Hoppa yfir valmynd
31. desember 2023 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra 31. desember 2023

Ágætu landsmenn!

Í vikunni birtist könnun þar sem fram kom að landsmenn eru bjartsýnir á komandi ár og telur meirihluti að árið verði betra en árið sem nú rennur sitt skeið. Ég er ein af þeim sem tilheyri þessum meirihluta. Árið sem senn er á enda einkenndist af verðbólgu og annarri ólgu – ég trúi því hins vegar að á nýju ári eigum við rík tækifæri til að efla farsæld allra landsmanna. Bjartsýni er stundum skilgreind sem trú á samfélaginu og öðru fólki, að hægt sé að vinna eitthvað til góðs og hafa jákvæð áhrif á heiminn. Sú trú er nauðsynleg.

Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Miklu skiptir að þar takist vel til, samið verði til langs tíma og niðurstaðan styðji við vaxandi kaupmátt fólks á grundvelli verðstöðugleika. Það er í okkar höndum að ná verðbólgunni niður og tryggja þannig forsendur fyrir lægri vöxtum og bættum lífskjörum. Björninn er ekki unninn og hér þarf samstillt átak. Ríkisstjórnin, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins, við þurfum öll að taka höndum saman til að skapa forsendur fyrir vaxandi velsæld og bætt lífskjör fyrir fólkið í landinu.

Undanfarna mánuði höfum við átt í virku samtali við aðila vinnumarkaðarins um hvernig megi tryggja langtímasamninga sem stuðla að auknum kaupmætti og verðstöðugleika. Í húsnæðismálum verður ný húsnæðisstefna nauðsynlegur leiðarvísir en hún hefur það meginmarkmið að tryggja húsnæðisöryggi landsmanna. Byggt verður á þeim mikilvægu skrefum sem tekin hafa verið nú þegar til að stórauka framboð á húsnæði. Við leggjum þunga áherslu á að treysta betur húsnæðisöryggi og samhliða þessum aðgerðum verður horft til aukins stuðnings við barnafjölskyldur. Öll börn eiga að geta nýtt þau fjölmörgu tækifæri sem íslenskt samfélag býður upp á, óháð efnahag og félagsstöðu foreldra, og það er okkar hlutverk að tryggja að þau geti það. Við leggjum grunn að betra samfélagi með því að styðja betur við barnafjölskyldur og stefna að því að útrýma fátækt barna sem er eitt mikilvægasta samfélagslega verkefni hvers tíma.

Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga og verðbólgumarkmið á sama tíma. Ríkur vilji er hjá verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum til að þetta geti gengið eftir. Með sameiginlegu þjóðarátaki gegn verðbólgu sköpum við forsendur til að unnt verði að lækka vexti sem mun skipta öllu fyrir almenning í landinu. Við Íslendingar erum nefnilega þannig að ef við stöndum saman og einsetjum okkur að ná árangri þá næst hann.

Ég er sannfærð um að við munum ná árangri og ég er einnig sannfærð um að við munum sjá verðbólguna hjaðna á árinu þannig að hún hafi lækkað um helming í lok árs landsmönnum öllum til verulegra hagsbóta.

Kæru landsmenn.

Á fundum mínum með Grindvíkingum og á samverustundum í Hallgrímskirkju og Keflavíkurkirkju varð mér iðulega hugsað til meira en þúsund ára sambýlis manns og fjölbreyttrar en stundum viðsjárverðrar náttúru á þessu landi. Ekki einu sinni heldur tvisvar opnaðist jörðin á Reykjanesskaga og spúði hrauni á árinu sem senn er liðið. Í aðdraganda síðara gossins skalf jörðin ógurlega þannig að heljarsprungur opnuðust og tekin var ákvörðun um að rýma Grindavík sem hefur verið í byggð frá landnámsöld. Það er frumskylda stjórnvalda að tryggja öryggi fólks og hafa allar ákvarðanir miðað að því markmiði. Það er stór ákvörðun að ákveða að flytja hátt í 4000 manns af heimilum sínum og út í óvissuna, sem er umfangsmesta rýming hér á landi í fimmtíu ár. Í kvöld kveðja fæst þeirra árið á sínum heimaslóðum og hugur okkar er og verður hjá íbúum Grindavíkur.

Ríkisstjórnin ákvað nú fyrir áramót að reisa stóran varnargarð til að verja byggðina við Grindavík og reyna af fremsta megni að tryggja öryggi íbúa. En ógnin af eldgosi nær víðar –  hún nær til allra 30 þúsund íbúa Suðurnesja sem reiða sig á hita og rafmagn frá orkuverinu við Svartsengi. Þess vegna var nauðsynlegt að ráðast í byggingu varnargarðs til að reyna að verja orkuverið og þar með öryggi allra íbúa Suðurnesja.

Ísland er ekki eina landið sem stendur nú frammi fyrir alvarlegri náttúruvá. Loftslagsvá af manna völdum hefur þegar skapað neyðarástand víða um heim. Árið sem nú er á enda er heitasta ár sögunnar. Ísinn á norður- og suðurskauti hopar, yfirborð sjávar hækkar og hitinn veldur auknum öfgum í veðurfari. Neyðarástand er staðreynd og við því þarf að bregðast. Við verðum að draga úr losun gróðurlofttegunda og það þýðir að við verðum að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í áföngum til að ná markmiðinu um að halda hlýnun jarðar innan einnar og hálfrar gráðu og koma  í veg fyrir að verstu spár um afleiðingar hlýnunar jarðar gangi eftir. Þetta krefst þess að við gerum hlutina öðruvísi í takt við nýja tíma og breyttar aðstæður. Stundum munum við þurfa að gera meira og stundum minna. En Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum í þessari baráttu.

En ekki voru það einungis náttúruöflin sem ollu usla í heiminum. Rússland réðst inn í Úkraínu snemma árs 2022 og enn sér ekki fyrir endann á þeim ógnaratburði. Mannfall hefur verið gríðarlegt og óljóst hverju stríðið á að skila öðru en dauða, skaða á náttúru og innviðum, sorg og reiði. Á árinu sem er að líða gerðu Hamas-samtökin mannskæða árás á óbreytta borgara í Ísrael þar sem á annað þúsund dóu og í kjölfarið hófust skelfilegar árásir ísraelska hersins á Gaza þar sem meira en 20 þúsund almennir palestínskir borgarar hafa fallið. Þessar hræðilegu árásir hafa leitt af sér hörmungar sem engin orð fá lýst. Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt þessar árásir á óbreytta borgara og innviði og hafa gert kröfu um tafarlaust vopnahlé og rannsókn á stríðsglæpum. Því miður sér enn ekki fyrir endann á þessum hörmungum og dregið hefur úr von um varanlegan frið og öryggi á grundvelli tveggja ríkja lausnar.

Á sínum tíma orti skáldkonan Hulda um að Ísland væri fjarri heimsins vígaslóð en samt erum við hluti af samfélagi þjóðanna og örlög fólks á stríðssvæðum heimsins skipta okkur máli, fólk sem býr við hungur, sjúkdóma og er hrakið frá heimili sínu kemur okkur við og okkur ber að styðja við og hjálpa þar sem við getum lagt gott til.

Það sem Hulda er meðal annars að yrkja um er griðastaðurinn Ísland. Blessunarlega er það svo að í öllum samanburði höfum við það gott á Íslandi sama hvort við berum okkur að hinni efnahagslegu mælistiku, horfum á gæði náttúrunnar eða metum samfélagið sjálft. Venjulega myndi ég segja að það væri þó margt sem við gætum gert betur – en í kvöld vil ég bæta því við að við megum ekki hætta að vera þakklát fyrir þann ótrúlega fjársjóð sem við eigum í íslensku samfélagi. Þetta samfélag er gott samfélag, við erum alls konar fólk með ólíkar skoðanir, þrasgjörn jafnvel, einkum þegar vel gengur, en þegar á móti blæs stöndum við saman og erum býsna úrræðagóð þegar á þarf að halda. Við erum raunverulegt lýðræðissamfélag þar sem reglur réttarríkisins eru virtar, þar sem tjáningarfrelsi er virt og þar sem við veitum hvert öðru aðhald. Ekkert af þessu er sjálfgefið og allt er þetta merki á góðu samfélagi. Við eigum að gæta vel að því sem við höfum skapað saman og kappkosta að efla áfram samfélag okkar sem best. Þannig aukum við almenn lífsgæði landsmanna allra, en erum einnig í betri færum með að hjálpa og styðja meðbræður okkar, sem svo mjög þurfa á hjálp að halda.

Kæru landsmenn.

Einn dásamlegan sumardag í ár heimsótti ég Siglufjörð þar sem ég afhjúpaði listaverkið Síldarstúlkurnar. Síldarævintýrið skapaði ævintýraleg verðmæti og útflutningstekjur og minnir listaverkið okkur á þátt kvenna í þeirri verðmætasköpun. Konurnar voru jafnan í miklum meirihluta á síldarplönunum, unnu gríðarlega erfiða vinnu í öllum veðrum og vindum. Og aðstæður þessara kvenna voru  misjafnar, sumar fóru frá fullu heimili af börnum, oft þurftu þær að skilja kornabörn sín eftir dögum saman, sumar tóku ung börn sín með til vinnu og konurnar voru á öllum aldri, ungar sem aldnar og allt þar á milli. Það var ekki fyrr en um miðja tuttugustu öld sem þessar konur fengu ókeypis gúmmívettlinga til að sinna störfum sínum og þótti það mikil kjarabót á þeim tíma enda urðu þær oft handlama af sárum og ígerð.

Þessar konur voru mér ofarlega í huga á degi kvennaverkfalls í október. Krafan var skýr: Jafnrétti verður ekki náð nema við útrýmum kynbundnum launamun og kynbundu ofbeldi og áreiti. Ég hef í ófá skipti setið með erlendum blaðamönnum sem sumir spyrja af hverju enn þurfi að mótmæla misrétti á Íslandi sem mælist efst á flestum listum sem mæla jafnrétti. Þá er rétt að benda á að ástæða þess að Ísland stendur best í jafnréttismálum í heimi er elja og þrautseigja íslenskra kvenna sem hafa t.a.m. barist fyrir kerfislegum breytingum eins og leikskólum og fæðingarorlofi, sett málefni eins og kynbundið ofbeldi og áreiti rækilega á dagská og breytt hugarfari og gildismati í bæði opinberri umræðu og daglegu lífi. En markmiðinu er ekki náð og íslenskar konur munu ekki unna sér hvíldar fyrr en fullu jafnrétti er náð.

Þó stundum geti verið varhugavert að nefna ártöl í umræðu sem þessari þá trúi ég því að við getum náð því markmiði fyrir árið 2030. Árangurinn undanfarin 30 ár ætti að vera innblástur til að gera það sem gera þarf. Jafnrétti kynjanna er réttlætis- og mannréttindamál sem hefur  jákvæð áhrif á samfélag og efnahag og því er það allra hagur að taka höndum saman og útrýma kynbundnum launamun og kynbundnu ofbeldi. Samfélag þar sem jafnrétti kynjanna hefur verið náð er því ekki einkamál okkar kvenna, slíkt samfélag hlýtur að vera og á að vera baráttumál allra, óháð kyni eða öðru því sem er til þess fallið að skilja á milli í umræðu um skipan þjóðfélagsins.  

Kæru landsmenn.

Enn og aftur er runninn upp dagurinn þar sem við gerum upp árið sem nú er á enda og setjum okkur ný fyrirheit fyrir komandi ár. Tilfinningarnar sem fylgja þessum degi geta verið blendnar. Stundum eru minningarnar frá árinu fyrst og fremst góðar. Stundum viljum við bara losna við árið sem er á förum, fá nýtt og betra ár, stokka upp spilin og byrja upp á nýtt. Á þessu er allur gangur eins og við er að búast.

Sjálf get ég sagt að þrátt fyrir ýmsar áskoranir var svo ótal margt gott á liðnu ári – og auðvitað hlýjaði það öllum landsmönnum um hjartaræturnar að fylgjast til dæmis með íslenskum listamönnum og íþróttamönnum á árinu. Þau vekja hjá okkur öllum stolt og bera vott um sterkar undirstöður, hvort sem er í listmenntun eða íþróttastarfi, þar sem grunnurinn er lagður að afrekum síðari tíma en ekki síst því að efla og styrkja hvern og einn sem manneskju og samfélagið allt. Slíkt skiptir máli fyrir framtíð þessa lands.

Á morgun hefst nýtt ár og við getum látið það marka nýtt upphaf. Ár sem við vonum og trúum að geti fært okkur frið og farsæld. Ár þar sem við í sameiningu tökum höndum saman um að bæta velsæld og lífskjör okkar allra. Þess óska ég á þessum gamlársdegi; ekki aðeins okkur Íslendingum heldur heiminum öllum.

Kæru landsmenn, gleðilegt ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta