Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á fundi með tæknifólki ríkisins
Það er mikilvægt að skipulag starfsemi ríkisins stuðli að markvissri stjórnun, góðri nýtingu fjármuna og bættum árangri. Skipulagið þarf að vera straumlínulagað og sveigjanlegt svo það geti brugðist við breytingum á samfélaginu.
Ríkið býr yfir miklum mannauði og veitir mikilvæga þjónustu sem sífellt þarf að bæta í samræmi við þarfir samfélagsins. Algengt er að tekist sé á við veikleika og nýjar þarfir með viðbótarfjármagni. En auknir fjármunir skila ekki sjálfkrafa meiri árangri ef markmið eru óljós og ekki er samhliða unnið að umbótum og lausn á kerfisvanda opinberrar starfsemi. Til að auka skilvirkni í rekstri ríkisins þurfa ráðuneyti og stofnanir að forgangsraða og endurmeta þjónustu, verkefni og verklag. Þá er einnig ýmislegt sem háir íslenska stofnanakerfinu í dag, s.s. óhagkvæmar minni stofnanir, skortur á samhæfingu og sveigjanleika, auk þess sem hlutverk og ábyrgð hafa ekki verið nægilega vel skilgreind.
Þá eru innviðir rekstrar- og upplýsingatæknimála, megin umræðuefni þessa fundar, oft og tíðum veikir og tækifæri til samrekstrar ekki nýtt í nægjanlegum mæli. Í þessum efnum skiptir líka máli að eigum gott samstarf við önnur lönd og horfum þar til fyrirmynda. Við eigum nú þegar í talsverðu samstarfi við nágrannaþjóðirnar á ýmsum sviðum upplýsingatækninnar. Netglæpir eru því sem næst orðið að daglegum viðburðum og hryðjuverkaárásir líkar þeim sem Bretland hefur orðið fyrir nú á síðustu dögum eru skipulagðar á Internetinu. Í yfirlýsingu sem samgönguráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd og samþykkt var á fundi í Ósló í apríl af öllum ríkjum á Norðurlöndum og baltísku ríkjunum þremur, heita ríkin því að efla samstarf sitt í rafrænni þjónustu og baráttunni gegn netglæpum.
Bættur ríkisrekstur
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að sýna ráðdeild í opinberum fjármálum og viðhafa öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu. Lögð er áhersla á aðhald í rekstri, nýtingu sameiginlegra innkaupa og aukna framleiðni hjá hinu opinbera. Jafnframt er lögð áhersla á eflingu opinberrar þjónustu og uppbyggingu innviða. Í ný samþykktri fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára kemur fram skýr forgangsröðun í ríkisrekstri. Við náum sem fyrr segir ekki fram öllum markmiðum ríkisstjórnarinnar með auknum fjármunum heldur verður einnig að auka árangur með því að nýta fjármuni betur.Í apríl samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaráætlun til að bæta ríkisreksturinn, auka hagkvæmni og tryggja bætta þjónustu við almenning. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lagt grunn að fjórum verkefnum sem öll miða að betri ríkisrekstri. Verkefnin verða unnin í fjórum teymum, en til að tryggja samhæfingu mun ráðuneytið tryggja eftirfylgni með framvindu verkefnanna í samstarfi við fagráðuneytin. Verkefnið er flokkað í fernt:
1. Átak til að bæta rekstur og þjónustu stofnana með aðkomu sérstaks teymis sem aðstoðar ráðuneyti og stofnanir við að greina tækifæri til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd.
2. Umbætur á þjónustu- og stjórnsýslukerfum til að auka gagnsæi, skilvirkni og árangur með bættri umgjörð, skipulagi, stýringu, samhæfingu og stjórnun opinberrar þjónustu.
3. Greiningu á framleiðniþróun og aðgerðir til að auka framleiðni.
4. Betri og hagkvæmari nýtingu upplýsingatækni til að efla og einfalda þjónustu og stjórnsýslu og draga úr rekstrarkostnaði.
Teymi 1 - Átak til að bæta rekstur og þjónustu
Fjölmörg tækifæri eru til að bæta árangur í rekstri stofnana. Mikill fjöldi og smæð stofnana gerir það að verkum að þær eru oft vanbúnar til að takast á við margvíslegar kröfur og sinna verkefnum sem liggja utan kjarnastarfsemi þeirra. Ekki er gefið að innan þeirra sé til staðar nauðsynleg þekking um hvernig auka megi hagkvæmni, bæta skipulag og ná fram auknum árangri í starfseminni.
Í undirbúningi er stofnun sérstaks teymis til að aðstoða stofnanir við að auka skilvirkni í starfsemi sinni. Heildstæð greining verður gerð á fjármálum, ferlum, þjónustu og þekkingu (mannauði) stofnana og tækifæri til úrbóta greind. Meðal verkefna teymisins er að:
• Greina rekstur og fjármál stofnana.
• Kanna möguleika á auknum samrekstri stoðþjónustu.
• Leggja mat á veitta þjónustu og meta hvort hún sé í samræmi við hlutverk.
• Meta hagkvæmni þjónustunnar og kanna framleiðslukostnað.
• Kanna fýsileika aukinnar útvistunar.
• Kanna möguleika á samrekstri stofnana á sviði notendaþjónustu, t.d. skiptiborðs eða þjónustuvers.
• Kanna sameiningar- og samstarfsmöguleika við aðrar stofnanir.
Teymi 2 - Greining á framleiðniþróun og aðgerðir til að auka framleiðni
Hægari vöxtur framleiðni er vaxandi áhyggjuefni á alþjóðavettvangi og OECD hefur lagt sérstaka áherslu á aukna framleiðni vegna tengsla framleiðni við hagvöxt og lífskjör. Ýmis OECD-ríki hafa brugðist við minnkandi framleiðni með því að skipa framleiðniráð.
Skortur er á tölulegum upplýsingum um framleiðni í opinbera geiranum og hún hefur ekki verið mæld með fullnægjandi hætti. Unnið er að skipan framleiðninefndar sem m.a. fær það hlutverk að:
• Gera athuganir og rannsóknir á framleiðni á Íslandi í samanburði við önnur lönd.
• Taka saman tölfræðiupplýsingar um stöðu opinberra þjónustukerfa .
• Gera tillögur um kerfisbreytingar og hagræðingu til að aukna framleiðni.
• Veita ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum og öðrum aðilum ráðgjöf og leiðbeiningar.
Teymi 3 - Kerfisumbætur – tækifæri til að bæta árangur þjónustu og stjórnsýslukerfa
Svo ná megi markmiðum um aukna framleiðni þarf stöðugt að vinna að kerfisbreytingum sem auka hagkvæmni í opinberum rekstri. Mikil tækifæri til að bæta skilvirkni og árangur í opinberri þjónustu með skýrri forgangsröðun og bættri umgjörð, skipulagi, stýringu og stjórnun opinberrar þjónustu. Meðal aðgerða sem grípa má til í þessu samhengi má nefna:
• Styrkja stofnanir og fækka veikburða einingum.
• Skilgreina þjónustuframboð með markvissum hætti.
• Móta viðmið um aðgengi að þjónustu til að tryggja örugga og hagkvæma þjónustu.
• Skýra og afmarka hlutverk ólíkra stofnana.
• Auka sérhæfingu og skýra verkaskiptingu.
Fjármála- og efnahagráðuneytið vill hefja formlegt samstarf allra ráðuneyta við að greina vanda þvert á ráðuneyti, þjónustu- og stjórnsýslukerfi. Sett verður á fót verkefnisstjórn með fulltrúum allra ráðuneyta sem hafi það hlutverk að greina vandann og þær umbótatillögur sem fram hafa komið og í framhaldi móta aðgerðaáætlun til næstu 3 ára. Gert er ráð fyrir að verkefnastjórnin ljúki störfum fyrir árslok 2017 og hægt sé að horfa til tillagna nefndarinnar við mótun forgangsröðunar við gerð fjármálaáætlunar 2019-2023.
Teymi 4 - Betri og hagkvæmari nýting upplýsingatækni
Upplýsingatækni er mikilvægt verkfæri til að auka skilvirkni og hagræðingu í opinberri stjórnsýslu auk þess að auka gagnsæi og bæta þjónustu til almennings. Til að ná fram ávinningi af notkun upplýsingatækni er mikilvægt að tryggja samhæfða stefnumótun, heildstætt skipulag og samvirkni upplýsingakerfa.
Á samskonar fundi og þessum með tæknifólki ríkisins, þann í nóvember sl. kynnti fjármála- og efnahagsráðuneytið þá greiningu sem gerð hefur verið á upplýsingatæknimálum ríkisins. Þessi greining bendir til þess að ná megi allt að tveggja mia.kr. sparnaði með markvissum aðgerðum.
Sett hefur verið á fót sérstakt teymi, sem mannað er starfsmönnum þvert á stjórnsýsluna til að vinna að framgangi þessara verkefna. Teymið mun vinna að verkefnum sem miða að aukinni nýtingu upplýsingatækni og bættu aðgengi að öruggri opinberri þjónustu með frekari samvirkni upplýsingakerfa sem m.a. hefur í för með sér að notendur þurfa ekki að veita sömu upplýsingar oftar en einu sinni til opinberra stofnana. Fyrirhuguð verkefni:
• Skilgreina landsarkitektúr upplýsingakerfa.
• Tryggja samvirkni opinberra upplýsingakerfa þannig að notendur þurfi ekki að veita sömu upplýsingar oftar en einu sinni.
• Auka samrekstur upplýsingakerfa t.d. með samnýtingu á vélbúnaði og tölvuskýjum.
• Einfalda og staðla tölvu- og hugbúnað.
• Innleiða tæknibreytingar í heilbrigðisþjónustu m.a. fjarheilbrigðisþjónustu.
• Auka möguleika á sjálfsafgreiðslu almennings.
Með þeirri aðgerðaráætlun sem ég hef kynnt hér er það ætlun ríkisstjórnarinnar undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að hefja breytingarferli sem mun skila raunverulegum árangri í rekstri ríkisins og bættri nýtingu opinbers fjármagns.
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að fara yfir þessi mál með lykilfólki í starfsemi ríkisins hér í dag. Vinnum öll saman að því að gera góðan rekstur betri.