Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

24. maí 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBenedikt Jóhannesson

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á vorráðstefnu Fjársýslu ríkisins

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra 24. maí 2017 á Vorráðstefnu Fjársýslu ríkisins – Hilton Reykjavík Nordica

Ágætu fundarmenn!

Ég þakka kærlega fyrir það tækifæri að fá að koma hingað á ráðstefnu Fjársýslu ríkisins um innleiðingu laga um opinber fjármál og áhrif þeirra á reikningshald ríkisstofnana. Áhrif þeirra breytinga sem felast í nýjum lögum um opinber fjármál teygja anga sína víða, sem endurspeglast m.a. á dagskránni hér í dag.

Með innleiðingu á lögum um opinber fjármál er lögð sérstök áhersla á langtímahugsun, stöðugleika, aga við framkvæmd fjárlaga og bætt reikningsskil. Fjársýsla ríkisins er lykilaðili í að vel takist til og ég legg mikla áherslu á að þessum atriðum verði fylgt eftir.

Með lögum um opinber fjármál innleiðum við IPSAS, alþjóðlega reikningsskilastaða fyrir opinbera aðila. Ávinningurinn af því að taka upp alþjóðlegan opinberan reikningsskilastaðal fyrir ríkissjóð í heild felst einkunn í því að þar með falla reikningsskilin að viðurkenndum skilgreiningum sem uppfylla alþjóðakröfur sem almenningur og fagaðilar geta treyst. Það ætti að gera ríkissjóði auðveldara að afla sér lánsfjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Lög um opinber fjármál tilgreina breytingar um reikningsskil og utanumhald um eignir ríkisins. Varanlega rekstrarfjármuni skal eignfæra og afskrifa á löngum tíma, en ekki gjaldfæra strax eins og verið hefur. Þetta þýðir að efnahagsreikningur ríkissjóðs, sem hingað til hefur aðeins sýnt peningalegar eignir og skuldbindingar, mun frá og með næsta ári sýna einnig fasteignir. Þá mun ríkið nánast eignafæra allt nema norðurljósin!; náttúruauðlindir, þjóðgarða, hálendið, listverk og fornmuni. Á næstu árum verða fasteignir og jarðir, skip og flugvélar og vegakerfið eignfærð.

Unnið er að uppsetningu á miðlægðri eignaumsýslu allra fasteigna ríkisins. Í framhaldinu verður tekinn upp markaðasleiga og tilgangurinn er að sýna raunkostnað rekstrareininga og gera kostnaðarfærslu af húsnæði gegnsærri.

Miklu skiptir að upplýsingar um rekstur ríkisins séu skýrar og aðgengilegar. Að undanförnu hefur ráðuneytið unnið að birtingu reikninga og fylgiskjala úr bókhaldi ráðuneyta og ríkisstofnana á netinu. Slík birting er bæði sjálfsögð upplýsingadreifing og jafnframt veitir hún eðlilegt aðhald.

Jafnframt leggi ég mikla áherslu á birtingu tölulegra gagna sem endurspegla starfsemina og sýna fram á árangur við að ná skilgreindum markmiðum. Ég hlakka til að sjá þessa mikilvægu viðbót við upplýsingaflæði frá ríkinu verða að veruleika og vona að það ferli gangi vel fyrir sig með á milli Fjársýslunnar og stofnana.

Nú stendur yfir útboð á áætlanakerfi fyrir ríkisaðila. Tilboð verða opnuð í dag 24. maí og er stefnt að því að innleiðing hefjist í september. Um 20% stofnana munu vinna sína rekstraráætlun í nýju kerfi í haust og munu aðrir koma inn í kerfið ári seinna. Tilgangur með innleiðingu áætlanakerfis er fyrst og fremst að auka gagnsæi, skilvirkni, yfirsýn og bætt vinnubrögð. Einnig er markmið með innleiðingu kerfisins að samræma verklag og efla eftirlit með allri áætlanagerð.

Ríkisreksturinn er umfangsmikill og viðfangsefnin breytileg.

Starfsemi ríkisins hefur margvíslega styrkleika, er sveigjanleg, býr yfir miklum mannauði og veitir samfélaginu góða og mikilvæga þjónustu. Þrátt fyrir styrkleika opinberrar þjónustu stendur Ísland frammi fyrir fjölmörgum áskorunum. Samfélagsbreytingar og staða efnahagsmála kalla á aukna hagkvæmni í rekstri ríkisins.

Krafa er um aukið fjármagn í þjónustukerfi ríkisins en minni áhersla hefur verið lögð á að nýta betur fjármagnið sem nú þegar er til. Auknir fjármunir skila ekki sjálfkrafa auknum árangri ef markmið eru óljós og ekki er samhliða unnið að umbótum. Það verða líka ekki alltaf til meiri peningar hjá því opinbera.

Fjölmörg tækifæri eru til þess að auka árangur í rekstri stofnana. Fjöldi og stærð stofnana gerir það að verkum að þær eru oft vanbúnar til að takast á við margvíslegar kröfur og sinna oft verkefnum sem liggja utan kjarnastarfsemi þeirra. Þá eru innviðir rekstrar- og upplýsingatæknimála oft á tíðum veikir og tækifæri til samreksturs ekki nýtt í nægjanlegum mæli.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lagt grunn að fjórum verkefnum sem öll miða að betri ríkisrekstri. Verkefnin snúa að átaki til að (a) bæta rekstur og þjónustu stofnana, (b) nýta upplýsingatækni með hagkvæmari hættir, (c) greina framleiðni í rekstri hins opinberra og (d) umbótum á þjónustu- og stjórnsýslukerfum til að auka skilvirkni og stjórnun opinberrar þjónustu.

Til þess að bæta rekstur og þjónustu stofnana hefur verið ákveðið að setja upp teymi til að aðstoða stofnanir við að auka skilvirkni í starfsemi sinni. Heildstæð greining verður gerð á fjármálum, ferlum, þjónustu og mannauði stofnanna og tækifæri til úrbóta greind.

Niðurstöður greininga og tillögur verða kynntar fagráðuneytum og stofnunum og í framhaldi tekin sameiginleg ákvörðun um næstu skref.

Valdar verða stofnanir til þátttöku í verkefninu sem talið er að geti náð fram töluverðum ávinningi af bættum rekstri, m.a. auknu svigrúmi til að leggja meiri áherslu á kjarnaverkefni sín.

En ávinningur af vinnu teymisins er ekki aðeins fyrir þær stofnanir sem taka þátt í verkefninu heldur mun vinnan skila af sér ýmsum yfirlitum, lykiltölum og viðmiðum sem mun gagnast öðrum stofnunum meðal annars við áætlanagerð og skipulagningu.

Auk þess verður til verkfærakista með hugmyndum sem stofnanir geta nýtt til endurskipulagningar á sinni starfsemi.

Upplýsingatækni er mikilvægt verkfæri til að auka skilvirkni í opinberri stjórnsýslu auk þess að auka gagnsæi og bæta þjónustu til almennings. Til að ná fram ávinningi af notkun upplýsingatækni er mikilvægt að tryggja samhæfða stefnumótun, heildstætt skipulag og samvirkni upplýsingakerfa.

Fjármála- og efnahagsráðu­neytið hefur að undanförnu unnið að greiningu á nýtingu upplýsingatækni og fyrir­komu­lagi á rekstri. Þessi greining leiðir í ljós að ná má fram allt að tveggja mia.kr. sparnaði með markvissum aðgerðum. Ákveðið hefur verið að vinna að framgangi þessara aðgerða með sambærilegum hætti og í samstarfið við fyrrgreint rekstrarteymi.

Þannig er verið að setja á laggirnar teymi sem mun vinna að framgangi verkefna er snúa að auknum samrekstri upplýsingakerfa t.d. með samnýtingu stofnana á vélbúnaði og tölvuskýjum. Jafnframt mun teymið vinna að verkefnum sem miða að aukinni nýtingu upplýsingatækni og bættu aðgengi að öruggri opinberri þjónustu með frekari samvirkni upplýsingakerfa sem m.a. hefur í för með sér að notendur þurfa ekki að veita sömu upplýsingar oftar en einu sinni til opinberra stofnana.

Góðir fundarmenn!

Fjársýsla ríkisins er lykilaðili í að vel takist til við innleiðingu á LOF og ég legg mikla áherslu á að anda laganna verði fylgt eftir.

Ráðuneytið hefur einnig lagt grunn að fjórum verkefnum sem öll miða að betri ríkisrekstri, einnig hefur verið ákveðið aðstoða stofnanir við að auka skilvirkni í starfsemi sinni, að lokum er vinna í ráðuneytinu sem snýr að greiningu á nýtingu upplýsingatækni og fyrirkomulagi á rekstri.

Trú mín er sú að með þessari aðgerð getum við náð fram miklum sparnaði sem er auðvitað ánægjuefni. Ég legg samt áherslu á að sparnaður er ekki aðalatriðið, þó að ég slái ekki hendinni á móti honum, heldur að við nýtum fjármagn sem allra best. Það er nefnilega sameiginlegt hlutverk okkar vinna þau verkefni sem okkur eru falin af almenningi eins vel og takmarkað fjármagn leyfir okkur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta