Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2025 Forsætisráðuneytið

Ávarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 10. apríl 2025

Ársfundur Seðlabanka Íslands. Góðir gestir.

Fyrst vil ég segja þetta: Mér þykir vænt um Seðlabankann. Ekki bara sem mikilvæga stofnun í lífi þjóðarinnar – sem heyrir undir mitt málefnasvið sem forsætisráðherra. Heldur líka sem mikilvæga stofnun í mínu eigin lífi, svo ég leyfi mér að byrja aðeins á persónulegum nótum.

Sum ykkar muna kannski eftir mér sem sumarstarfsmanni á skrifstofu seðlabankastjóra á árunum 2009 og 2010. Svo vann ég aðeins í bankanum meðfram náminu í hagfræði – þar sem ég var meðal annars nemandi núverandi seðlabankastjóra og reyndar fjármálaráðherra líka, og kenndi dæmatíma fyrir þá báða – sem er önnur saga.

En starfið í Seðlabankanum var í rauninni fyrsta alvörustarfið mitt í þeim skilningi að það tengdist því námi sem ég hafði ákveðið að leggja fyrir mig á þeim tíma. Og það var sem sagt á því herrans ári 2009 – nokkrum mánuðum eftir bankahrunið. Þannig að þetta var vægast sagt áhugaverður tími og vakti hjá mér áhuga á hagstjórn og hvata til að afla mér frekari þekkingar og reynslu á því sviði.

Fyrst vann ég fyrir Svein Harald Øygard seðlabankastjóra, sem ég hitti síðast fyrir tilviljun á gangi í Noregi í fyrra. Og síðan tók ég vel á móti Má Guðmundssyni þegar hann mætti til leiks – leysti Ellen af sem ritari seðlabankastjóra og vann meðal annars í alþjóðamálunum, til dæmis í samskiptum við lánshæfismatsfyrirtæki, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og svo framvegis.

Hér kynntist ég öflugu fólki og skemmtilegum viðfangsefnum. Og ég vil bara fá að nota tækifærið núna og þakka fyrir mig – þakka fyrir móttökurnar á sínum tíma og það góða starf sem hér er unnið. Sem nýkjörinn forsætisráðherra var það síðan eitt af mínum fyrstu verkum að heimsækja Seðlabankann. Ég vænti þess að við munum eiga gjöfult samstarf á næstu árum.

En áður en lengra er haldið vil ég staldra aðeins við árið 2009. Því að það var ekki bara merkilegt ár fyrir mig persónulega – heldur vill svo til að á þessum tíma áttu sér líka stað ákveðin kaflaskil í sögu Seðlabanka Íslands. Því að í febrúar 2009 var ákveðið á Alþingi að breyta um verklag við skipun seðlabankastjóra og reyndar við stjórn peningamála almennt:

Seðlabankinn var settur undir faglega stjórn. Einn seðlabankastjóri sem var skipaður faglega kom í stað þriggja, dregið var úr beinum tengslum við pólitíkina og peningastefnunefnd var komið á fót – með skýrri og vandaðri umgjörð um vaxtaákvarðanir.

Þannig má segja að tilraunin með íslensku krónuna, verðbólgumarkmið og sjálfstæðan seðlabanka hafi í raun hafist fyrir alvöru árið 2009 – þó að stefnan hafi að nafninu til verið tekin upp árið 2001. Sjálfstæði Seðlabankans var tryggt í raun og þar með trúverðugleiki peningastefnunnar.

Og heilt yfir má segja að tilraunin hafi tekist vel þegar litið er til þeirra markmiða sem Seðlabankinn starfar eftir, samkvæmt lögum, um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og loks trausta og örugga fjármálastarfsemi eftir að Fjármálaeftirlitið sameinaðist Seðlabankanum árið 2020.

Frá árunum 2009 og 2010 tókst að viðhalda efnahagslegum stöðugleika – lágri verðbólgu og lágum vöxtum – líklega yfir lengri tímabil en nokkru sinni áður í seinni tíma sögu Íslands. Og þá störfuðu hér ríkisstjórnir ýmissa flokka, vel að merkja. En frá því í lok árs 2021 hefur hins vegar verðbólgan verið of mikil og vextir fyrir vikið of háir. Hins vegar er ekki þar með sagt að sjálft fyrirkomulagið sem við störfum eftir eða umgjörðin um stjórn peningamála, sem ég lýsti hér áðan, hafi brugðist. Og ég tel reyndar að svo sé ekki og mun koma betur að því á eftir.

Í bili vil ég bara segja: Þó að fólk hafi alls konar skoðanir á því hvaða peningastefna sé heppilegust fyrir Ísland, og hvernig svo sem við munum haga gjaldmiðlamálum í framtíðinni, þá er í öllu falli mikilvægt fyrir Ísland, sem fullvalda ríki, að geta starfrækt sterkan Seðlabanka sem heldur úti okkar eigin gjaldmiðli. Og við höfum sýnt að það getum við gert. Það er mikilvægt að hafa val um ólíkar leiðir í þessu efni eins og öðru.

* * *

Umræða um sjálfstæði Seðlabanka er ekki bara eitthvað pólitískt deilumál úr fortíðinni heldur þvert á móti. Það snýst um grundvallarafstöðu til þess hvernig hagstjórnarmarkmiðum okkar er best náð, og þar með til starfsemi Seðlabankans sem stofnunar.

Pólitískt, sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar og formaður í sósíaldemókratískum stjórnmálaflokki, þá get ég sagt: Ég vil tryggja öryggi fyrir venjulegt fólk í daglegu lífi. Með kraftmikilli verðmætasköpun og sterkri velferð – sem fer best hönd í hönd. Og þá blasir við að Seðlabankinn er lykilbandamaður í að vinna að þessum markmiðum með því að stuðla að stöðugleika í efnahagslífi. Ekki í þeim skilningi að Seðlabankinn eigi að vera pólitískur. Heldur er reynslan einmitt sú að það virðist ganga best að tryggja stöðugleika þegar Seðlabankinn er sjálfstæður í sínum störfum.

Þetta leiðir mig að meginskilaboðum mínum hér í dag: Þessi ríkisstjórn tekur ábyrgð á stjórn efnahagsmála í landinu. Fulla ábyrgð. Við munum ekki benda fingri á alla aðra þegar á móti blæs. Við virðum sjálfstæði Seðlabankans. Og við munum ekki beita bankann þrýstingi eða munnhöggvast við ókjörna embættismenn í fjölmiðlum um vaxtaákvarðanir, svo dæmi sé tekið. Ekki á minni vakt. Ég gerði það ekki í stjórnarandstöðu og mun ekki gera það í ríkisstjórn.

Því að við trúum því að markmiðum um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og trausta og örugga fjármálastarfsemi sé best náð með sjálfstæðum seðlabanka. Að því sögðu er mikilvægt að taka fram að það er er ekkert nokkurn tímann meitlað í stein varðandi fyrirkomulag og umgjörð um stjórn peningamála. Allt er breytingum háð. En við sem leiðum stjórn landsmála setjum lögin og mörkum umgjörðina, Við skipum bankaráð og seðlabankastjóra. Og við berum ábyrgðina.

Forystufólk í ríkisstjórn á ekki að beita peningastefnunefnd þrýstingi eða hlaupa pólitíska sigurhringi við hverja vaxtalækkun. Og ef ráðherrar eru óánægðir með árangurinn sem næst þá ættu þeir að líta í eigin barm, axla ábyrgð og leita leiða til að gera betur – til dæmis með breyttu verklagi – frekar en að hlaupast undan ábyrgð. Þarna hefur stundum orðið misbrestur á.

En ég hef vonandi komið afstöðu minni skýrt til skila. Og ég tel að það skipti máli að hún heyrist hátt og snjallt – bæði fyrir trúverðugleika Seðlabankans í sínum störfum en ekki síður fyrir trúverðugleika þeirrar ríkisstjórnar sem ég er í forsvari fyrir. Því að ríkisstjórn sem er ekki meðvituð um eigin ábyrgð á stjórn efnahagsmála er um leið ólíkleg til að sinna hagstjórnarhlutverki sínu sem skyldi.

Auðvitað fáum við sem erum í stjórnmálum – nú eða í Seðlabankanum – alltaf einhver ófyrirséð verkefni í fangið sem geta verið risavaxin og erfið viðureignar. Og fólk sýnir því skilning. Á síðustu árum má augljóslega nefna heimsfaraldur og eldsumbrotin í Grindavík. Nú eru blikur á lofti í alþjóðamálum. En svona verður þetta alltaf. Og þá er líka þeim mun mikilvægara að við höfum stjórn á því sem við getum þó stjórnað – eins og til dæmis í hagstjórn innanlands, í peningamálum og í ríkisfjármálum, sem ég mun víkja að aftur síðar.

Eins og starfsmenn Seðlabankans þekkja orðið vel er stundum eins og okkur reki úr einni krísunni í aðra á nokkurra ára fresti. Á undanförnum árum hefur það hins vegar sýnt sig að Ísland hefur byggt upp umtalsverðan viðnámsþrótt gegn áföllum. Nú stöndum við frammi fyrir enn einni stórri áskorun í efnahagsmálum eftir að Bandaríkjastjórn ákvað að gjörbylta tollum sínum á innflutning og hefja, að því er virðist, mjög róttæka tilraun til að endurstilla leikreglur og umhverfi alþjóðlegra viðskipta. Nýjustu fréttir af því, frá því í gær, eru reyndar að forseti Bandaríkjanna hefur frestað gildistöku tollahækkana að mestu leyti um 90 daga að því er virðist.

Atburðarásinni vindur nú hratt fram og erfitt er að segja til nákvæmlega hverjar efnahagslegu afleiðingarnar verða til skemmri og lengri – eða hversu langvarandi þessi stefnubreyting hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum verður. En við lítum þó svo á að þetta sé mikil óheillaþróun – ekki síst fyrir lítil opin hagkerfi, sem byggja lífskjör sín öðru fremur á alþjóðlegum viðskiptum. Það mun því reyna á að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Og það munum við gera.

Fyrr í dag kom ég heim frá Brussel þar sem ég átti meðal annars langa og góða fundi með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB.

Ég get greint frá því að málflutningur okkar mætti fullum skilningi og lögð var áhersla á mikilvægi þess að halda áfram góðu viðskiptasambandi milli EES-ríkjanna. Mín tilfinning er sú að ESB muni sýna skynsemi í viðbrögðum og fara með gát þegar kemur að mótvægisaðgerðum. Við höfum enga tryggingu í hendi. En það sem kom þó skýrt fram er þetta:

Framkvæmdastjórn ESB heitir því að vera áfram í nánu sambandi við Ísland á næstu vikum og að engar ákvarðanir muni koma okkur í opna skjöldu. Og það liggur fyrir að það er ríkur vilji til að tryggja áfram góð samskipti Evrópusambandsins og Íslands. Þetta skiptir máli.

Við verðum áfram í þéttu samtali og samstarfi við okkar nánustu vinaþjóðir og bandalagsríki. Þar vinnum við ekki síst náið með hinum EES/EFTA-ríkjunum. Gagnvart Bandaríkjunum höldum við á lofti sérstöðu Íslands og farsælu samstarfi ríkjanna til áratuga. Við munum veita atvinnulífinu það liðsinni sem þarf á alþjóðlegum vettvangi til að bregðast við neikvæðum áhrifum af völdum viðskiptahindrana – til dæmis ef greiða þarf götu útflutnings til nýrra markaðssvæða. Og síðast en ekki síst er áríðandi að efla áfallaþol Íslands með því að hafa styrka stjórn á því sem við getum þó stjórnað í efnahagsmálum okkar hér innanlands. Þannig að við höfum borð fyrir báru og getum tekist á við ófyrirséð verkefni og áskoranir.

Næst vil því ég segja nokkur orð um stöðu efnahagsmála eins og hún blasir við hér heima og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í því samhengi.

* * *

Fyrir það fyrsta: Ríkisfjármálin hafa ekki verið í lagi. Þau hafa verið ósjálfbær of lengi og burtséð frá ytri áföllum þá voru ríkisfjármálin ósjálfbær – til dæmis áður en faraldurinn skall á í byrjun árs 2020. Þetta liggur fyrir. Og þegar útgjöld ríkisins eru langt umfram tekjur, jafnvel í uppsveiflu, þá kyndir það auðvitað undir þenslu, verðbólgu og hærri vöxtum en ella. Þegar ríkið gerir minna til að kveða niður verðbólgu – þá þarf Seðlabankinn að gera meira.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þessar: Við erum að laga ríkisfjármálin. Það var algjört forgangsatriði hjá nýrri ríkisstjórn og við höfum tekið þessu verkefni mjög alvarlega. Þegar ríkisstjórnin var mynduð skömmu fyrir jól þá voru hallalaus fjárlög ríkisins ekki í augsýn á þessum áratug. Þannig var staðan.

Nú höfum við lagt fram fjármálaáætlun með hallalausum fjárlögum strax árið 2027 – sem skapar um leið svigrúm til að styrkja Ísland með því að fjárfesta í öryggi og innviðum, með áherslu á vegabætur og heilbrigðiskerfið og öryggisnet almennings í daglegu lífi. Þetta var ekki auðvelt. Þetta verður ekki auðvelt. Og við erum ekki værukær gagnvart þessu verkefni. Þvert á móti.

En ég fullyrði að okkur mun takast þetta. Því það skiptir öllu máli – meðal annars til að tryggja öryggi og varnir landsins á viðsjárverðum tímum – að okkur takist að laga ríkisfjármálin með því að gera þau sjálfbær aftur. Þess vegna er það höfuðáhersla hjá nýrri ríkisstjórn og við vitum að þetta er lykilatriði fyrir almenning og atvinnulíf í landinu.

Og hvernig náum við þessu markmiði? Með forgangsröðun, með hagræðingu og, já, með tekjuöflun. Því að til að ríkisfjármálin geti verið sjálfbær þá þurfa tekjur að standa undir útgjöldum til lengri tíma litið. Og já, þá þarf líka að þora að taka erfiðar ákvarðanir. Velja og hafna. Ef þetta væri auðvelt þá væri búið að laga þetta fyrir löngu.

Ég segi það bara hreint út: Ég er stolt af fyrstu fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar – bæði af þeim pólitísku áherslum sem þar eru markaðar en ekki síður af ábyrgri hagstjórn sem áætlunin boðar. Og loks má nefna nýtt verklag sem ég vænti að auki trúverðugleika fjármálaáætlunar heilt yfir:

Í fyrsta lagi eru engar svokallaðar óútfærðar afkomubætandi ráðstafanir í þessari áætlun. Og það er ekki ráðist í flatt aðhald þvert á alla málaflokka sem kroppar í hvert málefnasvið, dregur úr viðhaldi, dregur úr fjárfestingu og frestar verkefnum en breytir því ekki hvernig er stjórnað til framtíðar. Þess í stað hefur hagræðingu verið skipt niður á málefnasvið út frá tilteknum tillögum og verkefnum sem samstaða er um að ráðast í og ráðuneytum hefur verið falið að útfæra nánar.

Í öðru lagi birtist nýtt verklag í því að ný fjármálaáætlun gengur mun lengra en áður hefur verið við gerð hreinna rammafjárlaga. Ríkisstjórnin kom sér fyrst saman um almennan útgjaldaramma og tók svo ákvörðun um hvernig hann skiptist milli einstakra málefnasviða. Það er síðan ráðherra hvers og eins málefnasviðs að ákveða nánari útfærslu á sínum ramma – sem birtist svo í fjárlögum að hausti.

Með þessu móti fá ráðherrar aukið svigrúm til að forgangsraða fjármunum til verkefna sem þeir telja mikilvæg og til að skapa svigrúm fyrir nýjar áherslur með því að draga úr eða hætta öðru í staðinn. Þetta breytta vinnulag er liður í að tryggja aukna festu í fjármálastjórn hins opinbera og ýta um leið undir sífellt endurmat á öllum viðfangsefnum ríkisins

Í þriðja lagi er rétt að nefna nýja stöðugleikareglu í ríkisfjármálum sem er til mikilla bóta og felur í sér viðmið um jafnan vöxt ríkisútgjalda til lengri tíma – eftir því sem fólki fjölgar og hagkerfið stækkar – í stað þess að ríkisútgjöldin rjúki upp þegar vel árar en skreppi svo jafnharðan aftur saman þegar verr árar. Eins og stundum hefur verið raunin og hefur þá ýkt upp hagsveifluna þegar betra væri að milda hana frá ári til árs.

Stöðugleikareglan felur auðvitað í sér ákveðinn sveigjanleika. Til dæmis mega útgjöld aukast meira ef tekjur koma á móti, eins og eðlilegt er, og svo er mikilvægt að taka fram að fjárfesting er tekin út fyrir sviga og undanskilin stöðugleikareglunni. Það er með ráðum gert. Reglan á fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi milli reglulegra tekna og rekstrarútgjalda hjá ríkinu. En það var lykilatriði í okkar huga að innleiða ekki reglu sem skapaði hvata til að draga úr eða fresta nauðsynlegri fjárfestingu í innviðum. Því að það hefur verið hluti af vandamálinu. Við ætlum okkur að auka fjárfestingu frekar en hitt – en stundum hafa illa útfærðar reglur um ríkisfjármál verið uppfylltar með því að draga úr fjárfestingu, sem getur fegrað bókhaldið til skemmri tíma en verið dýrkeypt til lengri tíma litið.

* * *

En þó við séum stolt af nýrri fjármálaáætlun þá vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan: Við erum ekki værukær. Við erum örugg við stýrið og treystum okkar stefnu. En fögnum ekki sigri of snemma.

Við erum til dæmis meðvituð um að verðbólguvæntingar virðast enn vera of miklar – og eru nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þessar væntingar ráða miklu um þróun verðbólgunnar í raun og þess vegna fylgjumst við vel með og við ætlum að ná þeim niður.

Kæru ársfundargestir.

Ef við lítum aðeins lengra fram á veginn þá er ljóst að fleira þarf til en sjálfbær ríkisfjármál til að efla verðmætasköpun og styrkja velferð á Íslandi. Þó að það sé fyrsta verk, samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta – með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.

Við setjum markið hærra. Við ætlum að stækka kökuna og styrkja velferðina til lengri tíma og til þess þarf að huga að fleiri þáttum sem tengjast starfsemi Seðlabankans ýmist beint eða óbeint: Eins og til dæmis fjárfestingu í innviðum og aðkomu lífeyrissjóða að slíkri fjárfestingu. Mótun atvinnustefnu um uppbyggingu atvinnuvega og hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með áherslu á framleiðni og vel launuð störf. Og þá má nefna víðtækar umbætur hjá hinu opinbera – meðal annars til að liðka fyrir framkvæmdum og uppbyggingu sem stendur undir raunhæfum væntingum fólksins í landinu.

Ég er til dæmis hugsi yfir því að það hafi ekki gengið betur en raun ber vitni að lyfta fjárfestingu hins opinbera í nauðsynlegum innviðum. Og stundum hefur verið sagt að fjárheimildir sem Alþingi hefur samþykkt hafi ekki „leitað út“ – það hafi bara hreinlega ekki tekist að veita fjármagni til fjárfestingar og framkvæmda. Þetta hefur verið sagt um uppbyggingu hjúkrunarheimila, til dæmis, en þar erum við að vinna að ákveðnum kerfisbreytingum. Og það sama hefur átt við um uppbyggingu á húsnæði almennt – til að halda aftur af húsnæðisverðshækkunum sem eru langt umfram verðlag í landinu.

Auðvitað eru margir þættir sem spila þarna inn í. Meðal annars atvinnustefna og atvinnuuppbygging sem hefur verið einkum verið drifin áfram af hraðri fólksfjölgun sem vegur þungt á eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðar. En það verður að segjast að við höfum líka klikkað á að skaffa nægt framboð af húsnæði yfir lengri tíma. Og það er eitthvað að þegar þetta er staðan – þó að það sama eigi við víða á Vesturlöndum.

Húsnæði er grunnþörf. Við viljum ekki að húsnæði sé eins og hver önnur fjárfestingarvara. Og ef hið opinbera skapar ekki umgjörð um húsnæðismarkað sem uppfyllir grunnþarfir – án þess að því fylgi sligandi kostnaður fyrir vinnandi fólk – þá erum við að bregðast. Þá er ríkið ekki að virka sem skyldi.

Ný ríkisstjórn hefur einbeittan vilja til verklegra framkvæmda. Við höfum þegar sýnt það og gengið hreint til verks í orkumálum, svo dæmi sé tekið. Við ætlum að skoða hratt og vel kosti þess að stofna innviðafélag til að lyfta fjárfestingu í samgöngum með þátttöku lífeyrissjóða og annarra fjárfesta. Og við höfum boðað að atvinnustefnuráð taki til starfa í haust – sem ég hef rætt á öðrum vettvangi.

En ég er líka að verða sífellt sannfærðari um að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að liðka fyrir framkvæmdum – til að við getum farið að byggja aftur hraðar og meira. Þar þurfum við að horfa til breytinga á skipulagslöggjöf eða róttækri endurskoðun á regluverki til einföldunar – sem oft hefur verið kallað eftir en lítið gert til að koma í framkvæmd. Ný ríkisstjórn verður óhrædd við að hrista upp í kerfinu, ef svo má segja, og við höfum verk að vinna í þessum efnum í þágu lands og þjóðar.

Ársfundur og ágæta seðlabankafólk.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka þeim Gunnari Jakobssyni og Rannveigu Sigurðardóttur, sem bæði létu af störfum sem varaseðlabankastjórar á liðnu ári, fyrir störf þeirra í þágu Seðlabankans. Gunnar hélt til annarra starfa síðastliðið sumar en Rannveig lauk um síðustu áramót fimm ára tímabili sem varaseðlabankastjóri peningastefnu eftir að hafa starfað í bankanum í meira en tvo áratugi. Þá þakka ég Guðmundi Kr. Tómassyni sem nýlega lauk fimm ára setu í fjármálastöðugleikanefnd en starf hans í bankanum spannar einnig tvo áratugi.

Síðast en ekki síst vil ég þakka bankaráði Seðlabankans, stjórnendum og öllu starfsfólki bankans fyrir vel unnin störf. Takk fyrir áheyrnina og gangi ykkur sem allra best.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta