Hátíðarræða forsætisráðherra á 17. júní
Góðir landsmenn. Gleðilega hátíð.
Fyrir 73 árum, í júnímánuði lýðveldisárið 1944, fæddust um 300 börn á Íslandi og var meðalævilengd Íslendinga á þeim tíma um 67 ár. Á lýðveldistímanum hefur meðalævi lengst um 15 ár, hvorki meira né minna. Það er undraverð breyting á svo skömmum tíma. Sama hvert litið er, framfarirnar eru meiri en nokkurn gat órað fyrir. Lífskjör, lífsgæði, velferð, heilsa, jafnrétti.
Á undanförnum árum hafa nýir mælikvarðar fyrir velsæld verið þróaðir og er sífellt meira horft til þeirra í alþjóðlegum samanburði. Hefðbundið er að mæla efnahagslegar stærðir, eins og landsframleiðslu á mann eða hagvöxt. Nú beina vísindamenn í auknum mæli athyglinni að öðrum þáttum sem þykja geta sagt betur til um lífshamingju, öryggi og almenna velsæld.
Niðurstaðan í nær öllum mælingum er sú að Ísland er í efstu tíu sætunum í heiminum þegar lífsgæði þjóða eru borin saman.
Við erum í hópi hinna lánsömu Norðurlandaþjóða sem hefur tekist að búa til betri og réttlátari samfélög en dæmi eru til um í mannkynssögunni. Þeir Íslendingar sem voru viðstaddir þá sögulegu stund þegar lýst var yfir sjálfstæði landsins hljóta að vera stoltir af þeim árangri sem Ísland hefur náð.
Lýðveldið Ísland er vel heppnað. Um það verður tæpast deilt.
Meirihluti mannkyns hefur upplifað gjöfula tíma eftir seinni heimstyrjöldina. Meðalmanneskja á jörðinni hefur aflað sér meira en þrefaldra tekna eftirstríðsáranna, nærst á þriðjungi fleiri hitaeiningum, misst tveimur þriðjungum færri börn og getur búist við að lifa þriðjungi lengur. Ólíklegra er að hún látist af barnsförum, slysförum, í átökum, eða deyi sökum hungursneyðar eða veikinda. Á sama tíma hefur fólksfjöldi meira en tvöfaldast. Með öðrum orðum, lífið er sífellt að verða betra fyrir stærstan hluta mannkyns.
Þrátt fyrir þetta er meginboðskapurinn í stjórnmálum um allan heim að heimurinn fari versnandi. Hvernig stendur á því? Jú, það er vissulega nóg af verkefnum, því samfara auknum framförum viljum við ná enn lengra. Við getum ekki sætt okkur við stríðsátök. Við getum ekki setið aðgerðarlaus hjá þegar umhverfisslys eru í uppsiglingu, náttúruhamfarir leggja stór svæði í rúst eða misvitrir leiðtogar misbeita valdi sínu og kalla yfir þjóðir sínar hungursneyð og örbirgð. Jafnvel þótt minna sé af slíku en áður. Við megum einfaldlega aldrei slaka á kröfunum um að gera betur.
Við sjáum að hægt er að gera betur svo víða og við höfum dæmin fyrir framan okkur sem sanna það.
Löngum höfum við borið okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir. Eigum það sameiginlegt með þeim að leggja ríka áhersla á lýðræði, jafnrétti og jöfn tækifæri, mannréttindi og alþjóðleg viðskipti. Við frændþjóðirnar teljumst ríkar þjóðir á svo marga vegu, bæði hvað varðar efnahagslega og samfélagslega þætti.
Við finnum það öll hve miklu það skiptir okkur að vera áfram opið og friðsælt samfélag þar sem allir fá að njóta krafta sinna. Þau samfélög leggja sig fram um að ná sífellt betri árangri þegar almenn velferð og félagsleg framþróun er mæld.
Þessi lífssýn og sá árangur sem hún hefur skilað er eitt mikilvægasta framlag okkar til betri heims; að vera fyrirmynd fyrir önnur ríki í því að draga úr misskiptingu, auka velferð og skjóta þannig stoðum undir velmegun, farsæld og frið.
Norðurlöndin hafa einnig einsett sér að láta ekki sitt eftir liggja þegar kemur að loftslagsmálum. Eftir áratuga rökræður var loksins undirritaður alþjóðasamningur í París um að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Þegar blikur voru á lofti um afdrif hans á vordögum sendu allir forsætisráðherrar Norðurlandanna frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem skorað var á Bandaríkjaforseta að fella ekki undirritun forvera síns úr gildi. Þrátt fyrir að við höfum ekki haft erindi sem erfiði tel ég það miklu máli skipta að taka höndum saman við skoðanasystkini okkar í því að halda á lofti markmiðum samningsins og vinna ótrauð að því að draga úr skaðlegum áhrifum okkar á jörðina.
Ein af frumskyldum stjórnvalda er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar – að tryggja þjóðaröryggi. Varnarsamstarf við vestrænar þjóðir er okkur því mikilvægt af þeim sökum, en einnig til að við getum á okkar hátt, herlaus þjóðin, lagt okkar af mörkum á alþjóðavettvangi.
Heimurinn stendur frammi fyrir ógnum af ýmsu tagi. Þar ber einna hæst ótryggt ástand heimsmála, meðal annars vegna hryðjuverka. Á undanförnum mánuðum höfum við Íslendingar ítrekað sent samúðarkveðjur til nágrannaþjóða okkar vegna voðaverka sem þar hafa verið unnin. Hér á landi er hættustig metið í meðallagi – sem þýðir að ekki er hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálunum. Við verðum að varast að hér skapist jarðvegur fyrir hryðjuverk. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að við getum áfram verið friðsöm þjóð.
Það sem skiptir okkur öll mestu máli er að við búum áfram í öruggu umhverfi. Stjórnvöld munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi landsmanna, bregðast við og meta aðstæður hverju sinni. Þessum verkefnum hefur lögreglan á Íslandi sinnt af ábyrgð og festu í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir og er verð þess mikla trausts sem hún hefur ávallt notið.
Góðir landsmenn.
Það er jafnan svo að framtíðin er óráðin. Við teljum okkur samt sjá að mörg störf sem nú eru unnin af mönnum muni verða unnin sjálfvirkt innan tíðar. Því er haldið fram að stór hluti þeirra starfa sem börnin okkar munu sinna séu ekki enn orðin til.
Hér er sennilega best að spá sem minnstu því hætt er við að slíkir spádómar þyki hlálegir þegar sagnfræðingar framtíðarinnar, verði þeir yfirhöfuð til, fara yfir ræðu forsætisráðherra frá þjóðhátíðardeginum á því herrans ári 2017.
Þetta er samt sem áður áhugaverð framtíðarsýn þar sem ný tækni skapar ótal tækifæri og það reynir á okkur að nálgast þau með réttu viðhorfi. Fortíðin hefur verið okkur gjöful og það er engin ástæða til að hræðast. Við eigum að búa svo um hnútana að hagkerfið dafni á efnahagslegum forsendum þar sem frjáls viðskipti eru drifkraftur framfara eins og gefist hefur svo vel undanfarna öld eða svo, um leið og við höfum að leiðarljósi velferð og jöfn tækifæri fyrir alla. Lykillinn er eftir sem áður að trúa á framtakssemi einstaklinganna og að skapa skilyrði fyrir fleiri sem þora að fara ótroðnar slóðir og reyna á þolmörk hins hefðbundna.
Það skiptir miklu máli þegar úrelt störf hverfa að undirbúa samfélagið og þá sem þurfa að leita á ný mið eins vel undir það og hægt er. Vinnumarkaðurinn er alltaf í þróun, störf hafa lagst af og önnur tekið við. Þegar ljóst varð fyrir fjörutíu árum að fiskurinn í kringum landið var ofveiddur og að draga yrði verulega úr sókninni ef ekki ætti illa að fara hófst leit að heppilegum aðferðum. Í kjölfarið hefur fylgt mikil endurskipulagning, fækkun starfa, hækkun launa og tæknivæðing sem leitt hefur til aukinna gæða og verðmæta. Þúsundir hafa farið til annarra starfa og skapað með því aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið og lyft því á enn hærra plan. Svo vel hefur reyndar tekist til að styrkur okkar á alla helstu efnahagsmælikvarða hefur aldrei verið meiri.
Við munum sjá umfangsmiklar breytingar á efnahagskerfi heimsins á næstu árum og áratugum. Hinn efnahagslegi ás er að færast austar, þar sem Asía rís og vægi Vesturlanda dalar. Með þessu blasir við ný heimsmynd og mikilvægt fyrir okkur að vera viðbúin því að standa frammi fyrir breyttum heimi.
Næstu áratugir verða því að öllum líkindum mjög spennandi tímar. Mestu skiptir að hafa rétta hugarfarið og beisla nýja strauma og vinda til framfara og frekari sóknar lífskjara. Grundvöllur þess er öflugur stuðningur við vísindi, nýsköpun, rannsóknir og þróunarstarf á Íslandi.
Góðir landsmenn.
Íslendingum þykir vænt um tungumálið sitt. Í litla málsamfélaginu okkar er tungan mikils virði en jafnframt er hún mjög viðkvæm þar sem öll samskipti okkar við umheiminn eru á öðrum tungumálum. Á 18. öldinni var íslenskan orðin mjög dönskuskotin en þá hófst átak til að hreinsa málið og með stöðugri árvekni tókst það. Þegar herinn settist hér að óttuðust margir um tungumálið og áratugina á eftir voru ýmis áhrif dægurmenningar að utan talin geta orðið til þess að spilla tungunni.
En nú eru enn blikur á lofti. Getur verið að hjálpleg rödd Siriar í farsímanum, örstutt myndbönd á YouTube og tölvuleikir hafi meiri áhrif en Kanasjónvarpið, Bítlarnir og myndbandabyltingin höfðu á sínum tíma?
Tækni í sífelldri þróun, vítt og breitt, höfðar ekki síst til barna og unglinga og er fasttengd erlendu tungumáli.
Enskan er orðin fagmál margra sérgreina og tengist þannig daglegum störfum fjölmargra. Við þurfum að finna leiðir til að lifa með þessari þróun.
Ég tel að meðvitund um þessa hættu sé lykilatriði. Ekki hræðsla við erlendar tungur eða alþjóðleg áhrif, heldur meðvitund um að íslenskan er þetta eilífðar smáblóm sem þarf að hlúa vel að. Það er ekki sjálfsagt að hún lifi af án umhyggju og ræktarsemi.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum var opnuð í vor, en frú Vigdís vakti meðal annars aðdáun landsmanna á sínum tíma fyrir það hversu auðveldlega hún brá fyrir sig erlendum tungumálum. Vigdís hefur ætíð lagt áherslu á mikilvægi grunnsins, þess að kunna vel sitt eigið móðurmál, eða eins og hún sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir tíu árum: „Tungan sem maður elst upp við gefur manni orð og sýn yfir heiminn, en það er alltaf takmarkað hvað maður kann í erlendum tungumálum.“
Við þurfum að hugsa á íslensku. Við þurfum að taka þeirri áskorun að eiga okkar eigin tungu sem nær utan um öll okkar viðfangsefni og verðum ótrauð að búa til ný íslensk orð eða endurnýta önnur eldri til að skýra ný hugtök og nýja tækni. Íslenska verður að vera valkostur í tækniheiminum og við þurfum að byggja upp innviði og efla nýsköpun í máltækni, eins og segir í skýrslu og verkáætlun nefndar um máltækni sem mennta- og menningarmálaráðherra mun kynna í næstu viku. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að Í ljósi þeirrar byltingar sem á sér stað um þessar mundir á sviði gervigreindar og máltækni sé mikilvægt að máltækniáætlun fyrir íslensku komi til framkvæmda svo fljótt sem auðið er. Þannig getum við verið þátttakendur í þróuninni og fengið tækifæri til að nota okkar eigið tungumál, íslenskuna, í tækni framtíðarinnar.
Á næsta ári, á aldarafmæli fullveldis Íslands, hefjast framkvæmdir við Hús íslenskunnar. Ég er þess fullviss að starfsemin þar verður mikil lyftistöng fyrir íslensk fræði og öflugur liðsauki í baráttunni fyrir að tryggja vöxt og viðgang íslenskunnar.
En þetta starf, málræktin, fer þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda til að reisa hús og gera áætlanir fyrst og síðast fram í daglegum samskiptum. Þannig eigum við að njóta þess að eiga innihaldsrík samtöl við börnin okkar, með tungutaki sem bætir og auðgar orðaforða þeirra, og fá þau í lið með okkur við að viðhalda íslenskunni. Það er nefnilega á ábyrgð okkar, hvers og eins, að skila þessum arfi áfram til næstu kynslóða.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.