Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Fjármálaeftirlitsins
Stjórnarformaður, forstjóri og aðrir fundarmenn,
það er gleðilegt að fá að ávarpa ársfund Fjármálaeftirlitisins í fyrsta skipti. Ég hef á liðnum árum átt margvísleg samskipti við eftirlitið og er mikill áhugamaður um starfsemi þess. Stjórnarformaður nefndi það áðan að eftirlitið væri á tímamótum og það er oft á tímamótum. Fjármálaheimurinn er síbreytilegur og viðfangsefni og viðhorf breytast oft.
Frá því að ég kom inn í fjármálaráðuneytið hefur stór hluti þeirra verkefna sem ég hef fengist við tengst Fjármálaeftirlitinu og þeirri löggjöf sem það vinnur eftir. Sífellt er verið að innleiða evrópska löggjöf og eftirlit hér á landi vinnur eftir sömu reglum og eftirlit annars staðar í Evrópu. Ríkisstjórnin er sér vel meðvituð um að helsta verkefni hennar er að varðveita stöðugleikann. Nú er stjórnin orðin rétt liðlega hundrað og ellefu daga gömul og margt hefur á dagana drifið.
Tolstoj skrifaði á sínum tíma: „Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hamingjusamar á sama hátt en þær óhamingjusömu óhamingjusamar hver á sinn hátt.“
Ég hef á mínum stutta ferli sem atvinnustjórnmálamaður mikið talað um heilbrigði fjármálakerfisins. Og eins og með fjölskyldurnar eru óheilbrigð fjármálakerfi óheilbrigð hver á sinn hátt. Fátt er nútíma þjóðfélagi jafnnauðsynlegt og heilbrigt fjármálakerfi, en eins og í daglegu lífi áttum við okkur oft ekki á gildi heilbrigðisins fyrr en heilsan bilar. Fjármálakerfið á Íslandi stendur samt að mörgu leyti mjög vel. Eiginfjárhlutfall bankanna er hátt og staða þeirra styrk Við fylgjumst sífellt með því að innviðir bankakerfisins veikist ekki. Þó er rétt að hafa í huga að við erum sífellt að koma í veg fyrir að síðasta hrun endurtaki sig, en erum við nægilega vel á verði gagnvart nýjum hættum? Gleymum því ekki að tortryggni er mikil í samfélaginu, ekki síst í garð fjármálastofnana. Íslendingar eru langt komnir með að rétta við úr efnahagshruninu, en ekki er búið að byggja upp aftur úr rústum siðferðishrunsins.
Það er í mörg horn að líta og að mörgu að hyggja fyrir Fjármálaeftirlitið. Mikilvægt er að stofnunin fái starfað sjálfstætt að sínum verkefnum, óháð beinni pólitískri íhlutun og að henni sé tryggður sá umbúnaður sem sjálfstæðri og jafn mikilvægri stofnun sæmir.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var í heimsókn í vetur og skilaði ábendingum sínum í lok mars. Sjóðurinn tók út efnahag landsins á sinni reglubundnu yfirreið, en þegar sjóðinn bar að garði var nýbúið að losa höft og hagtölur allar iðagrænar.
Í áliti sjóðsins sagði meðal annars að helsta viðfangsefnið yrði að vera styrking á eftirliti með fjármálageiranum. Sjóðurinn taldi aðgerða þörf til að veita bankaeftirlitsaðilum sterkar heimildir og sjálfstæði. Ein lausn gæti verið að sameina alla yfirsýn með öryggi og styrkleika bankanna undir stjórn Seðlabankans og fela öðrum aðila yfirumsjón með viðskiptaháttum og regluverki varðandi önnur fjármálafyrirtæki en banka. Ég hef ekki tekið undir þetta sjónarmið AGS.
Enn fremur sagði í áliti sjóðsins að Fjármálaeftirlitið væri ekki nógu einangrað frá stjórnmálum, og skipting ákveðinna þátta bankaeftirlits á milli þess og Seðlabankans gæti hugsanlega leitt til árekstra, auk yfirsjónar- og samhæfingarvanda. Í samtölum við forráðamenn eftirlitsins hef ég ekki fengið dæmi um nein tilvik þar sem stjórnmálamenn hafa sagt Fjármálaeftirlitinu fyrir verkum.
Það er þó eðlilegt að hlusta þegar svona er sagt af ábyrgum aðilum með mikla reynslu. Meðal annars höfum við í þessu skyni óskað eftir nánari útlistun sjóðsins á því hvernig þessu gæti verið háttað og hvaða lönd hann teldi heppilegast að líta til. Stundum er sagt að glöggt sé gests augað, en fullyrðingar sem ekki eru studdar dæmum eru ekki mikils virði.
Það sem er þó tímabært að endurskoða lög um Fjármálaeftirlitið. Núgildandi lög eru að stofni til frá árinu 1998 og þrátt fyrir að hafa staðist tímans tönn að mörgu leyti, er þeim ljóst sem til málanna þekkja að nauðsynlegt er að taka þau upp hvað varðar nokkur meginmál. Síðan 1998 hefur heimshagkerfið gengið í gegnum tvær kreppur, þó þá seinni sýnu verri. Þó að Íslendingar hafi rétt úr kútnum fjárhagslega sitja mörg lönd enn í súpunni, þó að víða séu nú loks batamerki.
Í kjölfarið hefur alþjóðlegu regluverki verið breytt svo það er að mörgu leyti afar ólíkt því sem fyrir var. Ísland hefur verið að innleiða evrópskar tilskipanir eins hratt og mögulegt er, og fyrirsjáanlegt er að breytingar verða örar.
Því er það verkefni næstu mánaða og missera að í góðu tómi endurskoða lögin, hvernig FME tengist öðrum kvistum á stofnanatré ríkisins og hvaða tengsl Fjármálaeftirlitið hefur við þing og framkvæmdavald.
* * *
Það eru góðar ástæður fyrir því að skynsamlegt er að taka fyrir pólitísk ítök í fjármálaeftirlitið. Fjármála- og efnahagsráðherra hlýtur þó, eðli málsins samkvæmt, að hafa skoðanir á ýmsum málum sem snerta fjármálakerfið, þó að hann hafi ekki og eigi ekki að hafa boðvald yfir Fjármálaeftirlitinu.
Í Arionbankamálinu, sem er ekki lokið, taldi ég réttast að beina spurningum til Fjármálaeftirlitsins til að fá upplýsingar um nokkur atriði. Svörin hugðist ég birta strax og hægt væri, enda var á þeim tíma mikill þrýstingur á frekari upplýsingar um hvaða kaupendur væru að baki, af hverju þeir hefðu haldið sig rétt fyrir neðan mörk um virkan eignarhlut, og hvað þeir ætluðu sér fyrir með kaupunum.
Eftir því sem uppgjöri Kaupþings á eign sinni í Arion banka vindur fram veit ég að frekari upplýsingar koma fram, upplýsingar sem eiga sannarlega erindi við almenning. Ég er þeirrar skoðunar að orðspor eigenda sé einn mikilvægasti áhættuþáttur í fjármálakerfinu, bæði hvað varðar banka, vátryggingafélög og aðrar fjármálastofnanir. Það er mjög mikilvægt að eignarhald á fjármálafyrirtækjum sé gegnsætt og að eigendur átti sig á því að þeir bera bæði rekstrarlega og samfélagslega ábyrgð.
Það er afar mikilvægt að þannig sé staðið að upplýsingagjöf að tortryggni almennings í garð fjármálakerfisins minnki. Upplýsingar sem komið hafa fram vegna einkavæðingar bankakerfisins á sínum tíma gefa líka fullt tilefni til tortryggni. Ábyrgð eftilitsaðila er mikil og það er ábyrgð ráðherra líka.
Hvernig sem verkaskiptingin er, er það á endanum ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að á fjármálakerfið sé traust. Sú ábyrgð nær ekki eingöngu til fjármálamarkaðarins sem slíks. Það er nefnilega svo að ég tel að ríkið sé ekki heppilegur langtímaeigandi fjármálafyrirtækja, og ég tel að vaxtagreiðslur ríkisins af lánum séu allt, allt of háar. Því hef ég talið varfærna og faglega sölu ríkisbankana vera skynsamlegt langtímamarkmið. En svo sátt geti skapast um það verður traust að ríkja til fjármálamarkaða, einkum viðskiptabankana.
Ágætu fundarmenn.
Það er annar liður í þessari vinnu við að auka traust og sátt um fjármálamarkaðinn að skoða hvort og hvernig fjárfestingabankastarfsemi og venjuleg viðskiptabankastarfsemi geta lifað saman.
Á vegum ráðuneytisins er að störfum starfshópur, sem meðal annars Fjármálaeftirlitið á aðkomu að, sem er ætlað að skoða þetta málefni. Hópurinn mun skila af sér skýrslu á næstu dögum og verður fróðlegt að sjá niðurstöðu hópsins. Ég hyggst birta skýrsluna opinberlega í því augnamiði að um málið fáist djúp og málefnaleg umræða. Í framhaldinu hyggst ég skipa pólitíska nefnd sem taki á þessum málum, nefnd sem bæði meiri- og minni hluti á þingi skipi fulltrúa í.
* * *
Ég nefndi hér áðan stuttlega allar þær gerðir og alþjóðlegt regluverk sem tekið hefur breytingum og innleitt hefur verið í íslenskan rétt. Hér eru áfram mikil verkefni framundan til að tryggja að íslenskur fjármálamarkaður sé sambærilegum þeim í nágrannalöndunum, og að frelsi sé sem mest fyrir neytendur að nýta þjónustu ytra og erlendra fyrirtækja að koma til landsins.
Að þessu sögðu, er alþjóðlegt samstarf ekki eingöngu bundið við lög og reglugerðir. Það á sér einnig mikilvægan vettvang í samstarfi stofnana þvert á landamæri. Þekkingarskipti milli landa eru lyftistöng fyrir alla.
Ég vona að okkur Íslendingum muni áfram lánast að læra af grannþjóðum okkar, eins og ég vona að áföll okkar geti orðið til þess að mistökin sem hér voru gerð á síðustu áratugum endurtaki sig ekki annarsstaðar.
Ég þakka stjórnendum FME gott samstarf og starfsmönnum þakka ég fyrir vel unnin störf á liðnu ári.