Málþing um nýliðun og framleiðslugetu þorskstofnsins
Ráðstefnustjóri, ágætu fyrirlesarar og aðrir góðir gestir.
Við komum hér saman af tvenns konar tilefni. Við fögnum á þessu ári 40 ára afmæli Hafrannsóknarstofnunarinnar, vísindastofnunar okkar á sviði hafrannsókna og þeirrar stofnunar sem unnið hefur þrotlaust starf að því að varpa ljósi á það flókna og margslungna gangvirki, sem lífríkið í hafinu er. Jafnframt reynum við að svara mikilvægum spurningum um nýliðun og vöxt okkar lang helsta nytjastofns, þorsksins. Það fer vel á því. Verkefni Hafrannsóknarstofnunarinnar hefur verið að kljást við háleitar og erfiðar spurningar. Og sú spurning sem við reynum nú að svara er einmitt það; í senn háleit og erfið.
Öldum saman hafa menn reynt að leita svara við spurningum um lífríki hafsins í kring um landið. Jafnvel í elstu rituðu heimildunum um sögu okkar, sjáum við vangaveltur um þessi mál. Snemma hafa menn sem sé gert sér grein fyrir þýðingu þess að skilja hið flókna samband lífsins sem ríkir undir haffletinum. Sjórinn var bjargræðið og þó við stunduðum hann með fábrotinni tækni var skilningur á lífríkinu lykillinn að því að nýta sér bjargræðisvegina, sem hafið er.
Alla síðustu öld stunduðu Íslendingar hafrannsóknir. Og athyglisvert er að lesa í frásögnum Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings, frumkvöðulsins okkar á þeim sviðum, hvernig hann leitaði samstarfs við sjómenn og aðra þá sem að gagni gætu komið við öflun þekkingar. Hann ferðaðist um landið, safnaði upplýsingum og skildi jafnvel rannsóknartæki sín eftir hjá útvegsbændum til þess að þeir gætu unnið fyrir hann að rannsóknarverkefnum, sem máli skiptu fyrir framvindu vísindalegrar starfsemi á frumbýlingsárunum.
Og spurningarnar sem menn spurðu á þessum árum eru býsna kunnuglegar, þó þekking og tækni leyfði þá ekki að menn næðu að svara með sama hætti og menn geta nú, öld síðar.
Það er enginn vafi á því að með stofnun Hafrannsóknarstofnunarinnar árið 1965 var stigið eitt merkasta skrefið á framfarabraut okkar sem sjálfstæðrar fiskveiðiþjóðar. Við sem munum hin síðari þorskastríð, kunnum og þekkjum hvernig vísindamenn okkar báru uppi efnislegan málflutning á sínu sviði, þegar rætt var um réttmæti útfærslu landhelginnar. Sú skipulega þekkingarleit og þekkingaröflun, sem stunduð hafði verið, lagði okkur vopn í hendurnar sem dugðu vel í baráttu fyrir landhelginni.
Það er erfitt að hugsa sér að slík barátta hefði gengið án þessarar þekkingar og þess vegna er saga Hafrannsóknarstofnunarinnar enn ein árétting þess að við stöndum vörð um uppbyggingu hafrannsókna í landinu.
Sú staðreynd að okkur hefur ekki gengið betur en raun ber vitni um varðandi uppbygginu þorskstofnsins er vitaskuld algjörlega óviðunandi. Þetta er viðfangsefni sem án nokkurs vafa hlýtur að teljast eitt hið mikilvægasta sem við glímum nú við. Í þeirri umræðu hlýtur Hafrannsóknarstofnunin okkar að vera leiðandi. En jafnframt er það nauðsynlegt að kalla eftir viðhorfum fleiri. Jafnt erlendra og innlendra fræðimanna sem og þeirra sem dag hvern starfa á vettvangi sjávarútvegsins. Sú ráðstefna sem hér er efnt til er einmitt liður í þessu.
Hér eru kallaðir til þrír innlendir sérfræðingar, frá okkar helstu vísindastofnunum á sviði hafrannsókna. Hér koma að verkinu jafnt þaulreyndur fiskifræðingur og ungur vísindamaður sem er að koma til liðs við stofnunina. Hér mun og tala prófessor í hafrannsóknum við Háskóla Íslands. Ennfremur höfum við fengið til liðs við okkur þrjá erlenda vísindamenn, fulltrúa frá jafn mörgum löndum, sem án efa munu leggja okkur til efni til umhugsunar og uppbyggingar í þeirri viðleitni að leiða fram sem fjölþættasta og mesta vitneskju um álitaefni sem við þurfum svo mjög að fjalla um.
Segja má að þessi ráðstefna í dag sé upphafið að skipulegri umræðu sem fara mun fram um land allt, undir forystu Hafrannsóknarstofnunar, en með þátttöku þeirra sem láta sig málið varða. Á næstu vikum verður efnt til skipulegra funda á fjórtán stöðum á landinu, þar sem markmiðið er einmitt að gefa sem flestum kost á að leggja orð í belg um hafrannsóknir, í sínum fjölþættustu myndum. Við teljum þennan þátt afar þýðingarmikinn og raunar eina forsendu þess að ná utan um viðfangsefnið, sem okkur er hugleikið.
Jafnframt þessu verður fyrsti fundur í nýskipaðri ráðgjafanefnd Hafrannsóknarstofnunar haldinn á morgun. Í þessari nefnd sitja bæði erlendir og innlendir vísindamenn auk starfandi manna í sjávarútveginum sem hafa það hlutverk að vera vettvangur skoðanaskipta og frjórra umræðna og ennfremur að vera farvegur gróskumikillar umræðu sem nauðsynlegt er að fari fram á hverjum tíma um viðfangsefni fiskveiðiráðgjafar og hafrannsókna í landinu.
Allt er þetta liður í því einu og hinu sama. Það er að styrkja forsendur okkar til skynsamlegrar og arðbærrar nýtingar á auðlindum hafsins. Þessi ráðstefna undirstrikar á vissan hátt tiltekin kaflaskil, amk. Í sagnfræðilegum skilningi, þar sem til hennar er efnt í tilefni af 40 ára afmæli Hafrannsóknarstofnunarinnar, okkar helstu vísindastofnunar á sínu sviði; stofnunar sem nýtur álits langt út fyrir landsins steina. En um leið er henni ætlað að vera upphafspunktur mikillar umræðu sem efnt er til í því skyni að varpa ljósi á áleitið og knýjandi viðfangsefni, eins og yfirskrift ráðstefnunnar bendir til.
Ég vil þakka forstjóra og öðrum starfsmönnum Hafrannsoknarstofnunarinnar fyrir gott starf að undirbúningi ráðstefnunnar. Ég vænti mikils af henni og trúi því að þau erindi og þær umræður sem við munum hlýða á í dag verði til þess fallnar að skýra fyrir okkur þær margvíslegu og margbreytilegu spurningar sem við veltum fyrir okkur varðandi þorskstofninn, fiskistofns sem sumir segja að hafi breytt heiminum, en við vitum að minnsta kosti hvað okkur áhrærði, að breytti Íslandssögunni, okkur til ómetanlegra hagsbóta.