Hoppa yfir valmynd

Ræður og greinar Kristrúnar Frostadóttur

Áskriftir
Dags.Titill
10. apríl 2025Blá ör til hægriÁvarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 10. apríl 2025<p>Ársfundur Seðlabanka Íslands. Góðir gestir.</p> <p>Fyrst vil ég segja þetta: Mér þykir vænt um Seðlabankann. Ekki bara sem mikilvæga stofnun í lífi þjóðarinnar – sem heyrir undir mitt málefnasvið sem forsætisráðherra. Heldur líka sem mikilvæga stofnun í mínu eigin lífi, svo ég leyfi mér að byrja aðeins á persónulegum nótum.</p> <p>Sum ykkar muna kannski eftir mér sem sumarstarfsmanni á skrifstofu seðlabankastjóra á árunum 2009 og 2010. Svo vann ég aðeins í bankanum meðfram náminu í hagfræði – þar sem ég var meðal annars nemandi núverandi seðlabankastjóra og reyndar fjármálaráðherra líka, og kenndi dæmatíma fyrir þá báða – sem er önnur saga.</p> <p>En starfið í Seðlabankanum var í rauninni fyrsta alvörustarfið mitt í þeim skilningi að það tengdist því námi sem ég hafði ákveðið að leggja fyrir mig á þeim tíma. Og það var sem sagt á því herrans ári 2009 – nokkrum mánuðum eftir bankahrunið. Þannig að þetta var vægast sagt áhugaverður tími og vakti hjá mér áhuga á hagstjórn og hvata til að afla mér frekari þekkingar og reynslu á því sviði.</p> <p>Fyrst vann ég fyrir Svein Harald Øygard seðlabankastjóra, sem ég hitti síðast fyrir tilviljun á gangi í Noregi í fyrra. Og síðan tók ég vel á móti Má Guðmundssyni þegar hann mætti til leiks – leysti Ellen af sem ritari seðlabankastjóra og vann meðal annars í alþjóðamálunum, til dæmis í samskiptum við lánshæfismatsfyrirtæki, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og svo framvegis.</p> <p>Hér kynntist ég öflugu fólki og skemmtilegum viðfangsefnum. Og ég vil bara fá að nota tækifærið núna og þakka fyrir mig – þakka fyrir móttökurnar á sínum tíma og það góða starf sem hér er unnið. Sem nýkjörinn forsætisráðherra var það síðan eitt af mínum fyrstu verkum að heimsækja Seðlabankann. Ég vænti þess að við munum eiga gjöfult samstarf á næstu árum.</p> <p>En áður en lengra er haldið vil ég staldra aðeins við árið 2009. Því að það var ekki bara merkilegt ár fyrir mig persónulega – heldur vill svo til að á þessum tíma áttu sér líka stað ákveðin kaflaskil í sögu Seðlabanka Íslands. Því að í febrúar 2009 var ákveðið á Alþingi að breyta um verklag við skipun seðlabankastjóra og reyndar við stjórn peningamála almennt:</p> <p>Seðlabankinn var settur undir faglega stjórn. Einn seðlabankastjóri sem var skipaður faglega kom í stað þriggja, dregið var úr beinum tengslum við pólitíkina og peningastefnunefnd var komið á fót – með skýrri og vandaðri umgjörð um vaxtaákvarðanir.</p> <p>Þannig má segja að tilraunin með íslensku krónuna, verðbólgumarkmið og sjálfstæðan seðlabanka hafi í raun hafist fyrir alvöru árið 2009 – þó að stefnan hafi að nafninu til verið tekin upp árið 2001. Sjálfstæði Seðlabankans var tryggt í raun og þar með trúverðugleiki peningastefnunnar.</p> <p>Og heilt yfir má segja að tilraunin hafi tekist vel þegar litið er til þeirra markmiða sem Seðlabankinn starfar eftir, samkvæmt lögum, um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og loks trausta og örugga fjármálastarfsemi eftir að Fjármálaeftirlitið sameinaðist Seðlabankanum árið 2020.</p> <p>Frá árunum 2009 og 2010 tókst að viðhalda efnahagslegum stöðugleika – lágri verðbólgu og lágum vöxtum – líklega yfir lengri tímabil en nokkru sinni áður í seinni tíma sögu Íslands. Og þá störfuðu hér ríkisstjórnir ýmissa flokka, vel að merkja. En frá því í lok árs 2021 hefur hins vegar verðbólgan verið of mikil og vextir fyrir vikið of háir. Hins vegar er ekki þar með sagt að sjálft fyrirkomulagið sem við störfum eftir eða umgjörðin um stjórn peningamála, sem ég lýsti hér áðan, hafi brugðist. Og ég tel reyndar að svo sé ekki og mun koma betur að því á eftir.</p> <p>Í bili vil ég bara segja: Þó að fólk hafi alls konar skoðanir á því hvaða peningastefna sé heppilegust fyrir Ísland, og hvernig svo sem við munum haga gjaldmiðlamálum í framtíðinni, þá er í öllu falli mikilvægt fyrir Ísland, sem fullvalda ríki, að geta starfrækt sterkan Seðlabanka sem heldur úti okkar eigin gjaldmiðli. Og við höfum sýnt að það getum við gert. Það er mikilvægt að hafa val um ólíkar leiðir í þessu efni eins og öðru.</p> <p>* * *</p> <p>Umræða um sjálfstæði Seðlabanka er ekki bara eitthvað pólitískt deilumál úr fortíðinni heldur þvert á móti. Það snýst um grundvallarafstöðu til þess hvernig hagstjórnarmarkmiðum okkar er best náð, og þar með til starfsemi Seðlabankans sem stofnunar.</p> <p>Pólitískt, sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar og formaður í sósíaldemókratískum stjórnmálaflokki, þá get ég sagt: Ég vil tryggja öryggi fyrir venjulegt fólk í daglegu lífi. Með kraftmikilli verðmætasköpun og sterkri velferð – sem fer best hönd í hönd. Og þá blasir við að Seðlabankinn er lykilbandamaður í að vinna að þessum markmiðum með því að stuðla að stöðugleika í efnahagslífi. Ekki í þeim skilningi að Seðlabankinn eigi að vera pólitískur. Heldur er reynslan einmitt sú að það virðist ganga best að tryggja stöðugleika þegar Seðlabankinn er sjálfstæður í sínum störfum.</p> <p>Þetta leiðir mig að meginskilaboðum mínum hér í dag: Þessi ríkisstjórn tekur ábyrgð á stjórn efnahagsmála í landinu. Fulla ábyrgð. Við munum ekki benda fingri á alla aðra þegar á móti blæs. Við virðum sjálfstæði Seðlabankans. Og við munum ekki beita bankann þrýstingi eða munnhöggvast við ókjörna embættismenn í fjölmiðlum um vaxtaákvarðanir, svo dæmi sé tekið. Ekki á minni vakt. Ég gerði það ekki í stjórnarandstöðu og mun ekki gera það í ríkisstjórn.</p> <p>Því að við trúum því að markmiðum um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og trausta og örugga fjármálastarfsemi sé best náð með sjálfstæðum seðlabanka. Að því sögðu er mikilvægt að taka fram að það er er ekkert nokkurn tímann meitlað í stein varðandi fyrirkomulag og umgjörð um stjórn peningamála. Allt er breytingum háð. En við sem leiðum stjórn landsmála setjum lögin og mörkum umgjörðina, Við skipum bankaráð og seðlabankastjóra. Og við berum ábyrgðina.</p> <p>Forystufólk í ríkisstjórn á ekki að beita peningastefnunefnd þrýstingi eða hlaupa pólitíska sigurhringi við hverja vaxtalækkun. Og ef ráðherrar eru óánægðir með árangurinn sem næst þá ættu þeir að líta í eigin barm, axla ábyrgð og leita leiða til að gera betur – til dæmis með breyttu verklagi – frekar en að hlaupast undan ábyrgð. Þarna hefur stundum orðið misbrestur á.</p> <p>En ég hef vonandi komið afstöðu minni skýrt til skila. Og ég tel að það skipti máli að hún heyrist hátt og snjallt – bæði fyrir trúverðugleika Seðlabankans í sínum störfum en ekki síður fyrir trúverðugleika þeirrar ríkisstjórnar sem ég er í forsvari fyrir. Því að ríkisstjórn sem er ekki meðvituð um eigin ábyrgð á stjórn efnahagsmála er um leið ólíkleg til að sinna hagstjórnarhlutverki sínu sem skyldi.</p> <p>Auðvitað fáum við sem erum í stjórnmálum – nú eða í Seðlabankanum – alltaf einhver ófyrirséð verkefni í fangið sem geta verið risavaxin og erfið viðureignar. Og fólk sýnir því skilning. Á síðustu árum má augljóslega nefna heimsfaraldur og eldsumbrotin í Grindavík. Nú eru blikur á lofti í alþjóðamálum. En svona verður þetta alltaf. Og þá er líka þeim mun mikilvægara að við höfum stjórn á því sem við getum þó stjórnað – eins og til dæmis í hagstjórn innanlands, í peningamálum og í ríkisfjármálum, sem ég mun víkja að aftur síðar.</p> <p>Eins og starfsmenn Seðlabankans þekkja orðið vel er stundum eins og okkur reki úr einni krísunni í aðra á nokkurra ára fresti. Á undanförnum árum hefur það hins vegar sýnt sig að Ísland hefur byggt upp umtalsverðan viðnámsþrótt gegn áföllum. Nú stöndum við frammi fyrir enn einni stórri áskorun í efnahagsmálum eftir að Bandaríkjastjórn ákvað að gjörbylta tollum sínum á innflutning og hefja, að því er virðist, mjög róttæka tilraun til að endurstilla leikreglur og umhverfi alþjóðlegra viðskipta. Nýjustu fréttir af því, frá því í gær, eru reyndar að forseti Bandaríkjanna hefur frestað gildistöku tollahækkana að mestu leyti um 90 daga að því er virðist.</p> <p>Atburðarásinni vindur nú hratt fram og erfitt er að segja til nákvæmlega hverjar efnahagslegu afleiðingarnar verða til skemmri og lengri – eða hversu langvarandi þessi stefnubreyting hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum verður. En við lítum þó svo á að þetta sé mikil óheillaþróun – ekki síst fyrir lítil opin hagkerfi, sem byggja lífskjör sín öðru fremur á alþjóðlegum viðskiptum. Það mun því reyna á að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Og það munum við gera.</p> <p>Fyrr í dag kom ég heim frá Brussel þar sem ég átti meðal annars langa og góða fundi með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB.</p> <p>Ég get greint frá því að málflutningur okkar mætti fullum skilningi og lögð var áhersla á mikilvægi þess að halda áfram góðu viðskiptasambandi milli EES-ríkjanna. Mín tilfinning er sú að ESB muni sýna skynsemi í viðbrögðum og fara með gát þegar kemur að mótvægisaðgerðum. Við höfum enga tryggingu í hendi. En það sem kom þó skýrt fram er þetta:</p> <p>Framkvæmdastjórn ESB heitir því að vera áfram í nánu sambandi við Ísland á næstu vikum og að engar ákvarðanir muni koma okkur í opna skjöldu. Og það liggur fyrir að það er ríkur vilji til að tryggja áfram góð samskipti Evrópusambandsins og Íslands. Þetta skiptir máli.</p> <p>Við verðum áfram í þéttu samtali og samstarfi við okkar nánustu vinaþjóðir og bandalagsríki. Þar vinnum við ekki síst náið með hinum EES/EFTA-ríkjunum. Gagnvart Bandaríkjunum höldum við á lofti sérstöðu Íslands og farsælu samstarfi ríkjanna til áratuga. Við munum veita atvinnulífinu það liðsinni sem þarf á alþjóðlegum vettvangi til að bregðast við neikvæðum áhrifum af völdum viðskiptahindrana – til dæmis ef greiða þarf götu útflutnings til nýrra markaðssvæða. Og síðast en ekki síst er áríðandi að efla áfallaþol Íslands með því að hafa styrka stjórn á því sem við getum þó stjórnað í efnahagsmálum okkar hér innanlands. Þannig að við höfum borð fyrir báru og getum tekist á við ófyrirséð verkefni og áskoranir.</p> <p>Næst vil því ég segja nokkur orð um stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við hér heima og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í því samhengi.</p> <p>* * *</p> <p>Fyrir það fyrsta: Ríkisfjármálin hafa ekki verið í lagi. Þau hafa verið ósjálfbær of lengi og burtséð frá ytri áföllum þá voru ríkisfjármálin ósjálfbær – til dæmis áður en faraldurinn skall á í byrjun árs 2020. Þetta liggur fyrir. Og þegar útgjöld ríkisins eru langt umfram tekjur, jafnvel í uppsveiflu, þá kyndir það auðvitað undir þenslu, verðbólgu og hærri vöxtum en ella. Þegar ríkið gerir minna til að kveða niður verðbólgu – þá þarf Seðlabankinn að gera meira.</p> <p>Góðu fréttirnar eru hins vegar þessar: Við erum að laga ríkisfjármálin. Það var algjört forgangsatriði hjá nýrri ríkisstjórn og við höfum tekið þessu verkefni mjög alvarlega. Þegar ríkisstjórnin var mynduð skömmu fyrir jól þá voru hallalaus fjárlög ríkisins ekki í augsýn á þessum áratug. Þannig var staðan.</p> <p>Nú höfum við lagt fram fjármálaáætlun með hallalausum fjárlögum strax árið 2027 – sem skapar um leið svigrúm til að styrkja Ísland með því að fjárfesta í öryggi og innviðum, með áherslu á vegabætur og heilbrigðiskerfið og öryggisnet almennings í daglegu lífi. Þetta var ekki auðvelt. Þetta verður ekki auðvelt. Og við erum ekki værukær gagnvart þessu verkefni. Þvert á móti.</p> <p>En ég fullyrði að okkur mun takast þetta. Því það skiptir öllu máli – meðal annars til að tryggja öryggi og varnir landsins á viðsjárverðum tímum – að okkur takist að laga ríkisfjármálin með því að gera þau sjálfbær aftur. Þess vegna er það höfuðáhersla hjá nýrri ríkisstjórn og við vitum að þetta er lykilatriði fyrir almenning og atvinnulíf í landinu.</p> <p>Og hvernig náum við þessu markmiði? Með forgangsröðun, með hagræðingu og, já, með tekjuöflun. Því að til að ríkisfjármálin geti verið sjálfbær þá þurfa tekjur að standa undir útgjöldum til lengri tíma litið. Og já, þá þarf líka að þora að taka erfiðar ákvarðanir. Velja og hafna. Ef þetta væri auðvelt þá væri búið að laga þetta fyrir löngu.</p> <p>Ég segi það bara hreint út: Ég er stolt af fyrstu fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar – bæði af þeim pólitísku áherslum sem þar eru markaðar en ekki síður af ábyrgri hagstjórn sem áætlunin boðar. Og loks má nefna nýtt verklag sem ég vænti að auki trúverðugleika fjármálaáætlunar heilt yfir:</p> <p>Í fyrsta lagi eru engar svokallaðar óútfærðar afkomubætandi ráðstafanir í þessari áætlun. Og það er ekki ráðist í flatt aðhald þvert á alla málaflokka sem kroppar í hvert málefnasvið, dregur úr viðhaldi, dregur úr fjárfestingu og frestar verkefnum en breytir því ekki hvernig er stjórnað til framtíðar. Þess í stað hefur hagræðingu verið skipt niður á málefnasvið út frá tilteknum tillögum og verkefnum sem samstaða er um að ráðast í og ráðuneytum hefur verið falið að útfæra nánar.</p> <p>Í öðru lagi birtist nýtt verklag í því að ný fjármálaáætlun gengur mun lengra en áður hefur verið við gerð hreinna rammafjárlaga. Ríkisstjórnin kom sér fyrst saman um almennan útgjaldaramma og tók svo ákvörðun um hvernig hann skiptist milli einstakra málefnasviða. Það er síðan ráðherra hvers og eins málefnasviðs að ákveða nánari útfærslu á sínum ramma – sem birtist svo í fjárlögum að hausti.</p> <p>Með þessu móti fá ráðherrar aukið svigrúm til að forgangsraða fjármunum til verkefna sem þeir telja mikilvæg og til að skapa svigrúm fyrir nýjar áherslur með því að draga úr eða hætta öðru í staðinn. Þetta breytta vinnulag er liður í að tryggja aukna festu í fjármálastjórn hins opinbera og ýta um leið undir sífellt endurmat á öllum viðfangsefnum ríkisins</p> <p>Í þriðja lagi er rétt að nefna nýja stöðugleikareglu í ríkisfjármálum sem er til mikilla bóta og felur í sér viðmið um jafnan vöxt ríkisútgjalda til lengri tíma – eftir því sem fólki fjölgar og hagkerfið stækkar – í stað þess að ríkisútgjöldin rjúki upp þegar vel árar en skreppi svo jafnharðan aftur saman þegar verr árar. Eins og stundum hefur verið raunin og hefur þá ýkt upp hagsveifluna þegar betra væri að milda hana frá ári til árs.</p> <p>Stöðugleikareglan felur auðvitað í sér ákveðinn sveigjanleika. Til dæmis mega útgjöld aukast meira ef tekjur koma á móti, eins og eðlilegt er, og svo er mikilvægt að taka fram að fjárfesting er tekin út fyrir sviga og undanskilin stöðugleikareglunni. Það er með ráðum gert. Reglan á fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi milli reglulegra tekna og rekstrarútgjalda hjá ríkinu. En það var lykilatriði í okkar huga að innleiða ekki reglu sem skapaði hvata til að draga úr eða fresta nauðsynlegri fjárfestingu í innviðum. Því að það hefur verið hluti af vandamálinu. Við ætlum okkur að auka fjárfestingu frekar en hitt – en stundum hafa illa útfærðar reglur um ríkisfjármál verið uppfylltar með því að draga úr fjárfestingu, sem getur fegrað bókhaldið til skemmri tíma en verið dýrkeypt til lengri tíma litið.</p> <p>* * *</p> <p>En þó við séum stolt af nýrri fjármálaáætlun þá vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan: Við erum ekki værukær. Við erum örugg við stýrið og treystum okkar stefnu. En fögnum ekki sigri of snemma.</p> <p>Við erum til dæmis meðvituð um að verðbólguvæntingar virðast enn vera of miklar – og eru nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þessar væntingar ráða miklu um þróun verðbólgunnar í raun og þess vegna fylgjumst við vel með og við ætlum að ná þeim niður.</p> <p>Kæru ársfundargestir.</p> <p>Ef við lítum aðeins lengra fram á veginn þá er ljóst að fleira þarf til en sjálfbær ríkisfjármál til að efla verðmætasköpun og styrkja velferð á Íslandi. Þó að það sé fyrsta verk, samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta – með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.</p> <p>Við setjum markið hærra. Við ætlum að stækka kökuna og styrkja velferðina til lengri tíma og til þess þarf að huga að fleiri þáttum sem tengjast starfsemi Seðlabankans ýmist beint eða óbeint: Eins og til dæmis fjárfestingu í innviðum og aðkomu lífeyrissjóða að slíkri fjárfestingu. Mótun atvinnustefnu um uppbyggingu atvinnuvega og hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með áherslu á framleiðni og vel launuð störf. Og þá má nefna víðtækar umbætur hjá hinu opinbera – meðal annars til að liðka fyrir framkvæmdum og uppbyggingu sem stendur undir raunhæfum væntingum fólksins í landinu.</p> <p>Ég er til dæmis hugsi yfir því að það hafi ekki gengið betur en raun ber vitni að lyfta fjárfestingu hins opinbera í nauðsynlegum innviðum. Og stundum hefur verið sagt að fjárheimildir sem Alþingi hefur samþykkt hafi ekki „leitað út“ – það hafi bara hreinlega ekki tekist að veita fjármagni til fjárfestingar og framkvæmda. Þetta hefur verið sagt um uppbyggingu hjúkrunarheimila, til dæmis, en þar erum við að vinna að ákveðnum kerfisbreytingum. Og það sama hefur átt við um uppbyggingu á húsnæði almennt – til að halda aftur af húsnæðisverðshækkunum sem eru langt umfram verðlag í landinu.</p> <p>Auðvitað eru margir þættir sem spila þarna inn í. Meðal annars atvinnustefna og atvinnuuppbygging sem hefur verið einkum verið drifin áfram af hraðri fólksfjölgun sem vegur þungt á eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðar. En það verður að segjast að við höfum líka klikkað á að skaffa nægt framboð af húsnæði yfir lengri tíma. Og það er eitthvað að þegar þetta er staðan – þó að það sama eigi við víða á Vesturlöndum.</p> <p>Húsnæði er grunnþörf. Við viljum ekki að húsnæði sé eins og hver önnur fjárfestingarvara. Og ef hið opinbera skapar ekki umgjörð um húsnæðismarkað sem uppfyllir grunnþarfir – án þess að því fylgi sligandi kostnaður fyrir vinnandi fólk – þá erum við að bregðast. Þá er ríkið ekki að virka sem skyldi.</p> <p>Ný ríkisstjórn hefur einbeittan vilja til verklegra framkvæmda. Við höfum þegar sýnt það og gengið hreint til verks í orkumálum, svo dæmi sé tekið. Við ætlum að skoða hratt og vel kosti þess að stofna innviðafélag til að lyfta fjárfestingu í samgöngum með þátttöku lífeyrissjóða og annarra fjárfesta. Og við höfum boðað að atvinnustefnuráð taki til starfa í haust – sem ég hef rætt á öðrum vettvangi.</p> <p>En ég er líka að verða sífellt sannfærðari um að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að liðka fyrir framkvæmdum – til að við getum farið að byggja aftur hraðar og meira. Þar þurfum við að horfa til breytinga á skipulagslöggjöf eða róttækri endurskoðun á regluverki til einföldunar – sem oft hefur verið kallað eftir en lítið gert til að koma í framkvæmd. Ný ríkisstjórn verður óhrædd við að hrista upp í kerfinu, ef svo má segja, og við höfum verk að vinna í þessum efnum í þágu lands og þjóðar.</p> <p>Ársfundur og ágæta seðlabankafólk.</p> <p>Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka þeim Gunnari Jakobssyni og Rannveigu Sigurðardóttur, sem bæði létu af störfum sem varaseðlabankastjórar á liðnu ári, fyrir störf þeirra í þágu Seðlabankans. Gunnar hélt til annarra starfa síðastliðið sumar en Rannveig lauk um síðustu áramót fimm ára tímabili sem varaseðlabankastjóri peningastefnu eftir að hafa starfað í bankanum í meira en tvo áratugi. Þá þakka ég Guðmundi Kr. Tómassyni sem nýlega lauk fimm ára setu í fjármálastöðugleikanefnd en starf hans í bankanum spannar einnig tvo áratugi.</p> <p>Síðast en ekki síst vil ég þakka bankaráði Seðlabankans, stjórnendum og öllu starfsfólki bankans fyrir vel unnin störf. Takk fyrir áheyrnina og gangi ykkur sem allra best.</p>
11. febrúar 2025Blá ör til hægriStefnuræða Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra - 10. febrúar 2025<p>Frú forseti – háttvirtir þingmenn. Það er heiður og mikil ábyrgð sem fylgir því að sitja á Alþingi Íslendinga. Til hamingju. Þjóðin hefur kosið. Þing er sett. Nú munu verkin tala.</p> <p>Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Og með nýrri stjórn fylgir nýtt verklag.</p> <p>Enda vorum við kosin til að leiða breytingar. Hvergi í vestrænu lýðræðisríki var eins mikil sveifla í kosningum á árinu 2024 eins og hér á Íslandi. Sem leiddi til hreinna stjórnarskipta. Og væntingar landsmanna hafa aldrei aukist eins mikið, samkvæmt mælingum á væntingavísitölu milli mánaða, eins og eftir að boðað var til þingkosninga síðasta haust.</p> <p>Ég segi þetta vegna þess að það er von í lofti og miklum væntingum fylgir mikil ábyrgð – sem við þingmenn skulum öll vera meðvituð um og taka alvarlega. Til að standa okkur í starfinu og til að breyta í þágu lands og þjóðar.</p> <p>Ég vænti þess að við getum átt gæfuríkt samstarf hér á Alþingi, milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þvert á flokka. Auðvitað verður líka tekist á. En það verður þá á lýðræðislegan og málefnalegan hátt – með hagsmuni Íslands í fyrsta sæti, ofar öllu öðru.</p> <p>Forseti. Nýtt verklag birtist með ýmsum hætti.</p> <p>Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er stutt og skýr, eins og tíðkaðist áður fyrr, og byggir á trausti í stað tilrauna til að binda niður allt og alla með málalengingum og orðskrúði.</p> <p>Við vitum að verkin tala. Og höfum notað tímann vel á síðustu vikum. Til undirbúnings – með því að virkja stjórnkerfið og byrja á sjálfum okkur.</p> <p>Nýtt verklag lýsir sér meðal annars í því að labba ekki inn í ráðuneytin og spyrja: Hvernig hefur þetta alltaf verið gert? Heldur gefa tóninn strax og hrista upp í hlutunum – og spyrja: Hvernig getum við virkjað þjóðina með okkur? Sem hefur nú skilað sér í 10 þúsund tillögum um hagsýni í ríkisrekstri – frá almenningi, atvinnurekendum, stéttarfélögum og stjórnendum og starfsfólki hins opinbera.</p> <p>Takk! Takk fyrir að taka þátt og taka þessu svona vel. Ég veit að við munum ná árangri saman – og ég sé að verkefnið er þegar farið að skila árangri, með því að seytla um stjórnkerfið og samfélagið allt.</p> <p>Nýtt verklag birtist líka í því hvernig við vinnum saman. Til dæmis með reglulegum sameiginlegum þingflokksfundum hjá stjórnarflokkum. Þá hef ég átt fundi einslega með hverjum einasta ráðherra til að stilla upp sterkri þingmálaskrá fyrir vorþingið – sem er trúverðug og sóar ekki dýrmætum tíma í mál sem munu aldrei komast til framkvæmda. Og að undanförnu hef ég sem forsætisráðherra farið í heimsóknir í ráðuneytin til að hitta fólkið sem vinnur á gólfinu í stjórnkerfinu. Með leyfi forseta:</p> <p>„Ég hef unnið með 18 dómsmálaráðherrum en aldrei fengið forsætisráðherra í heimsókn,“ sagði ein. Sama sagði önnur eftir 21 ár í heilbrigðisráðuneytinu. Maður fyllist auðmýkt og virðingu við að hitta þetta fólk. Og það er hollt að minna sig á að margt er svo vel gert – þó að mörgu ætlum við að breyta, eins og við vorum kosin til að gera.</p> <p>Ísland er frábært land. En við forðumst ekki stórar og jafnvel erfiðar ákvarðanir. Við ætlum áfram.</p> <p>Og það gleður mig að greina frá því, forseti, að það er full eining í þessari ríkisstjórn um öll þau mál sem birtast í þingmálaskrá sem fylgir stefnuræðu minni sem forsætisráðherra. Það er ánægjulegt eftir það sem á undan hefur gengið og lofar góðu fyrir uppbyggilegt starf á Alþingi í vor.</p> <p>* * *</p> <p>Fyrst ber að nefna aðgerðir til að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta. Stöðugleikaregla verður leidd í lög um fjármál ríkisins til að styðja við lægri vexti – með frumvarpi fjármálaráðherra sem verður lagt fyrir Alþingi seinna í þessum mánuði. Þá hefur ríkisstjórnin sammælst um að engin ný útgjöld verði á árinu 2025 án þess að hagræða eða afla tekna á móti til að gæta jafnvægis. Í lok þessa mánaðar mun hagræðingarhópur skila tillögum til ríkisstjórnarinnar um hagsýni í ríkisrekstri.</p> <p>Til að stemma stigu við óstöðugleika á húsnæðismarkaði verður gripið til bráðaaðgerða strax í vor. Við munum taka styrkari stjórn á skammtímaleigu til ferðamanna, tryggja skilvirkari framkvæmd við veitingu hlutdeildarlána, lækka fjármögnunarkostnað hjá húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða og liðka fyrir uppbyggingu einingahúsa. Þá verður innleidd skráningarskylda leigusamninga til að fá áreiðanlegri og skýrari mynd af þróun leiguverðs.</p> <p>* * *</p> <p>Næst vil ég nefna afmarkaðar aðgerðir í velferðarmálum á árinu 2025 sem skipta miklu máli – en kosta ríkissjóð hlutfallslega lítið og koma hratt til framkvæmda.</p> <p>Meðferðarúrræðum verður ekki lokað í sumar – enda fer fíknisjúkdómurinn ekki í sumarfrí. Samhliða því að tryggja farsæla framkvæmd á breytingum á örorkulífeyriskerfinu munum við stíga fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar að bættum kjörum öryrkja og eldra fólks. Aldursviðbót örorkulífeyris mun haldast ævilangt, samkvæmt frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sem verður lagt fram í mars – og fellur þá ekki niður þegar öryrki nær 67 ára aldri eins og nú er raunin. Stöðu hagsmunafulltrúa eldra fólks verður komið á fót til að kortleggja félagslega stöðu þessa hóps og gera tillögur til úrbóta. Og þá verður kjaragliðnun launa og lífeyris loksins stöðvuð með lögum um að bæði örorku- og ellilífeyrir Tryggingastofnunar ríkisins hækki á hverju ári til samræmis við launavísitölu – en þó aldrei minna en verðlag. Þessi lög taka gildi með fjárlögum 1. janúar 2026.</p> <p>Fyrstu breytingar nýrrar ríkisstjórnar á fæðingarorlofskerfinu munu sömuleiðis skipta sköpum fyrir marga – með frumvarpi í mars til að bæta hag fjölburaforeldra, lengja fæðingarorlof foreldra sem veikjast á meðgöngu eða eftir fæðingu og tryggja að hærri greiðslur gangi til allra foreldra sem eru í orlofi, óháð fæðingardegi barns. Þá verða fæðingarstyrkir námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar hækkaðir um 30 þúsund krónur á mánuði.</p> <p>En stóra einstaka velferðar- og mannréttindamálið sem ríkisstjórnin leggur fram í vor er það að við ætlum, loksins, að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það verður stór stund og þýðingarmikil fyrir okkur sem þjóð.</p> <p>* * *</p> <p>Svo má nefna ýmsar aðgerðir til að auka verðmætasköpun í atvinnulífi og réttlæti í auðlindanýtingu. Við ætlum að höggva á hnútinn í orkumálum og verðum með að minnsta kosti fjögur stór þingmál í vor sem snúa að orkuöflun: Frumvarp strax á fyrstu dögum þings til að eyða óvissu um Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir. Orkuforgangur almennings verður á dagskrá, ásamt umfangsmiklu einföldunarfrumvarpi til að hraða og samræma málsmeðferð í leyfisveitingum – án þess að slá af kröfum um umhverfisvernd og almannasamráð – og svo verður lögð fram ný rammaáætlun þar sem virkjunarkostir verða flokkaðir í verndarflokk eða nýtingarflokk samkvæmt tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar.</p> <p>Með þessu styður ríkisstjórnin bæði við verðmætasköpun og orkuskipti um land allt. Einnig er hafinn undirbúningur að nýjum heildarlögum um loftslagsmál sem leggja á fyrir Alþingi næsta haust. Sama gildir um samgönguáætlun sem verður í forgangi á haustþingi.</p> <p>Í sjávarútvegsmálum eru stór verkefni. Atvinnuvegaráðherra leggur fram frumvarp í febrúar sem eykur gagnsæi í greininni, svo sem þegar kemur að eignarhaldi tengdra aðila. Strandveiðar verða styrktar og tryggðar í 48 daga í sumar og breytingar gerðar á veiðigjaldi til að það endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti.</p> <p>* * *</p> <p>Og svo mætti lengi telja: Fækkun ráðuneyta með 350 milljóna hagræðingu á ári. Sala Íslandsbanka í gagnsæju og traustu ferli þar sem almenningur hefur forgang. Fjölgun lögreglumanna um 50 strax á þessu ári. Frumvarp sem gerir lögreglu kleift að krefjast farþegaupplýsinga verður lagt fyrir Alþingi seinna í þessum mánuði. Afturköllun á alþjóðlegri vernd fyrir einstaklinga sem fremja alvarleg brot eða síendurtekin. Sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa maka. Heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga – sem er veigamikið mál. Við ætlum að gera lagfæringar á lögum um leigubíla. Og sameina sýslumannsembætti úr 9 í 1 – án þess að það komi niður á þjónustu á landsbyggðunum.</p> <p>Þá verða styrkir til einkarekinna fjölmiðla endurskoðaðir og hámark þeirra lækkað strax í vor. Með breytingum á lögum um sviðslistir munum við bæta umgjörð óperustarfsemi og koma rekstrinum fyrir innan Þjóðleikhússins. Þar eru mikil sóknarfæri.</p> <p>* * *</p> <p>Í menntamálum verða nokkur mikilvæg frumvörp lögð fram. Meðal annars um nýtt fyrirkomulag við námsmat í grunnskólum og sömuleiðis um námsgögn – sem snýr bæði að fjölbreyttu framboði og því að gera námsgögn gjaldfrjáls í áföngum í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Námslánakerfinu verður breytt þannig að hluti lána breytist í styrk í lok annar, og fleiri breytingar verða gerðar á Menntasjóði námsmanna.</p> <p>Og þó að forsætisráðherra komi ekki með beinum hætti að gerð kjarasamninga þá hefur þessi ríkisstjórn lýst sig reiðubúna til að liðka fyrir samningum við kennara með því að standa einhuga að því að flýta virðismatsvegferð og með því að flýta aðgerðum í menntamálum til að taka á breyttri stöðu í skólasamfélaginu og bæta aðstæður kennara og nemenda. Við skiljum þörfina og við skiljum líka að traustið er laskað og nú þarf að byggja það upp að nýju.</p> <p>Í heilbrigðismálum verður ráðist í ýmsar umbætur til viðbótar við styrkingu meðferðarúrræða – eins og til dæmis reglugerðarbreytingar til að draga úr skriffinnsku og vottorðafargani. Þannig gefum við heilbrigðisstarfsfólki meiri tíma með sjúklingum. Rafræn sjúkraskrá verður skylda svo að hægt sé að samnýta upplýsingar. Og áhersla nýrrar ríkisstjórnar á heilbrigðismál mun birtast með skýrum hætti í fyrstu fjárlögum á haustþingi.</p> <p>Forseti, háttvirtir þingmenn og góðir Íslendingar. Það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og margir hafa áhyggjur af þróun og stöðu mannréttinda. Ég vil byrja á að lýsa því yfir hér að þessi ríkisstjórn mun ekki gefa eina tommu eftir þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks, kvenna, jaðarsettra eða nokkurs manns. Það kemur ekki til greina.</p> <p>Í samhengi alþjóðamála erum við sannarlega heppin með hæstvirtan utanríkisráðherra – enda ekki að ástæðulausu sem formaður eins af stjórnarflokkunum tók að sér þetta mikilvæga embætti. Mesti reynsluboltinn í ríkisstjórninni – reyndar á Alþingi líka og líklega í íslenskum stjórnmálum heilt yfir. Á næstu árum mun koma sér vel að vera með ofurtrausta konu í forsvari fyrir Ísland í utanríkismálum, og saman munum við takast á við þróun mála í þéttu samstarfi við okkar næstu nágranna, vinaþjóðir og bandalagsríki. Við Íslendingar eigum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og fullveldi ríkja og munum beita okkur í samræmi við þetta.</p> <p>Að lokum vil ég segja: Ég er stolt af nýrri ríkisstjórn – sem er ólík nokkurri annarri ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar. Ekki vegna þess að Samfylking er í forystu og stærsti flokkurinn á Alþingi – sem þó er aðeins í annað sinn, frá upphafi, sem Sjálfstæðisflokkur er ekki í þeirri stöðu. Og ekki bara vegna þess það eru þrjár konur í forystu – þó að það sé líka óvenjulegt.</p> <p>Heldur vegna þess að við erum kraftmikil og samstíga ríkisstjórn með sterkt umboð til breytinga, þar sem tveir af þremur stjórnarflokkum voru stofnaðir árið 2016, fyrir 9 árum – og annar þessara flokka var stofnaður á stofugólfinu hjá stoltum öryrkja, baráttukonu á miðjum aldri, sem er lögblind og fékk ekki agnarögn af forréttindum í meðgjöf en skellti sér á skólabekk um fimmtugt til að læra lögfræði – og hefur þegar náð ótrúlegum árangri í sinni baráttu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins, öryrkja og eldra fólk. Og nú er hún hæstvirtur félags- og húsnæðismálaráðherra.</p> <p>Hvar annars staðar en á Íslandi? Hvar annars staðar en á Íslandi gæti þetta gerst? Og sýnir þetta ekki hvers konar samfélag við eigum hérna saman og hvað við höfum að verja?</p> <p>Sama hvað hver segir og burtséð frá pólitískum skoðunum – þá megum við öll vera hreykin af þessu samfélagi sem við höfum byggt og stolt af Ingu Sæland. Þetta er stórt. Og við höfum verk að vinna.</p> <p>Hæstvirtur forseti, þingmenn, ráðherrar – megi okkur öllum ganga sem best að standa undir ábyrgð okkar og skyldum gagnvart fólkinu í landinu.</p>
31. desember 2024Blá ör til hægriÁramótaávarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra 31. desember 2024<p style="text-align: left;"><span style="text-align: left;">Góðir Íslendingar, gleðilega hátíð.</span></p> <p>Áramót gefa tilefni til að staldra við og huga að tímanum sem líður og horfa um leið til framtíðar. Þau vekja minningar og tilfinningar en líka vonir og drauma. Hvert og eitt eigum við sérstæða upplifun af árinu sem senn er á enda. Hjá mörgum ríkir gleði á meðan aðrir finna fyrir sorg og söknuði á þessum tímamótum – eða einhvers konar blöndu sem má kalla ljúfsára tilfinningu. Slíku deilum við helst með okkar nánustu fjölskyldu, vinum og samferðafólki. En sumir eru einir og á þessum tíma árs skulum við hugsa sérstaklega hlýtt til þeirra sem eru einmana.</p> <p>Margt eigum við þó sameiginlegt með öllum Íslendingum – sem miklu skiptir og bindur okkur saman sem þjóð. Það getur átt við um minningar frá liðnum tíma en líka vonir okkar um það sem verða skal.</p> <p>Í þessu felst styrkur. Því saman getum við tekist á við hvern þann vanda sem að okkur steðjar og það munum við gera. Við ætlum að halda áfram að sækja fram og styrkja og varðveita það sem við eigum hérna saman.</p> <p>Kæru landsmenn, á þessari stundu vil ég taka stöðuna, eins og stundum er sagt: Hvar stendur Ísland? Hvernig líður þjóðinni? Höfum við gengið til góðs og hvert liggur leiðin?</p> <p>Við vitum að síðustu ár hafa verið mörgum erfið, svo sem vegna faraldurs, eldsumbrota í Grindavík og síðast en ekki síst vegna stöðu efnahagsmála. Náttúruöflin verður alltaf erfitt að eiga við – en stjórn efnahagsmála er í okkar höndum hvað sem líður ytri aðstæðum.</p> <p>Verðbólga og háir vextir hafa þrengt að heimilum og vegið að eðlilegum starfsskilyrðum í atvinnulífi. Við munum taka á þessu. Það verður ekki alltaf auðvelt. En þetta er algjört forgangsverkefni hjá nýrri ríkisstjórn.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Á sama tíma hefur grafið um sig tilfinning meðal þjóðarinnar um að velferðarkerfið okkar – gersemi og þjóðarstolt þess samfélags sem við höfum byggt hér upp – standi ekki lengur undir eðlilegum og réttmætum væntingum fólksins í landinu. Og þetta er ekki aðeins tilfinning heldur blákaldur veruleiki margra. Við vitum að Ísland er auðugt land og hér er mikil efnahagsleg velsæld. Um það vitna allar hagtölur. En framhjá þessari tilfinningu og veruleika fólks verður ekki litið.</p> <p>Á meðan margir sjá samfellda framfaragöngu þá geta aðrir upplifað afturför og fundið fyrir slíku á eigin skinni. Það verður ekki skýrt í burtu með vísun í opinberar hagtölur. Því að fólkið í landinu veit sínu viti og það er tilfinning of margra að hér sé vitlaust gefið. Þegar svo er þá ber okkur sem veitum forystu í stjórnmálum að gefa því gaum og hugleiða alvarlega hvað megi betur fara.</p> <p>Það þýðir ekki að allt sé ómögulegt á Íslandi. Þvert á móti. Ísland er frábært land og við megum vera stolt – en aldrei fyllast sjálfumgleði. Það er eilífðarverkefni að byggja velferðarsamfélag. Og hlutverk stjórnmálaleiðtoga er ekki að útskýra fyrir fólki hvað það hafi það gott – heldur að leiða sókn og leysa vanda með því að láta verkin tala.</p> <p>Þetta er áskorun sem við tökumst á hendur með vongleði og kjark í brjósti. Til þess vorum við kosin.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Í alþjóðlegu samhengi er staða Íslands góð. Við megum vera þakklát fyrir að búa við frið. En það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og því fylgja alvarleg viðfangsefni fyrir stjórnvöld, hérlendis eins og annars staðar.</p> <p>Stríðsrekstur í okkar heimshluta minnir illilega á að öryggi og friður eru grundvallarforsenda frelsis og velmegunar. Við Íslendingar eigum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og rétti fullvalda ríkja. Þess vegna verðum við að taka virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi og fordæma með afgerandi hætti hvers kyns brot á alþjóðalögum. Á næstu árum skulum við leitast við að efla enn frekar samstarf okkar við önnur vestræn lýðræðisríki – þar á meðal vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Í það heila tekið má segja að aðstæður í efnahags- og velferðarmálum séu krefjandi. Það sama gildir um ytri aðstæður og þróun alþjóðamála. En krefjandi aðstæður eru ekkert nýtt – og hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Heimsbyggðin hefur svo sannarlega séð það svartara. Og fyrri kynslóðir Íslendinga hafa verið stórhuga og yfirstigið meiriháttar þrekraunir. Við getum gert slíkt hið sama – ef við göngum samstíga til verka.</p> <p>Þrátt fyrir allt eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Aldrei hafa fleiri kosið í lýðræðislegum kosningum eins og á árinu 2024. Tæplegar helmingur jarðarbúa gekk til landskosninga.</p> <p>Á Íslandi fóru fram kosningar til embættis forseta og til Alþingis. Kosningaþátttaka var góð. Fólkið valdi nýjan forseta og ný ríkisstjórn tók til starfa fyrir 10 dögum. Fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, þökkum við fyrir störf hans í þágu lands og þjóðar. Og við óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Sömuleiðis ber að þakka fráfarandi ríkisstjórn fyrir að standa vaktina við stjórn landsins síðustu ár.</p> <p>Ljóst er að niðurstöður þingkosninga þann 30. nóvember voru sögulegar á marga lund. Skýrt ákall um breytingar hljómaði hátt og snjallt, vítt og breitt um land, og það endurspeglast meðal annars í hreinum stjórnarskiptum sem er sjaldgæft í íslenskum stjórnmálum. Þrír flokkar hafa myndað nýja ríkisstjórn, sem ekki voru áður í stjórn, eftir að hafa fengið sterkt umboð í kosningunum – samanlagt ríflega meirihluta atkvæða.</p> <p>Breytingar eru eðlilegur hluti af lýðræðislegu þjóðskipulagi. Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka og hefur einsett sér að standa undir væntingum fólks um breytingar í veigamiklum málaflokkum, líkt og rakið er í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.</p> <p>Þó gengið verði rösklega til verka er nauðsynlegt að gera það af virðingu. Gæta þarf að sjónarmiðum þeirra sem greiddu atkvæði sitt til flokka sem nú standa utan ríkisstjórnar eða jafnvel utan Alþingis. Ég heiti því að leggja mig fram um að gegna embætti forsætisráðherra í þágu allra landsmanna.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Nú er von í lofti og segja má að andi breytinga svífi yfir vötnum í íslensku samfélagi. Við vitum að tækifæri okkar eru stórfengleg. Við vitum líka að verkefnin eru stór og blasa hvarvetna við okkur. En við ætlum að takast á við vandamálin í sameiningu og leysa þau eftir fremsta megni.</p> <p>Ég mun leitast við að tala kjark í þjóðina með því að segja hlutina eins og þeir eru og tala af hreinskilni um verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki allt auðvelt. En við höfum skyldum að gegna, gagnvart hvert öðru, landi og þjóð.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Fyrsta verk er að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið er nauðsynlegt að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífi.</p> <p>Heimili og fyrirtæki hafa þegar gripið til aðgerða til að hagræða. Ríkisstjórnin mun gera það sama og á fyrsta vinnudegi nýs árs efnum við til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri.</p> <p>Vandinn hefur verið sá, á umliðnum árum, að stjórnvöld hafa gjarnan samþykkt að auka útgjöld – án þess að ná saman um að afla fjár eða draga úr öðrum útgjöldum á móti. Þegar þessi háttur er hafður á, og bætt ofan á mikla þenslu í hagkerfinu, þá kyndir það undir verðbólgu og leiðir þar með til hærri vaxta en ella.</p> <p>Því er afar mikilvægt, og gleðilegt, að ný ríkisstjórn hafi náð fullri samstöðu um að eyða ekki um efni fram. Þess í stað hyggst ríkisstjórnin hagræða og grípa til aðgerða til að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Einnig verða tekin upp almenn og réttlát auðlindagjöld til þess að standa undir aukinni fjárfestingu í innviðum. Þetta eru mikilsverð tíðindi sem lofa góðu. Þá er brýnt að skoða ofan í kjölinn ýmsa kerfislæga þætti sem valda ójafnvægi í íslensku hagkerfi – lánamarkað, húsnæðismál og gjaldmiðil.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Með þessari stjórnarstefnu má vænta þess að vextir lækki þegar líður á næsta ár. Heimili og fyrirtæki munu njóta þess þegar í stað. Og eftir því sem hagur okkar vænkast mun skapast svigrúm fyrir nýja ríkisstjórn til að hefjast handa við að lyfta greiðslum almannatrygginga og styrkja heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt, svo dæmi séu nefnd.</p> <p>Á meðal fyrstu verka í velferðarmálum, sem hægt verður að ráðast í hratt á nýju ári, er að fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda og tryggja að þeim verði ekki lokað yfir sumartímann. Þá verður ráðist í bráðaaðgerðir til að setja húsnæðisöryggi í forgang og ný ríkisstjórn leggur sérstaka áherslu á að stytta biðtíma barna eftir nauðsynlegri þjónustu.</p> <p>Kjaragliðnun launa og lífeyris verður stöðvuð strax með því að tryggja að örorku- og ellilífeyrir hækki á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu – en þó aldrei minna en verðlag.</p> <p style="text-align: center;">* * *</p> <p>Ríkisstjórnin mun ganga rösklega til verka í orkumálum með aðgerðum til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta nýtni. Þannig verður stutt við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.</p> <p>Þá hyggst ríkisstjórnin leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, meðal annars fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur. Og þjóðinni gefinn kostur á að segja hug sinn varðandi framhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, eigi síðar en á árinu 2027.</p> <p>Margt fleira mætti nefna en stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er stutt og skýr og segir sína sögu.</p> <p>Kæru landsmenn. Allt hefur sinn tíma. Og nú eru tímamót. Það er gleðilegt að finna vonir glæðast, vítt um land, og sjá að sú tilfinning birtist í mánaðarlegum mælingum á væntingum landsmanna.</p> <p>Ég trúi því af heilum hug að það sé bjart framundan fyrir okkur sem hér búum og í íslensku þjóðlífi. Saman getum við náð miklum árangri í næstu framtíð og lagt grunninn að enn fegurra Íslandi, þar sem allir fá sæti við borðið – og tækifæri til að tilheyra, taka þátt og eiga hlutdeild í samfélaginu.</p> <p>Komum hreint fram. Stöndum saman. Göngum í verkin.</p> <p>Ég óska landsmönnum öllum gæfu á nýju ári og hamingju með hækkandi sól.</p>
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta