Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á ársfundi Seðlabanka Íslands 2019

Ágætu gestir.

Það er ekki hægt að ávarpa þennan fund án þess að ræða tíðindi dagsins. Flugfélagið WOWAIR skilaði inn flugrekstrarleyfi sínu í morgun. Ljóst er að niðurstaðan er vonbrigði fyrir okkur sem höfum fylgst með félaginu sem hefur átt í kröggum undanfarna mánuði og hefur staðið í baráttu við að endurfjármagna sig. Hugur minn er hjá starfsfólki félagsins sem og öðrum þeim sem hafa byggt afkomu sína á starfsemi félagsins. Fyrir þau er þetta að sjálfsögðu áfall. Viðbúnaðarhópur stjórnvalda fylgist grannt með því að heimflutningur farþega gangi greiðlega fyrir sig.

Það er hins vegar svo að íslenskt hagkerfi er vel í stakk búið til að takast á við þessa áskorun. Vissulega munu verða efnahagsleg áhrif til skemmri tíma sem kalla á endurmat áætlana en gleymum því ekki að starf undanfarinna ára gerir það að verkum að við erum í góðri stöðu: Skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar með markvissum hætti, ríkissjóður hefur verið rekinn með verulegum afgangi, þjóðhagslegur sparnaður hefur aukist, forðum hefur verið safnað og lánakjör ríkisins aldrei verið betri. Við munum nú endurmeta áætlanir okkar en um leið liggur fyrir að í þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu gerir ráð fyrir kólnun í hagkerfinu. Meðal annars þess vegna gerum við ráð fyrir aukinni opinberri fjárfestingu sem geta vegið upp á móti slakanum og sömuleiðis gerir verulegur afgangur af ríkissjóði okkur kleift til að takast á við þær áskoranir sem nú blasa við.

Og kannski er það okkar lán að búa að reynslu undanfarins áratugar sem hefur haft í för með sér ótrúlegar breytingar í raun og veru á stjórn efnahags- og ríkisfjármála. Það er nefnilega mikilvægt að líta stundum til baka til að skilja samtímann og stöðuna núna. Og ég ætla að leyfa mér að líta aðeins aftur.

Í september 2008 fór ég til Brussel sem hluti af fjölmennri sendinefnd undir forystu Ágústar Ólafs Ágústssonar og Illuga Gunnarssonar. Í sendinefndinni voru fulltrúar þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Erindi okkar var að hitta fjölda manns til að ræða möguleikann á upptöku evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessum fundum lauk öllum með því að við fengum svarið að Nei það væri ekki hægt í ýmsum tóntegundum og ferðinni lauk með því að við fórum heim með eitt stórt nei í farteskinu. Það segir allt um örlagabrag þessarar ferðar að þegar við lentum í Keflavík kom í ljós að allar ferðatöskurnar höfðu orðið eftir í Brussel og voru þar allar skráðar á Gylfa Arnbjörnsson, einn nefndarmanna.

Þessi ferð var bara ein varða af mörgum í æsilegri umræðu um gjaldmiðlamál í kringum hrun. Þar voru ýmsir gjaldmiðlar nefndir sem lausn á flóknu ástandi; svissneskur franki, evra, kanadískur dollar að ógleymdri norrænni krónu, nú eða þá norskri krónu til vara. Sú saga á ekki endilega erindi hingað en myndi henta vel sem skemmtiræða á næstu árshátíð sameinaðs Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og býð ég mig hér fram í það verkefni enda sjálf í hópi þeirra sem komu fram með slíkar frumlegar lausnir ásamt nokkrum núverandi kollegum mínum, bæði innan og utan ríkisstjórnar.

En voru þá allir þessir stjórnmálamenn bara í ruglinu? Nei, ég held að hrunið hafi í raun vakið nauðsynlega umræðu um þessi mál þar sem stjórnmálamenn leyfðu sér að ræða ólíka valkosti. Sú umræða skilaði sér meðal annars í skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að raunhæfir valkostir Íslands í gjaldmiðlamálum væru tveir; íslensk króna með ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum og evra í kjölfar inngöngu í ESB og evrópska myntbandalagið og auðvitað í skýrslu um Endurskoðun peningastefnunnar frá síðasta sumri en fyrirkomulag peningamála mun taka enn frekari breytingum við endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands og sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem ég ræði betur hér á eftir.

Eins og fram kemur í sögulegum kafla skýrslu Ásgeirs Jónssonar, Ásdísar Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssonar hefur nánast allt verið prófað á sviði peningastefnu í rúmlega hundrað ára sögu fullveldisins eftir að við hófum fullveldistímann á því að verða greiðsluþrota. Sú staða kom öllum svo rækilega á óvart að þegar forsvarsmenn Landssjóðs reyndu sumarið 1920 að leysa út póstávísun frá Íslandsbanka var ávísuninni hafnað. Þessi fyrsti gúmmítékki fullveldissögunnar var bara eitt ævintýri af mörgum ævintýrum íslenskrar peningastefnu; myntbandalag, gullfótur, fastgengi með höftum, fastgengissamstarf innan Bretton Woods, peningamagnsmarkmið, raungengismarkmið, skriðgengi og fastgengi með skuggaaðild að evrópska myntkerfinu. Verðbólgumarkmið með fljótandi gengi og verðbólgumarkmið með stuðningi af fjármagnshöftum. Við höfum rætt það að taka upp ýmsa gjaldmiðla og oft hefur kosningabarátta snúist um framtíð íslensku krónunnar, upptöku ýmissa annarra gjaldmiðla eða blandaðar leiðir á borð við myntráð. Eins og ég sagði áðan náði þessi umræða hámarki í kringum hrun.

Það sem hefur hins vegar oft skort í almennri stjórnmálaumræðu um efnahagsmál er að við ræðum peningastefnuna og efnahagsstefnuna enda er einfaldara að sjóða vandann niður í afmarkaða spurningu um heiti gjaldmiðils fremur en að ræða hið viðkvæma samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar og um leið þá pólitísku undirstrauma sem þar ráða för.

Ég held að umræðan um ólíkar lausnir í gjaldmiðlamálum hafi í raun og veru þjónað ákveðnum tilgangi sem var að færa okkur fram á veginn í að greina hvað þarf til til að tryggja farsæla efnahagsstjórn. Þar skiptir atvinnustefnan máli, stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að vinna saman að aukinni fjölbreytni og tryggja um leið að hún styðji við mikilvæg markmið okkar um kolefnishlutleysi. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að vinna saman í átt að heilbrigðari vinnumarkaði. Og við þurfum að tryggja í senn langtímahugsun en líka ákveðinn sveigjanleika í ríkisfjármálum.

Í þessari langtímahugsun getur enginn þáttur hagstjórnarinnar verið slitinn úr samhengi við aðra þætti hennar. Samspil peningastefnu við fjármálastefnu hins opinbera og vinnumarkað er afar mikilvægt í hinu viðkvæma jafnvægi þjóðarbúskaparins.

Ríkisstjórnin hefur unnið að breytingum á ramma peningastefnunnar og umgjörð stjórntækja Seðlabankans frá því að hún tók við fyrir rúmu ári. Verkefnið er þríþætt. Í fyrsta lagi, lagabreytingar um stjórnskipun Seðlabankans og samspili peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Í öðru lagi, breytingar á verklagi við framkvæmd peningastefnunnar sem ekki krefjast lagabreytinga. Ýmsar tillögur um framkvæmd peningastefnunnar komu fram í skýrslu um endurskoðun peningastefnunnar árið 2018. Seðlabankinn og peningastefnunefnd hans hafa nú þegar hrint í framkvæmd ákveðnum tillögum starfshópsins og fleira er í burðarliðnum. Í þriðja lagi, breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um verðbólgumarkmið frá árinu 2001 en hún er óháð breytingum á lögum. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði unnið að breyttri yfirlýsingu.

Þessi endurskoðun tekur mið af því að byggja á íslenskri krónu með notkun þjóðhagsvarúðartækja og fylgja ráðgjöf sérfræðinga, innlendra sem erlendra, sem ráðlagt hafa stjórnvöldum um peningastefnu um þann ramma.

Viðhald íslensku krónunnar krefst aga, aðhalds, öflugra greininga og stjórntækja. Krónan verður aldrei laus við sveiflur frekar en aðrir gjaldmiðlar en við þurfum að skilja sveiflurnar og hafa burði til að taka á þeim.

Frumvarpið um Seðlabankann sem nú hefur verið dreift á Alþingi kveður á um sameiningu bankans og Fjármálaeftirlitsins. Með sameiningunni verður best náð fram þeim kostum sem fylgja nánd fjármálaeftirlits, fjármálastöðugleika og peningastefnu. Tryggt verður gott upplýsingaflæði innan stofnunarinnar og samlegð í nýtingu gagna sem leiðir til aukinnar skilvirkni og fleiri tækifæra við greiningu. Yfirsýn vegna kerfisáhættu eykst. Mikilvægt er að fyrirkomulag ákvarðanatöku í aðskildum verkefnum innan sameinaðrar stofnunar verði gagnsætt og fastmótað og meiri háttar ákvarðanir verði í fjölskipuðum nefndum með aðkomu utanaðkomandi aðila.

Upplýsingar eru mikilvæg gögn og í Seðlabankanum eiga upplýsingar að flæða greitt á milli þeirra sem þurfa á þeim að halda. Með því móti eiga ákvarðanir að byggja á besta fáanlega hráefni. En markmiðið er ekki einungis að upplýsingar flæði inn á við heldur einnig að virkja almenning betur í umræðu um peningastefnu, valkosti og takmarkanir. Seðlabankinn verður að stuðla að aukinni fræðslu á mannamáli um peningastefnuna og gildi verðbólgumarkmiða. Ég veit að bankinn hefur þetta á stefnuskrá sinni. Seðlabankastjóri hefur t.d. sagt mér frá því að leikskólabörn hafi komið í heimsókn í bankann og sýnt verðbólgumarkmiðinu og miðlun peningastefnunnar góðan skilning. Ég trúði honum ekki. Punkturinn er hins vegar góður. Það er mikil alþjóðleg umræða í gangi um að engin þörf sé á að seðlabankar séu óskiljanlegir – því betri sem færri skilja þá. Þetta er sem betur fer að breytast.

En peningastefnan er aðeins einn þáttur. Annar þáttur eru ríkisfjármálin. Alþingi samþykkti árið 2015 lög um opinber fjármál eftir langan aðdraganda og aðkomu flestra stjórnmálaflokka að undirbúningi þeirra. Með lögunum voru mörg framfaraskref stigin hvað varðar langtímasýn í ríkisfjármálum. Auknar skyldur eru lagðar á herðar ráðuneyta að gera grein fyrir markmiðum sínum í einstökum málaflokkum og málefnasviðum. Þó svo við stöndum okkur að mörgu leyti ágætlega í opinberum rekstri tel ég engu að síður að við eigum alltaf að leita leiða til að gera betur. Opinber rekstur snýst á endanum um hvernig við getum þjónað fólkinu í landinu sem allra best og styrkt undirstöður velferðarsamfélagsins. Því betur sem við stöndum okkur í nýtingu þeirra fjármuna sem er úr að spila því meiri verður árangurinn. Það er full ástæða til að auka kraftinn í að rýna það hvernig við verjum opinberu fé og gleymum því ekki að þar á pólitíkin að hafa áhrif. Eru öll störf nauðsynleg, öll verkefni, allar flugferðir? Er rammi og fyrirkomulag allra verkefna með bestum hætti, jafnvel í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á því hvernig við vinnum?

Fjármálaráðherra hefur hafið slíka vinnu um endurmat útgjalda sem á að vera eðlilegur hluti af allra vinnu við opinber fjármál. Íslensk stjórnvöld taka einnig þátt í tilraunaverkefni með nokkrum smærri hagkerfum, s.s. Skotlandi og Nýja-Sjálandi, sem ber yfirheitið Velsældarhagkerfin eða Well-Being Economies, þar sem reynt er að tryggja mjög skýr markmið innan ríkisfjármála þannig að aukin útgjöld stuðli að skýrum samfélagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum ávinningi.

Hafandi sagt þetta, þá þurfum við einnig að meta reynsluna af lögunum um opinber fjármál. Við þurfum að rýna hvort ramminn þarf að verða sveigjanlegri í ljósi þess að breytingar innan árs hér á landi geta verið með þeim hætti að þær sprengja rammann. Staða hagkerfisins núna kann að skapa okkur gott tækifæri til að meta nákvæmlega þetta. Það sem við sjáum nú þegar hins vegar er að aukið skipulag á fjármálum hins opinbera hefur skilað þannig stöðu að þegar um hægist í hagkerfinu eins og nú er staðan góð skuldastaða hins opinbera hefur þróast með jákvæðum hætti og ríkissjóður er rekinn með verulegum afgangi sem gerir það að verkum að stjórnvöld geta tekist á við áföll án þess að þurfa að umsnúa öllum sínum rekstri.

Kæru gestir.

Á undangengnu ári hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á það að samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verði komið í fastara form.

Við höfum staðið fyrir óformlegu samráði og það hefur komið mörgum málum á hreyfingu og stuðlað að betri skilningi á milli aðila um þau úrlausnarefni sem fyrir liggja. Einn þáttur í heilbrigðum vinnumarkaði er að hafa formlegan vettvang þar sem allir aðilar koma saman og eru stjórnvöldum til ráðgjafar um leiðir og aðferðir til að tryggja undirliggjandi markmið sem eru félagslegur og efnahagslegur stöðugleiki; en við getum líka kallað velsæld; það er öflugt velferðarsamfélag og blómlegt efnahagslíf, sem að mínu mati eru órjúfanlegir þættir – forsenda hvors annars. Til þess að skapa aukinn stöðugleika á vinnumarkaði tel ég mikilvægt að formgera þetta samráð og auka vægi þess á vettvangi Þjóðhagsráðs. Þar munu sitja saman fulltrúar ríkis og sveitarfélaga, heildarsamtaka launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði og atvinnurekenda. Þar er ekki unnið í bakherbergjum heldur með gagnsæjum og opnum hætti. Við erum því miður enn ekki komin á þennan stað og þannig hefur Alþýðusamband Íslands ekki enn tekið sæti í Þjóðhagsráði, en ég bind þó vonir við að það geri það.

Ísland er lítið hagkerfi. Þó að stoðum efnahagslífsins hafi fjölgað á undanförnum áratugum erum við enn viðkvæm fyrir sveiflum í einstökum atvinnuvegum og gengi stórra fyrirtækja getur svo sannarlega haft risavaxin áhrif á þjóðarbúið. Þegar vá steðjar að einstökum fyrirtækjum sem við öll vitum að getur haft áhrif á atvinnustig, hagvöxt og stöðu efnahagsmála almennt er það áminning fyrir hið opinbera að hafa yfirsýn yfir það þegar einstakar atvinnugreinar taka stökkbreytingum að umfangi og vera ávallt viðbúið að takast á við þær sveiflur sem slíkar stökkbreytingar kunna að valda.

Stóru línurnar í þessu hljóta samt að vera þær að við viljum fjölga stoðunum undir íslenskt efnahagslíf til að draga úr áhrifum af sveiflum einstakra atvinnuvega. Um leið þurfum við að aðlaga íslenskt efnahagslíf að breyttum veruleika umhverfis- og loftslagsbreytinga þar sem þarf að tengja ákvarðanir í efnahagsmálum við ákvarðanir í umhverfismálum.

Og hér skiptir stefna stjórnvalda máli. Við vitum ekki hver verður næsta ‚stóra atvinnugreinin‘ á Íslandi en með því að veðja á og auka verulega stuðning við nýsköpun og rannsóknir líkt og ríkisstjórnin hefur gert tryggjum við tækifærin til þess að stoðunum muni sannarlega fjölga.

Ísland hefur löngum verið auðlindadrifið hagkerfi. Við reiddum okkur lengst af á fiskinn í sjónum. Orkusala til orkufreks iðnaðar hófst á sjöunda/áttunda áratugnum og var lykilatriði í stefnu íslenskra stjórnvalda fram yfir aldamótin þegar umhverfis- og náttúruverndarhreyfingin reis upp og benti á að cheapest energy prices-bæklingar stjórnvalda endurspegluðu gamaldags sýn á efnahagsmál sem stuðlaði ekki að raunverulegri framþróun.

Uppbygging alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar sýndi ákveðinn vilja til að skapa aukna fjölbreytni og draga úr því hversu háð íslenskt hagkerfi var náttúruauðlindum en eins og annars staðar var uppbygging fjármálakerfisins ekki byggð á raunverulegri verðmætasköpun og beið sú uppbygging skipbrot í hruninu þar sem íslenskur almenningur upplifði aftur gúmmítékka-atvikið frá 1920.

Ferðaþjónustan tók svo að vaxa, ekki síst eftir gosið í Eyjafjallajökli og markaðsátak íslenskrar ferðaþjónustu og stjórnvalda þar sem við fórum hamförum í að bjóða heiminum heim til okkar með stórkostlegum árangri. En ferðaþjónustan reiðir sig auðvitað líka á náttúruauðlindir okkar, einstaka íslenska náttúru sem er nýtt með því að njóta. Um leið hefur uppgangur ferðaþjónustunnar einkennst af stöðugum ótta um að nýtt hrun sé handan við hornið, öll erum við brennd af því að hafa fagnað um of í góðærinu 2007 og í sameiginlegu minni þjóðarinnar hvílir óttinn við annað hrun.

En einn af lærdómunum er að við verðum að auka efnahagslega fjölbreytni. Við getum ekki eingöngu reitt okkur á náttúruauðlindir. Það gerum við auðvitað ekki nú. Allar þær atvinnugreinar sem reiða sig á náttúruauðlindir hafa um leið sinnt rannsóknum, þróun og nýsköpun með þeim hætti að verðmætasköpun hefur aukist stórkostlega ásamt því að markverður árangur hefur náðst í draga úr orkunotkun og um leið losun gróðurhúsalofttegunda.

Besta dæmið um þetta er hugsanlega sjávarútvegurinn. Þó að hlutdeild sjávarútvegs í landsframleiðslu hafi dregist saman frá því fyrir áratug endurspeglar þessi þróun hinn mikla hagvöxt og vöxt annarra atvinnugreina fremur en samdrátt í sjávarútvegi sem skapar tæpan fimmtung okkar útflutningstekna. Verðmætaaukning í greininni hefur m.a. byggst á þróun á vinnsluaðferðum og sjálfvirkni sem hefur gert það kleift að skapa meira virði byggt á veiðiheimildum sem ekki hafa aukist undanfarin ár. Framþróun í sjávarútvegi hefur einnig leitt til þess að á tuttugu ára tímabili þá hefur losun koltvísýrings vegna sjávarútvegs og matvælaframleiðslu dregist saman um 48% (1995-2016).

Störfum í landbúnaði hefur fækkað á sama tíma og framleiðni hefur aukist. Framleiðni á mann jókst um tæplega 40% á árunum 2008-2015. Hlutdeild landbúnaðar í landsframleiðslu hefur haldist nokkuð stöðugt sem þýðir að vöxtur í greininni hefur haldið í við þann mikla hagvöxt sem hefur verið undanfarin ár. Ólíkar greinar landbúnaðarins vinna nú að stefnumótun um það hvernig þær geta lagt sitt af mörkum við að stefna að markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland og þar hafa til dæmis garðyrkjubændur og sauðfjárbændur lagt fram raunhæfar aðgerðaáætlanir sem auka mjög bjartsýni um að við getum náð þessu markmiði.

Það er þekkt staðreynd að tekjur af ferðaþjónustu hafa stóraukist. Á örfáum árum hefur hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum farið í tæp 40% árið 2018. Ferðaþjónustan hefur verið mesti drifkrafturinn í þeim hagvexti sem hér hefur ríkt undanfarin ár. En um leið stendur ferðaþjónustan ekki aðeins frammi fyrir efnahagslegum áskorunum heldur líka þeirri staðreynd að vera mjög háð fluggeiranum sem eðli máls samkvæmt er einn stærsti losunarvaldur í heiminum en ferðaþjónustan er ásamt stóriðju sú atvinnugrein sem losar mest af koltvísýringi og losa ferðaþjónustutengdar greinar nú fjórfalt á við sjávarútveg.

Stóriðjan er svo þriðja stóra stoðin en álframleiðsla er nú um fimmtungur útflutningsverðmætis. Losun á hverja framleiðslueiningu í stóriðju hefur hins vegar minnkað á síðustu áratugum. Þessi ávinningur hefur þó verið minni en sem nemur aukinni losun frá hinni miklu uppbyggingu stóriðju sem hefur verið frá 1990 en losun frá iðnaðarferlum meira en tvöfaldaðist hér á landi á árunum 1990-2016. Verulegur samdráttur í losun í þessum geira verður vart mögulegur nema með tilkomu nýrrar tækni, svo sem niðurdælingu koldíoxíðs sem ætti að vera mögulegt til lengri tíma litið.
En það er líka mikilvægt að skapa aukin verðmæti úr þeim auðlindum sem aldrei þrýtur/þrjóta. Þar á ég að sjálfsögðu við hugvitið og þann ótrúlega árangur sem íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa náð í því að skapa verðmæti þar sem menn sáu áður ekki tækifæri.

Við sem spiluðum Matador okkur til skemmtunar á níunda áratugnum hefði ekki dottið það í hug að unnt væri að skapa verðmæti og störf með því að skapa heilan sýndarveruleika úti í geimi þar sem hundruð þúsunda leika sér við það að byggja upp viðskiptaveldi, kaupa og selja hráefni og vörur og mynda bandalög í viðskiptablokkum. Hverjum hefði dottið það í hug?

Þegar pabbi minn kom heim úr vinnunni einn daginn á níunda áratugnum líka og lýsti hrifningu sinni á nýjum fiskivogum sem ungir menn væru að hanna óraði engan fyrir því nýsköpunarveldi á sviði matvælaframleiðslu sem Marel er nú orðið.

Og hverjum hefði dottið í hug að fólk sem missti útlimi ætti eftir að öðlast nýja tilveru með íslensku hugviti á sviði gerviútlima sem stýrt er af gervigreind sem jafnast á við mannshugann.

Fjölda nýrra fyrirtækja hefur verið komið á fót á síðustu tveimur áratugum, mörg með áherslu á nýsköpun og upplýsinga- og samskiptatækni. Á árunum 2010-2016 jukust tekjur fyrirtækja í þessum greinum um 50% að raunvirði og útflutningsverðmæti þessara fyrirtækja nánast tvöfaldaðist á einungis fimm árum.

Afl þekkingarinnar er að skapa nýjan veruleika og ný verðmæti þar sem fólk sá ekki áður tækifærin. Og þekkingin er ekki einungis á sviði hinnar hefðbundnu tækni. Íslenskir listamenn hafa margir hverjir skapað Íslandi nafn. Ný-sjálenskur ráðherra lýsti yfir aðdáun sinni á íslenskri tónlist við mig um daginn, og spurði hvernig á því stæði að þetta litla land byggi yfir svona miklum sköpunarkrafti á sviði tónlistar. Ég stillti mig um að koma með hefðbundna nýaldarsvarið um orkuna í jörðinni og sagði tónlistarmenntun.

Menntun, rannsóknir og nýsköpun er það sem mun tryggja velgengni íslensks efnahagslífs og samfélags inn í framtíðina, menntun sem mun gera hverjum og einum kleift að skapa sín eigin tækifæri og búa til ný verðmæti úr engunema hugviti. Þess vegna hafa stjórnvöld sett aukið fé í menntun og rannsóknir, þess vegna ætlum við að nýta arðinn af orkuauðlindinni meðal annars til að fjárfesta í nýsköpun. Það er vegna þess að þetta er sú auðlind sem mestu mun skipta til að íslenskt efnahagslíf hvíli á fjölbreyttari stoðum til framtíðar. Og þetta er sú auðlind sem mun hjálpa okkur að þróa efnahagslífið þannig að við getum tekist á við loftslagsbreytingar.

Kæru gestir.

Eins og ég sagði áðan þá stendur Seðlabankinn á tímamótum. Framundan eru lagabreytingar þar sem tvær stórar stofnanir munu verða ein. Slík sameining er alltaf flókin fyrir stjórnendur og starfsfólk og þar munu koma upp fjöldamörg álitamál, stór og smá, sem mun þurfa að bregðast við. Framundan er þingleg meðferð málsins sem mun vonandi hefjast í næstu viku og ég bind vonir við að umræðan um þetta stóra mál verði fagleg og málefnaleg. Á grundvelli allrar þessarar vinnu getum við haft væntingar til þess að hægt verði að efla bankann enn frekar þannig að hann geti enn betur en áður sinnt sínum mikilvægu verkefnum. Ég vil á þessum tímapunkti þakka starfsfólki FME og Seðlabankans fyrir gott samstarf við undirbúning þessa frumvarps. En þetta eru ekki einu tímamótin heldur mun Seðlabankastjóri láta af störfum nú í sumar og eins og komið hefur fram í fréttum eru allmargir sem sækja um stöðu Seðlabankastjóra. Ég vil að lokum nýta þetta tækifæri hér í dag og þakka Seðlabankastjóra samstarfið og sömuleiðis vil ég þakka starfsfólki bankans sem staðið hefur vaktina en óhætt er að segja að undanfarin tíu ár hafi verið miklir umbrota- og örlagatímar í íslensku samfélagi. Ég þakka kærlega fyrir ykkar framlag á þessum tímum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta