Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022
Fréttaannáll 2022
Ríkisstjórn og ráðherranefndir
Ríkisstjórnarfundir
Ríkisstjórnarfundir eru fundir allra ráðherra sem sæti eiga í ríkisstjórn Íslands. Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórnarfundum sem alla jafna eru haldnir tvisvar í viku á starfstíma Alþingis en annars vikulega.
Á fundunum eru m.a. rædd mikilvæg stjórnarmálefni og stjórnarfrumvörp og stjórnartillögur sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi. Dagskrá ríkisstjórnarfunda er birt á vef Stjórnarráðsins.
Ráðherranefndir
Forsætisráðherra getur ákveðið, með samþykki ríkisstjórnar, að skipa ráðherranefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka. Hlutverk ráðherranefnda er að efla samráð og samstarf á milli ráðherra og ráðuneyta þeirra og tryggja samhæfingu ef málefnasvið skarast og til að undirbúa mál til framlagningar.
Fjöldi funda
2022 | 2021 | |
Ríkisstjórn | 80 | 80 |
Ráðherranefnd um efnahagsmál | 6 | 4 |
Ráðherranefnd um ríkisfjármál | 24 | 21 |
Ráðherranefnd um samræmingu mála | 31 | 55 |
Ráðherranefnd um jafnréttismál | 0 | 1 |
Ráðherranefnd um loftslagsmál | 2 | 4 |
Ráðherranefnd um íslenska tungu* | 2 | |
Ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks* | 7 |
*Nýjar ráðherranefndir á árinu
Hlutverk og uppbygging ráðuneytis
Verkefni forsætisráðuneytisins varða stjórnskipan lýðveldisins Íslands og Stjórnarráðið í heild, málefni ríkisstjórnar og ráðherranefnda, málefni ríkisráðs, þjóðhagsmál, stjórnarfar almennt, þjóðartákn, mannréttindamál, jafnréttismál, þjóðlendur, þjóðaröryggi, málefni sjálfbærrar þróunar og fleira.
Forsætisráðuneytið fer auk þess með ýmis málefni og tilfallandi verkefni er tengjast stöðu og störfum forsætisráðherra sem oddvita ríkisstjórnarinnar og samræmingu og samráð er lýtur að samstarfi ráðuneyta á ýmsum sviðum.
Á árinu var ráðist í breytingar á skipulagi ráðuneytisins og var skrifstofum fækkað úr fimm í fjórar. Skrifstofa yfirstjórnar og skrifstofa löggjafarmála sameinuðust í nýja skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu. Þá færðust fleiri verkefni á nýja skrifstofu innri þjónustu (breytt í skrifstofu innviða og þróunar á árinu 2023) sem byggir á grunni skrifstofu fjármála. Heiti skrifstofu jafnréttismála var breytt í skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála í samræmi við flutning mannréttindamála til ráðuneytisins. Loks var lögð aukin áhersla á samræmingarhlutverk ráðuneytisins í skipulagi skrifstofu stefnumála (heiti breytt í skrifstofu samræmingar og stefnumála á árinu 2023).
Skipurit forsætisráðuneytisins
Verkefni ráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta
Þingmál forsætisráðherra
Á árinu 2022 voru löggjafarþing nr. 152 og 153 starfandi. Forsætisráðherra lagði fram eftirfarandi frumvörp á Alþingi:
- Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.).
- Frumvarp til laga um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.
- Frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð.
- Frumvarp til laga breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 (fjármálaeftirlitsnefnd).
Þrjú fyrstnefndu frumvörpin urðu öll að lögum á árinu 2022. Hið síðastnefnda var lagt fram í desember 2022 og var til meðferðar hjá Alþingi á árinu 2023.
Forsætisráðherra lagði fram eftirtaldar tillögur til þingsályktunar:
- Tillaga til þingsályktunar um minnisvarða um eldgosið á Heimaey.
- Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022-2025.
- Tillaga til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.
Tvær fyrstnefndu tillögurnar voru afgreiddar sem ályktanir Alþingis á árinu 2022 en sú síðasta á árinu 2023.
Skriflegar skýrslur forsætisráðherra voru sex talsins og munnlegar skýrslur þrjár.
Forsætisráðherra tók einnig þátt í átta sérstökum umræðum, svaraði 22 fyrirspurnum skriflega og tveimur munnlega. Loks svaraði forsætisráðherra 61 óundirbúinni fyrirspurn.
Stríðið í Úkraínu og móttaka flóttafólks
Íslensk stjórnvöld fordæmdu harðlega innrásarstríð Rússlands í Úkraínu sem hófst 24. febrúar 2022. Forsætisráðherra flutti þann sama dag sérstaka yfirlýsingu á Alþingi þar sem afstaða íslenskra stjórnvalda var ítrekuð og þess krafist að Rússar stöðvuðu hernaðaraðgerðir sínar. Um væri að ræða árásarstríð sem væri skýrt brot á alþjóðalögum.
Forsætisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við Úkraínu á fundi með sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi sem fram fór nokkrum dögum eftir að innrás Rússa hófst. Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að veita Úkraínu margvíslegan stuðning. Á árinu 2022 námu heildarframlög Íslands til mannúðaraðstoðar, efnahagsaðstoðar og varnartengdrar aðstoðar rúmlega 2 milljörðum króna. Stærstur hluti þeirra fjármuna hefur farið til verkefna á vegum alþjóðastofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann og Rauða krossinn.
Íslensk stjórnvöld tóku einnig þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi. Samskipti, samstarf og fundir með rússneskum stjórnvöldum voru einnig takmörkuð, bæði hvað varðar tvíhliða, svæðisbundið og alþjóðlegt samstarf.
Móttaka flóttafólks
Í því skyni að opna landamæri Íslands fyrir komu flóttafólks frá Úkraínu var virkjað sérstakt ákvæði útlendingalaga sem heimilar veitingu tímabundinna dvalarleyfa af mannúðarástæðum. Á árinu 2022 fengu rúmlega 2.300 manns frá Úkraínu dvalarleyfi á Íslandi, þar af rúmlega 500 börn.
Í mars var settur var á fót starfshópur ráðuneytisstjóra undir forystu forsætisráðuneytisins til að samhæfa og tryggja skilvirkni varðandi móttöku, skráningu og stuðning við flóttafólk frá Úkraínu. Undir hópnum starfaði stýrihópur með fulltrúum þeirra ráðuneyta sem komu að verkefninu. Það eru auk forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og innviðaráðuneytið en Samband íslenskra sveitarfélaga átti einnig fulltrúa í stýrihópnum.
Starfshópurinn upplýsti ríkisstjórn um stöðu mála með reglulegum minnisblöðum. Þar var farið yfir tölfræði og þróun mála á mismunandi sviðum þjónustunnar svo sem varðandi fjölda flóttafólks, búsetu- og húsnæðismál, atvinnuþátttöku, framfærslu, menntamál, heilbrigðismál og málefni barna og ungmenna.
Mikil fjölgun flóttafólks sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi einskorðaðist ekki eingöngu við fólk frá Úkraínu. Alls voru umsækjendur um alþjóðlega vernd um 4.500 á árinu 2022. Lang fjölmennustu hóparnir komu frá Úkraínu, eins og áður er getið, og Venesúela en fjöldi flóttafólks þaðan var tæplega 1.200. Í ljósi þessa mikla fjölda og góðrar reynslu af samræmdri móttöku flóttafólks frá Úkraínu, var ákveðið í september að útvíkka það verklag til alls flóttafólks.
Þá var ákveðið á árinu að taka sérstaklega á móti fjölskyldum ungra afganskra flóttamanna sem fengu vernd á Íslandi eftir 18 ára aldur, samkvæmt tillögu flóttamannanefndar. Einnig var samþykkt tillaga flóttamannanefndar um að taka sérstaklega á móti allt að 140 einstaklingum í viðkvæmri stöðu frá Úkraínu.
Ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks
Í byrjun júní samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðherra um stofnun tímabundinnar ráðherranefndar um málefni innflytjenda og flóttafólks. Þá var fjöldi þeirra sem sótt hafði um alþjóðlega vernd um 1.700 og hafði aldrei verið meiri. Í ráðherranefndinni eiga fast sæti auk forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Náin samvinna verður við háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og aðra ráðherra eftir atvikum.
Málefni innflytjenda varða málefnasvið margra ráðuneyta, sveitarfélaga og ýmissa stofnana. Því er nauðsynlegt að tryggja öfluga samvinnu og samhæfingu í málaflokknum. Hlutverk ráðherranefndarinnar er að vinna markvisst að áherslum ríkisstjórnarflokkanna sem birtast í stjórnarsáttmála. Þar segir m.a. að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Tryggja þurfi að innflytjendur fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína og þekkingu. Í stjórnarsáttmálanum segir ennfremur að móta eigi skýra og heildstæða stefnu í málefnum útlendinga þar sem rík áhersla verði lögð á stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra.
Alþjóðleg samskipti
Innrás Rússlands í Úkraínu í febrúar setti mark sitt á allt alþjóðastarf forsætisráðherra á árinu. Alþjóðlegt samstarf komst að öðru leyti aftur í eðlilegt horf í kjölfar heimsfaraldurs.
Öryggis- og varnarmál og málefni Úkraínu
Íslensk stjórnvöld fordæmdu harðlega innrás Rússlands í Úkraínu sem hófst 24. febrúar. Forsætisráðherra tók þátt í fjarfundi leiðtoga Atlantshafsbandalagins daginn eftir að innrásin hófst. Í sameiginlegri yfirlýsingu var innrásin fordæmd og þess krafist að Rússland myndi tafarlaust stöðva hernaðaraðgerðir og draga herlið sitt frá Úkraínu.
Í lok febrúar tók forsætisráðherra á móti Olgu Dibrovu, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, á fundi í Stjórnarráðshúsinu. Þar ræddu þær hið grafalvarlega ástand sem skapast hafði í Úkraínu í kjölfar innrásarinnar. Forsætisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við Úkraínu og fordæmingu á innrásinni sem væri skýrt brot á alþjóðalögum.
Forsætisráðherra heimsótti Brussel í mars þar sem hún átti m.a. fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Þar ræddu þau um innrás Rússlands í Úkraínu og það alvarlega ástand í mannúðarmálum sem innrásin skapaði. Forsætisráðherra greindi þar frá viðbótarframlagi Íslands til mannúðaraðgerða í Úkraínu.
Síðar í mars sótti forsætisráðherra leiðtogafund ríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (e. Joint Expeditonary Force, JEF) í London. Þar var rætt hvernig ríkin gætu stutt enn frekar við Úkraínu, bæði hernaðarlega og í formi mannúðaraðstoðar. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað.
Í mars var einnig haldinn leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel þar sem málefni Úkraínu voru í brennidepli. Þar voru Rússar hvattir til að hætta öllum árásum og skorað á þá að hefja tafarlaust friðarviðræður.
Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu ákváðu Finnland og Svíþjóð að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs gáfu í maí út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ítrekaður var stuðningur við aðild Finnlands og Svíþjóðar. Alþingi heimilaði ríkisstjórninni með þingsályktun í júní að staðfesta aðildarsamninga ríkjanna tveggja þegar þeir lægju fyrir. Lauk staðfestingarferli Íslands formlega 6. júlí, daginn eftir að viðbótarsamningar um aðildina voru undirritaðir. Var Ísland var með allra fyrstu bandalagsríkjunum til að ljúka aðildarferlinu.
Í lok júní sótti forsætisráðherra leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Madríd. Þar voru teknar ákvarðanir sem tóku mið af því að styrkja bandalagið í ljósi breytts öryggisumhverfis í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Samþykkt var ný grunnstefna bandalagsins sem m.a. felur í sér endurskoðaða stefnu gagnvart Rússlandi. Stefnan felur einnig í sér skýr skref varðandi samþættingu loftslagsmála í öll meginverkefni bandalagsins, tæknibreytingar, netöryggi, jafnréttismál, öryggi borgara og áherslur á konur, frið og öryggi.
Í desember sótti forsætisráðherra annan leiðtogafund JEF-ríkjanna sem fram fór í Riga. Þar var rætt um stöðuna í Úkraínu og áframhaldandi stuðning við Úkraínu. Í yfirlýsingu fundarins voru árásir Rússa á mikilvæga samfélagslega innviði fordæmdar.
Norrænt samstarf og málefni norðurslóða
Forsætisráðherra tók þátt í fundi forsætisráðherra Norðurlandanna og Indlands sem fram fór í Kaupmannahöfn í maí. Þar var m.a. rætt um stöðuna í alþjóðamálum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, heimsfaraldurinn, aðgerðir í loftslagsmálum og mikilvægi alþjóðasamstarfs til að takast á við stórar áskoranir í alþjóðakerfinu.
Forsætisráðherra átti einnig við þetta tækifæri tvíhliða fundi með Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Árlegur sumarfundur norrænu forsætisráðherranna fór fram í Osló í ágúst. Sérstakur gestur fundarins að þessu sinni var Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. Á fundi norrænu forsætisráðherranna voru samþykktar yfirlýsingar um annars vegar norrænt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og hins vegar um málefni hafsins og græn orkuskipti. Á fundi ráðherranna með kanslara Þýskalands var helsta umræðuefnið staða öryggis- og varnarmála í Evrópu og græn orkuskipti og orkuöryggi í álfunni.
Norðurlandaráðsþing fór fram í Helsinki í byrjun nóvember. Þar tók forsætisráðherra þátt í leiðtogaumræðum þar sem fjallað var um framtíð norræns samstarfs og hlutverk Norðurlanda í umheiminum.
Forsætisráðherra kynnti einnig á þinginu formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2023. Yfirskrift formennskunnar er Norðurlönd – afl til friðar. Þar er áhersla lögð á græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd.
Í apríl átti forsætisráðherra fund með Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, í Ráðherrabústaðnum. Þá fór forsætisráðherra í opinbera heimsókn til Grænlands í maí en um var að ræða fyrstu opinberu heimsókn íslensks forsætisráðherra þangað síðan 1998. Þar átti forsætisráðherra fund með Múte B. Egede, formanni grænlensku landsstjórnarinnar.
Í kjölfar heimsóknarinnar til Grænlands hófst vinna við gerð yfirlýsingar um aukna samvinnu Íslands og Grænlands. Samstarfsyfirlýsing landanna var svo undirrituð í Reykjavík í október þar sem áréttaður er vilji til að efla og útvíkka samvinnu landanna.
Forsætisráðherra flutti opnunarávarp við setningu Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle í Hörpu í október. Þar ræddi forsætisráðherra m.a. um þær miklu áskoranir sem við blasi á norðurslóðum og fagnaði um leið aukinni þekkingu og samvinnu vísindafólks um málefni svæðisins, ekki síst á sviði grænna lausna.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, kom í opinbera heimsókn til Íslands í október. Forsætisráðherra hitti Finnlandsforseta á fundi í Ráðherrabústaðnum þar sem þau ræddu samskipti ríkjanna, norrænt samstarf og stöðuna í Evrópu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.
Þá kom Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, í vinnuheimsókn til Íslands í nóvember. Forsætisráðherra átti tvíhliða fund með henni í Norræna húsinu þar sem þær ræddu m.a. um 75 ára stjórnmálasamband ríkjanna, loftslagsmál, orkumál, sjálfbærni, jafnréttismál, öryggis- og varnarmál og aðildarumsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Ráðherrarnir tóku líka þátt í opnum viðburði í Þjóðminjasafninu.
Formennska Íslands í Evrópuráðinu
Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember en aðildarríkin 46 gegna formennskunni hvert á eftir öðru í sex mánuði. Í formennskuáætlun Íslands var lögð áhersla á grunngildi Evrópuráðsins, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þar að auki var lögð sérstök áhersla á umhverfismál, jafnrétti og réttindi barna og ungmenna.
Í júní var tilkynnt um sérstaka fjárveitingu Íslands til Evrópuráðsins í tengslum við áherslumál formennsku Íslands. Forsætisráðherra heimsótti höfuðstöðvar Evrópuráðsins í Strassborg í júní þar sem tilkynnt var um framlagið. Forsætisráðherra átti þar fund með Mariu Burić, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, þar sem rætt var um formennsku Íslands. Forsætisráðherra fundaði einnig með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, og heimsótti Mannréttindadómstól Evrópu.
Forsætisráðherra fór í vinnuferð til Strassborgar í nóvember þegar Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu. Þar var samþykkt tillaga um að halda leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023, þann fjórða í tæplega 75 ára sögu ráðsins. Forsætisráðherra flutti einnig aðalræðuna á World Forum for Democracy og átti tvíhliða fund með Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, en Írland fór með formennsku í Evrópuráðinu á undan Íslandi.
Annað alþjóðlegt samstarf
Í júní flutti forsætisráðherra ávarp á opnunarathöfn Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Lissabon. Þar lýsti ráðherra mikilvægi hafsins fyrir Ísland og mikilvægi þess að vernda lífríki hafsins og tryggja sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda.
Í ágúst komu forsetar Eystrasaltsríkjanna til Íslands til að minnast 30 ára afmæli sjálfstæðis landanna en heimsóknin frestaðist um eitt ár vegna heimsfaraldursins. Forsætisráðherra bauð forsetunum ásamt forseta Íslands til hádegisverðar í Viðey.
Forsætisráðherra sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september. Þar fundaði ráðherra m.a. með António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þá var forsætisráðherra annar aðalræðumanna á viðburði um málefni hinsegin fólks, ásamt Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Forsætisráðherra fundaði einnig með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í Washington D.C.
Þá tók forsætisráðherra þátt í fundi í hinu pólitíska bandalagi Evrópuríkja (e. European Political Community, EPC) í Prag í október. Um er að ræða nýjan samstarfsvettvang en leiðtogar 44 ríkja tóku þátt í fyrsta fundi hans. Tilgangur samstarfsvettvangsins er að leiða saman ríki í Evrópu óháð hvort þau séu utan eða innan Evrópusambandsins, eða hvar þau staðsetja sig í stofnunum Evrópu.
COVID-19
Sóttvarnaráðstafanir
Í ársbyrjun ákvað ríkisstjórnin að halda sóttvarnaráðstöfunum á landamærum vegna Covid-19 óbreyttum til loka febrúar. Fyrirkomulag sóttvarna var rætt á fundum ráðherranefndar um samræmingu mála sem fékk helstu hagaðila á sinn fund. Niðurstaða þeirrar vinnu var að halda áfram á leið temprunar enda var staða faraldursins viðkvæm í janúar og mikið um smit í samfélaginu.
Öllum sóttvarnaráðstöfunum, bæði innanlands og á landamærum, var svo aflétt frá og með 25. febrúar. Byggði sú ákvörðun á tillögum sóttvarnalæknis.
Aðgerðir til að bregðast við félags- og heilsufarslegum afleiðingum
Stjórnvöld ákváðu að grípa til sértækra aðgerða til að bregðast við félags- og heilsufarslegum afleiðingum faraldursins. Á árinu var 750 milljónum króna varið til níu verkefna til að styðja við hópa á borð við aldraða, þolendur og gerendur kynferðis- og heimilisofbeldis, fatlaða og börn í viðkvæmri stöðu. Þá var stutt við verkefni á sviði heilbrigðistækni og geðheilbrigðismála.
Starfshópur sem forsætisráðherra fól að vinna tillögur að aðgerðunum skilaði skýrslu sinni í júní. Þar kemur fram að markmið aðgerðanna sé að draga úr neikvæðum langtímaáhrifum faraldursins á viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Þannig var lagt upp með að aðgerðirnar myndu auka virkni viðkvæmra hópa, koma í veg fyrir og rjúfa einmanaleika og félagslega einangrun eldra fólks og fatlaðra og auka þjónustu við langtímaatvinnulausa.
Þá var skýrslunni ætlað að vera heimild um hvaða lærdóm stjórnvöld geta dregið af áhrifum faraldursins á viðkvæma hópa með tilliti til opinberrar stefnumótunar og áætlanagerðar.
Ríkisstjórnin ákvað einnig að vinna áfram með tillögur starfshópsins á árinu 2023 og veita til þess einn milljarð króna.
Áfallastjórnun vegna COVID-19
Nefnd sem forsætisráðherra skipaði haustið 2021 til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í faraldrinum skilaði skýrslu sinni í október 2022. Voru helstu niðurstöður skýrslunnar kynntar í málstofu þar sem nefndarmenn svöruðu einnig spurningum.
Meginniðurstöður nefndarinnar voru þær að heilt yfir hafi áfallastjórnun stjórnvalda gengið afar vel. Dauðsföll hafi verið færri en víðast hvar, þátttaka í bólusetningum afar góð, traust landamanna til yfirvalda og ríkisstjórnarinnar til að grípa til viðeigandi aðgerða hafi verið mikið í gegnum faraldurinn og þríeykið notið sérstaks trausts þjóðarinnar. Almannavarnakerfið hafi verið þanið til hins ítrasta en staðist prófið með miklum ágætum.
Nefndin sett einnig fram fjölda ábendinga sem ættu að geta nýst stjórnvöldum til að meta úrbætur í löggjöf, skipulagi og verklagi.
Jafnréttis- og mannréttindamál
Jafnréttis- og mannréttindamál í forsætisráðuneytinu
Síðastliðin fjögur ár hafa jafnréttismál verið vistuð á sérstakri skrifstofu í forsætisráðuneytinu þar sem fram fer stefnumótun á sviði jafnréttis- og mannréttindamála, sinnt er ýmiss konar alþjóðastarfi og auk þess hefur skrifstofan fyrirsvar fyrir hönd forsætisráðuneytisins gagnvart einstaklingum, hagsmunaaðilum og félagasamtökum á sviði jafnréttis- og mannréttindamála.
Þá sinnir skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála almennri upplýsingagjöf til Alþingis og nefnda þingsins. Hinsegin málefni heyra auk þess undir skrifstofuna.
13. árið í röð mældist Ísland í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum). Á Regnbogakortinu sem er úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu er Ísland komið upp í fimmta sæti en var í því 18. árið 2018. Þá er Ísland í efsta sæti yfir þau lönd Í Evrópu sem standa sig best varðandi málefni trans fólks.
Samráðsvettvangur um jafnréttismál kom saman í desember í annað sinn frá því ný lög um jafnrétti kynjanna tóku gildi árið 2020. Meginþema fundarins var stefnumótun í jafnréttismálum sem endurspeglast í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2024 – 2027. Hlutverk samráðsvettvangsins er að vera forsætisráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna.
Mannréttindi
Á árinu 2022 var unnin grænbók um mannréttindi sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda. Í tengslum við grænbókina voru haldnir opnir fundir forsætisráðherra um land allt.
Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála sinnir almennri stefnumótun á sviði mannréttindamála, innleiðingu og eftirfylgni alþjóðlegra mannréttindasamninga og ábyrgð á málum gegn íslenska ríkinu hjá Mannréttindadómstól Evrópu.
Í janúar 2022 fór fram þriðja allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (UPR). Í apríl skilaði íslenska ríkið skýrslu þar sem tekin var afstaða til þeirra tilmæla sem Ísland fékk í fyrirtökunni.
Í febrúar skilaði Ísland skriflegum svörum við spurningum (e. list of issues) nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Vorið 2022 fóru fram tvær fyrirtökur vegna framkvæmd mannréttindasamninga hjá eftirlitsnefndum í Genf, annars vegnar nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og hins vegar nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í kjölfarið fékk Ísland sendar lokaathugasemdir frá umræddum nefndum.
Haustið 2022 hófst vinna við landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landsáætlunin er m.a. liður í því að undirbúa lögfestingu samningsins hér á landi.
Í október skilaði Ísland skýrslu sinni um framkvæmd alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í sama mánuði skilaði ríkið einnig skriflegum svörum við spurningum (e. list of issues) Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni
Forsætisráðuneytið hefur innleitt mælaborð til að auðvelda eftirfylgni með þingsályktunartillögum. Í mælaborði með þingályktunartillögu um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi er 26 aðgerðum áætlunarinnar fylgt eftir á myndrænan hátt.
Undirritaður var samstarfssamningur við Stígamót til að byggja upp netspjall tengt verkefninu Sjúkást. Verkefnið veitir ungmennum á aldrinum 13 til 19 ára fræðslu um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum og stuðning með það að markmiði að hjálpa brotaþolum úr ofbeldissamböndum og aðstoða gerendur við að endurtaka ekki ofbeldi.
Þá var sex samtökum og stofnunum veittur styrkur til að styðja við þolendur ofbeldis og konur í viðkvæmri stöðu. Undirritaðir voru samningar við Stígamót, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð í því augnamiði að efla þjónustu við ungmenni og draga úr biðlistum brotaþola kynbundins og kynferðislegs ofbeldis með því að efla stafræna tækni og notkun samskiptaforrita sem eiga að taka mið af dreifðri búsetu, aldri, uppruna og fötlun..
Kynbundinn launamunur
Skipaður var aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði í kjölfar skýrslu sem starfshópur um endurmat á virði kvennastarfa skilaði af sér á árinu. Aðgerðahópurinn á að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.
Málefni hinsegin fólks
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að Ísland verði í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Í júní samþykkti Alþingi fyrstu aðgerðaáætlunina í málefnum hinsegin fólks en áætlunin lýsir stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Í aðgerðaáætluninni eru 21 verkefni sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu hinsegin fólks eða fela í sér beinar aðgerðir til hagsbóta fyrir hinsegin fólk.
Jafnréttismál á alþjóðavettvangi
Forsætisráðherra ávarpaði fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í mars. Þema fundarins í ár var jafnrétti og valdefling kvenna og stúlkna í tengslum við afleiðingar loftslagsbreytinga. Einnig tók forsætisráðherra þátt í rafrænum hliðarviðburði forsætisráðuneytisins í samstarfi við UN Women á Íslandi í tengslum við kvennanefndarfundinn. Á málþinginu var rætt með hvaða hætti loftslagsbreytingar auka líkurnar á vopnuðum átökum innan ríkja og áhrif þeirra á konur og stúlkur.
Forsætisráðherra stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga í Hörpu í nóvember en fundurinn var haldinn í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga sem haldið var í fimmta sinn á Íslandi. Fundurinn var vel sóttur af núverandi og fyrrverandi forsetum og forsætisráðherrum. Heimsráðið var handhafi verðlaunanna The Power together awards sem voru afhent í fimmta sinn á heimsþingi kvenleiðtoga og tók forsætisráðherra við verðlaununum fyrir hönd Heimsráðsins ásamt framkvæmdastjóra Heimsráðsins.
Sérstakt mælaborð um framkvæmd skuldbindinga einstakra ríkja sem taka þátt í verkefninu Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum) var birt í fyrsta skipti á árinu. UN Women heldur utan um verkefnið sem er alþjóðlegt jafnréttisátak sem hófst 2020 og stendur yfir til 2026. Ísland setti fram 23 skuldbindingar um að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og mælaborðið sýndi að nánast allar skuldbindingar Íslands eru komnar vel á vel eða þeim lokið.
Jafnréttisþing
Fjallað var um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði á jafnréttisþingi sem fram fór í október. Þátttakendur voru á fjórða hundrað talsins en á þinginu fengu félagasamtökin Hennar rödd jafnréttisviðurkenningu en tilgangur félagsins er að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu um málefni kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.
Aðgerðir gegn hatursorðræðu
Í því skyni að bregðast við vísbendingum um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi skipaði forsætisráðherra í maí starfshóp gegn hatursorðræðu. Meginverkefni hópsins var að skoða hvort stjórnvöld skyldu setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir gegn hatursorðræðu.
Starfshópnum var falið að gera tillögur að útfærslu á aðgerðum til að vinna gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Var þar horft til aðgerða gegn hatursorðræðu m.a. vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Hópurinn átti samráðsfundi með fulltrúum hagsmunasamtaka og sérfræðinga og sóttu þá fulltrúar frá á þriðja tug samtaka.
Þá var haldinn opinn samráðsfundur um aðgerðir gegn hatursorðræðu. Þar flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnunarávarp og dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá Ríkislögreglustjóra, flutti erindi. Þátttakendur á opna fundinum voru um 100 talsins og sköpuðust líflegar umræður um málefnið en fundargestum var skipt í umræðuhópa sem ræddu sín á milli aðgerðir sem grípa megi til í baráttunni gegn hatursorðræðu og haturstjáningu.
Á fundinum fékk forsætisráðherra einnig afhentar rúmlega þúsund undirskriftir frá UN Women þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að bregðast við því bakslagi í hinsegin baráttunni sem virðist hafa skotið rótum í íslensku samfélagi og halda áfram að beita sér á alþjóðavettvangi með því að þrýsta á aukin mannréttindi hinsegin fólks.
Ýmislegt
Fyrsta ársskýrsla kærunefndar jafnréttismála kom út eftir að ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna frá 2020 tóku gildi en samkvæmt ákvæðum laga um stjórnsýslu jafnréttismála skal nefndin skila skýrslu um störf sín til ráðherra sem ber að birta hana með aðgengilegum hætti.
Forsætisráðherra undirritaði samstarfssamning til eins árs við Félag kvenna í atvinnulífinu um framkvæmd, þróun og kynningu Jafnvægisvogarinnar.
Á árinu veittu Alþjóðlegu almannatryggingasamtökin ISSA ríkisstjórn Íslands viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í almannatryggingum fyrir að móta almannatryggingakerfi sem stuðlar að og hvetur til aukins jafnréttis. Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins tók við verðlaununum fyrir Íslands hönd á þingi samtakanna í Marokkó.
Sjálfbær þróun og velsæld
Í samræmi við áherslur ríkisstjórnarflokkanna sem birtast í stjórnarsáttmála er forsætisráðuneytinu falið sérstakt samhæfingarhlutverk á sviði réttlátra umskipta, velsældaráherslna og sjálfbærrar þróunar.
Sjálfbært Ísland
Samstarfsvettvangurinn Sjálfbært Ísland tók formlega til starfa 1. desember 2022 en þá var fór fram stofnfundur sjálfbærniráðs. Vinna við verkefnið hófst á árinu 2021 en hlutverk Sjálfbærs Íslands er m.a. að móta stefnu Íslands um sjálfbæra þróun, þróa, samræma og rýna mælikvarða um sjálfbærni, efla þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um sjálfbæra þróun, efla samráð hins opinbera við sveitarfélög, atvinnulíf, aðila vinnumarkaðar og frjáls félagasamtök og kynn framgang og árangur í sjálfbærri þróun.
Markmiðið með stofnun Sjálfbærs Íslands er ennfremur að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Þá vinnur samstarfsvettvangurinn að því að réttlát umskipti á öllum sviðum samfélagsins verði leiðarljós í allri stefnumótun og aðgerðum.
Vettvangurinn Sjálfbært Ísland samanstendur af sjálfbærniráði, stýrihópi og framkvæmdahópi. Í sjálfbærniráði, sem forsætisráðherra veitir forystu, eiga einnig sæti aðrir ráðherrar í ríkisstjórn og fulltrúar þingflokka á Alþingi, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og félagasamtaka en mikil áhersla er lögð á víðtækt samráð við þá aðila sem koma að málefnum sjálfbærni. Í stýrihópi eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta auk Sambands íslenskra sveitarfélaga en í framkvæmdahópi sérfræðingar frá forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Hagstofunni. Þá var á árinu ráðinn leiðtogi á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu.
Velsæld
Hagstofa Íslands hefur síðustu ár unnið að þróun og birtingu velsældarvísa sem er ætlað að meta hagsæld og lífsgæði landsmanna. Mælikvarðarnir eru alls 40 í þremur flokkum: félagslegir, efnahagslegir og umhverfislegir. Byggja þeir að stærstum hluta á opinberum hagtölum, eru samanburðarhæfir við önnur lönd og taka mið af heimsmarkmiðunum.
Á árinu 2022 var settur á fót samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofunnar til að tryggja reglulega uppfærslu mælikvarðanna og tímanlega birtingu vegna vinnu við gerð fjármálaáætlunar.
Hagstofan uppfærði mælikvarðana sem birtir eru á vef stofnunarinnar tvívegis á árinu. Frá því að fyrstu niðurstöður voru birtar, sem tóku til ársins 2019, höfðu 17 mælikvarðar þróast í jákvæða átt árið 2022, 7 höfðu staðið í stað og 6 þróast til verri vegar. Í 9 tilvikum var ekki hægt að meta þróun vegna þess að upplýsingar lágu ekki fyrir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í júlí lokaræðuna á ráðstefnu Oxford háskóla um rannsóknir og stefnumótun á sviði velsældar. Þar komu saman fræðafólk, þriðji geirinn, atvinnurekendur, stjórnmálamenn og fólk innan stjórnsýslunnar til að ræða nýjustu rannsóknir og þróun á sviði velsældarhugmyndafræðinnar.
Upplýsinga- og stjórnsýslumál
Framkvæmd upplýsingalaga
Alls voru stofnuð 242 mál hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál á árinu 2022. Til samanburðar var málafjöldinn 235 árið 2021, 268 árið 2020, 218 árið 2019 og 164 árið 2018. Sé horft til síðustu 10 ára er fjölgunin umtalsverð á síðustu árum. Þannig var málafjöldinn á bilinu 84-133 tímabilið 2013-2017.
Langflest málin, eða 222, voru kærur til nefndarinnar vegna synjunar á beiðni um aðgang að upplýsingum eða vegna tafa á afgreiðslu slíkrar beiðni. Langflestar voru kærurnar frá einstaklingum, eða 172, en 24 voru frá fjölmiðlum, 13 frá samtökum og 13 frá fyrirtækjum.
Af þeim kærum sem bárust á árinu féll úrskurður í 58 málum, málið var fellt niður í 147 tilvikum og 17 málum var ólokið í árslok. Mál eru felld niður þegar kærandi fær aðgang að upplýsingum við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni, beiðni er afgreidd í kjölfar kæru vegna tafa á afgreiðslu og þegar kæra er dregin til baka.
Alls voru kveðnir upp 67 úrskurðir á árinu 2022, samanborið við 91 úrskurð árið 2021, 102 úrskurði árið 2020 og 90 úrskurði árið 2019. Í 18 úrskurðum var það niðurstaða nefndarinnar að veita skyldi aðgang að upplýsingum, í heild eða að hluta.
Málsmeðferðartími nefndarinnar á árinu var að meðaltali 195 dagar frá kæru til úrskurðar. Er það nokkuð lengri tími en tvö árin á undan en skemmri tími en árin þar áður.
Á árinu 2022 voru stofnuð 122 mál hjá ráðgjafa um upplýsingarétt almennings en þau voru 74 árið 2021. Af málum síðasta árs voru 85 vegna ráðgjafar til opinberra aðila og 37 vegna ráðgjafar til einstaklinga, lögaðila og annarra einkaaðila.
Upplýsingastefna stjórnvalda
Forsætisráðherra skipaði á árinu starfshóp um gerð upplýsingastefnu stjórnvalda, skv. ákvæðum upplýsingalaga. Var tillaga hópsins að stefnunni staðest í nóvember.
Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir öll stjórnvöld en í henni eru sett fram leiðarljós, meginmarkið og helstu áherslur við miðlun upplýsinga.
Meginmarkmið stefnunnar eru þrjú: gagnsæi í störfum stjórnvalda, öflug miðlun upplýsinga og greiður aðgangur að upplýsingum.
Könnun um traust almennings til opinberra aðila
Ísland var meðal þátttökulanda í alþjóðlegri könnun OECD um traust og drifkröftum þess. Niðurstöðurnar voru kynntar í ágúst en samkvæmt þeim ríkir almennt til opinberra aðila á Íslandi. Þannig segist rúmur helmingur svarenda treysta stjórnvöldum á landsvísu en um þriðjungur treystir þeim ekki. Sé horft til meðaltals OECD-ríkjanna reynast hóparnir sem treysta og treysta ekki stjórnvöldum jafn stórir, eða um 41%.
Traust almennings á Íslandi til opinberra aðila reyndist yfir meðaltali OECD í öllum tilvikum nema þegar kemur að dómskerfinu. Samkvæmt könnuninni hafa ýmsir þættir áhrif á traust almennings til stjórnvalda. Þannig er yngra fólk, þeir sem hafa fjárhagslegar áhyggjur, þeir sem eru minna menntaðir og þeir sem kusu ekki ríkjandi valdhafa líklegri til að bera minna traust til stjórnvalda.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur jafnframt fram að almenningur á Íslandi telur að stjórnvöld taki ekki nægilegt tillit til ábendinga sem þeim berast. Þannig telja aðeins um 20% svarenda að þeir geti haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda sem er undir meðaltali OECD.
Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember að Ísland myndi taka þátt í framhaldskönnun OECD um traust sem verður framkvæmd haustið 2023.
Viðbrögð við tilmælum GRECO
Í nóvember var birt eftirfylgniskýrsla um aðgerðir Íslands vegna fimmtu úttektar GRECO, samtaka innan Evrópuráðsins gegn spillingu. Umrædd, sem var gerð árið 2018, náði annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdavalds og hins vegar til löggæsluyfirvalda.
Samkvæmt eftirfylgniskýrslunni töldust fimm af níu tilmælum um æðstu handhafa framkvæmdavalds hafa verið innleidd að fullu. Þau tilmæli sem ekki hafa verið innleidd að fullu snúa að samræmingu siðareglna, eflingu vitundar um opinber heilindi, leiðbeiningum um samskipti við hagsmunaaðila og verklagsreglum um eftirlit í tengslum við skráningu fjárhagslegra hagsmuna. Er unnið að þessum verkefnum í forsætisráðuneytinu en stjórnvöld þurfa að upplýsa um innleiðinguna fyrir lok árs 2023.
Þjóðlendur
Eftir uppkvaðningu úrskurða óbyggðanefndar í desember 2020 var umfjöllun lokið um 14 af 17 svæðum eða 91% af flatarmáli landsins. Á árinu 2022 var meginverkefni óbyggðanefndar, eins og árið áður, svæði 10B, Ísafjarðarsýslur. Þar reyndist kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins umfangsmeiri en á næstu svæðum á undan og reyndist málsmeðferð seinlegri. Var unnið að gagnaöflun og rannsókn mála á svæðinu auk þess sem aðalmeðferð mála fór fram, þar sem málin voru flutt munnlega og skýrslur teknar af staðkunnugum.
Á árinu hafði óbyggðanefnd einnig svæði 11, Austfirði, til meðferðar. Náðu kröfur ríkisins til 25 skilgreindra svæða og bárust í framhaldinu 32 kröfulýsingar og ein athugasemd frá þeim sem kynnu að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Stóð gagnaöflun yfir allt árið.
Forsætisráðuneytinu bárust á árinu alls 213 erindi á sviði þjóðlendumála en erindin voru 214 árið áður. Flest tengdust erindin afmörkun lóða undir skála, umsögnum um skipulagstillögur og grunnsamkomulagi um lóðir og drög að þeim.
Ráðherranefnd um íslenska tungu
Í nóvember var að tillögu forsætisráðherra skipuð ný ráðherranefnd um íslenska tungu. Ráðherranefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Nefndinni er einnig ætlað að vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra.
Þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá skipun ráðherranefndarinnar minntist hún einnig á þær áskoranir sem tungumálið stendur frammi fyrir vegna örra tækni- og samfélagsbreytinga sem mikilvægt sé að bregðast við. Auka þurfi aðgengi að og miðlun á íslensku efni og efla kennslu fyrir fjölbreytta samfélagshópa.
Þjóðaröryggisráð
Þjóðaröryggisráð starfar samkvæmt sérstökum lögum og er sjálfstæður samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál auk þess sem það hefur með höndum margvísleg lögbundin verkefni.
Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs og veitir forsætisráðuneytið ráðinu nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Auk forsætisráðherra eiga sæti í ráðinu utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, fulltrúi Landsbjargar og fulltrúi þingflokka sem eru í meirihluta á Alþingi og fulltrúi þingflokka sem eru í minnihluta á Alþingi. Aðrir ráðherrar og ráðuneytisstjórar komu inn á fundi ráðsins þegar til umfjöllunar voru einstök mál sem varða þau ráðuneyti sbr. 3.mgr. 3. gr. laga um þjóðaröryggisráð.
Ritari þjóðaröryggisráðs er tilnefndur af forsætisráðherra og hefur hann starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu. Ritari þjóðaröryggisráða annast umsýslu vegna funda þjóðaröryggisráðs og aðra daglega umsýslu í þágu verkefna ráðsins í umboði forsætisráðherra og formanns þjóðaröryggisráðs og eftir fyrirmælum hans hverju sinni.
Samráðsvettvangur
Þjóðaröryggisráð hélt sjö reglulega fundi á árinu 2022 þar sem fjallað var um helstu málefni er varða þjóðaröryggi.
Eftirlit með því að ráðuneyti framfylgi þjóðaröryggisstefnunni
Þjóðaröryggisráð hefur lögbundið eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis. Á árinu var unnið að undirbúningi skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem byggist á greinargerðum ráðuneyta um framkvæmd stefnunnar á tímabilinu 2021-2022 á þeim málefnasviðum sem þau bera ábyrgð á.
Endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar
Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð ber ráðinu að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á fimm ára fresti. Þjóðaröryggisráð fjallaði um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á reglulegum fundum og á sérstökum vinnufundi. Var litið til þess að störf þjóðaröryggisráðs á undanförnum árum eru til þess fallin að leggja góðan grunn að ábendingum um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar. Þjóðaröryggisráð lauk á árinu við gerð tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Forsætisráðherra flutti tillöguna og var hún var samþykkt á Alþingi í ársbyrjun 2023.
Þjóðaröryggisráð gaf út skýrslu um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum vegna hinnar alvarlegu stöðu sem komin var upp vegna innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022.
Þá fól forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs ritara þjóðaröryggisráðs að leiða vinnu tengiliða ráðuneyta við gerð skýrslu um neyðarbirgðir sem kom út á áinu 2022.
Samstarf við framtíðarnefnd Alþingis
Þjóðaröryggisráð og framtíðarnefnd Alþingis undirbjuggu sameiginlega vinnustofu um verkefni er lúta að framtíðarfræðum.
Unnið að styrkingu á sjálfstæðri greiningargetu þjóðaröryggisráðs og forsætisráðherra sem formanns ráðsins
Það er hlutverk þjóðaröryggisráðs að leggja mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum og er það hlutverk að nokkru marki samofið skyldu forsætisráðherra og formanns þjóðaröryggisráðs að boða til funda þjóðaröryggisráðs, þ.e. þegar atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem geta haft áhrif á þjóðaröryggi. Lagaskyldur samkvæmt framangreindu styðjast við sjálfstæða greiningargetu þjóðaröryggisráðs og forsætisráðherra sem formanns ráðsins.
Í því skyni að styrkja greiningargetu í þágu þjóðaröryggisráðs og formanns þess gerði forsætisráðuneytið fyrir hönd þjóðaröryggisráðs samkomulag við ríkislögreglustjóra um virkt og gagnkvæmt samráð um greiningu upplýsinga um helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir og varða framgang þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti.
Efnahagsmál
Umbætur á húsnæðismarkaði
Forsætisráðherra skipaði í febrúar starfshóp um umbætur á húsnæðismarkaði. Sæti í hópnum áttu fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðar. Verkefni hópsins var m.a. að fjalla um leiðir til að auka framboð á húsnæði til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri þörf ólíkra hópa til lengri og skemmri tíma. Þá átti hópurinn að fjalla um leiðir til að stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði.
Hópurinn skilaði niðurstöðum sínum í maí en alls voru settar fram 28 tillögur í sjö málaflokkum. Áhersla var lögð á að auka framboð íbúða til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og auka húsnæðisöryggi. Þá gerði hópurinn tillögu að húsnæðisáætlun fyrir allt landið þar sem sérstök áhersla var lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Einnig voru settar fram tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost, tillögur um skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum og um samþættingu uppbyggingu íbúða og samgönguinnviða.
Aðgerðir gegn verðbólgu
Ríkisstjórnin kynnti í maí mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þannig voru bætur almannatryggingar og húsnæðisbætur hækkaðar auk þess sem sérstakur barnabótaauki var greiddur til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur.
Í júní voru einnig kynntar breytingar á fjármálaáætlun í því skyni að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Var markmið breytinganna að draga úr hraðar úr halla á ríkissjóð og nam umfang aðgerðanna um 26 milljörðum króna. Helstu aðgerðirnar á tekjuhlið sneru að innleiðingu gjaldtöku til að vega á móti tekjutapi vegna umferðar og eldsneytis, uppfærslu krónutölugjalda og innleiðingu á nokkrum sértækum gjaldabreytingum.
Tillögur á útgjaldahlið ríkissjóðs sneru m.a. að varanlegri lækkun ferðakostnaðar hjá ríkinu, aðhaldsmarkmiði fyrir málefnasvið og frestun hluta af útgjaldasvigrúmi.
Stuðningur stjórnvalda vegna kjarasamninga
Stjórnvöld gáfu frá sér sérstaka yfirlýsingu í desember til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar voru kynntar ýmsar aðgerðir til að styðja við markmið kjarasamninga um að verja kaupmátt og lífskjör og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum.
Sneru aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst að stuðningi við lág- og millitekjuhópa. Var þar um að ræða aðgerðir í húsnæðismálum með fjölgun nýrra íbúða og almennra íbúða, endurbótum á húsnæðisstuðningi og bættri réttarstöðu og bættu húsnæðisöryggi leigjenda. Barnabótakerfið var einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur og fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað. Með breytingunum fjölgaði þeim fjölskyldum sem fá barnabætur um tæplega 3.000.
Þá voru kynntar ýmsar aðgerðir í tengslum við afgreiðslu fjárlaga sem styðja við markmið kjarasamninga. Þannig voru framlög til heilbrigðismála aukin um 12 milljarða króna og frítekjumark öryrkja hækkað.
Starfsemi þjóðhagsráðs
Þjóðhagsráð fundaði alls ellefu sinnum á árinu. Ráðið tók til starfa í breyttri mynd í kjölfar lífskjarasamninga 2019 en þar koma saman fulltrúar ríkisstjórnar, sveitarfélaga, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðar. Markmið ráðsins er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál.
Megináhersla í starfi ráðsins á árinu var á umfjöllun um vinnumarkað, kjarasamninga og húsnæðismál. Fyrir tilstuðlan ráðsins var t.a.m. sett af stað vinna um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Þá fól þjóðhagsráð í ársbyrjun óháðum sérfræðingum að vinna greinargerð um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga.
Ársskýrsla ráðherra 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.