Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2025 Forsætisráðuneytið

Stefnuræða Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra - 10. febrúar 2025

Frú forseti – háttvirtir þingmenn. Það er heiður og mikil ábyrgð sem fylgir því að sitja á Alþingi Íslendinga. Til hamingju. Þjóðin hefur kosið. Þing er sett. Nú munu verkin tala.

Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Og með nýrri stjórn fylgir nýtt verklag.

Enda vorum við kosin til að leiða breytingar. Hvergi í vestrænu lýðræðisríki var eins mikil sveifla í kosningum á árinu 2024 eins og hér á Íslandi. Sem leiddi til hreinna stjórnarskipta. Og væntingar landsmanna hafa aldrei aukist eins mikið, samkvæmt mælingum á væntingavísitölu milli mánaða, eins og eftir að boðað var til þingkosninga síðasta haust.

Ég segi þetta vegna þess að það er von í lofti og miklum væntingum fylgir mikil ábyrgð – sem við þingmenn skulum öll vera meðvituð um og taka alvarlega. Til að standa okkur í starfinu og til að breyta í þágu lands og þjóðar.

Ég vænti þess að við getum átt gæfuríkt samstarf hér á Alþingi, milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þvert á flokka. Auðvitað verður líka tekist á. En það verður þá á lýðræðislegan og málefnalegan hátt – með hagsmuni Íslands í fyrsta sæti, ofar öllu öðru.

Forseti. Nýtt verklag birtist með ýmsum hætti.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er stutt og skýr, eins og tíðkaðist áður fyrr, og byggir á trausti í stað tilrauna til að binda niður allt og alla með málalengingum og orðskrúði.

Við vitum að verkin tala. Og höfum notað tímann vel á síðustu vikum. Til undirbúnings – með því að virkja stjórnkerfið og byrja á sjálfum okkur.

Nýtt verklag lýsir sér meðal annars í því að labba ekki inn í ráðuneytin og spyrja: Hvernig hefur þetta alltaf verið gert? Heldur gefa tóninn strax og hrista upp í hlutunum – og spyrja: Hvernig getum við virkjað þjóðina með okkur? Sem hefur nú skilað sér í 10 þúsund tillögum um hagsýni í ríkisrekstri – frá almenningi, atvinnurekendum, stéttarfélögum og stjórnendum og starfsfólki hins opinbera.

Takk! Takk fyrir að taka þátt og taka þessu svona vel. Ég veit að við munum ná árangri saman – og ég sé að verkefnið er þegar farið að skila árangri, með því að seytla um stjórnkerfið og samfélagið allt.

Nýtt verklag birtist líka í því hvernig við vinnum saman. Til dæmis með reglulegum sameiginlegum þingflokksfundum hjá stjórnarflokkum. Þá hef ég átt fundi einslega með hverjum einasta ráðherra til að stilla upp sterkri þingmálaskrá fyrir vorþingið – sem er trúverðug og sóar ekki dýrmætum tíma í mál sem munu aldrei komast til framkvæmda. Og að undanförnu hef ég sem forsætisráðherra farið í heimsóknir í ráðuneytin til að hitta fólkið sem vinnur á gólfinu í stjórnkerfinu. Með leyfi forseta:

„Ég hef unnið með 18 dómsmálaráðherrum en aldrei fengið forsætisráðherra í heimsókn,“ sagði ein. Sama sagði önnur eftir 21 ár í heilbrigðisráðuneytinu. Maður fyllist auðmýkt og virðingu við að hitta þetta fólk. Og það er hollt að minna sig á að margt er svo vel gert – þó að mörgu ætlum við að breyta, eins og við vorum kosin til að gera.

Ísland er frábært land. En við forðumst ekki stórar og jafnvel erfiðar ákvarðanir. Við ætlum áfram.

Og það gleður mig að greina frá því, forseti, að það er full eining í þessari ríkisstjórn um öll þau mál sem birtast í þingmálaskrá sem fylgir stefnuræðu minni sem forsætisráðherra. Það er ánægjulegt eftir það sem á undan hefur gengið og lofar góðu fyrir uppbyggilegt starf á Alþingi í vor.

* * *

Fyrst ber að nefna aðgerðir til að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta. Stöðugleikaregla verður leidd í lög um fjármál ríkisins til að styðja við lægri vexti – með frumvarpi fjármálaráðherra sem verður lagt fyrir Alþingi seinna í þessum mánuði. Þá hefur ríkisstjórnin sammælst um að engin ný útgjöld verði á árinu 2025 án þess að hagræða eða afla tekna á móti til að gæta jafnvægis. Í lok þessa mánaðar mun hagræðingarhópur skila tillögum til ríkisstjórnarinnar um hagsýni í ríkisrekstri.

Til að stemma stigu við óstöðugleika á húsnæðismarkaði verður gripið til bráðaaðgerða strax í vor. Við munum taka styrkari stjórn á skammtímaleigu til ferðamanna, tryggja skilvirkari framkvæmd við veitingu hlutdeildarlána, lækka fjármögnunarkostnað hjá húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða og liðka fyrir uppbyggingu einingahúsa. Þá verður innleidd skráningarskylda leigusamninga til að fá áreiðanlegri og skýrari mynd af þróun leiguverðs.

* * *

Næst vil ég nefna afmarkaðar aðgerðir í velferðarmálum á árinu 2025 sem skipta miklu máli – en kosta ríkissjóð hlutfallslega lítið og koma hratt til framkvæmda.

Meðferðarúrræðum verður ekki lokað í sumar – enda fer fíknisjúkdómurinn ekki í sumarfrí. Samhliða því að tryggja farsæla framkvæmd á breytingum á örorkulífeyriskerfinu munum við stíga fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar að bættum kjörum öryrkja og eldra fólks. Aldursviðbót örorkulífeyris mun haldast ævilangt, samkvæmt frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sem verður lagt fram í mars – og fellur þá ekki niður þegar öryrki nær 67 ára aldri eins og nú er raunin. Stöðu hagsmunafulltrúa eldra fólks verður komið á fót til að kortleggja félagslega stöðu þessa hóps og gera tillögur til úrbóta. Og þá verður kjaragliðnun launa og lífeyris loksins stöðvuð með lögum um að bæði örorku- og ellilífeyrir Tryggingastofnunar ríkisins hækki á hverju ári til samræmis við launavísitölu – en þó aldrei minna en verðlag. Þessi lög taka gildi með fjárlögum 1. janúar 2026.

Fyrstu breytingar nýrrar ríkisstjórnar á fæðingarorlofskerfinu munu sömuleiðis skipta sköpum fyrir marga – með frumvarpi í mars til að bæta hag fjölburaforeldra, lengja fæðingarorlof foreldra sem veikjast á meðgöngu eða eftir fæðingu og tryggja að hærri greiðslur gangi til allra foreldra sem eru í orlofi, óháð fæðingardegi barns. Þá verða fæðingarstyrkir námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar hækkaðir um 30 þúsund krónur á mánuði.

En stóra einstaka velferðar- og mannréttindamálið sem ríkisstjórnin leggur fram í vor er það að við ætlum, loksins, að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það verður stór stund og þýðingarmikil fyrir okkur sem þjóð.

* * *

Svo má nefna ýmsar aðgerðir til að auka verðmætasköpun í atvinnulífi og réttlæti í auðlindanýtingu. Við ætlum að höggva á hnútinn í orkumálum og verðum með að minnsta kosti fjögur stór þingmál í vor sem snúa að orkuöflun: Frumvarp strax á fyrstu dögum þings til að eyða óvissu um Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir. Orkuforgangur almennings verður á dagskrá, ásamt umfangsmiklu einföldunarfrumvarpi til að hraða og samræma málsmeðferð í leyfisveitingum – án þess að slá af kröfum um umhverfisvernd og almannasamráð – og svo verður lögð fram ný rammaáætlun þar sem virkjunarkostir verða flokkaðir í verndarflokk eða nýtingarflokk samkvæmt tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar.

Með þessu styður ríkisstjórnin bæði við verðmætasköpun og orkuskipti um land allt. Einnig er hafinn undirbúningur að nýjum heildarlögum um loftslagsmál sem leggja á fyrir Alþingi næsta haust. Sama gildir um samgönguáætlun sem verður í forgangi á haustþingi.

Í sjávarútvegsmálum eru stór verkefni. Atvinnuvegaráðherra leggur fram frumvarp í febrúar sem eykur gagnsæi í greininni, svo sem þegar kemur að eignarhaldi tengdra aðila. Strandveiðar verða styrktar og tryggðar í 48 daga í sumar og breytingar gerðar á veiðigjaldi til að það endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti.

* * *

Og svo mætti lengi telja: Fækkun ráðuneyta með 350 milljóna hagræðingu á ári. Sala Íslandsbanka í gagnsæju og traustu ferli þar sem almenningur hefur forgang. Fjölgun lögreglumanna um 50 strax á þessu ári. Frumvarp sem gerir lögreglu kleift að krefjast farþegaupplýsinga verður lagt fyrir Alþingi seinna í þessum mánuði. Afturköllun á alþjóðlegri vernd fyrir einstaklinga sem fremja alvarleg brot eða síendurtekin. Sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa maka. Heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga – sem er veigamikið mál. Við ætlum að gera lagfæringar á lögum um leigubíla. Og sameina sýslumannsembætti úr 9 í 1 – án þess að það komi niður á þjónustu á landsbyggðunum.

Þá verða styrkir til einkarekinna fjölmiðla endurskoðaðir og hámark þeirra lækkað strax í vor. Með breytingum á lögum um sviðslistir munum við bæta umgjörð óperustarfsemi og koma rekstrinum fyrir innan Þjóðleikhússins. Þar eru mikil sóknarfæri.

* * *

Í menntamálum verða nokkur mikilvæg frumvörp lögð fram. Meðal annars um nýtt fyrirkomulag við námsmat í grunnskólum og sömuleiðis um námsgögn – sem snýr bæði að fjölbreyttu framboði og því að gera námsgögn gjaldfrjáls í áföngum í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Námslánakerfinu verður breytt þannig að hluti lána breytist í styrk í lok annar, og fleiri breytingar verða gerðar á Menntasjóði námsmanna.

Og þó að forsætisráðherra komi ekki með beinum hætti að gerð kjarasamninga þá hefur þessi ríkisstjórn lýst sig reiðubúna til að liðka fyrir samningum við kennara með því að standa einhuga að því að flýta virðismatsvegferð og með því að flýta aðgerðum í menntamálum til að taka á breyttri stöðu í skólasamfélaginu og bæta aðstæður kennara og nemenda. Við skiljum þörfina og við skiljum líka að traustið er laskað og nú þarf að byggja það upp að nýju.

Í heilbrigðismálum verður ráðist í ýmsar umbætur til viðbótar við styrkingu meðferðarúrræða – eins og til dæmis reglugerðarbreytingar til að draga úr skriffinnsku og vottorðafargani. Þannig gefum við heilbrigðisstarfsfólki meiri tíma með sjúklingum. Rafræn sjúkraskrá verður skylda svo að hægt sé að samnýta upplýsingar. Og áhersla nýrrar ríkisstjórnar á heilbrigðismál mun birtast með skýrum hætti í fyrstu fjárlögum á haustþingi.

Forseti, háttvirtir þingmenn og góðir Íslendingar. Það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og margir hafa áhyggjur af þróun og stöðu mannréttinda. Ég vil byrja á að lýsa því yfir hér að þessi ríkisstjórn mun ekki gefa eina tommu eftir þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks, kvenna, jaðarsettra eða nokkurs manns. Það kemur ekki til greina.

Í samhengi alþjóðamála erum við sannarlega heppin með hæstvirtan utanríkisráðherra – enda ekki að ástæðulausu sem formaður eins af stjórnarflokkunum tók að sér þetta mikilvæga embætti. Mesti reynsluboltinn í ríkisstjórninni – reyndar á Alþingi líka og líklega í íslenskum stjórnmálum heilt yfir. Á næstu árum mun koma sér vel að vera með ofurtrausta konu í forsvari fyrir Ísland í utanríkismálum, og saman munum við takast á við þróun mála í þéttu samstarfi við okkar næstu nágranna, vinaþjóðir og bandalagsríki. Við Íslendingar eigum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og fullveldi ríkja og munum beita okkur í samræmi við þetta.

Að lokum vil ég segja: Ég er stolt af nýrri ríkisstjórn – sem er ólík nokkurri annarri ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar. Ekki vegna þess að Samfylking er í forystu og stærsti flokkurinn á Alþingi – sem þó er aðeins í annað sinn, frá upphafi, sem Sjálfstæðisflokkur er ekki í þeirri stöðu. Og ekki bara vegna þess það eru þrjár konur í forystu – þó að það sé líka óvenjulegt.

Heldur vegna þess að við erum kraftmikil og samstíga ríkisstjórn með sterkt umboð til breytinga, þar sem tveir af þremur stjórnarflokkum voru stofnaðir árið 2016, fyrir 9 árum – og annar þessara flokka var stofnaður á stofugólfinu hjá stoltum öryrkja, baráttukonu á miðjum aldri, sem er lögblind og fékk ekki agnarögn af forréttindum í meðgjöf en skellti sér á skólabekk um fimmtugt til að læra lögfræði – og hefur þegar náð ótrúlegum árangri í sinni baráttu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins, öryrkja og eldra fólk. Og nú er hún hæstvirtur félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hvar annars staðar en á Íslandi? Hvar annars staðar en á Íslandi gæti þetta gerst? Og sýnir þetta ekki hvers konar samfélag við eigum hérna saman og hvað við höfum að verja?

Sama hvað hver segir og burtséð frá pólitískum skoðunum – þá megum við öll vera hreykin af þessu samfélagi sem við höfum byggt og stolt af Ingu Sæland. Þetta er stórt. Og við höfum verk að vinna.

Hæstvirtur forseti, þingmenn, ráðherrar – megi okkur öllum ganga sem best að standa undir ábyrgð okkar og skyldum gagnvart fólkinu í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta