Aðalfundur Samtaka fiskvinnslu án útgerðar
12. nóvember 2005.
Góðir fundarmenn,
Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur og heyra um það sem brennur heitast hjá ykkur sem stundið fiskvinnslu án beinna tengsla við útgerðir. Reynsla sýnir að kaupendur sjávarafla eru sífellt að verða kröfuharðari enda nauðsynlegt fyrir þá að laga framleiðslu sína að nýjum og fjölbreyttum kröfum kaupenda íslenskra sjávarafurða. Erlendu kaupendurnir ætlast til mikils og íslenskir framleiðendur sjávarafurða hafa sýnt að þeir eru þeim vanda vaxnir.
Til að geta brugðist hratt og örugglega við nýjum aðstæðum, nýjum kröfum, þurfa reglurnar sem þið og birgjar ykkar vinna eftir að vera skýrar. Ég ætla að gera hér að umræðuefni tvennt sem að snýr að því regluverki sem þið búið við, annars vegar ætla ég að fjalla um fiskmarkaðslögin frá því í vor sem leið og hins vegar um þær breytingar á reglum um vigtun sjávarafla sem unnið er að.
Ný lög voru samþykkt á Alþingi sl. vor um uppboðsmarkaði sjávarafla. Eldri lög voru frá 1989 en þá höfðu markaðir verið starfræktir á Íslandi í tvö ár. Starfsemi fiskmarkaða hafði breyst töluvert á þeim 16 árum sem liðin voru frá setningu laganna.
Meðal breytinga sem gerðar voru nú var að tímabinda ekki lengur rekstrarleyfi markaðanna. Í lögunum er ekki lengur gert ráð fyrir að ráðherra staðfesti starfsreglur hvers markaðar fyrir sig en það hafði leitt til þess að mjög mismunandi reglur giltu fyrir þá. Talið var að samræma þyrfti starfsreglur markaðanna til að auka öryggi í viðskiptum og er áskilið í lögunum að ráðherra skuli í sérstakri reglugerð kveða á um útgáfu rekstrarleyfa og starfsemi uppboðsmarkaða. Þá er í lögunum ákvæði um viðurlög sem ekki var í fyrri lögum.
Við vitum öll að uppboðsmarkaðir sjávarafurða eru með ýmsu móti, hjá sumum er þetta umtalsverð meðhöndlun á fiski, annars staðar er starfsemin jafnvel eingöngu bundin við milligöngu um viðskipti. Hvað varðar húsnæði og búnað uppboðsmarkaða og meðferð afla gilda lög númer 55 frá 1998 um meðferð vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Ákvæði í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar eru grundvöllur reglna um vigtun afla.
Það sem ætlunin er að gera þessu til viðbótar, er að setja reglur sem tryggja eiga gagnsæi viðskipta, reglur um birtingu uppboðsskilmála, um uppboðslýsingar og reglur um starfsemi reiknistofu uppboðsmarkaða.
Í sjávarútvegsráðuneytinu hefur verið unnið að þessum málum en ég hef ákveðið að setja í það aukinn kraft með það að markmiði að fyrir liggi samræmdar starfsreglur fyrir markaðina um áramót sem yrðu meðal annars lagðar til grundvallar við útgáfu starfsleyfa á næsta ári.
Góðir fundarmenn
Við endurskoðun vigtarreglugerðarinnar sem staðið hefur í alllangan tíma, hefur verið haft að leiðarljósi að ná sem víðtækastri sátt um breytingar sem gerðar verða. Sumt hefur þurft að ræða ítarlegar og oftar en fyrirsjáanlegt var.
Megintilgangur vigtunar sjávarafla er að halda utan um hvað við erum að taka mikið úr sjónum. Aflaskráning af því tagi er ekki það sama og svokölluð söluvigtun þ.e. vigtunar sem er grundvöllur viðskipta þótt vissulega sé æskilegt að þetta sé eða verði það sama.
Í lögum er kveðið á um að allur afli skuli veginn á hafnarvog þegar við löndun. Hafnarvogir eru beintengdar inn í aflaskráningarkerfi Fiskistofu - Lóðsinn.
Í þessari umferð hefur verið lögð áhersla á að hvetja vigtunarleyfishafa til heilvigtunar afla og leitast við að stuðla að því að sú nákvæma vigtun sem almennt er viðhöfð við innvigtun hjá fyrirtækjum verði niðurstaða vigtunar til aflaskráningar ásamt því að tryggja rekjanleika upplýsinga um afla. Það er lykilatriði við aflaskráningu að afli sé vigtaður hjá þeirri vinnslu eða fiskmarkaði sem er fyrsti móttakandi afla eftir löndun.
Í núgildandi vigtarreglugerð er gert ráð fyrir að vigtunarleyfishafar byggi niðurstöðu sína um aflamagn á svo kallaðri úrtaksvigtun. Í úrtaksvigtun er eðli máls samkvæmt innibyggð óvissa. Nákvæmnin í vigtun skiptir miklu máli og stutt í að menn fari að óttast að þeir borgi fiskverð fyrir vatn og ís. Annað mikilvægt atriði hvað varðar úrtaksvigtun er að hún felur í sér að vigta þarf tiltekið magn til að fá marktæka niðurstöðu. Því er það að þegar afli skips er lítill, einungis nokkur kör af hverri tegund, þarf oft að vigta öll körin. Úrtaksvigtun getur þannig falið í sé heilvigtun þegar afli er ekki mikill.
Í drögum að nýju reglugerðinni eins og þau standa núna er gert ráð fyrir að reglan verði sú að vigtunarleyfishafar geti valið hvort afli sem þeir vigta verði vigtaður samkvæmt reglum um heilvigtun eða úrtaksvigtun og verður aðferðin bundin við fisktegund. Þannig mun í leyfisbréfi viðkomandi vigtunarleyfishafa koma fram hvaða heimildir hann hefur til að vigta sjávarafla flokkað eftir tegundum - sem dæmi má nefna að komi fram í leyfisbréfi að þorskur skuli heilvigtaður er óheimilt að úrtaksvigta hann.
Mörg fyrirtæki eru með búnað til að heilvigta afla. Í drögunum er gert ráð fyrir að heilvigtun fari fram sem hluti af vinnsluferlinu og er fyrirtækjum því gefinn lengri frestur til skila á vigtarnótum þegar um heilvigtun er að ræða en þegar úrtak er vegið. Vegast þarna á sjónarmið er varða hagsmuni vinnslunnar af því að heilvigtun verði hluti af vinnsluferlinu og mikilvægi þess að nákvæm aflaskráning fari fram eins skjótt og unnt er, því öllum er ljóst hve mikilvægt það er að áreiðanlegar upplýsingar um aflastöðu liggi fyrir á hverju tíma.
Vegna eindreginna óska hagsmunaaðila er nú gert ráð fyrir að slægingarstuðull verði afnuminn í nokkrum bolfisktegundum, þ.e. þorski, ýsu og ufsa, og er gert ráð fyrir að þær tegundir verði ávallt vigtaðar slægðar - gert er ráð fyrir að afla sé ýmist landað slægðum eða hann slægður í landi og vigtaður í kjölfarið. Kostirnir eru augljósir, aflaskráning verður nákvæmari og útgerðir munu ekki þurfa að sæta því að slóginnihald verði dregið af aflamarki þeirra. Ókosturinn er hins vegar sá að ef menn landa óslægðum afla og notfæra sér ekki kost á endurvigtun eftir slægingu heldur vilja ljúka vigtun aflans á hafnarvog kæmi slóginnihaldið að fullu til frádráttar aflamarki.
Ég hef hér gert að einkum að umtalsefni þrjá þætti í drögum að nýrri reglugerð um vigtun þ.e. heilvigtun eða úrtaksvigtun, afnám slægingarstuðulsins fyrir þorsk ýsu og ufsa og hve mikilvægt það er í fiskveiðistjórnuninni og fyrir þá sem höndla með fisk að hafa sem bestar upplýsingar eins fljótt og auðið er. Við eigum að búa þannig um hnútana að upplýsingar sem aflað er, nýtist áfram; meðal annars til að rekja vöru fram og til baka en kröfur um rekjanleika afurða verða æ meiri en ekki síður vegna þess að áreiðanleg vigtun afla sem allra fyrst í framleiðsluferlinu er einn þeirra þátta sem geta gefið færi á að skipuleggja bæði veiðar og vinnslu betur.
Að fleiru hefur verið hugað og má þar helst nefna að nú er gert ráð fyrir sérstökum kafla um vigtun eldisfisks og lýst tveimur leyfilegum aðferðum við það. Köflum um vigtun afurða vinnsluskipa og um vigtun afla sem fluttur er á markað erlendis hefur verið breytt á sl. árum og er því ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á þeim köflum.
Ég bind miklar vonir við að við séum alveg að ljúka við að endurskoða vigtarreglugerðina.
Orðin "Mældu rétt strákur" hafa lifað í íslenskri þjóðarsál sem dæmi um hvernig einokunarkaupmenn höfðu rangt við gagnvart Íslendingum. Þau eru eignuð dönskum einokunarkaupmanni á Húsavík á 18.öld sem á að hafa sagt þau við Skúla Magnússon síðar landfógeta og meint með þeim að mæla ætti viðskiptavinunum í óhag. Á tuttugustu og fyrstu öldinni, rétt eins og þá, skipta mælitækin og mæliaðferðirnar miklu máli. En nú fleygir tækninni líka hratt fram. Okkur ber skylda til að nýta okkur þá miklu þekkingu í upplýsingatækni sem við höfum til að halda áfram að skapa okkur forskot í vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Við endurskoðun vigtarreglugerðarinnar er leitast við einfalda sem kostur er reglur sem atvinnustarfsemi eru settar, en um leið tryggja að nauðsynlegar upplýsingar vegna stjórnar fiskveiða og markaðsetningar afurða liggi fyrir. Síðast en ekki síst er haldið til haga að landsmenn allir, sem eiga mikið undir því að fiskveiðistjórnunin sé styrk, og þeir sem standa í viðskiptum með fisk geti treyst því að ekki sé hægt að hafa rangt við.
Þökk fyrir