Hoppa yfir valmynd
13. september 2023 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á 154. löggjafarþingi, flutt á Alþingi 13. september 2023

Kæru landsmenn, kæru þingmenn.

Að venju lék sumarið vel við landsmenn og þrátt fyrir ýmis deiluefni á sviði stjórnmálanna sýnist mér þingmenn koma vel undan sumri, tilbúnir í viðburðaríkan vetur.

Efst á baugi verða efnahagsmál og kjarasamningar enda hefur blásið á móti undanfarin misseri; fyrst heimsfaraldur með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum og síðan hraður viðsnúningur hér innanlands samhliða stríðsátökum í Evrópu með verðbólgu og vaxtahækkunum. Þjóðin hefur siglt mótbyrinn af staðfestu og reynst vandanum vaxin. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa borið árangur og hagvísar vísa nú í rétta átt. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað langt umfram bjartsýnustu spár en gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði um 100 milljörðum betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga 2023 í lok síðasta árs. Undirliggjandi verðbólga stefnir nú niður á við og við munum sjá verðbólgumælingar ganga niður. Þetta mun skapa forsendur fyrir lækkun vaxta sem eru farnir að bíta verulega, bæði almenning og atvinnulíf.

Til að styðja við peningastefnuna hefur ríkisstjórnin tekið forystu og gripið til margvíslegra aðgerða. Sýnt gott fordæmi með því að miða launahækkanir æðstu ráðamanna við 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans. Varið kaupmátt öryrkja með viðbótarhækkunum á örorkulífeyri almannatrygginga. Til að veita viðnám gegn þenslu og verðbólgu verður viðbótartekjuskattur lagður á fyrirtækin í landinu og ráðist í umtalsvert aðhald í ríkisrekstri – en grunnþjónustan verður þó varin og styrkt þar sem þörf er á. Allar þessar aðgerðir og margar fleiri styðja við sameiginlegt markmið okkar um að tryggja vaxandi velsæld með því að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Miklu mun skipta að aðilar vinnumarkaðarins fái ráðrúm til að ná saman um farsæla kjarasamninga til að tryggja að lífskjör hér á Íslandi verði áfram með því besta sem þekkist. Þar munu stjórnvöld hér eftir sem hingað til greiða fyrir samningum eins og hægt er. Miklu skiptir að áætlanir stjórnvalda í húsnæðismálum gangi eftir sem og þátttaka sveitarfélaganna í framkvæmd rammasamkomulags um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta fyrirsjáanlegri þörf allra hópa fyrir íbúðarhúsnæði. Í vor tilkynnti ríkisstjórnin um tvöföldun framlaga til að tryggja framboð af hagkvæmu húsnæði. Þessi aukning gerir það að verkum að unnt verður að byggja 2000 almennar íbúðir til langtímaleigu fyrir tekjulægri heimili á næstu tveimur árum í stað 1000. Þá verður unnið að bættri réttarstöðu leigjenda á grundvelli tillagna starfshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Auk þess er til skoðunar hvernig betur megi tryggja samræmi og sanngirni við beitingu á beinum húsnæðisstuðningi við leigjendur. Öruggt húsnæði er lykill að lífsgæðum og því eitt forgangsmála ríkisstjórnarinnar.

Frá upphafi hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á bætt kjör barnafjölskyldna. Úttekt á stöðu ungbarnafjölskyldna stendur nú yfir á vegum þjóðhagsráðs og verða niðurstöðurnar nýttar til að bæta kjör þeirra. Þegar hafa stór skref verið stigin til að efla barnabótakerfið og hefur foreldrum sem eiga rétt á barnabótum fjölgað um tíu þúsund á fimm árum.

Í forsætisráðuneytinu vinnum við nú að aðgerðaáætlun til að draga úr fátækt í kjölfar skýrslu sem ég lét vinna að beiðni Alþingis. Þar kom fram að dregið hefur úr fátækt undanfarna tvo áratugi og staðan á Íslandi er með því besta sem þekkist. Það er gott að okkur hefur miðað áfram og það gefur okkur trú á verkefnin. En meðaltöl og langtímaþróun leysa ekki neyð þeirra sem ennþá eiga vart til hnífs og skeiðar þegar líða tekur á mánuðinn. Sama gildir um áhyggjur foreldra sem ekki geta veitt börnum sínum þátttöku í íþróttum og tómstundum vegna fjárskorts. Fátækt er enn til staðar og þar standa einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur verst. Það kallar á áframhaldandi markvissar aðgerðir á grundvelli greininga.

Árangur í baráttunni gegn fátækt er lykilatriði þegar horft er til almennrar velsældar. Heildarendurskoðun og umbætur á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem nú er unnið að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vegur þungt í þessu samhengi. Fyrstu skrefin voru tekin síðasta vetur m.a. með því að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega eftir 14 ára kyrrstöðu. Nýtt kerfi með frekari umbótum verður að fullu innleitt í áföngum á næstu árum og gerir fjármálaáætlun ráð fyrir 16,5 milljarða króna auknum framlögum á ársgrundvelli þegar það hefur verið innleitt að fullu. Þegar þessar breytingar hafa náð fram að ganga verða þær eitt stærsta skref sem lengi hefur verið tekið af hálfu Alþingis til að draga úr fátækt – og okkur öllum til sóma.

Kæru landsmenn.

Von er á uppfærðri aðgerðaáætlun í loftlagsmálum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um áramót. Þar munu birtast endurskoðaðar og nýjar aðgerðir til að ná metnaðarfullum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Von er á frumvarpi frá umhverfisráðherra um vindorku og þar skiptir mestu að unnið verði faglega, gætt að náttúruvernd, tryggt að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar á sama tíma og við nýtum fjölbreytta möguleika til grænnar orkuöflunar.

Kynntar hafa verið niðurstöður umfangsmikillar vinnu um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sem byggja á víðtæku samráði og opnu samtali um íslenskan sjávarútveg. Í efnislegum niðurstöðum eru ýmis tíðindi og ég nefni sérstaklega tvennt; annars vegar að meginreglur umhverfisréttar, til dæmis hvað varðar vistkerfa- og varúðarnálgun, verði innleiddar í fiskveiðistjórnunarkerfið og hitt, að viðmið um heildaraflahlutdeild og tengda aðila verði einfölduð og skýrð og gagnsæi í eignarhaldi og rekstri sjávarútvegfyrirtækja aukið m.a. með skráningu viðskipta með aflaheimildir í opinbera gagnagrunna. Hvorttveggja risastór framfaramál sem við munum fást við á þingvetrinum.

Framundan er fyrsta starfsár nýs Vísinda- og nýsköpunarráðs sem verður stjórnvöldum til ráðgjafar varðandi stefnumótun í þeim málum. Við höfum séð stórfelldan vöxt í þekkingarmiðaðri starfsemi í atvinnulífinu á undanförnum árum sem er orðin ný undirstöðustoð í íslensku atvinnulífi, fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum hafa aukist og hafa aldrei verið meiri en árið 2022. Ríkisstjórnin boðar aukin framlög til háskólanna í fjármálaáætlun sinni enda eru þeir undirstöðurnar undir allan þennan vöxt.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins og þau sem þangað eiga leið, sjá nú nýjan Landspítala rjúka upp. Tímamóta framkvæmd sem mun gerbreyta starfsaðstæðum þeirra sem vinna á þessari grundvallarstofnun íslenska heilbrigðiskerfisins. Á sama tíma höfum við aukið fjárframlög til heilbrigðisþjónustu, hvort sem er í krónum talið eða sem hlutfall af landsframleiðslu, og dregið úr beinni greiðsluþátttöku sjúklinga. Samið hefur verið við sérfræðilækna, styrkir til tannréttinga nær þrefaldaðir.  Unnið er samkvæmt áætlun um mönnun heilbrigðiskerfisins sem er risastórt viðfangsefni ekki eingöngu á Íslandi heldur í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Ráðherranefnd um íslenska tungu tók til starfa í nóvember síðastliðnum og menningar- og viðskiptaráðherra mun leggja fyrir þingið tillögu um eflingu íslenskrar tungu. Við stöndum á tímamótum þar sem ensk máláhrif eru alltumlykjandi í nýju tækniumhverfi og íslenskan er áskorun fyrir innflytjendur, sem hafa aldrei verið fleiri. Um leið hefur atorka stjórnvalda í góðri samvinnu við ýmis samtök og einstaklinga skilað árangri. En betur má ef duga skal. Við höfum skyldum að gegna til að varðveita íslenska tungu og gera öðrum kleift að njóta hennar, ekki bara gagnvart okkur sjálfum heldur heiminum öllum sem yrði fátækari ef ein þjóðtungan enn hyrfi af sviðinu.

Herra forseti.

Í veröld allri hafa dregist upp skarpar átakalínur undanfarin misseri og ár. Á sama tíma og loftslagsváin hefur skapað neyðarástand víða hefur átökum í heiminum fjölgað. Oftar en ekki snúast þau átök um grundvallarréttindi fólks. Á vettvangi alþjóðastofnana er tekist á um mannréttindi sem við héldum að við hefðum þegar barist fyrir – eins og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama eða réttindi hinsegin fólks. Tekist er á um gildi þeirrar samfélagsgerðar sem við höfum byggt upp – lýðræði, frelsi, mannréttindi og réttarríkið. Víða er vegið að sjálfstæði dómstóla og grafið undan löggjafarvaldinu. Ísland á að beita sér og tala hátt og skýrt fyrir þessum gildum á alþjóðavettvangi. Ísland tók í fyrsta sinn sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna árið 2019 og beitti sér þar af krafti. Við bjóðum okkur nú fram á nýjan leik til setu þar á árunum 2025-2027.

Áfram munum við berjast fyrir jafnrétti kynjanna heima og að heiman og ég mun leggja fyrir þingið frumvarp um Mannréttindastofnun núna strax í haust sem er forsenda þess að unnt verði að lögfesta Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Kæru landsmenn.

Það er alltaf krefjandi viðfangsefni að vera í ríkisstjórn og ekki síður óvenjulegri ríkisstjórn. Óvenjulegri vegna þess að það er sjaldgæft að ólíkir flokkar taki sig saman um að byggja brýr á milli gagnstæðra póla með velsæld fólksins í landinu að leiðarljósi. En það gerir hlutverk stjórnarandstöðu líka óvenjulegt og krefjandi enda er hún ekki síður innbyrðis ólík en ríkisstjórnin.

Auðvitað ætti það ekki að vera framandi. Okkar daglega líf og samskipti snúast að miklu leyti um þetta – að kunna ekki bara að hlusta á ólík sjónarmið, heldur virða þau og geta komist að sameiginlegri niðurstöðu í þágu heildarinnar. Allt frá því hvað á að vera í kvöldmatinn, hver skjátíminn á að vera og hvaða verkefnum á að forgangsraða í húsfélaginu yfir í það hvernig við aukum velsæld og náum árangri í loftslagsmálum. Öll slík verkefni byggja á því að skilgreina markmið sem eru samfélaginu til hagsbóta og finna svo leiðir að þeim – og það getur kallað á málamiðlanir um leiðina og hversu hratt markmiðum verður náð.

Ríkisstjórnin hefur tekist á við mörg stór mál með þessum hætti með góðum árangri. Það stærsta án efa heimsfaraldurinn en einnig má nefna breytingar á skattkerfinu, stuðning við kjarasamninga og kaupmáttaraukningu, rammaáætlun og fleira mætti telja. Og ég fagna því að sjá málefnalegt frumkvæði Viðreisnar að því að eiga þverpólitískt samtal um málefni útlendinga – ég held að slík vinnubrögð geti fært samfélaginu öllu árangur og framfarir.

Það eru mörg mikilvæg mál sem við þurfum að takast á við. Og ég hef enn trú á að besta pólitíkin sé að vinna að sátt um lausnirnar frekar en pólitík sem snýst um að herða pólana og færa þá lengra í sundur. Og ég er viss um að við sem byggjum þetta land erum langflest sammála um það. Ég er ekki aðdáandi þeirra stjórnmálamanna sem telja sér til tekna að semja aldrei, líta á hverja sátt sem uppgjöf og telja deilur sér til tekna fremur en sátt og samvinnu. Það er nefnilega fleira sem sameinar okkur heldur en sundrar og þessi ríkisstjórn sem nú situr var mynduð til að finna leiðir að markmiðum sem þjóðin getur sameinast um frekar en deilur og flokkadrætti.

Þar með er ekki sagt að pólitísk deilumál eigi að víkja til hliðar og lognmollan ein að ríkja. En það er sitt hvað pólitík sem annars vegar byggir á skautun, virðingarleysi fyrir pólitískum andstæðingum og popúlisma og hins vegar þeirri pólitík sem tekst á við þá staðreynd að fólkið í þessu landi hefur ólíkar skoðanir og reynir að leiða fram skynsamlega niðurstöðu mála sem megin þorri þjóðarinnar getur fellt sig við.

Verkefni þessarar ríkisstjórnar og alls Alþingis eru ljós og skýr. Meginviðfangsefnið er að ná niður verðbólgu og vöxtum og byggja ofan á þann góða árangur sem náðst hefur í efnahags- og velferðarmálum þrátt fyrir áhlaup síðustu ára. Við erum á réttri leið og nú þarf að tryggja að batinn sem fram undan er skili sér inn í íslenskt samfélag, efnahagslíf og inn á hvert heimili. Það er verkefni okkar og frá því munum við ekki hvika. Ábatann munum við sjá í vetur svo fremi sem okkur auðnist að vinna saman að stóru markmiðunum – heill og velferð íslensku þjóðarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta