjóðfélagshópa. Þetta yrði tilraun sem hefði mistekist, og letur okkur til að reyna þegar kemur að öðrum snúnum spurningum og viðfangsefnum.
Þvert á móti, ef okkur lánast að tala saman um rammaáætlun og virða ferlið og samfélagssáttmálann sem felst í verklaginu, er það vísbending um að það sé svo sannarlega hægt að sætta ólík sjónarmið ef rétt er farið að málum.
Rætt hefur verið um rafstreng til Englands sem flytti orku frá Íslandi til Bretlands. Ljóst er að sú framkvæmd yrði afar dýr og ef af henni yrði er ekki vænlegt eða æskilegt að íslensk stjórnvöld komi að henni með beinum hætti. Ljóst er að áður en til slíks kæmi þarf að ljúka umræðu um það hér á landi hvort við teljum æskilegt að flytja orku út á þennan hátt. Auðvitað flytjum við út orku nú þegar í álstöngum og fleiri afurðum, þannig að hér yrði ekki um grundvallarbreytingu að ræða þó að formið væri með öðrum hætti. Á Íslandi hafa stjórnmálamenn oft einblínt á að skapa störf en ekki horft nægilega á arðsemi þeirrar starfsemi sem hingað hefur flutt, til dæmis fyrir Landsvirkjun. Umræða um þetta mál er alls ekki orðin nægilega þroskuð til þess að hægt sé að ganga frá samningum um slíkan streng.
Góðir fundarmenn!
Ég óska að lokum stjórnendum og starfsfólki Landsvirkjunar til hamingju með góðan árangur og þakka vel unnin störf á liðnu ári. Ég hlakka til þess að sjá hvernig fyrirtækið getur skapað meiri arð úr auðlindum Íslands í sátt við umhverfið, landsmönnum öllum til heilla.