Hoppa yfir valmynd
31. desember 2022 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra 2022

Kæru landsmenn!

Daginn sem ég fæddist, 1. febrúar 1976, birtist í Þjóðviljanum grein eftir Halldóru Sveinsdóttur Sóknarkonu sem var nýfarin að vinna öll hefðbundin heimilisstörf á spítala. Hún var á byrjunarlaunum þrátt fyrir að hafa unnið nákvæmlega sömu störf í 23 ár á eigin heimili. Í greininni benti hún á misræmið milli þess að hefja mæður til skýjanna en borga þeim svo lægsta kaupið þegar þær færu út á vinnumarkaðinn.

Ótrúlega margt hefur breyst frá því að Halldóra skrifaði þessa grein og Ísland stendur nú fremst meðal þjóða þegar kynjajafnrétti er metið á alþjóðavettvangi. En enn borgum við konum minna en körlum og enn vinna konur ólaunuð heimilisstörf í meira mæli en karlar. Þessu eigum við að breyta þannig að fullt jafnrétti kynjanna verði ekki bara draumur heldur veruleiki.

Þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir tuttugu árum gaf eldri maður mér það vinsamlega ráð að til að vera tekin alvarlega þyrfti ég að gæta þess að ræða ekki um of „mjúku málin“ eins og jafnrétti, tungumál, börn, hamingju og umhverfisvernd. Sannarlega hefur það orðið mitt hlutskipti að ræða um önnur mál en eigi að síður hef ég lagt mig fram um að tala sérstaklega um einmitt þessi mál enda er ég eins og margir aðrir Íslendingar gjörn á að gera þveröfugt við það sem mér er sagt.

En hvað eru mjúk mál og hvað hörð?  Spurningin er kannski miklu fremur sú hvað er mikilvægt í bráð og lengd. Og kannski eiga hin svo kölluðu mjúku mál það sameiginlegt að þau snúa að undirstöðum samfélagsgerðar okkar og langtíma hagsmunum þjóðarinnar og eru því stundum vanmetin í orðaskaki og ati dagsins. 

Góðir landsmenn.

Á sama tíma og nýsköpun í tungumálinu blómstrar skráðu sig í vetur innan við 20 nýnemar í íslensku í Háskóla Íslands. Ekki er talið að þeir hafi nokkru sinni verið færri og það er sérstakt umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að tungumálið leikur lykilhlutverk í þeim tæknibreytingum sem nú ganga yfir. Stjórnvöld hafa í nánu samstarfi við atvinnulífið og vísindamenn lagt áherslu á þróun í tungutækni til að tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í heimi gervigreindar og snjalltækja. Til þess þarf auðvitað fjármagn en mikilvægast er að á Íslandi sé til staðar nægjanleg sérþekking til að við getum mætt þeim áskorunum sem hinar öru tæknibreytingar færa okkur í fang dag hvern.

Það eru því miður ýmis teikn á lofti um að íslenska eigi undir högg að sækja. Við erum umkringd efni á ensku – ekki síst börnin okkar sem sækja sér eigið afþreyingarefni í gegnum netið en þurfa ekki að bíða eftir línulegri dagskrá Ríkissjónvarpsins. Ég man enn nákvæmlega hvaða barnaefni var í boði þegar ég var barn, enda var vikubið eftir hverjum þætti. Öldin er nú önnur og flest börn geta sótt sér hvaða efni sem er úr endalausu úrvali, meirihlutann á ensku. Málþroski barna skiptir sköpum í þróun tungumálsins og á nýju ári þurfum við að ræða hvernig við getum aukið framboð á íslensku efni fyrir börn sem og að auka talsetningu á erlendu efni.

Við þurfum líka að huga að því að nú býr hér fleira fólk sem er nýflutt til landsins en nokkru sinni fyrr. Það er jákvætt og gerir samfélag okkar fjölbreyttara og sterkara. Við eigum einmitt að gera fólki hvaðanæva að auðveldara að koma hingað og afla tekna, skapa verðmæti og búa sér til betra líf – og við eigum að taka vel á móti fólki sem hingað flytur, tryggja því íslenskukennslu, gefa okkur tíma í daglegu lífi til að hlusta og tala við fólk á íslensku og vinna þannig að því að þau geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Tungumál er ekki staðnað fyrirbæri. Það krefst stöðugrar notkunar og að því sé beitt á nýja hluti nánast daglega. Tungumál sem litið er á eingöngu sem menningararf visnar upp og deyr. Hlutverk okkar er að nota tungumál okkar á öllum sviðum til allra verka.

Kæru landsmenn.

Við fáum ítrekaðar vísbendingar um að börnunum okkar líði ekki nógu vel. Þessar vísbendingar hafa verið að hrannast upp á undanförnum árum og líðanin virðist hafa versnað í heimsfaraldri. Suma vanlíðan er hægt að rekja til efnahagslegrar eða félagslegrar stöðu en svo útbreidd vanlíðan bendir til þess að eitthvað sé skakkt í samfélaginu.

Ég er sjálf fegin að hafa á unglingsárum mínum sloppið við þá pressu sem fylgir samfélagsmiðlum hvers konar. Mér finnst slæmt að heyra frásagnir af vanlíðan unglinga vegna viðbragða eða skorts á viðbrögðum við innleggjum á samfélagsmiðlum. Börn og unglingar eru óhörðnuð og enn að læra, á veröldina og sig sjálf. Þó að það sé flókið að segja til um hvað valdi vaxandi vanlíðan ungmenna er ekki óeðlilegt að staðnæmst sé við þessa örustu og sennilega mestu samfélagsbreytingu allra tíma og metið hvaða áhrif hún hefur á börnin okkar.

Fyrst og síðast verðum við að skilja tæknina og áhrif hennar. Þannig getum við foreldrar leiðbeint börnunum okkar og stutt þau á þroskabraut sinni. Ég er reyndar bjartsýn hvað þetta varðar, börn og ungmenni ráða ótrúlega vel við tæknina og oft mun betur en við sem miðaldra erum. En tæknin er eitt, afleiðingar hennar annað. Þessi tækni hefur nú þegar breytt öllu; samskiptum okkar hvert við annað en ekki síður hvernig við speglum okkur í heiminum.

Breytingin hefur orðið á undraskömmum tíma og ekki eingöngu hjá börnum heldur líka hjá okkur fullorðnum sem verjum mögulega meiri tíma í símanum en öllu öðru. Tæknin hefur gerbreytt tilveru okkar; líka samskiptum barna og fullorðinna og þá er mikilvægt að við greinum hvernig við getum lifað farsællega með tækninni og tryggt að mennskan lifi áfram góðu lífi.

Gott líf, hamingja og mennska eru jú tilgangur alls þessa sem við erum að fást við. Þetta er viðfangsefni stjórnmálanna og frumforsenda alls athafnalífs, lista og menningar. Alltof oft missum við sjónar á þessu og einblínum þess í stað eingöngu á hagræna mælikvarða eins og þjóðarframleiðslu.  Þeir eru vissulega mikilvægir, ágætir fyrir sinn hatt, en segja ekki nema hluta sögunnar. Hagvöxtur er ekki endilega ávísun á velferð barna eða aukna hamingju.

Margt af því sem gert hefur verið á undanförnum árum snýst um að efla velsæld allra landsmanna: Stytting vinnuviku, lenging fæðingarorlofs, aukinn stuðningur við barnafólk, aukið framboð á húsnæði, sterkara heilbrigðiskerfi og menntakerfi; allt er þetta gert til að styðja fólk í að rækta sjálft sig og finna hamingjuna.

Kæru landsmenn.

Því miður hefur árið 2022 einkennst af áframhaldandi áföllum. Daginn eftir að við afléttum sóttvarnarráðstöfunum hér á Íslandi réðust Rússar inn í Úkraínu. Sú innrás stendur enn og afleiðingar þess blasa við. Milljónir Úkraínumanna eru á flótta, þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið, eyðileggingin er gríðarleg. Engar forsendur eru til að hugsa um neitt annað en að halda lífinu í úkraínsku þjóðinni – allt annað bíður. Þannig birtist eyðingarmáttur og tilgangsleysi stríðs – þegar fólk er drepið fyrir það eitt að vera til verða hefðbundin pólitísk viðfangsefni léttvæg.

Stríðið hefur sýnt fram á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs en sterk samstaða hefur myndast gegn stríðinu. Við Íslendingar höfum nú tekið við formennsku í Evrópuráðinu; grundvallarstofnun Evrópu þegar kemur að því að tryggja mannréttindi og efla lýðræði. Sjaldan eða aldrei hafa þau grunngildi verið mikilvægari og þar höfum við mikilvægu hlutverki að gegna. Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn á Íslandi í vor og þar mun gefast tækifæri til að treysta samstöðuna um þessi mikilvægu gildi fyrir álfuna okkar.

Stríðið hefur að auki afleiðingar langt út fyrir landamæri Úkraínu. Í Evrópu hækka orkureikningar á meðan húsin kólna og kveikt er á öðrum hverjum ljósastaur. Við sem búum á Íslandi erum svo lánsöm að eiga hitaveitu og rafveitu – hvorttveggja að mestu í almannaeigu sem sýnir sig nú að er í senn velsældar og öryggismál. Þannig eigum við að halda því. Það eru óvissutímar í heiminum, öfgarnar miklar og áföllin stór. Á slíkum tímum skiptir öllu máli að hafa skýr leiðarljós.

Kæru landsmenn.

Verkefnið hér á landi er að skapa forsendur til að halda áfram að bæta og jafna lífskjörin og takast á við þær miklu umbreytingar sem við stöndum frammi fyrir. Við kjarasamningsborðið er horft til skemmri tíma vegna óvissunnar og samningsaðilar hafa lagt mikið á sig til að landa farsælum samningum á óvissutímum.

Stjórnvöld gera sitt til stuðla að stöðugleika og bæta lífskjör almennings – lækka húsnæðiskostnað og styðja betur við barnafólk með hærri barnabótum sem ná til fleiri. Þá skiptir miklu máli að í svokölluðum lífskjarasamningum og þeim skammtímasamningum sem nú liggja fyrir við meirihluta fólks á almennum vinnumarkaði að áherslan er á hækkun lægstu launa. Samfélag sem leggur áherslu á að styðja við þá sem minnst hafa á milli handanna er gott samfélag. Og við eigum í öllum okkar verkum að stefna að því útrýma fátækt sem er samfélagsmein sem á ekki að líðast í okkar samfélagi.

Yfir og allt um kring er loftslagsváin sem fór ekkert á meðan heimsfaraldri stóð. Iðnbyltingar fyrri alda hafa leitt af sér miklar umhverfislegar fórnir sem við sitjum uppi með. Hin risavaxna áskorun er að tryggja að jöfnuður og réttlæti verði leiðarljós við nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Við erum þegar komin á fulla ferð inn í nýtt grænt hagkerfi og nú mun hraðinn aukast. Frá því að ríkisstjórnin lagði fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum 2018 hefur margt áunnist. Við stefnum ótrauð áfram að því markmiði að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar um samdrátt í losun og kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Kæru landsmenn

„Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá“ orti séra Valdimar Briem prestur á Stóra-Núpi en þann merka stað heimsótti ég nýlega. Hraðinn og spennan má þó ekki verða svo mikil að við gleymum því sem mestu skiptir. Minnumst góðu stundanna með fjölskyldu og vinum. Alls þess skemmtilega sem við höfum gert. En leggjum líka það erfiða að baki með hjálp fjölskyldu og vina, leggjum okkur fram um að hjálpa þeim sem aðstoðar eru þurfi, munum að öll erum við mikilvæg og samfélög sem grundvölluð eru á  mennsku, tillitsemi og virðingu eru sterk og þess virði að varðveita.

Með hækkandi sól lítum við til framtíðar, erum bjartsýn og vonum að nýtt ár færi heiminum öllum frið – sem er undirstaða farsældar fyrir okkur öll.

Kæru landsmenn! Ég óska ykkur öllum farsæls komandi árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta