Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023
Fréttaannáll 2023
Ríkisstjórn og ráðherranefndir
Ríkisstjórnarfundir
Ríkisstjórnarfundir eru fundir allra ráðherra sem sæti eiga í ríkisstjórn Íslands. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórnarfundum sem alla jafna eru haldnir tvisvar í viku á starfstíma Alþingis en annars vikulega.
Á fundunum eru m.a. rædd mikilvæg stjórnarmálefni og stjórnarfrumvörp og stjórnartillögur sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi. Dagskrá ríkisstjórnarfunda er birt á vef Stjórnarráðsins.
Ráðherranefndir
Forsætisráðherra getur ákveðið, með samþykki ríkisstjórnar, að skipa ráðherranefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka. Hlutverk ráðherranefnda er að efla samráð og samstarf á milli ráðherra og ráðuneyta þeirra og tryggja samhæfingu ef málefnasvið skarast og til að undirbúa mál til framlagningar.
Fjöldi funda
2023 | 2022 | |
Ríkisstjórn | 81 | 80 |
Ráðherranefnd um efnahagsmál | 6 | 6 |
Ráðherranefnd um ríkisfjármál | 21 | 24 |
Ráðherranefnd um samræmingu mála | 22 | 31 |
Ráðherranefnd um jafnréttismál | 0 | 0 |
Ráðherranefnd um loftslagsmál | 4 | 2 |
Ráðherranefnd um íslenska tungu | 2 | 2 |
Ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks | 11 | 7 |
Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun* | 1 |
*Ný ráðherranefnd á árinu
Hlutverk og uppbygging ráðuneytis
Verkefni forsætisráðuneytisins varða stjórnskipan lýðveldisins Íslands og Stjórnarráðið í heild, málefni ríkisstjórnar og ráðherranefnda, málefni ríkisráðs, þjóðhagsmál, stjórnarfar almennt, þjóðartákn, mannréttindamál, jafnréttismál, þjóðlendur, þjóðaröryggi, málefni sjálfbærrar þróunar og fleira.Forsætisráðuneytið fer auk þess með ýmis málefni og tilfallandi verkefni er tengjast stöðu og störfum forsætisráðherra sem oddvita ríkisstjórnarinnar og samræmingu og samráð er lýtur að samstarfi ráðuneyta á ýmsum sviðum.
Skipurit forsætisráðuneytisins
Verkefni ráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta
Þingmál forsætisráðherra
Á árinu 2023 voru löggjafafarþing nr. 153 og 154 starfandi. Forsætisráðherra lagði fram eftirtalin frumvörp á Alþingi:
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985 (hlutverk ríkislögmanns).
- Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (laun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna).
- Frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands.
- Frumvarp til laga um almennar sanngirnisbætur.
- Frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.
Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga urðu að lögum. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkislögmann náði ekki fram að ganga á 153. löggjafarþingi. Frumvarp um almennar sanngirnisbætur og frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands voru til meðferðar á Alþingi í árslok 2023.
Forsætisráðherra lagði fram eftirtaldar tillögur til þingsályktunar:
- Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026.
- Tillaga til þingsályktunar um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028.
Síðarnefnda tillagan var afgreidd sem ályktun Alþingis.
Skriflegar skýrslur forsætisráðherra voru þrjár og ein munnleg.
Forsætisráðherra tók þátt í tveimur sérstökum umræðum, svaraði 22 fyrirspurnum skriflega og átta munnlega. Þá svaraði forsætisráðherra 60 óundirbúnum fyrirspurnum.
Jarðhræringar á Reykjanesi
Í lok október hófst landris norðvestan við fjallið Þorbjörn við Grindavík. Í kjölfarið fylgdi mikil jarðskjálftahrina við Sundhnúkagíga norðan Grindavíkur. Þann 10. nóvember var lýst yfir neyðarstigi í Grindavík og bærinn rýmdur. Í kjölfar þessara atburða lagði forsætisráðherra fram frumvarp á Alþingi um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi sem var samþykkt 13. nóvember.
Á grundvelli laganna var ráðist í framkvæmdir við gerð varnargarð til verndar orkuverinu í Svartsengi fyrir mögulegum afleiðingum eldsumbrota. Orkuverið í Svartsengi sér um 30 þúsund manns fyrir hita og rafmagni og því gríðarlegir hagsmunir í húfi.
Stjórnvöld gripu til ýmissa stuðningsaðgerða til að mæta aðstæðum Grindvíkinga sem þurftu að yfirgefa heimili sín. M.a. var um að ræða sértækan húsnæðisstuðning til að koma til móts við aukinn kostnað þeirra sem þurftu að leigja sér húsnæði utan Grindavíkur. Einnig var ráðist í aðgerðir til að tryggja Grindvíkingum húsnæði til leigu. Í því skyni var m.a. opnað sérstakt leigutorg á vefsvæði Ísland.is.
Sjálfbærni og velsæld
Samráðsvettvangurinn Sjálfbært Ísland var formlega stofnaður 1. desember 2022 með stofnfundi Sjálfbærniráðs. Fyrsta stóra verkefni Sjálfbærs Íslands var að hefja vinnu við mótun stefnu um sjálfbæra þróun. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu var að taka saman stöðu mála í plagginu: „Grænbók um sjálfbært Ísland – stöðumat og valkostir“. Drög að grænbókinni voru unnin í byrjun árs og birt í samráðsgátt stjórnvalda í apríl. Forsætisráðherra boðaði alls til 8 kynningarfunda víða um land auk fjarfundar til að kynna efni grænbókarinnar og leita álits almennings á verkefninu.
Á haustmánuðum hófst vinna við „Hvítbók um sjálfbært Ísland – Drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun til 2030“. Stýrihópur Sjálfbærs Íslands vann ásamt starfsfólki drög sem send voru Sjálfbærniráði til rýni í nóvember.
Ísland, líkt og öll aðildaríki Sameinuðu þjóðanna, samþykkti heimsmarkmið um sjálfbæra þróun árið 2015 og hefur því skuldbundið sig til þess að innleiða markmiðin hérlendis. Aðildaríkin eru hvött til þess að skila svokölluðum landrýniskýrslum (e. Voluntary National Review, VNR) um vinnu að heimsmarkmiðunum á nokkurra ára fresti, eða allt að þrisvar sinnum á gildistíma markmiðanna, til ársins 2030. Ísland skilaði og kynnti slíka skýrslu árið 2019. Önnur skýrsla Íslands var unnin á vormánuðum og kynnt á HLPF í júlí 2023.
Skýrslan var unnin í víðtæku samstarfi við stýrihóp Sjálfbærs Íslands og meðlimi Sjálfbærniráðs. Ráðuneytin mátu árangur landsins fyrir hvert heimsmarkmiðanna og skilgreindu tækifæri og áskoranir. Frjáls félagasamtök gáfu einnig sitt mat á framgangi allra markmiða og voru báðar niðurstöðurnar birtar samhliða í skýrslunni. Þá áttu nokkrir aðilar sérkafla í skýrslunni, en þar má nefna Samband íslenskra sveitafélaga sem birti niðurstöður könnunar um heimsmarkmiðavinnu allra sveitafélaga landsins, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands um úttekt á smitáhrifum Íslands, ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Landsamband ungmennafélaga.
Í júní var haldið alþjóðlegt velsældarþing í Hörpu en þar var skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um velsældarhagkerfið á Íslandi birt. Á undanförum árum hafa íslensk stjórnvöld lagt aukna áherslu á sjálfbærni og velsæld í aðgerðum sínum þar sem horft er til allra sviða samfélagsins. Ísland hefur einnig verið virkur í þátttakandi í samstarfi velsældarríkja (Wellbeing Economy Governments) þar sem markmiðið er að styðjast við aðra mælikvarða en eingöngu landsframleiðslu til að mæla framgang ríkja og lífsgæði íbúanna.
Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að samfélagslegar áskoranir tengdar velferðarkerfinu, efnahagskerfinu og umhverfinu hafi verið megindrifkraftar á bak við stefnubreytingu í átt að velsældarhagkerfi. Aukin áhersla á jafnréttismál hafi einnig fært málefni velsældar ofar á dagskrá. Þá hafi sterk staða kvenna í æðstu pólitísku embættum haft jákvæð áhrif.
Stjórnarskrármál
Í upphafi árs fól forsætisráðherra sérfræðingum að taka saman greinargerðir um þá kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi. Greinargerðunum var skilað í september en vinnan var liður í áætlun um endurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum sem hófst árið 2018.
Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður vann greinargerð um IV. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um Alþingi. Eitt helsta nýmælið sem lagt er til er að stjórnmálasamtök og frambjóðendur geti kært ákvörðun Alþingis um gildi kosninga til Hæstaréttar. Nú er staðan sú að Alþingi úrskurðar sjálft um gildi alþingiskosninga. Þá er lagt til að sérstök ákvæði verði sett um ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis og að frumvörp falli niður við lok kjörtímabils en ekki hvers þings að vori.
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann greinargerð um V. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um dómstóla. Hann leggur til að hnykkt sé á sjálfstæði dómsvaldsins þannig að í almennri löggjöf skuli mælt fyrir um dómstig og fjölda dómara og áréttað í stjórnarskrá að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll ríkisins. Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að því að skerpa eftirlitshlutverk dómsvalds gagnvart framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi. Loks er lög til breyting varðandi eftirlaunaréttindi hæstaréttardómara.
Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Valgerður Sólnes, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, unnu greinargerð um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar segir m.a. að gildandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hafi staðist tímans tönn. Hins vegar hafi umræða um mannréttindi á undanförnum þremur áratugum eða svo þróast í átt til aukinnar viðurkenningar réttinda sem hópar eða samfélög geti átt tilkall til. Er það sérstaklega horft til tengsla mannsins við umhverfi og náttúru.
Haldin voru málþing í samstarfi við háskóla landsins þar sem rætt var um efni greinargerðanna.
Alþjóðleg samskipti
Formennska í Evrópuráðinu og leiðtogafundur í Reykjavík
Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu frá nóvember 2022 til maí 2023. Í formennskuáætlun Íslands var lögð áhersla á grunngildi Evrópuráðsins sem eru mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Einnig var þar lögð áhersla á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnréttismál. Forsætisráðherra heimsótti höfuðstöðvar Evrópuráðsins í Strassborg í janúar. Þar ávarpaði ráðherra Evrópuráðsþingið og svaraði spurningum þingmanna.
Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Reykjavík 16.-17. maí en um var að ræða aðeins fjórða leiðtogafundinn í 75 ára sögu ráðsins. Meginumfjöllunarefni leiðtogafundarins sneru að málefnum Úkraínu og grunngildum Evrópuráðsins. Forsætisráðherra flutti ávarp við opnunarathöfn fundarins og lagði þar áherslu á ríkan stuðning Evrópuráðsins og aðildarríkja við Úkraínu.
Á leiðtogafundinum fóru fram hringborðsumræður um nýjar áskoranir á sviði mannréttindamála, hvernig standa megi vörð um lýðræðið á óvissutímum og áframhaldandi stuðning aðildarríkja Evrópuráðsins við Úkraínu. Sérstaklega var fjallað um hvernig tryggja megi að ábyrgðarskyldu fyrir Úkraínu sé framfylgt.
Á fundinum samþykktu leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins Reykjavíkuryfirlýsinguna. Megináherslur yfirlýsingarinnar snúa að stuðningi við Úkraínu, sérstakri ályktun í þágu úkraínskra barna og skuldbindingu ríkjanna við mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Í yfirlýsingunni er einnig lögð áhersla á að Evrópuráðið efli starf sitt hvað varðar tengsl mannréttinda og umhverfis.
Þá markaði leiðtogafundurinn stofnsetningu sérstakrar tjónaskrár vegna þess tjóns sem innrás Rússlands hefur valdið í Úkraínu. Leiðtogarnir létu einnig í ljós eindreginn stuðning við tillögur Úkraínuforseta um réttlátan frið og ræddu stofnun sérstaks dómstóls vegna stríðsglæpa í Úkraínu.
Með leiðtogafundinum í Reykjavík lauk formennskutímabili Íslands og tók Lettland við formennskunni. Fulltrúar allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins sóttu leiðtogafundinn auk áheyrnarfulltrúa frá Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Mexíkó, Páfagarði og ýmsum alþjóðastofnunum.
Norrænt samstarf
Ísland fór á árinu með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni en yfirskrift formennskunnar var Norðurlönd – afl til friðar. Forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda kynntu formennskuna í Norræna húsinu í janúar.
Í formennskuáætlun Íslands var lög megináhersla á græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Er það í samræmi við framkvæmdaáætlun um framtíðarsýn Norðurlanda til 2030. Þessu til viðbótar var, eins og yfirskrift formennskunnar ber með sér, lögð sérstök áhersla á frið sem undirstöðu þeirra sameiginlegu gilda sem Norðurlönd byggja samvinnu sína á sem eru mannréttindi, lýðræði og velferð.
Ísland var gestgjafi sumarfundar norrænu forsætisráðherranna í júní en fundurinn var að þessu sinni haldinn í Vestmannaeyjum. Á fundinum var þess sérstaklega minnst að 50 ár voru liðin frá eldgosinu í Heimaey en sérstaklega var rætt um viðnámsþrótt samfélaga. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar færðu norrænu forsætisráðherrunum þakkarvott vegna ómetanlegrar aðstoðar Norðurlandanna við uppbygginguna í kjölfar eldgossins.
Forsætisráðherra Kanada var sérstakur gestur fundarins en auk forsætisráðherra Norðurlandanna tóku einnig þátt formaður landsstjórnar Grænlands, lögmaður Færeyja og formaður landsstjórnar Álandseyja.
Í yfirlýsingu fundarins ítrekuðu leiðtogarnir mikilvægi samstarfs Norðurlandanna og Kanada og hétu því að efla það enn frekar, ekki síst á sviði öryggis- og varnarmála. Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um samstarf á sviði hnattrænna áskorana á borð við loftslagsbreytinga, ójafnrétti í heiminum og varðandi þær ógnir sem steðja að lýðræðinu. Einnig er fjallað um aukið samstarf á sviði jafnréttismála og málefna hinsegin fólks. Norðurlöndin og Kanada ítrekuðu einnig áframhaldandi stuðning sinn við Úkraínu eins lengi og þörf krefur.
Forsætisráðherra stýrði fundi norrænu forsætisráðherranna sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló í byrjun nóvember. Þar var m.a. fjallað um hina alvarlegu stöðu sem uppi væri í heimsmálunum, einkum hvað varðar Gasa og Úkraínu. Loftslagsmál, framtíðarsýn Norðurlanda til 2030 og áskoranir tengdar gervigreind og áhrifa tækni á lýðræðið voru þar einnig til umræðu.
Forsætisráðherra tók einnig þátt í umræðum á leiðtogafundi norrænu forsætisráðherranna. Þar var rætt um stöðuna í alþjóðamálum, hvernig hraða megi framkvæmd framtíðarsýnar fyrir 2030, einkum hvað varðar græna umbreytingu, og aukið norrænt samstarf á sviði öryggismála.
Málefni Úkraínu
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra heimsóttu Kænugarð í mars og áttu m.a. fund með forseta Úkraínu. Á fundinum var rætt um stöðuna í Úkraínu, stuðning Íslands við Úkraínu og leiðtogafund Evrópuráðsins sem var þá framundan í Reykjavík. Í kjölfar fundarins var gefin út sameiginleg yfirlýsing Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu.
Ráðherrarnir skoðuðu einnig ummerki innrásar Rússa í Borodianka og Bucha þar sem stríðsglæpir voru framdir. Þá áttu ráðherrarnir fund með forsætisráðherra, varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Úkraínu.
Forsætisráðherra tók í byrjun maí þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna í Helsinki með forseta Úkraínu. Þar tóku einnig þátt forsætisráðherrar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar auk forseta Finnlands.
Á fundinum lýstu Norðurlöndin yfir áframhaldandi órofa stuðningi við Úkraínu. Í sameiginlegri yfirlýsingu er stuðningurinn ítrekaður og einnig lýst yfir fullum stuðningi við áætlanir Úkraínu um réttlátan og varanlegan frið sem byggi á fullveldi Úkraínu innan viðurkenndra landamæra sinna. Þá er ítrekað mikilvægi þess að þeir sem beri ábyrgð á stríðsglæpum í Úkraínu verði dregnir til ábyrgðar.
Forsætisráðherra fundaði einnig tvíhliða með forseta Úkraínu. Þar var m.a. rætt um tjónaskrána sem koma átti á fót á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík. Einnig var rætt um hvernig Ísland geti með sem bestum hætti stutt áfram við Úkraínu, ekki síst á sviði heilbrigðis- og orkumála.
Annar leiðtogafundur Norðurlandanna og Úkraínu var haldinn í Osló í desember. Þar var rætt um stöðuna í Úkraínu og friðaráætlun Úkraínu. Í yfirlýsingu fundarins segir að framtíð Úkraínu liggi í hópi lýðræðisríkja Evrópu og að Norðurlöndin muni áfram styðja Úkraínu á leið sinni að aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Forsætisráðherra og forseti Úkraínu áttu einnig tvíhliða fund þar sem rætt var um stuðning Íslands. Þar kom fram að stuðningur Íslands hafi fyrst og fremst verið veittur í gegnum alþjóðastofnanir á borð við Rauða krossinn, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og Atlantshafsbandalagið og tengst mannúðarmálum, efnahagsaðstoð og varnaraðstoð. Ísland styðji einnig við sérstök verkefni á borð við „Grain from Ukraine“ sem snýst um að koma korni frá Úkraínu til Afríkuríkja og alþjóðabandalag um endurheimt úkraínskra barna.
Annað alþjóðastarf
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn í Vilníus í júlí. Á fundinum voru teknar mikilvægar ákvarðanir um að efla sameiginlegar varnir, að auka pólitískt samstarf og um stuðning við Úkraínu.
Nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir sem ætlað er að styrkja fælingarmátt bandalagsins voru samþykktar á leiðtogafundinum. Einnig var ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð á vegum bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa að neðansjávarinnviðum.
Forseti Úkraínu var gestur fundarins en ákveðið var að efla pólitískt samstarf við Úkraínu til að leggja grunn að framtíðaraðild landins að bandalaginu þegar aðstæður leyfa. Í því skyni er starfrækt sérstakt NATO-Úkraínuráð.
Í kjölfar fundarins í Vilníus var haldinn leiðtogafundur Norðurlandanna í Helsinki með Joe Biden Bandaríkjaforseta. Þar var rætt um samstarf og samvinnu Norðurlandanna og Bandaríkjanna með áherslu á öryggismál, umhverfismál, tækniþróun og samfélagsleg málefni.
Í yfirlýsingu fundarins var lýst yfir eindregnum stuðningi við sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Leiðtogarnir fögnuðu einnig yfirlýsingu um skjóta aðild Svíþjóðar að NATO og aðild Finnlands sem muni auka öryggi allra aðildarríkja og samstarfsríkja. Þá var í yfirlýsingunni fjallað um loftslagsbreytingar og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
Í september ávarpaði forsætisráðherra leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldinn var í tengslum við allsherjarþingið í New York. Þar gerði ráðherra grein fyrir áherslum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Forsætisráðherra stýrði einnig umræðum á hluta leiðtogafundar um heimsmarkmiðin og átti fund með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
Í desember sótti forsætisráðherra loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem fram fór í Dúbaí. Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra áherslu á nauðsyn þess að ná fram markmiðum Parísarsamningsins um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 °C. Einnig lagði ráðherra áherslu á að mannréttindi væru lykilatriði í öllum loftslagsaðgerðum.
Á árinu sótti forsætisráðherra tvo leiðtogafundi hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (European Political Community, EPC). Sá fyrri fór fram í Moldóvu í júní en sá síðari í Granada í október. Stofnað var til EPC vettvangsins árið 2022 en markmiðið er að efla samstöðu og auka samtal og samvinnu leiðtoga Evrópuríkja vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.
Forsætisráðherra flutti í október ávarp við opnun þings Hringborðs Norðurslóða sem fram fór í Hörpu. Þar minnti ráðherra á að mikilvægi Norðurslóða felist í þeim víðtæku áhrifum sem svæðið hafi á heiminn. Að sama skapi hafi það sem gerist annars staðar í heiminum áhrif á Norðurslóðir.
Jafnréttis- og mannréttindamál
Jafnréttismál
Ísland efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna fjórtánda árið í röð
Ísland var á árinu í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir jafnrétti kynjanna. Er þetta fjórtánda árið í röð sem Ísland er á toppi listans.
Skýrsla Íslands um Kvennasamninginn tekin fyrir í Genf
Níunda skýrsla Íslands um samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) var tekin fyrir á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf á árinu.
Í skýrslunni er fjallað um hvernig Ísland hefur uppfyllt skyldur sínar gagnvart samningnum og hvernig unnið hefur verið eftir þeim tilmælum sem kvennanefndin sendi eftir síðustu skýrslu. Síðasta úttekt Íslands var 2016. Nefndin lagði sig sérstaklega eftir því að kanna hvernig íslensk stjórnvöld tryggðu réttindi jaðarsettra kvenna, til dæmis kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna og kvenna með vímuefnavanda.
Alþjóðleg jafnréttisverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur
Kallað var eftir tilnefningum fyrir verðlaunahafa alþjóðlegra jafnréttisverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur í fyrsta skipti á árinu 2023. Verðlaunin voru stofnuð í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins. Að verðlaununum standa Evrópuráðsþingið og ríkisstjórn Íslands og er þeim ætlað að verðlauna einstakling eða samtök sem hafa unnið með framúrskarandi hætti að jafnrétti kynjanna.
Verðlaunaféð er 60.000 evrur og voru verðlaunin afhend í fyrsta sinn í júní 2024 í Strassborg í Frakklandi.
Samráðsvettvangur um jafnréttismál
Hatursorðræða var til umræðu á þriðja fundi samráðsvettvangs um jafnréttismál sem haldinn var á árinu. Forsætisráðherra bauð til fundarins skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og flutti ávarp í upphafi fundarins. Verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá embætti ríkislögreglustjóra og prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands fluttu erindi um málefnið. Hlutverk samráðsvettvangs um jafnréttismál er að vera forsætisráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna. Fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti eiga rétt til þátttöku í samráðsvettvangnum.
Kærunefnd jafnréttismála
Formaður kærunefndar jafnréttismála kynnti forsætisráðherra ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2022 en skýrslunni er skilað til ráðherra í samræmi við lög nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Í henni er farið yfir starfsemi nefndarinnar, málafjölda og niðurstöður, málsmeðferðartíma og aðrar tölfræðiupplýsingar vegna ársins 2022.
Styrkveitingar Jafnréttissjóðs Íslands
Forsætisráðherra úthlutaði á árinu styrkjum til 11 verkefna úr Jafnréttissjóði Íslands. Af þessum ellefu verkefnum hlutu fimm hvert um sig um sjö milljón króna styrki sem voru hæstu styrkirnir að þessu sinni. 60 milljónum króna er varið í Jafnréttissjóð Íslands annað hvert ár.
Úthlutun styrkja sem forsætisráðherra veitir til verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála
Forsætisráðherra úthlutaði í fyrsta skipti á árinu styrkjum til eins árs í senn á grundvelli nýrra reglna um úthlutun styrkja sem forsætisráðherra veitir til verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála. Úthlutað var til sex verkefna á sviði jafnréttismála en heildarfjárhæð styrkjanna voru tíu milljónir króna.
Sjúktspjall - Stígamót
Forsætisráðuneytið og Stígamót gerðu með sér styrktarsamning á árinu um áframhaldandi stuðning við verkefnið Sjúktspjall sem er netspjall þar sem ungmenni á aldrinum 13-19 ára geta í trúnaði leitað fræðslu og fengið stuðning um ýmislegt sem tengist samböndum, samskiptum og ofbeldi. Markmiðið er bæði að styðja við þolendur með því að koma þeim út úr ofbeldissamböndum og að aðstoða gerendur við að endurtaka ekki ofbeldið. Netspjallinu sem er hluti af forvarnarátakinu SJÚKÁST var hleypt af stokkunum í mars 2022.
Samningur um Jafnvægisvog FKA
Forsætisráðherra og formaður Jafnvægisvogarráðs FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) endurnýjuðu samstarfssamning um Jafnvægisvogina til eins árs. Með samningnum veitir forsætisráðuneytið FKA stuðning til að stuðla að auknu kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi en Jafnvægisvogin er mælitæki sem hefur eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnréttis í stjórnum íslenskra fyrirtækja.
Málefni hinsegin fólks
Ísland í 5. sæti á Regnbogakorti ILGA Europe og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu
Ísland komst í 5. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) á árinu og í fyrsta sæti á réttindakorti Evrópusamtaka trans fólks (TGEU). Niðurstöðurnar voru kynntar á árlegum samráðsfundi IDAHOT+ sem haldinn var í Hörpu. Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta árlega Regnbogakort í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í 49 ríkjum Evrópu. Réttindakort trans fólks í Evrópu (Trans Rights Map 2023) sýnir á sama hátt stöðu trans fólks. Frá 2018 hefur Ísland farið upp um 13 sæti á Regnbogakortinu en 2018 var Ísland í 18. sæti. Í fyrsta sæti er Malta, þar á eftir kemur Belgía, þá Danmörk og Spánn.
Aukinn fjárstyrkur til Samtakanna ´78
Forsætisráðherra og formaður Samtakanna ´78 skrifuðu á árinu undir samning um áframhaldandi stuðning við starfsemi samtakanna. Í samningnum kemur fram að stjórnvöld muni veita samtökunum 25 milljón króna framlag sem Alþingi samþykkti við afgreiðslu fjárlaga og kemur til viðbótar við árlegt 15 milljón króna framlag frá forsætisráðuneytinu sem veitt hefur verið samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. Þá fá samtökin til viðbótar tímabundið framlag að upphæð 15 milljónir króna sem Alþingi samþykkti að veita samtökunum til að vinna gegn bakslagi gegn hinsegin fólki í samfélaginu.
Mannréttindi
Grænbók um mannréttindi birt
Grænbók um mannréttindi ásamt fylgiriti um mannréttindastofnanir var birt í byrjun árs. Grænbók er yfirlit yfir stöðumat og valkosti og er undanfari frekari stefnumótunar. Við vinnuna var lagt mat á stöðu mannréttindamála á Íslandi þar sem safnað er á einn stað upplýsingum um mannréttindi, þróun, tölfræði, samanburði við önnur lönd og samantekt um mismunandi leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í mannréttindamálum, m.a. í tengslum við stofnun sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar.
Fyrsta konan skipuð dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af hálfu Íslands
Oddný Mjöll Arnardóttir var í janúar kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg og tók formlega við embættinu í mars. Hún var kosin af þingi Evrópuráðsins en hún var ein af þremur sem tilnefnd voru sem dómaraefni af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hún er fyrsta konan sem er skipuð dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af hálfu Íslands. Dómstóllinn fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann.
Viðburður í tilefni 75 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sþ
Forsætisráðherra tók á árinu þátt í viðburði í Genf í tilefni af 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra stýrði þar pallborðsumræðum þar sem rætt var um tengsl mannréttinda og umhverfis- og loftslagsmála. Forsætisráðherra átti einnig fund með utanríkisráðherra Palestínu þar sem forsætisráðherra ítrekaði meðal annars stuðning Íslands við tafarlaust vopnahlé og nauðsyn þess að tryggja óhindraðan aðgang hjálpargagna til Gasa.
Jafnréttis- og mannréttindamál á alþjóðavettvangi
Áhersla lögð á jafnrétti og mannréttindi á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík
Helsta markmið formennskuárs Íslands (2022-2023) var að efla grundvallargildi Evrópuráðsins; lýðræði, réttarríkið og mannréttindi og sérstök áhersla var lögð á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti. Forsætisráðherra flutti opnunarávarp leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík á árinu en þar áréttaði hún meðal annars mikilvægi jafnréttis og mannréttinda og réttinda hinsegin fólks.
Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna
Forsætisráðherra flutti ávarp á 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW67) í New York á árinu. Hún tók einnig þátt í viðburði norrænna jafnréttisráðherra um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á netinu. Yfirskrift fundar Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í ár var Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld – Í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna.
Í tengslum við þema fundarins stóð Norræna ráðherranefndin fyrir viðburði um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á netinu en Ísland fór með formennsku í nefndinni í ár. Á viðburðinum komu saman jafnréttisráðherrar Norðurlandanna og ræddu áherslur sínar og þær leiðir sem Norðurlöndin fara í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á netinu. Norrænu jafnréttisráðherrarnir áttu svo fund með framkvæmdastýru UN Women og forsætisráðherra fundaði einnig með jafnréttisráðherra Austurríkis, forseta Sviss þar sem m.a. var rætt um samfélagslegar lausnir sem styðja við kynjajafnrétti, s.s. fæðingarorlof sem skiptist jafnt á milli foreldra, leikskóla fyrir öll börn, kynbundinn launamun og kynskiptan vinnumarkað og horfur í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.
Miðannarfundur átaksins Kynslóð jafnréttis
Miðannarfundur átaksverkefnis UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Midpoint Moment) var haldinn 17. september 2023 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Forsætisráðherra flutti opnunarávarpið en Ísland var gestgjafi fundarins ásamt Tansaníu og UN Women. Á fundinum var meðal annars rætt það bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum víða um heim og nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Forsætisráðherra stýrði einnig pallborðsumræðum þar sem rætt var um ábyrgð ríkja, skuldbindingar og árangur af verkefnum átaksins til að auka jafnrétti. Forsætisráðherra tilkynnti enn fremur um aukafjárveitingu íslenskra stjórnvalda til sameiginlegs verkefnis Íslands og UN Women um karla og jafnrétti.
Norrænir jafnréttisráðherrar funduðu í Reykjavík
Forsætisráðherra stýrði fundi í Norrænu ráðherranefndinni um jafnrétti og hinsegin málefni í Reykjavík en Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu. Nefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Meðal annars var að frumkvæði Íslands, samþykkt að hleypa af stokkunum nýju verkefni um skaðleg áhrif hatursorðræðu og öráreitni og er verkefninu ætlað að ná til barna og ungmenna á norðurlöndunum í gegnum samfélagsmiðla. Ráðherrarnir tóku einnig þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu hinsegin félagasamtaka á Norðurlöndum.
Ársfundur Heimsráðs kvenleiðtoga
Ársfundur Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) var haldinn í Hörpu á árinu en Katrín Jakobsdóttir hefur gegnt formennsku í ráðinu frá 2020 sem forsætisráðherra Íslands. Fundurinn var haldinn í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga (Reykjavík Global Forum) sem haldið var í sjötta sinn á Íslandi. Fundurinn var vel sóttur af núverandi og fyrrverandi forsetum og forsætisráðherrum. Um kvöldið hélt Heimsráðið sameiginlegan viðburð í hátíðarsal Háskóla Íslands með Reykjavík Global Forum og UN Women á Íslandi um kynbundið ofbeldi. Aðgerðasinninn og leikkonan Ashley Judd, sem barist hefur gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi á heimsvísu, kom fram á viðburðinum og var hann vel sóttur.
Heimsókn frá ECRI og úttektarskýrsla
Sjötta úttektarskýrsla Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) var birt á árinu og kom nefndin í vikuheimsókn til Íslands á árinu við gerð skýrslunnar. Nefndin fagnaði jákvæðri þróun á Íslandi frá því að síðasta úttekt var birt árið 2017 og undirstrikaði að framfarir hafi orðið og góðar starfsvenjur verið mótaðar á mörgum sviðum. Ákveðin atriði séu þó enn talin áhyggjuefni.
Þjóðaröryggisráð
Þjóðaröryggisráð starfar samkvæmt sérstökum lögum og er sjálfstæður samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál auk þess sem það hefur með höndum margvísleg lögbundin verkefni.
Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs og veitir forsætisráðuneytið ráðinu nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Auk forsætisráðherra eiga sæti í ráðinu utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, fulltrúi Landsbjargar og fulltrúi þingflokka sem eru í meirihluta á Alþingi og fulltrúi þingflokka sem eru í minnihluta á Alþingi. Aðrir ráðherrar og ráðuneytisstjórar komu inn á fundi ráðsins þegar til umfjöllunar voru einstök mál sem varða þau ráðuneyti sbr. 3.mgr. 3. gr. laga um þjóðaröryggisráð.
Ritari þjóðaröryggisráðs er tilnefndur af forsætisráðherra og hefur hann starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu. Ritari þjóðaröryggisráða annast umsýslu vegna funda þjóðaröryggisráðs og aðra daglega umsýslu í þágu verkefna ráðsins í umboði forsætisráðherra og formanns þjóðaröryggisráðs og eftir fyrirmælum hans hverju sinni.
Samráðsvettvangur
Meginhlutverk þjóðaröryggisráðs er að vera samráðs- og samstarfsvettvangur um þjóðaröryggismál og að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis.
Ábyrgð á stjórnsýsluframkvæmd á einstökum málefnasviðum þjóðaröryggisstefnunnar hjá þeim ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórnarmálefni skv. forsetaúrskurði hverju sinni. Einstakir þættir þjóðaröryggismála falla undir málefnasvið nokkurra ráðuneyta skv. forsetaúrskurði nokkur ráðuneyti.
Þjóðaröryggisráð hélt sjö reglulega fundi á árinu 2023 þar sem fjallað var um helstu málefni er varða þjóðaröryggi.
Á árinu 2023 voru starfandi eftirtaldir samráðshópar á vegum þjóðaröryggisráðs til undirbúnings umfjöllun á vettvangi þjóðaröryggisráðs.
- Neyðarbirgðir.Ískýrslu starfshóps um neyðarbirgðir sem kom út 2022 er að finna tillögur um mikilvæg skref til þess að koma á laggirnar neyðarbirgðum til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á neyðartímum. Ráðuneyti vinna nú að anna við mótun tillagna um neyðarbirgðir, magn og birgðahald á þeirra ábyrgðarsviðum. Þjóðaröryggisráð fólritara þjóðaröryggisráðs að fylgja starfinu eftir í samráði við tengiliði frámatvælaráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, innviðaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti
- Viðbúnaður komi til rofs á fjarskiptatengingum við útlönd. Þjóðaröryggisráð fólritara þjóðaröryggisráðs að leiða samráð sérfræðinga um mögulegar sviðsmyndir komi til rofs á fjarskiptatengingum við útlönd. Nánar tiltekið er markmið samráðsins að kortleggja gagnatengingar við útlönd og varafjarskiptaleiðir einkum er varða mikilvæga innviði og starfsemi, að greina skipulagsleg og tæknileg úrlausnarefnin og útfærslur, m.a. með tilliti til viðgerðar- og viðbragðsgetu ef kemur til þess að það þurfi að gera við eða lagfæra sæstrengi. Í samráðhópnum eiga sæti tengiliðir frá forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti fjármála- og efnahagsráðuneyti, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti, Fjarskiptastofu, Netöryggissveit, FARICE, Embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands.
- Rýni á mögulegri miðlun erlendra ríkja eða aðila þeim tengdum á „fölskum fréttum“, áróðri, lygum og undirróðri hér á landi sem miðar að því að grafa undan samfélagslegu trausti og lýðræðislegum gildum. Þjóðaröryggisráð setti á laggirnar tengiliðahóp ráðsins og honum falið að rýna mögulega miðlun erlendra ríkja eða aðila þeim tengdum á "fölskum fréttum", áróðri, lygum og undirróðri hér á landi, sem miðar að því að grafa undan samfélagslegu trausti og lýðræðislegum gildum. Tengiliðahópinn skipa fulltrúar frá forsætisráðuneytinu dómsmálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, menningar- og viðskiptaráðuneytinu, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, Ríkislögreglustjóra, Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofu, Háskóla Íslands og samstarfsnefnd háskólastigsins. Ritari þjóðaröryggisráðs leiðir starf tengiliðahópsins. Tengiliðahópurinn starfar með samráðshópi skipuðum fulltrúum sem tilnefndir hafa verið af formönnum þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, í þeim tilgangi að tryggja gagnsæi og samráð milli þjóðaröryggisráðs og Alþingis á sviði þjóðaröryggismála og styrkja aðkomu Alþingis að þjóðaröryggismálum.
Eftirlit með því að ráðuneyti framfylgi þjóðaröryggisstefnunni
Þjóðaröryggisráð hefur lögbundið eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis. Á árinu var gefin út skýrsla um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem byggist á greinargerðum ráðuneyta um framkvæmd stefnunnar á tímabilinu 2021-2022 á þeim málefnasviðum sem þau bera ábyrgð á. Unnið er að gerð skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu á árinu 2023.
Endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar
Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð ber ráðinu að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á fimm ára fresti. Þjóðaröryggisráð fjallaði um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á reglulegum fundum og á sérstökum vinnufundi. Var litið til þess að störf þjóðaröryggisráðs á undanförnum árum eru til þess fallin að leggja góðan grunn að ábendingum um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar. Þjóðaröryggisráð lauk á árinu við gerð tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Forsætisráðherra mælti fyrir tillögunni og var hún var samþykkt eftir þinglega meðferð á Alþingi í ársbyrjun 2023.
Samstarf við framtíðarnefnd Alþingis
Haldin var sameiginleg vinnustofa þjóðaröryggisráðs og framtíðarnefndr Alþingis um verkefni er lúta að framtíðarfræðum.
Opin og lýðræðisleg umræða um þjóðaröryggismál
Þjóðaröryggisráð stóð fyrir ráðstefnu um þjóðaröryggi og alþjóðasamskipti 22. mars 2023 í Hörpu. Litið var til þess að örar breytingar á alþjóðavettvangi hafa í för með sér að stjórnvöld þurfa að takast á við samfélagslegar og alþjóðlegar áskoranir á sviði þjóðaröryggis með nýjum áherslum.
Ársskýrsla ráðherra 2023
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.