Hoppa yfir valmynd
17. október 2018 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á þingi BSRB

Kæru félagar í BSRB

Það er mér mikill heiður að vera boðið að ávarpa þetta þing samtakanna. Hér verða mörg mikilvæg mál til umræðu og sömuleiðis verður kosin ný forysta sem mun takast á við næstu kjarasamninga.

Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að eiga sem best samstarf við aðila vinnumarkaðarins en alls höfum við átt tíu fundi með þessum aðilum og forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga. Þar höfum við rætt ýmis mál; menntun, vinnutíma, stöðu efnahagsmála, skattkerfið og fleira. Þeir fundir hafa hins vegar ekki einungis snúist um samtalið sem þó hefur verið gott heldur hafa þeir nú þegar skilað margvíslegum árangri. Ráðist var í þær mikilvægu breytingar að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa í vor. Kjararáð var lagt niður með lögum í vor. Fyrirkomulag launa æðstu embættismanna verður fært til svipaðs horfs og annars staðar á Norðurlöndum eins og lagt var til í skýrslu sem samin var í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Ennfremur lögðum við til að hlutverki Þjóðhagsráðs yrði breytt þannig að félagslegur stöðugleiki yrði hluti af verkefnum þess en ekki eingöngu efnahagslegur stöðugleiki, enda hlýtur þetta tvennt að fara saman í velferðarsamfélagi. Þar tel ég mikilvægt að saman komi allir þeir aðilar sem tengjast vinnumarkaði, ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála og tryggi þetta mikilvægi jafnvægi umhverfis, samfélags og efnahags. Það er mjög í takt við það sem BSRB hefur barist fyrir – að ekki sé rætt um efnahagslegan stöðugleika án þess að taka tillit til félagslegs stöðugleika.

Ágætu gestir.

Í vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að tekjuskattskerfið og samspil bóta og skatta yrðu endurskoðuð á kjörtímabilinu þannig að það gagnist helst lágtekju- og lægri millitekjuhópum.

Í tengslum við fjárlög ársins leggjum við til hækkun barnabóta sem mun auka ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna. Enn fremur hækkun persónuafsláttar umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu.

Þessar breytingar eiga rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sýna okkar skýra vilja til að skatt- og bótakerfin þjóni jöfnunarhlutverki. Aðrar breytingar sem þegar hafa verið gerðar, eins og hækkun á fjármagnstekjuskatti, sýna þann sama vilja. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.

En rétt er að minna á að það eru fleiri jöfnunartæki til en skattkerfið. Þannig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á að það að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sé gríðarlega mikilvæg jöfnunaraðgerð. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin þann 1. september þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Heilbrigðisráðherra mun halda áfram á sömu braut og í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir fjármunum til að lækka kostnað sjúklinga jafnt og þétt uns við verðum komin á par við Norðurlöndin á tíma fjármálaáætlunar.

Gott heilbrigðiskerfi er brýnt lífskjaramál og þar er mikilvægt að bregðast við skýrri forgangsröðun almennings sem hefur sett þennan málaflokk efst á sinn lista fyrir tvennar síðustu kosningar. Þar er mikilvægt að byggja upp heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Sömuleiðis að tryggja aðgang að geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Um helgina var tekin skóflustunga að nýjum Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd - og verður stór og flókin en mikið framfaraspor fyrir opinbera sjúkrahúsþjónustu.

Það er hins vegar svo að verkefni stjórnmálanna, líkt og verkalýðshreyfingarinnar, eru óteljandi. Í nýlegri skýrslu Gylfa Zoega sem hann vann fyrir forsætisráðuneytið í aðdraganda kjarasamninga bendir hann þar á að ýmislegt sé hægt að gera til að bæta lífskjör fólks fyrir utan beinar launahækkanir. Þar nefnir hann húsnæðismálin en í þeim málum er mikilvægt að stjórnvöld, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins setjist saman við það verkefni að tryggja betri stöðu á húsnæðismarkaði, bæði framboð á leiguhúsnæði sem og tækifæri ekki síst ungs fólks til að festa kaup á eigin húsnæði.

Þá nefnir Gylfi vaxtakostnað í skýrslu sinni og bendir á að kostnaður við hérlent bankakerfi sé mun meiri en kostnaður við bankakerfi annars staðar á Norðurlöndum. Það hafi áhrif á vaxtakjör almennings. Við höfum óskað eftir því að í vinnu við Hvítbók um endurskipulagningu fjármálakerfisins verði þessi kostnaður sérstaklega skoðaður.

Félagsleg undirboð og margvísleg brot á réttindum fólks á vinnumarkaði hafa verið töluvert til umræðu að undanförnu. Þar hafa þegar verið stigin ákveðin skref til úrbóta; ég nefni ný lög um keðjuábyrgð í byggingariðnaði og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þar þarf hins vegar að gera betur og fer félagsmálaráðuneytið fyrir starfshópi sem ætlað er að fara yfir þessi mál en þar sitja meðal annarra aðilar vinnumarkaðarins. Þar skiptir máli að efla bæði Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit fyrir utan að fara heildstætt yfir afmarkaða þætti á borð við mansal, félagsleg undirboð og málefni starfsmannaleiga. Það er með öllu ólíðandi að svona brot tíðkist á íslenskum vinnumarkaði og við þeim eiga að vera skýr viðurlög.

Innleiðing jafnlaunavottunar sem vinna á gegn kynbundnum launamun stendur yfir en hefur gengið hægar en ég hefði talið æskilegt og hefur fyrirtækjum og stofnunum nú verið veittur frestur til að innleiða þessa nýju löggjöf. Kynbundinn launamunur er óviðunandi á Íslandi og þar þarf að spýta í lófana. Það verður gert samhliða endurskoðun jafnréttislaga sem verður nú á minni könnu eftir að jafnréttismál færast yfir í forsætisráðuneytið.

En jafnréttismál snúast ekki einungis um launamun. Þau snúast um að taka á kynbundnu ofbeldi og kynbundinni áreitni sem er forgangsmál núverandi ríkisstjórnar. Og þau snúast líka um að konur og karlar geti bæði átt fjölskyldu og sinnt ýmsum störfum. Þar hafa pólitískar ákvarðanir á borð við fæðingarorlof og fjölgun leikskóla skipt öllu fyrir konur, til að mynda þá sem hér stendur. Í þessum málum hefur BSRB verið í fararbroddi, barist fyrir fjölskylduvænna samfélagi fyrir konur og karla.

Ágætu gestir.

Við eigum það sameiginlegt að vera í opinberri þjónustu. Stundum er talað illa um hið opinbera kerfi. Látið eins og þar sitji fólk og nagi blýanta á kostnað skattgreiðenda. En það er ekki svo. Fólkið á bak við hið opinbera kerfi sinnir hinu mikilvæga hlutverki almannaþjónustu og öflug almannaþjónusta er ein af undirstöðum lýðræðisríkisins.

Af hverju segi ég það? Jú –almannarýmið er mikilvægur staður fyrir samfélög, rými þar sem ólíkar stéttir og ólíkir hópar koma saman á jafnræðisgrundvelli. Almannarýmið er ekki aðeins Austurvöllur eða Lystigarðurinn á Akureyri. Almannarýmið eru grunnskólarnir þar sem við öll komum saman en líka heilsugæslan og lögreglustöðin – rými sem við eigum sameiginlega og getum reitt okkur á. Almannaþjónusta er í raun almannarými. Hún hefur því hlutverki að gegna að tvinna saman ólíka þræði samfélagsins og tryggja að við sitjum öll við sama borð; að við njótum öll jafnræðis og sambærilegrar þjónustu. Og þannig tryggir hún jöfn tækifæri okkar allra, tækifæri til að lifa og starfa og tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. En aukinheldur tryggir hún líka að við séum öll í sama samfélagi sem er einmitt forsenda þess að lýðræðið dafni. Þess vegna er hún ein af undirstöðunum lýðræðisins.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka fráfarandi formanni BSRB, Elínu Björgu Jónsdóttur, kærlega fyrir gott og lærdómsríkt samstarf. Þar fer mikilhæfur leiðtogi frá borði. Um leið óska ég nýrri forystu sem hér verður kjörin alls velfarnaðar með von um áframhaldandi gott samstarf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta