Hoppa yfir valmynd
28. september 2005 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ræða sjávarútvegsráðherra á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva 7. október 2005

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva 7. október 2005-10-07

Það er mér mikil ánægja að vera nú kominn til míns fyrsta fundar heildarsamtaka í sjávarútvegi sem sjávarútvegsráðherra. Ekki síst þegar ég lít yfir salinn og sé marga gamla og góða vini og ekki síður samverkamenn úr sjávarútveginum. Með mörgum ykkar hef ég starfað, fyrst þegar starfsvettvangur minn var á sjávarútvegssviðinu og síðar þegar ég kaus að starfa að stjórnmálum, þar sem sjávarútvegsmálin hafa verið eitt helsta viðfangsefni mitt. Ég hef oft leitað ráða hjá mörgum ykkar, en veit svo sem ósköp vel að mörgum hefur þótt að ég hefði mátt hlíta þeim ráðum betur, amk  á tilteknum sviðum; eða er ekki svo?

 

Sjávarútvegurinn er ekki síst heillandi atvinnugrein, sakir fjölbreytninnar og þess hve sífellt reynir  á hæfni hvers einstaklings. Aðstæður eru oft fljótar að breytast. Við erum háð margbreytileika náttúrunnar og það á alltaf við í sjávarútvegi að ekki er á vísan að róa. Og þó okkur hafi tekist æ betur að lágmarka óvissuþættina með aukinni þekkingu og tækni, verður þessi atvinnugrein sífellt undirorpin breytingum. Deiglan er mikil og þær breytingar sem hafa orðið í öllu atvinnulífi okkar Íslendinga eru meiri nú en okkur rekur minni til á skömmum tíma. Hörð barátta um fólk og fjármagn verður ætíð hlutskipti atvinnulífsins og hörð samkeppni á erlendum mörkuðum hefur verið og verður fylgikona sjávarútvegsins um ókomin ár. Það er þessi ögrun sem meðal annars hefur gert sjávarútveg okkar svo gríðarlega öflugan og kostnaðarmeðvitaðan sem  raun ber vitni Menn hafa orðið að leita hagstæðustu lausna, fyrir fyrirtæki sín. Þess vegna horfa margir til Íslands í leit að fyrirmyndum og af því getum við verið stoltir.

 

Stjórnvöld hafa miklu hlutverki að gegna þó þau eigi ekki að vera fyrirferðamikil í atvinnulífinu. Við setjum leikreglur, sem leiða oft til nýrra kvaða, en við viljum svo sannarlega að þær auðveldi atvinnugreininni að starfa. Það er okkar vilji og raunar markmið í starfi stjórnvalda að greiða fyrir atvinnulífinu, en leggja ekki stein í götu þess. Það er hlutverk stjórnenda í sjávarútvegi að ná niður kostnaði og leita leiða til að auka tekjur. Stjórnvöld  leggja þar líka hönd á plóg.

 

Tvö dæmi um slíkt vil ég nefna sem unnið er að í Sjávarútvegsráðuneytinu með góðri þátttöku hagsmunaaðila.

 

Vinna og samráð um nýja vigtarreglurgerð hefur staðið lengi. Að ná niðurstöðu um hana hefur ekki reynst áhlaupsverk og margs konar athugasemdir og ábendingar hafa komið fram. Markmiðið hlýtur auðvitað að vera að tryggja öryggi við vigtun en einnig að reglugerðin sé þannig úr garði gerð að hún leiði ekki til aukins kostnaðar og sé hluti af ferli í rekstrinum, sem falli vel að atvinnustarfseminni. Ég bind miklar vonir við að með nýlegri tillögu sem fram kom í þessu samráðsferli  hilli undir lausn og við ljúkum þessu verki fljótlega í sátt allra sem hlut eiga að máli, án þess að grundvallarmarkmiðum um öryggi sé fórnað.

 

Annað dæmi. Starfsumhverfisnefnd  með þátttöku manna úr atvinnugreininni vinnur nú að þvi að leita leiða til þess að ná niður kostnaði. Þarna er örugglega af mörgu að taka. Þessari nefnd er ætlað að starfa áfram, enda sér væntanlega seint fyrir endann á slíku starfi. Þegar hafa komið fram tillögur sem unnið hefur verið úr, sem að þessu miða. Við teljum þetta verkefni þarft og mikilvægt og  verðum opin fyrir nýjum hugmyndum sem geta komið að gagni. Það á ekki síst við núna þegar við ræðum um málefni sjávarútvegsins í krappri siglingu vegna ofurhás gengis.

 

Við lifum á miklum breytingartímum í íslenskri fiskvinnslu. Sá sem setti sjálfstýringuna á í rekstri sínum fyrir tíu – tuttugu árum átti ekki mikla lífsvon. Breytingarnar hafa gert það að verkum að menn hafa þurft að hafa möguleika á aðlögun. Og til þess að það gæti orðið þurfa menn góða yfirsýn og fjölþætta þekkingu. Þetta vitið þið manna best og kunnið ótal dæmi um. Við sem erum áhorfendur og stöndum ekki í daglegum rekstri sjáum hins vegar hvernig þessar breytingar birtast okkur í hagtölunum og yfirlitinu yfir rekstur sjávarútvegsins.

 

Miklar breytingar hafa orðið á vinnslu sjávarfangs á undanförnum árum og  það er afar athyglisvert að sjá hvernig skipting milli afurðaflokka hefur breyst. Þannig hefur verðmæti nýrra kældra ísvarinna flaka aukist um meira en helming frá árinu 2000 þegar þau gáfu rétt rúm 9 % af verðmæti botnfiskaflans. Í fyrra var þetta  hlutfall orðið 15.9 %  Á sama tíma heldur landfrystingin sínu en það dregur úr heilfrystingu út á sjó.  Þessi þróun endurspeglar  að við erum að komast lengra inn á markaðinn – nær neytandanum.  Þarna virðast markaðsmenn líka vera að finna sístækkandi markað sem er ekki eins næmur fyrir samkeppni frá kínverskum vinnslufyrirtækjum.  Þetta er vitaskuld fyrst og fremst að gerast vegna ákvarðana einstaklinga í atvinnurekstrinum, en einnig hafa breytingar á tollaumhverfi gert þessa nýju framleiðslu mögulega, auk þess sem bættar samgöngur hérlendis, aukin flutninga og geymslutækni hefur stuðlaðað að þessu. Þetta er enn eitt dæmið um þá grósku sem er í vinnslu sjávarafurða.

 

Ef við lítum á uppsjávarfiskinn er uppörvandi að sjá hvernig þið hafið verið að ná miklu meiri verðmætum út úr uppsjávaraflanum undanfarin ár.

Ég þáði fyrir nokkrum dögum  boð Samherja um að vera viðstaddur þegar  tvö glæsileg skip í þeirra eigu náðu því marki á árinu að framleiða verðmæti fyrir rúmlega 2 milljarða króna úr norsk íslensku síldinni á einungis 5 mánuðum. Þetta er ævintýralegur árangur, sem endurspeglar þær breytingar sem hafa orðið á þessu sviði í heild sinni Fyrir fimm árum var  þess konar framleiðsla tæplega  til. Árið 2000 var framleiðsla í sjófrystum síldarflökum  270 tonn en var komin í 8100 tonn árið 2004, þó hélst framleiðsla í landfrystum flökum nær óbreytt í magni. Á sama tíma nær helmingaðist síldarmjölsframleiðslan.  Allt bendir til að þessi þróun haldi áfram. Við erum  líka að frysta loðnu heila í síauknu mæli bæði í landi og á sjó, á sama tíma dregst mjölframleiðslan saman.   

 

Sjávarútvegurinn tekur þannig sífelldum breytingum og þróast. Þetta eru gleðileg tíðindi og til marks um þróttmikla atvinnugrein, sem hlýtur að vera gaman að starfa í. Og fyrir mig er það heiður að fá að verða samverkamaður, þó ég starfi á hinu póltíska sviði.

 

Fyrirsjáanlegt er að í framtíðinni muni öryggi, heilnæmi og rekjanleiki sjávarfangs verða grundvallaratriði við markaðssetningu íslenskra sjávarafurða. Mikilvægt er að verja íslenska hagsmuni á alþjóðavettvangi hvað þessa þætti varðar.

 

Matvælaöryggi hefur fengið aukið vægi í fjölmiðlaumræðu um allan heim á undanförnum árum. Töluvert er um misvísandi upplýsingar þegar fjallað er um sjávarafurðir. Íslensk stjórnvöld og söluaðilar þurfa því að geta brugðist hratt og fumlaust við slíku, þá er mikilvægt að hafa tiltæk gögn og þekkingu á óæskilegum efnum s.s. mengunarefnum og örverum í sjávarafurðum.

 

Framleiðendur og söluaðilar íslenskra sjávarafurða hafa bent á að kröfur um öryggi og rekjanleika sjávarafurða aukist stöðugt og muni aukast enn frekar í framtíðinni, þar sem reglugerðum muni fjölga og sett verða ný leyfileg mörk (hámarksgildi) um öll helstu efni og örverur, sem ógnað geta heilsu neytenda. Auknar kröfur kalla á auknar mælingar og stöðuga vöktun, bæði í afurðum og umhverfi. Sívirk gagnasöfnun tryggir einnig að hægt sé að sýna fram á heilnæmi íslensks sjávarfangs og ýta þannig undir jákvæða ímynd þannig að neytendur líti á fisk og fiskafurðir sem holla og góða fæðu.Í dag er ennfremur lögð sérstök áhersla á að meta heildaráhrif næringar- og mengandi efna á heilsu neytandans. Því þarf að framkvæma áhættumat sem tekur tillit til bæði jákvæðra (þ.e.a.s næringaríkra, lífvirkra og fyrirbyggjandi efna) og mengandi efni í sjávarafurðum.

 

Rekjanleiki vöru þýðir í raun að unnt er að fylgja vörunni eftir, þekkja sögu hennar frá vöggu til grafar, ef svo má segja, eða lýsa ferli hennar. Hugsunin á bak við rekjanleika er sú að upplýsingar um vöruna séu til staðar á hverjum tíma, á öllum stöðum í keðjunni þannig að þeir sem þurfa og vilja nálgast þær geti það með góðu móti. Rekjanleiki er mikilvægur liður í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla. Hann tekur ekki aðeins til þessara þátta heldur einnig til uppruna vörunnar, t.d. hvort fiskurinn sé veiddur úr stofnum sem kunni að vera í hættu.Framþróun á þessu sviði felst m.a. í að nýta sér nýja tækni á sviði upplýsinga- og greiningartækni s.s. sameindafræðilegar greiningaraðferðir.

 

Okkar mikilvægustu fiskmarkaðir liggja í Evrópu. EES samningurinn tryggir okkur góðan aðgang að þeim markaði. Samhliða hefur verið markvisst unnið að því í sjávarútvegsráðuneytinu í samvinnu við utanríkisráðuneytið að renna frekari stoðum undir viðskipti með sjávarafurðir.

Þá höfum við átt í tvíhliða viðræðum við Rússland og Úkraínu vegna aðildar þessara ríkja að Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem hafa leitt til samkomulags um umtalsverða lækkun á tollum sérstaklega á uppsjávarfiski við inngöngu þeirra sem væntanlega verður á næsta ári.

 

Í tengslum við viðræður okkar við Færeyjar höfum við hvatt þá til að gerast aðilar að reglum um sameiginlegar upprunareglur (Pan European Cumulation),  og verða þeir aðilar að reglunum á næstunni. Það mun auðvelda viðskipti með sjávarafurðir á milli landanna, þar sem við missum ekki evrópskan uppruna þó að við kaupum færeyskan fisk og verkum hann hér á landi.

 

Þá höfum við nú gert 14 fríverslunarsamninga ásamt EFTA ríkjunum sem tryggja okkur nýja markaði. Í sumum þessara ríkja eru tollar háir og þessir samningar geta skipt máli, einkum þegar til lengri tíma er litið. Fjarlægðin í viðskiptum skiptir orðið minna máli en áður og viðskipti rata að lokum þangað sem arðsemin er mest. EFTA hefur að undanförnu lagt höfuðáherslu á bætt viðskiptaumhverfi í ASÍU og eru nú að opnast miklir möguleikar þar.

 

Á allra síðustu árum höfum við upplifað töluverða breytingu á rannsóknarumhverfinu hér á landi en á árinu 2003 voru samþykkt lög frá Alþingi um Vísinda- og tækniráð. Markmið laganna er eins og segir í 1. grein þeirra að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í 2. grein laganna segir síðan að Vísinda- og tækniráð skuli marka stefnu stjórnvalda í málaflokknum til þriggja ára í senn og skuli umfjöllun ráðsins á hvoru sviði fyrir sig undirbúinn af annars vegar vísindanefnd og hins vegar tækninefnd. Í 3. grein laganna segir síðan, m.a. að forsætisráðherra sé formaður ráðins og auk hans eigi fjármálaráðherra , iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra föst sæti í ráðinu og að auki skuli forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til viðbótar í ráðið í senn. Ennfremur sitja allmargir fulltrúar atvinnulífs og stofnana í ráðinu. Yfirleitt er þar um að ræða sérfræðinga.

 

Ég tel að það sé jákvættt að kalla til forystu æðstu handhafa framkvæmdavaldsins í eins mikilvægum málaflokki og hér ræðir um og í því sambandi er vel við hæfi að vitna til orða sem látin voru falla fyrir rúmlega 45 árum en þá sagði Bjarni heitinn Benediktsson síðar forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

 

            „Starf sérfræðinga til undirbúnings ákvarðana er ómetanlegt. En þegar að því      kemur, að ákvörðun verður að taka, er allsherjarreynsla, að þeir, sem úrslitaráðin      hafa, meira víðsýni eru vanir og sjálfir bera ábyrgðina, verða að koma til.“

 

Ég tel að þessi orð eigi ekki síður við í dag en þá er þau voru fyrst sögð og jafnframt tel ég að margt gott megi um þessa nýskipun rannsóknarmála okkar Íslendinga segja. Hins vegar verðum við að vera á varðbergi gegn hvers konar orðaleppum og vanahugsun. Tökum sem dæmi heitið „þekkingarsamfélag“ sem er svo ofnotað að nánast er orðið að orðalepp. Margur hyggur að þekkingasamfélag geti ekki verið um neitt nema eitthvað nýtt og ef auki eigi samkeppnishæfni atvinnulífsins verði að gera það með einhverju alveg nýju. Jú víst er nýsköpun mikilvæg og auðvitað verðum við að færa okkur í nyt nýja tækni og þekkingu en slíkt er ekki einungis hægt að gera í glænýjum atvinnugreinum hér á landi, heldur einnig í þeim rótgrónu og þar gætu í ýmsum tilvikum verið mestir möguleikarnir vegna þekkingar þeirrar sem fyrir er.

 

Sjávarútvegurinn er í eðli sínu þekkingariðnaður. Hann krefst mikillar gerhygli og þekkingar á fjölþættum sviðum. Og hann mun ekki þróast nema að innan hans starfi vel menntað fólk á fjölmörgum sviðum. Hjá okkur í Sjávarútvegsráðuneytinu ríkir góður skilningur á þessu og því hefur sú stefna verið mörkuð að efla hvers konar rannsóknar og þróunarstarf í þágu sjávarútvegs. Við teljum það einfaldlega vera góðan bissness fyrir sjávarútveginn.

 

Fyrir það er ekki að synja að í sjávarútvegsráðuneytinu hefur okkur þótt nokkuð á skorta þessi fyrstu ár að nægjanlega væri stutt með framlögum úr þessum umræddu sjóðum að því nýsköpunarstarfi sem svo sannarlega fer fram innan sjávarútvegsins.

 

Hins vegar höfum við í fleiri hús að venda og á ég þar við AVS rannsóknarsjóð í sjávarútvegi hefur starfað síðan í febrúar 2003, en til hans var stofnað í kjölfar tillagna í skýrslu “ 5 ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs” sem stýrihópur á vegum sjávarútvegsráðherra skilaði í lok árs 2002.

 

Markmið sjóðsins er að veita styrki til hagnýtra rannsókna- og þróunarverkefna sem stuðla að aukni verðmæti sjávarfangs. Veittir eru tvenns konar styrkir annars vegar til stærri verkefna sem oft spanna meira en eitt ár og svo til smærri forverkefna þar sem hámarksstyrkur er ein milljón og er unnið innan eins árs. Fram til þessa hefur verið um einn umsóknafrest að ræða í byrjun árs til stærri verkefna en opið er allt árið fyrir umsóknir í forverkefni.

Fjórir faghópar starfa á vegum AVS og fá þeir það hlutverk m.a. að meta umsóknir sem berast, Faghóparnir taka á ýmsum öðru og hefur t.d. fiskeldishópurinn unnið að markmiðum fyrir fiskeldið og staðið fyrir fundum og ráðstefnum um þann málaflokk. Í fjögur ár hefur verið úthlutað 500 tonnum af þorskvóta til áframeldis  og hefur fiskeldishópur AVS metið umsóknir sem hafa borist .Nú eru um 10 fyrirtæki sem hafa fengið úthlutun og eru að vinna að ýmsum tilraunum með eldi og er þetta mjög mikilvægt við þróun sjókvíaeldis við strendur Íslands. Ég hika ekki raunar við að segja að þetta hafi verið forsendan fyrir þróun þorskeldisins, sem við bindum vonir við.     

 

 Líftæknihópurinn starfar í tengslum við samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og hefur tekið að sér að meta einnig umsóknir fyrir “Líftækninet í auðlindanýtingu”. Markaðshópurinn hefur sterk tengsl við Útflutningsráð Íslands og vinnsluhópurinn sem fjallar um verkefni sem taka á veiðum, vinnslu, búnaði og gæðum, er undir stjórn samstarfsvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar. Þannig að markvisst er unnið að því að nýta ýmsa starfsemi sem fyrir er til að styrkja sjóðinn og hafa skipulag hans einfalt og skilvirkt.

 

AVS sjóðurinn hefur einnig samstarf við Tækniþróunarsjóð og IMPRU um sameiginlega fjármögnun verkefna og gefur það aðilum möguleika á að fjármagna stór og öflug rannsókna- og þróunarverkefni.

 

 Eins og sjá má af glærunni hér hafa á þremur árum  verið styrkt samtals 144 verkefni með 405 milljónum króna, en styrkirnir eru aldrei hærri en sem nemur 50% af heildarkostnaði verkefnis stundum nokkuð lægra þannig að ætla má að AVS sjóðurinn hafi styrkt rannsókna- og þróunarverkefni sem hafa velt um 800-900 milljónum króna á undanförnum þremur árum.

 

Flest þessara verkefna eru samvinnuverkefni margra fyrirtækja, stofnana og háskóla, og gert það að verkum að meiri og betri árangur hefur náðst en ef hver og einn er að vinna að lausn mála sem gagnast öllum iðnaðinum. Flest helstu fyrirtækin í íslenskum sjávarútvegi eru aðilar að einhverju verkefni sem styrkt er af AVS og er það mjög mikilvægt að slíkir aðilar komi að starfseminni því þau vita best hvar skóinn kreppir og hvaða verkefni ber helst að leggja áherslu á hverju sinni.

 

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2006, sem forveri minn í stóli sjávarútvegsráðherra hefur nú lagt fram er gert ráð fyrir 210 milljónum kr til AVS sjóðsins en auk þess þá hefur sjóðurinn einnig úthlutað um 19 milljónum sem koma af sérstökum fjárlagalið og er ætlaður til eldi sjávardýra. Á árinu 2006 verða því um 230 milljónir til ráðstöfunar fyrir rannsóknar og þróunarverkefni í sjávarútvegi.  Á komandi ári verður lögð áhersla á samstarf við aðra sjóði þannig að fjármagn nýtist sem best og geti þannig leitt af sér betri verkefni og meiri árangur.  Miðað við sama hlutfall og áður má ætla að velta rannsóknarverkefna sem styrkt verða á næsta ári nemi allt að hálfum milljarði króna.

 

Ef við nú tökum þetta saman blasir eftirfarandi við: AVS verkefnið hefur með beinum hætti numið ríflega 400 milljónum króna á þremur árum og á næsta ári bætast við 210 milljónir. Alls eru þetta um 600 milljónir frá því að þetta verkefni hófst. Og ekki er ofáætlað að þessi rannsóknar og þróunarverkefni rúmlega tvöfaldi þessa upphæð.

 

Það er enginn vafi á því að þessir miklu fjármunir muni auka virði sjávarfangs og slíkt hefur þegar gerst. Þetta er gott dæmi um hvernig við getum búið til meiri verðmæti úr takmarkaðri auðlind. Þetta verður ekki síst verkefni okkar á næstu árum og afskaplega mikilvægt að gott samstarf verði um þessi mál hjá hinu opinbera, sjávarútveginum og öðrum þeim sem að málinu koma.

 

Góðir fundarmenn, 

Gengismál eru eðlilega ofarlega í ykkar huga þessa dagana.  Ég varð þess áþreifanlega var þegar ég hef spurði tvo viðmælendur mína í greininni um hvert þeim fyndist að ætti að vera inntak ræðu minnar í dag. Annar sagði “ Einar minn, talaðu  bara um gengið”. Hinn sagði. “Sýndu nú í verki að Vestfirðingar séu enn göldróttir og talaðu gengið niður.”  Og satt er það; gott  væri að eiga slíkan fítonsanda að stjórna mætti með honum gengisskráningu.

 

Ein birtingarmynd þess erfiða ástands í gengismálum er ástandið í rækjuvinnslu, eins og það hefur blasað við okkur síðustu vikurnar. Ég vara þó við alhæfingum. Ástæður erfiðleika í sjávarútvegi eru ekki allar einhlítar, þær eru margbreytilegar og staðan mismunandi á milli greina. Hvað rækjuna varðar sérstaklega þá eru ástæður erfiðleikanna nú nokkrar. Markaðsaðstæður hafa verið þröngar. Heitsjávarrækja hefur mjög sótt á í markaðslöndum okkar, samkeppnin hefur stóraukist og verð á kaldsjávarrækju hefur lækkað. Það hefur einnig orðið hrun í innfjarðarrækustofninum, eins og menn vita. Á síðasta fiskveiðiári var aflinn aðeins 450 tonn. Þetta er mikil breyting frá þeim tímum sem innfjarðarrækjuveiði var blómleg og stunduð víða. Þessi staða er mikið áfall fyrir margar byggðir. Síðasta löndun  á úthafsrækju- þó væntanlega einungis í bili -var nú undir lok september og er ekkert skip nú að veiðum. Þetta eru mikil tíðindi. Veiðar  á úthafsrækju hafa verið stundaðar hér í um 20 ár. Til marks um breytinguna má nefna að einungis fyrir 8 árum var úthafsrækjuaflinn  meira en 80 þúsund tonn. Ástæður þessa ástands nú eru meðal annars minni veiði, lægra hráefnisverð og að olíuverð er hátt. Það veldur því að veiðarnar eru óhagkvæmar Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á að rækjuveiðar og vinnsla munu rétta úr kútnum.

 

 Veiðarnar eiga eftir að glæðast. Iðnaðurinn hefur farið í gegn um gríðarlega hagræðingu, nýting aukist, kostnaður lækkað og greinin aflar sér nú hráefnis á alþjóðlegum markaði í stórum stíl. Því eru allar forsendur til að rækjuveiðar og vinnsla eigi eftir að vera sem fyrr snar þáttur í sjávarútvegi okkar. Það er líka vert að minna á að hlutur rækjuútflutnings í heildarverðmæti sjávarfangs var á síðasta ári nær 10%.

 

Og ágætu fiskvinnslumenn. Eitt vil ég segja. Það er full ástæða til þess að taka alvarlega viðvörunarorð úr atvinnugreininni. Ég geri það að minnsta kosti. Mér er alveg ljóst hvað það þýðir fyrir útflytjendur þegar gengisvísitalan er komin svona neðarlega. Ég þarf  enga Excel útreikninga til að kenna mér það. Mér dugir bara að gera eins og hann Einar afi minn og nafni; reikna þetta út aftan á umslögunum.

 

Það er óneitanlega mótsagnakennd staða, að á sama tíma og meðaltal verðvísitölu sjávarafurða metið í SDR var tæplega 9% hærra fyrstu sjö mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra, þá er afkoma sjávarútvegsins að mati allra þeirra sem ég hef rætt við og starfa innan hans algerlega óviðunandi. Dag hvern hitti ég menn að máli sem að kvarta mjög undan erfiðleikum í rekstri, og er ég viss um að þar er ekkert ofmælt. Þrátt fyrir að greinin hafi gert sitt ítrasta til þess að hagræða og draga úr tilkostnaði og auka verðmæti eins og ég hef þegar rakið hér á undan þá dugir það ekki til.

 

Nýverið heyrði ég af einyrkja í sjávarútvegi, sem brást þannig við ábendingu um að hagræða enn og skera niður kostnað, með því að segja:

 

Á ég að segja upp vinstri hendinni á mér á undan þeirri hægri?! Varnirnar eru að bresta og við kynnumst því nú með uppsögnum víða um land. Þetta eru grafalvarlegir hlutir sem enginn getur leyft sér að horfa framhjá. Slíkt geri ég að minnsta kosti ekki.

 

Mér er það ljóst að ekkert viðfangsefni er núna brýnna fyrir sjávarútveginn en að breyta rekstrarskilyrðunum þannig að þau verði viðunandi og greinin geti til frambúðar staðið styrkum fótum. Við vissum vel að við aukin umsvif sem meðal annars stafaði af stóriðju, myndi raungengi íslensku krónunnar hækka og okkur var það ljóst að með þeim breytingum sem orðið hafa og eru að verða í íslensku efnahagslífi þá mun jafnvægisgengi íslensku krónunnar verða hærra í framtíðinni en það hefur verið.

 

Sú staða krónunnar sem blasir við núna verður hins vegar ekki skýrð með þessu. Enda er raungengið orðið 20% yfir sögulegu meðaltali áranna 1990-2004.

 

Engan óraði hins vegar fyrir því að gengi íslensku krónunnar yrði með þeim hætti sem það er í dag og skýringanna á þeirri stöðu er ekki að leita í stóriðjunni. Þar eru allt aðrir og mikilvirkari kraftar á ferðinni sem því miður toga allir í hina sömu átt um þessar mundir. Viðfangsefnið er alls ekki einfalt: í senn að reyna að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum, treysta stöðu atvinnulífsins og lága verðbólgu. Hin miklu efnahagslegu umsvif og lánveitingar opinberra aðila og bankanna raska þessu jafnvægi. Og nú síðast með innkomu nýrra aðila, útlendinga, sem að gefa út skuldabréf í íslenskri mynt í óða önn skapast nýr áhættuþáttur sem hefur orðið þess valdandi að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst svo mjög sem raun ber vitni á síðustu vikum. Þetta atriði sérstaklega hlýtur að vekja menn mjög til umhugsunar. Eigum við að bregðast við með einhverjum hætti? Getum við brugðist við eða verðum við bara undirorpin viðbótaráhættu sem genginu stafar af þessu hvikula fjármagni sem getur horfið jafnskjótt og það birtist.

 

Í raun og veru eru efnahagsaðstæður á Íslandi að sumu leyti mótsagnakenndar. Ef við mælum verðlagshækkanir okkar með þeim kvörðum sem gilda á hinu evrópska efnahagssvæði þá er verðbólga hin lægsta sem þar þekkist. Við höfum hins vegar kosið að horfa til eignabreytinga eins og húsnæðis sem hefur rokið upp á síðustu misserum sem aldrei fyrr. Megin ástæða verðlagshækkana á Íslandi er hækkun á íbúðarverði, einkanlega á höfuðborgarsvæðinu.

 

Sá mikli útlánavöxtur sem hefur orðið á þessum sviðum samfara mikilli lækkun á vöxtum til íbúðalána hefur sprengt utan af sér öll bönd. Íbúðalánasjóður hefur á undanförnum árum að jafnaði lánað um sjötíu til áttatíu milljarða króna á ári en samkvæmt nýjustu upplýsingum eru útlán bankanna til þess sama nú orðin um tvöhundruð og áttatíu milljarðar króna. Það er því öllum ljóst að hér er á ferðinni afgerandi áhrifavaldur í hinu íslenska efnahagslífi. Það er því tómt mál um að tala að ná utanum vandann í efnahagsmálum nema á þessum málum sé tekið með einhverjum hætti.

 

Seðlabankinn hefur það hlutverk lögum samkvæmt að tryggja hér lága verðbólgu. Þetta hefur ekki alltaf verið svo. Fyrir fáeinum árum, þegar horfið var frá gengisviðmiðunum við stjórn peningamála, féll gengi íslensku krónunnar og það ójafnvægi sem áður hafði verið, leiðréttist í kjölfarið.  Margir spyrja hvort ekki væri eðlilegt, að Seðlabankinn slaki á kló sinni núna og lækkaði stýrivextina einhliða til þess að stuðla að lækkun íslensku krónunnar.

 

Þetta er eðlileg spurning og nauðsynlegt að við veltum henni fyrir okkur. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans, er eina tækið sem bankinn hefur til þess að sinna sínu lögmælta hlutverki og við sjáum afleiðingarnar. Þær hafa fyrst og fremst birst okkur fram til þessa í verulegri styrkingu gengis íslensku krónunnar. Fyrst kom skuldabréfaútgáfa útlendinganna, sem keyrði upp styrk krónunnar, þannig að gengisvísitalan fór úr ca. 110 í 105, og nýjustu hækkun stýrivaxta Seðlabankans hefur enn knúið upp krónuna og er hún farin að nálgast ískyggilega töluna 100. Þess vegna hefur mér fundist sérkennilegt upp á síðkastið að ýmsir hafa talið að það skorti á það sem menn hafa kallað trúverðugleika Seðlabankans!

 

Ég held að frá sjónarhóli þeirra sem áhyggjur hafa af hinni sterku stöðu íslensku krónunnar þá sé þessi trúverðugleiki Seðlabankans fullmikill ef eitthvað er!

 

Að vísu sjáum við nýja vísbendingu um að peningamálaaðgerðir Seðlabankans bíti víðar en bara á gengið og hafi tilætluð áhrif.  Hækkun verðtryggðra vaxta vegna hækkunar stýrivaxta Seðlabankans mun væntanlega hækka vexti íbúðalána og ásamt öðru lækka fasteignaverð, sem hefur verið helsti drifkraftur verðbólgunnar. 

 

En hvert er þá verkefnið framundan? Verkefnið er að stuðla að lækkun á raungengi krónunnar án þess að það stefni í voða markmiðum okkar um verðbólgu. Það versta sem gæti hent okkur nú er það að gengi krónunnar lækkaði að nafnvirði og af stað færu víxlverkun kaupgjalds og verðlags. Það fyrirbrigði þekkjum við alltof vel frá fyrri tíð. Slíkt skilaði aldrei neinum varanlegum bata fyrir útflutningsatvinnuvegina og í þeirri stöðu sem við erum nú yrði það sérlega háskalegt.

 

Við skulum leggja áherslu á eitt sem öllu máli skiptir.  Við þurfum að ná fram lækkun raungengis. Það er lítill vandi að framkalla nafngengislækkun, en það er engin bót að því nema að hún þýði bætt kjör útflutningsgreinanna í raun. Þó dollar, evra og pund tosuðust eitthvað upp eru menn ekki skár settir nema að það skilji eftir fleiri aura í vösum útflytjenda þegar upp er staðið.

 

Gleymum því ekki að um þessar mundir er verðbólgan nær eingöngu samansett af verðbólunni á fasteignamarkaðnum og hækkun á eldsneytisverði. Ef við settum af stað verðlagshækkanir við þessar aðstæður er hætt við að verðbólgan tæki á sig aðra mynd, sem væri hættulegt. Ég óttast að ef eingöngu væri um að ræða lækkun stýrivaxta Seðlabankans núna kölluðum við yfir okkur víxlverkun kaupgjalds og verðlags. Þess vegna tel ég að sú leið við þessar aðstæður nú sé ekki sú sem eigum að fara til þess að ná því markmiði sem ég setti fram hér áðan. Þetta set ég líka fram í ljósi þeirrar miklu spennu sem er á vinnumarkaði og þeirrar margföldu reynslu að útflutningsatvinnuvegirnir hafa aldrei roð við þenslugreinunum við slíkar kringumstæður í samkeppni um fólk og fjármagn.

 

En er þá ekkert til ráða ?  Verður sjávarútvegurinn og annar útflutningsatvinnuvegur að búa við þetta ofurgengi sem er greinilega algerlega ofviða flestum fyrirtækjum á þessu sviði á landinu?

 

Svar mitt við fyrri spurningunni er já en hinni síðari klárlega nei. Við getum ekki búið við þetta raungengisstig og það eru til aðrar leiðir að því markmiði sem ég nefndi áðan. Í þessu sambandi vil ég benda á tvennt:

 

Í fyrsta lagi  blasir við, að það mikla lánsútstreymi sem fór af stað og leiddi til sprengjunnar á íbúðalánamarkaðnum hefur reynst þenslunni mikið fóður.

Vaxtalækkunin sem útrásin á íbúðalánamarkaðinn og hin harða samkeppni hafði í för með sér, gerðu það að verkum að eftirspurn eftir íbúðalánum stór jókst og í kjölfarið hækkaði húsnæðisverð gríðarlega einkanlega á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hafa menn kallað auðsáhrif. Þau hafa leitað og fundið sér farveg í auknum innflutningi og er umtalsverð skýring á versnandi viðskiptajöfnuði. Aukning einkaneyslu umfram kaupmátt á tímabilinu 2004-2006 er um 8% og skýrir hina miklu skuldaaukningu heimilanna

 

Þennan vítahring þarf að rjúfa. Ég setti fram róttækar hugmyndir sem gætu haft áhrif í þá átt nú í sumar. En það eru til fleiri leiðir að þessu markmiði. Ríkisstjórnin hefur nú látið vinna að því undir forystu félagsmálaráðherra að endurskoða með gagngerum hætti starfsemi íbúðalánasjóðs. Fram kom í máli forsætisráðherra nú siðastliðinn miðvikudag að þeirri endurskoðun væri flýtt.  Sú yfirlýsing var afar þýðingarmikil í efnahagslegu samhengi.  Markmið þess starfs hlýtur að vera að draga úr umfangi þessarar lánastarfsemi. Jafnframt því að ná utan um og lækka heildarútlánin á þessu sviði.

 

 Þetta er heilmikið vandaverk en mjög þýðingamikið sem verður að ná til allra sem málið varða. Við þurfum að ná tökum á lánshlutföllum og lánsfjárhæðum. Ekki bara að því sem snýr að hinu opinbera, heldur ekki síður að bönkunum. Þetta er ekki síst nauðsynlegt núna þegar allt bendir til að húsnæðisverð kunni að lækka með hækkandi vöxtum og hátt lánshlutfall án hámarksfjárhæða getur verið áhættusamt til lengdar. En þetta er einungis annar hluti þeirra aðgerða sem ég vil vekja athygli á.

 

Og víkjum þá að öðru. Seðlabankinn hefur keypt, lengst af á þessu ári lítilsháttar gjaldeyri eða sem svarar tveimur og hálfum milljónum dollara á viku. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að auka þessi vikulegu kaup á erlendum gjaldeyri í tíu milljónir dollara, til þess að fylgja eftir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að borga niður meira af erlendum lánum.  Það svarar til þess að kaupin eru nú nær jafnmikil á dag eins og þau voru á viku hverri.  Við eðlilegar aðstæður ætti þetta að halda aftur af gengishækkunum og stuðla að gengislækkun ef ekki hefði komið til þessi mikla stýrivaxtahækkun Seðlabankans og inngrip útlendra fjárfesta í skuldabréfakaup héðan. Það eru með öðrum orðum önnur sterkari öfl sem vinna gegn áhrifunum af ákvörðun Seðlabankans um aukningu á vikulegum kaupum á erlendum gjaldeyri.

 

Á sama tíma og hið opinbera þ.e.a.s. ríkissjóður er að greiða niður sín erlendu lán er erlend lántaka af hálfu einstaklinga, fyrirtækja og banka að aukast mjög mikið. Skuldsetning þjóðarbúsins í heild fer vaxandi þrátt fyrir að ríkisstjóður sé að lækka sínar skuldir. Þjóðarbúskapurinn er nú orðinn mjög skuldugur í útlöndum. Við höfum komið vel út í mati erlendra matsfyrirtækja þrátt fyrir það, m.a. vegna sterkrar stöðu ríkisstjóðs.  Við þessar aðstæður er þess vegna mjög eðlilegt að nú sé hugað að því að styrkja enn gjaldeyrisvarasjóðinn. Slíkt myndi treysta lánshæfismat þjóðarbúsins enn frekar og er jafnframt eðlileg viðbrögð í hagstjórn við þeim aðstæðum sem uppi eru vegna vaxandi skuldasöfnunar annarra en ríkissjóðs í útlöndum.

En jákvæðustu afleiðingarnar að mínu mati til skemmri tíma litið að minnsta kosti væru þau að aukin kaup á erlendum gjaldeyri til þess að styrkja gjaldeyrisforðann myndu hafa þau áhrif að gengi íslensku krónunnar gæfi eftir. Það er ekki óeðlilegt að hugsa sér að um þetta sé mörkuð stefna til nokkurs tíma, t.d. með það að markmiði að kaupin gætu nálgast einhverja þá upphæð sem að svarar til þess sem útlendingar hafa verið að gefa út af íslenskum skuldabréfum. Leiða má mjög sterk rök að því að þessi aðferð gæti náð þeim markmiðum að veikja raungengi íslensku krónunnar án þess að það kæmi af stað víxlverkun, ef vel væri staðið að málum og stefnan um þetta mótuð til lengri tíma.

 

En hefur þessi aðferð þá engan galla? Jú svo sannarlega. Hún gæti leitt til þess að lánageta íslenska bankakerfisins ykist. Við höfum séð dæmi um þetta frá liðnum árum. En við eigum líka einhver svör við þessu. Í fyrsta lagi hefur Seðlabankinn möguleika á að auka bindiskyldu. Á það er að vísu bent að það hagstjórnartæki eins og svo mörg önnur vegna alþjóðavæðingarinnar hafa ekki sömu áhrif og fyrr. Þetta kynni fyrst og fremst að bitna á minni lánastofnunum, sparisjóðum og öðrum slíkum en síður þeim sem sækja styrk sinn í vaxandi mæli og að meirihluta til til útlanda. En þá kemur til sögunnar samspilið við þær aðgerðir sem að nú er unnið að varðandi Íbúðalánasjóð. Því er það  ljóst mál að ef okkur tekst að breyta umgjörð íbúðalánanna og ná utan um umfang þeirra á næstunni þá mun aukið útlánasvigrúm bankakerfisins ekki skila sér út í okkar hagkerfi með þeim hætti sem að ætla mætti ella.

 

Þessi mál verðum við semsagt að skoða í samhengi. Minni útlán, að við náum tökum á útlánshlutfalli og lánsfjárhæðum til íbúðalána, jafnframt skipulegri uppbyggingu gjaldeyrisvarasjóðs í enn ríkari mæli. Slíkt mun hafa áhrif til veikingar á krónunni án þess að setja af stað víxlverkun kaupgjalds og verðlags.

 

Góðir fundarmenn

 

Það sem ég hef hér talað um eru engar hókus pókus aðgerðir. Enda fyrirfinnast þær ekki.  Þær eru heldur ekki einfaldar en þær myndu án nokkurs vafa stuðla að lægra raungengi án kollsteypu og bæta fjárhagslega stöðu útflutningsatvinnuveganna í landinu.

Undan því verður ekki vikist að grípa til aðgerða. Við sjáum nú og heyrum af talsmönnum greiningardeilda bankanna að svo virðist sem traust á íslensku krónunni sé sérstaklega mikið á meðal útlendra fjárfesta. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hika nú hins vegar við að gera framvirka gjaldeyrissamninga vegna ótta við að krónan muni gefa eftir. Traust manna á þessu háa gengi hér á landi virðist því vera afskaplega lítið.

 

Það virðist þess vegna eiga við um blessaða krónuna okkar eins og ýmislegt annað, fyrr og síðar að upphefð hennar virðist koma að utan!

 

Það er líka athyglisvert að krafan um lækkun raungengis íslensku krónunnar kemur ekki einasta frá útflutningsatvinnugreinunum.  Hún er einnig bergmáluð af verkalýðshreyfingunni. Og stjórnmálamenn úr öllum stjórnmálflokkum hafa sett fram þessa kröfu. Þó vita allir að lækkun raungengis hefur áhrif á kaupmátt til lækkunar til skemmri tíma. Hins vegar hlýtur mönnum einfaldlega að vera það ljóst að kaupmáttur knúinn áfram af viðskiptahalla og háu gengi, stenst ekki til lengdar og þess vegna sé það ábyrgara og líklegra til varanlegs árangurs að stuðla að raungengislækkun og tryggja um leið atvinnuöryggi fólks vítt og breytt um landið. Um þessa skoðun virðist ótrúlega víðtæk og þverpólitísk samstaða. Það er sannarlega vel, þó einhvern tíma hefði það sætt tíðindum. 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta