Hoppa yfir valmynd
17. júní 2018 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2018

Góðir landsmenn.

Í byrjun desember árið 1918 ritaði Elka Björnsdóttir, verkakona í Reykjavík, dagbókarfærslu eins og hennar var vandi að loknum vinnudegi. Elka var þá 37 ára og hafði haldið dagbók í rúman áratug en skrif hennar þykja veita einstaka innsýn í líf venjulegs daglaunafólks á fyrstu árum 20. aldar, áður en grunnstoðir íslensks velferðarkerfis voru reistar.

Ein færslan í dagbókinni sker sig úr, en þar segir meðal annars:

Hátíðin var stutt en góð. Ef öðruvísi hefði staðið á en nú, ef ógn sóttarinnar væri ekki enn vofandi og lamandi yfir öllum landslýð, þá hefðu eflaust orðið hátíðarhöld um allt land og hin prýðilegustu svo sem vert var. […]
Þetta var þó betra en ekkert, enda gaf guð svo fagurt veður að minnilegt mun verða. Fjöldi skipa flaggaði og sum alsett veifum og íslenski fáninn hæst við hún. Þetta er merkisdagur mikill í sögu landsins ef hún fær að verða lengri. Tímamót, sjálfstæði fengið aftur eftir hálfa sjöundu öld. Þvílíkur tími niðurlægingar, þrauta og þjökunar og viðreisnar. Guð veit nú hvað er framundan.

Fyrr í þessari dagbókarfærslu hafði Elka lýst hátíðahöldum sem fram fóru þennan dag, 1. desember 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki. Hún greindi frá tuttugu og einu fallbyssuskoti sem skotið var af danska skipinu Islands falk sem þá lá úti fyrir höfninni en þeim var ætlað að heilsa íslenska fánanum sem skömmu áður hafði verið dreginn að húni yfir Stjórnarráðinu í fyrsta sinn. Og Elka greindi frá því hvernig helstu höfðingjar landsins voru þarna saman komnir til að fagna fullveldinu. Sjálf hefur hún án efa verið með á hreinu hver var hvað í þeim hópi, því Elka þótti „höfðingjadjörf“ eins og þá var sagt, en hún starfaði við að ræsta skrifstofur í Reykjavík.

En Elka var líka sjálf höfðingi, sannur foringi í sinni sveit þrátt fyrir að vera heilsutæp. Nokkrum árum fyrr hafði hún bæði tekið þátt í því að stofna verkakvennafélagið Framsókn og Alþýðuflokk Íslands. Það var töggur í þessari konu.

Nú um daginn fékk Elka rödd á ný, þó ekki væri nema stutta stund. Brot úr dagbókarfærslunni hér á undan var lesið upp í Ríkisútvarpinu þegar tugir Íslendinga sem bjuggu hér í höfuðstaðnum fyrir hundrað árum fengu að heyrast á ný, einn á dag.

En hverju skipta 100 ára gamlar dagbókarfærslur? Hvaða þýðingu getur fólkið sem uppi var á Íslandi fyrir 100 árum haft fyrir okkur nútímafólkið?

Elka Björnsdóttir var alls ekki viss um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Hún spurði sig hvort þessi saga fengi að verða lengri. Það er skiljanlegt í ljósi spænsku veikinnar sem þá hafði geisað síðustu vikur með skelfilegum afleiðingum, Kötlu sem hafði hætt að gusa úr sínum djúpu kvikuhólfum um mánuði fyrr og fimbulkuldans veturinn á undan sem var enn öllum í fersku minni.

Margt hefur breyst í viðhorfum til fortíðar og Íslandssögu á undanförnum árum. Röddum úr fortíðinni, sem fá áheyrn, hefur sem betur fer fjölgað. Sagnfræðin snýst minna en áður um höfðingja og fyrirmenni. Alls konar fólk sem lifað hefur í þessu landi og á þessari jörð hefur fengið rödd og endurmótað söguna.

Þessar hundrað ára gömlu dagbókarfærslur vekja okkur til umhugsunar um kjör og aðstæður þeirra sem þá voru uppi. Sömuleiðis um samfélagsgerðina þar sem konur yfir fertugu höfðu fengið kosningarétt aðeins þremur árum fyrr og ákvarðanir voru teknar með allt öðrum hætti en núna. Samfélagið er sannarlega breytt frá því fyrir einni öld. Raddir þess eru fleiri og fjölbreyttari nú en á Íslandi ársins 1918 og það er gott enda er þörfin brýn fyrir hæfileika á ólíkum sviðum, hugmyndir, dugnað og metnað. Í fámenninu munar um hvern og einn og því ber að fagna því þegar hinar fjölbreyttu raddir taka þátt í okkar stóra sameiginlega verkefni, lýðræðinu. Það er okkar að styrkja lýðræðið, ekki aðeins með því að mæta endrum og eins á kjörstað og setja sístækkandi kjörseðla í kassa, heldur líka með virkri umræðu okkar á milli í ólíkum myndum. Það er okkar hlutverk að vanda umræðuna, tjá okkar hug og síðast en ekki síst hlusta vandlega hvert á annað.

Nú á dögum er auðvelt að láta umheiminn vita af skoðunum sínum og hugsunum. Við þurfum aðeins að lyfta síma og við erum komin í ræðustól. Rétt eins og raddirnar eru fjölbreyttari eru leiðirnar fjölbreyttari til að tala við samfélagið allt og þannig hefur baráttufólk sett ólíkustu mál á dagskrá. En gleymum því ekki að enn er hægt að eiga samskipti með sígildri aðferð, setjast niður við eldhúsborð landsins eða þess vegna út í náttúrunni, horfast í augu og ræða saman maður á mann.

Kæru landsmenn.

Þessa dagana höfum við fyrir augum okkar öndvegisnámskeið í vönduðum samskiptum og samheldni þar sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tekur þátt í stærsta íþróttaviðburði heimsins, sjálfri heimsmeistarakeppninni. Veruleiki íþróttanna er skýr á yfirborði: sigur alltaf betri en tap og í fótbolta þarf að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. En undir niðri býr margt fleira: einurð, metnaður og þrotlaus vinna liggja að baki góðum árangri. Hugurinn þarf að vera rétt stilltur gagnvart hverju verkefni. Það er ekki tilviljun að þjálfarar íslenska liðsins hafa lagt mesta áherslu á liðsheildina. Slíkur andi verður ekki til af sjálfu sér og er eitt af því dýrmæta sem íþróttir geta kennt okkur. Fyrst og fremst eru þetta skilaboð til komandi kynslóða; að þeim sem fæðast hér á þessari eyju eru lítil takmörk sett.

Kæru landsmenn.

Fyrir hundrað árum hefði líklega engan órað fyrir því að íþróttalið frá þessari nærri furðulega fámennu eyju spilaði knattspyrnu á heimsvellinum, fámennasta þjóð sem hefði náð slíkum árangri. Og eiginlega trúum við því ekki enn; sveiflumst á milli þess að telja allan þann árangur sem Ísland hefur náð undraverðan yfir í að vera sjálfgefinn. Við erum ekki ólík Elku að því leyti að við erum í leit að öryggi og jafnvægi, við stöndum frammi fyrir áskorunum og óvissu og alltaf, alltaf er veðrið okkur ofarlega í huga.

Fortíðin mun áfram geta kennt okkur margt. Í haust verður til dæmis áratugur liðinn frá efnahagshruninu. Þeir atburðir hafa litað allt stjórnmálalíf okkar síðan og kannski þjóðlífið allt. Skilningur á því sem þá gerðist og viðleitnin til að læra af mistökunum er mikilvæg til að lenda ekki aftur í svipaðri gryfju, en um leið er okkur mikilvægt að fullvissa okkur um að við séum örugglega komin upp úr henni og herfjötur hrunsins hafi ekki lagst á okkur.

Og þann 1. desember fögnum við hundrað ára afmæli fullveldisins, en meðal þess sem Alþingi hefur þegar samþykkt í tilefni af afmælinu er að fé verði veitt til aðgerðaáætlunar um uppbyggingu máltækniinnviða fyrir íslenska tungu. Við horfum til framtíðar og mætum þeim áskorunum sem hún færir okkur. Breytingar á umhverfi, samskipti eða samskiptaleysi stórþjóða í fjarlægum löndum og tækninýjungar sem munu gjörbreyta atvinnuháttum framtíðar eru nokkrar áskoranir sem við vitum af. Við þurfum að setja metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, tala fyrir mannréttindum og náttúruvernd og búa okkur undir áskoranir framtíðarinnar í atvinnuháttum. Tæknin hefur nú þegar tekið svo stórstígum framförum að hún er farin að hafa áhrif á líf okkar, samfélagsgerð og okkur sjálf. Ekki aðeins mun hún geta haft áhrif á tungumálið, heldur hugsun okkar alla.

Samskiptamiðlar og leitarvélar sem forritaðar eru með tilteknum hætti hafa þegar haft áhrif á stjórnmálaumræðu sem fer fyrst og fremst fram með yfirlýsingum sem ekki mega spanna meira en 280 stafabil. Sú staðreynd hefur gert það að verkum að dýpri stjórnmálaumræða á undir högg að sækja. Hver verða áhrifin af því? Nýtum tæknibreytingar til góðs og tryggjum að þær ýti ekki enn frekar undir sundrandi umræðu í pólitísku umhverfi sem nú þegar einkennist af því að samvinna og málamiðlanir sem lengi hafa verið undirstaða lýðræðissamfélagsins eru orðnar löstur en ekki kostur. Fjölþjóðlegt samstarf á að sama skapi undir högg að sækja, boðaðir eru múrar milli landa og æ fleiri virðast telja einstrengingshátt til sérstakra dyggða.

En tæknibyltingin hefur ekki aðeins áhrif á stjórnmálin; hún mun hafa áhrif á samfélagið allt og ekki síst atvinnulíf og vinnumarkað. Við höfum öll færi til þess hér á Íslandi að vera gerendur í tæknibyltingunni frekar en þiggjendur. Sagan sýnir okkur að stórhug hefur aldrei skort hér á landi og það er ábyrgð okkar að sækja fram gagnvart komandi breytingum til þess að tryggja áframhaldandi velsæld og jöfnuð. Það er þó kannski ekki flóknasta verkefnið heldur verður það að tryggja að mennskan glatist ekki í þessari hraðskreiðu byltingu; það verður að takast á við þau siðferðilegu álitamál sem blasa við og þær spurningar sem munu vakna um hvað það merkir að vera maður. Í því verkefni verðum við að vera meðvituð um að skapandi og gagnrýnin hugsun mannsins, hæfileikinn til að hugsa sjálfstætt, verður líklega mikilvægasta tækið til að varðveita einmitt mennskuna.

Góðir Íslendingar.

Hátíðardagar eins og 17. júní og 1. desember minna okkur á að við stöndum á herðum þeirra kynslóða sem á undan okkur fóru. Við þurfum að vera sívakandi við að leggja okkar af mörkum til að greiða götuna áfram til betra samfélags á Íslandi. Þetta er nefnilega gott land og gott samfélag. Gleymum því aldrei að hér búum við þvert á ýmsar hrakspár öldum saman vegna þess að hér er gott að vera og vegna þess að þrátt fyrir allt þykir okkur vænt hverju um annað. Það er líklega það dýrmætasta af öllu.

Góðir landsmenn, gleðilega hátíð!


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta