Samstaðan skilar árangri - grein Bjarna Benediktssonar í Morgunblaðinu 20. ágúst 2020
Eftirfarandi grein Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, birtist í Morgunblaðinu í dag:
Frá fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins hafa skilaboð okkar verið skýr: Við munum beita ríkisfjármálunum til að hjálpa fólki og fyrirtækjum í vanda og skapa skilyrði fyrir vöxt efnahagslífsins á ný. Líklega má fullyrða að enginn sé ósnortinn af afleiðingum faraldursins, en afleiðingarnar væru meiri og þungbærari ef ekkert væri aðhafst.
Hvað ríkisfjármálastefnuna varðar hefur hún bein og óbein áhrif, sem miserfitt er að meta. Bein áhrif felast t.d. í fjárfestingarútgjöldum ríkissjóðs og óbein áhrif m.a. í greiðslum almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, sem auka ráðstöfunartekjur og eftirspurn heimila og leiða þannig til framleiðslustarfsemi sem ella hefði ekki átt sér stað.
Óvissu er, eðli málsins samkvæmt, erfitt að mæla, en hún getur haft veruleg áhrif á framvindu efnahagsmála. Í mars og apríl var framtíðin óráðin. Ekki var hægt að útiloka að óvissan, gríðarlegur samdráttur í neyslu og tímabundin stöðvun tiltekinnar atvinnustarfsemi ylli alvarlegum greiðsluvandræðum í hagkerfinu. Hjá því var komist og þótt ekki verði sett nákvæm tala á þátt stjórnvalda, er ljóst að skýr markmið ríkisstjórnarinnar um að beita ríkisfjármálunum til að milda áfallið og stuðningur Alþingis við aðgerðirnar hafa haft áhrif á væntingar fólks, aukið bjartsýni og eflt framkvæmdavilja. Þannig hafa ákvarðanir stjórnvalda stuðlað að þróttmeira efnahagslífi.
Aðgerðir þegar skilað 80 milljörðum
Ætla má að halli á ríkissjóði á þessu ári verði hátt í 300 milljarðar króna. Þetta er stórfelld breyting á ríkisfjármálunum, frá jafnvægi yfir í gríðarlegan halla, og er ein birtingarmynda afleiðinga heimsfaraldursins. Breytt afkoma ríkissjóðs í ár vegna COVID-19 skýrist með tvennum hætti. Annars vegar eru að verki hinir svokölluðu sjálfvirku sveiflujafnarar, þar sem skatttekjum er leyft að lækka verulega samhliða minni umsvifum í hagkerfinu og útgjöld vaxa vegna meira atvinnuleysis. Þessi sjálfvirku viðbrögð skýra ríflega helming hallans. Hins vegar skýrist halli ríkissjóðs af sértækum aðgerðum sem gripið var til í þeim tilgangi að verja störf og verðmæti. Helstu efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa nú þegar skilað tæpum 80 milljörðum króna út í efnahagslífið, en sjálfvirkt viðbragð ríkisfjármála gæti numið um 120 milljörðum. Því fer þess vegna fjarri að þessi mikli tilkostnaður sé glatað fé.
Þjóðhagslegur ávinningur til lengri tíma
Ýmsar aðgerðir sem við höfum gripið til eru skammtímaúrræði til að koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki gefist upp í þessum tímabundnu erfiðleikum og verðmæti fari í súginn að óþörfu. Lokunarstyrkir, stuðningslán, aðstoð við að greiða laun á uppsagnarfresti, frestun skattgreiðslna og rýmri reglur um greiðsluskjól eru m.a. úrræði sem falla að þessu markmiði og eiga líka að skapa svigrúm til að bregðast við og aðlagast breyttum aðstæðum. Segja má að framtíðin sem blasir við sé allt önnur en hún var og við þurfum að finna taktinn í nýjum veruleika.
Fjárfestingarátak og stuðningur við nýsköpun miðar hvort tveggja að því að auka umsvif á samdráttartímum og skapa viðspyrnu fyrir vöxt til framtíðar. Rannsóknir á tengslum ríkisfjármálastefnu og hagvaxtar benda til þess að stuðningur ríkisfjármála við efnahagslífið hafi sérstaklega mikil áhrif á meðan atvinnuleysi er mikið, en í lok júlí voru 17 þúsund á atvinnuleysisskrá eða 7,9% vinnuaflsins. Samtals voru 21 þúsund einstaklingar á hlutabótum og atvinnuleysisskrá, eða 8,8%, en hæst fór það hlutfall í tæp 18% í apríl. Talið er að innspýting með hallarekstri ríkissjóðs í ár geti aukið landsframleiðslu um allt að 200 ma.kr. (~6-7% af landsframleiðslu) á næstu misserum. Efnahagsleg áhrif hallans, eða með öðrum orðum, aukinnar skuldsetningar, væru aðeins brot af þeirri fjárhæð við hefðbundnari efnahagsaðstæður.
Hallarekstur ríkissjóðs felur því við þessar aðstæður ekki í sér þjóðhagslegt tap í sjálfu sér, þótt hann endurspegli efnahagslegt tap vegna útbreiðslu veirunnar. Hallanum er öllum varið til að styrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja, skapa störf, koma í veg fyrir að verðmæti glatist að óþörfu og örva hagkerfið til að gera okkur kleift að vaxa út úr þessu gríðarlega áfalli sem heimsfaraldurinn er. Við eigum engan valkost annan en að sækja fram, skapa meiri verðmæti, framleiða, auka skilvirkni og stækka þjóðarkökuna. Án vaxtar bíður ekkert annað en harkaleg aðlögun sem mun kosta okkur mikið í lífskjörum.
Þegar hagkerfið hefur tekið við sér þarf að vinda ofan af stuðningi og koma ríkissjóði aftur í þá stöðu að geta tekist á við þrengingar. Gleymum því ekki að við þurftum að skapa forsendur fyrir því að geta tekist á við þetta áfall með þeirri stefnu sem nú er rekin. Góður árangur síðustu ára, markviss skuldalækkun og ábyrg stjórn ríkisfjármálanna er einmitt forsenda þess að við höfum getað spyrnt kröftuglega á móti efnahagslegum áhrifum faraldursins.
Mesti vöxtur innlendrar neyslu frá 2007
Talið var að landsmenn myndu bregðast við óvissuástandi nú með auknum sparnaði og spáði Seðlabankinn að einkaneysla á öðrum ársfjórðungi myndi hrynja um allt að 20% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Þeir hagvísar sem liggja nú fyrir benda til þess að samdrátturinn hafi verið minni en 10%. Um leið og árangur sást af sóttvarnaaðgerðum og unnt var að slaka á þeim tók innanlandsvelta við sér.
Fólk hefur verið duglegt að ferðast um landið í sumar, nýta sér ýmiss konar þjónustu og ráðast í framkvæmdir, eins og sjá má af mikilli fjölgun umsókna um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu. Kortavelta Íslendinga á Íslandi í júní jókst um 17% milli ára, sem er mesti vöxtur veltunnar síðan í ágúst 2007. Vöxturinn í júlí var einnig mjög sterkur, eða 13%.
Neysla Íslendinga nær ekki að vega upp framlag erlendra ferðamanna, sem yfir sumarmánuðina hefur verið um 30% af heildarneyslunni. Einkaneysla hefur eigi að síður orðið mun kraftmeiri en gert var ráð fyrir. Hún vegur um helming í landsframleiðslu og því ljóst að hagþróun á öðrum ársfjórðungi varð mun hagfelldari en allar spár reiknuðu með í vor.
Orsakir kröftugri umsvifa
Ætla má að ástæður kröftugra efnahagslífs og meiri neyslu en reiknað var með séu margþættar. Þyngst vegur líklega árangur í sóttvörnum í vor og sú staðreynd að fá smit greindust frá miðjum maí og fram til loka júlí. Það styður við þá ákvörðun að grípa til aðgerða á ný til að draga úr útbreiðslu COVID-19. Hagfelldari aðstæður á vinnumarkaði skýra einnig hluta þróunarinnar. Þrátt fyrir að þátttaka í ýmsum úrræðum stjórnvalda hafi hingað til reynst minni en búist var við má reikna með að snögg viðbrögð fjármálastefnunnar og skýr vilji stjórnvalda til að styðja við hagkerfið hafi vegið á móti óvissu um efnahagshorfur og þannig stuðlað óbeint að meiri umsvifum en ella væri raunin.
Skýr markmið draga úr óvissu
Talsverð umræða hefur verið undanfarið um nauðsyn þess að meta hagræn áhrif aðgerða, bæði efnahagslegra úrræða og sóttvarnaráðstafana. Mat af þessu tagi verður aldrei nákvæmnisvísindi. Útkoman verður ekki upp á gramm úr kílói. Eigi að síður er mikilvægt að við dýpkum umræðuna um þessa þætti. Á undanförnum mánuðum hafa safnast upplýsingar til að vinna með og við höfum gert minnisblöð sem stuðst hefur verið við í ákvarðanatöku en vilji okkar stendur til þess að gera dýpri greiningar og vonandi byggja þannig undir upplýstari, nákvæmari og enn betri ákvarðanatöku.
Hér hefur verið nefnt að það hafi skipt máli fyrir innlend umsvif að ná tökum á útbreiðslu veirunnar og má þar horfa til atvinnustarfseminnar en einnig á áhrif til skemmri og lengri tíma á t.d. skólastarf og almenna virkni í samfélaginu. Hér ber einnig nefna þann sjálfsagða grundvallarþátt í okkar samfélagi að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur í aðgerðum sem skerða frelsi fólks til daglegs lífs og athafna sem við teljum sjálfsagða þætti nútímasamfélags.
Það er öllum ljóst að við getum átt fyrir höndum erfiðan vetur, en þá er gott að hafa í huga að við höfum sagt að viðbrögð stjórnvalda myndu taka mið af aðstæðum hverju sinni. Ef þörf yrði á harkalegri sóttvarnaviðbrögðum með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum þyrfti samhliða að endurskoða aðgerðir til að tryggja að við náum þeim skýru markmiðum sem að er stefnt: Að verja félagslega og efnahagslega velsæld og stöðugleika um leið og við setjum líf og heilsu fólksins í landinu í öndvegi og tryggjum aðstæður fyrir meiri verðmætasköpun. Þessi vinna stendur yfir og var málið á dagskrá ríkisstjórnarinnar í vikunni.
Náum árangri með samstöðu
Við erum í ákveðnum skilningi í stríði gegn ytri ógn. Nú þegar hafa margar orrustur verið háðar og við getum sagt að útkoman hafi verið vel viðunandi miðað við aðstæður. Höfum hugfast að þetta stríð getur varað enn um sinn og við þurfum áfram að byggja árangur okkar á samstöðu.
Með samstöðunni, sterkri innri stöðu, ákvörðunum sem byggðar eru á þekkingu og reynslu, og með óbilandi trú á framtíð landsins mun okkur takast að sigrast á öllum erfiðleikum. Ekkert segir að við getum ekki komið stærri, sterkari og öflugri sem samfélag enn nokkru sinni fyrr út úr þessari stöðu. Þangað skulum við stefna.