Ráðstefna í tilefni 20 ára afmælis starfsfræðslunnar
Ágætu gestir.
Ég vil bjóða ykkur öll velkomin til þessarar ráðstefnu um starfsmenntun í fiskvinnslu. Hún er haldin í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin 20 ár frá því að Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, sem skipuð var af þáverandi sjávarútvegsráðherra í október 1985, stóð fyrir fyrstu námskeiðum sínum fyrir starfsfólk í fiskvinnslustöðvum á Íslandi.
Í hugum flestra er vélvæðing í sjávarútvegi og tilkoma togaranna í upphafi síðustu aldar tákn iðnbyltingar á Íslandi. Með henni varð verðmætaaukning í þjóðarbúskapnum slík að þær breytingar sem urðu á samfélaginu í kjölfarið, á undraskömmum tíma, eiga sér vart hliðstæður meðal þjóða. Um stóriðnað í sjávarútvegi var hins vegar ekki að ræða fyrr en 1930 þegar ríkið reisti fyrstu síldarverksmiðjuna á Siglufirði. Önnur vinnsla var einhæf og markaðssókn ekki í hávegum höfð. Vinna starfsfólks við fiskverkun var líka til fárra fiska metin og vermdu konur þar botninn. Sem dæmi má nefna að árið 1925 voru fiskverkakonum í vaskinu greiddir 2 aurar fyrir hvert stykki af stórfiski, sem oft var þannig að þegar hnakkakúlan hvíldi á gólfi þá var sporðurinn undir hendi. Á þeim tíma kostaði mjólkurpotturinn 60 aura.
Hraðfrystihúsum var ekki til að dreifa fyrr en árið 1935 en með þeim var blásið til nýrrar sóknar í fiskvinnslu og framleiðsluháttum. Fram að því var verkunin öll handunnin og engin vélvæðing í landvinnslu nema þá helst við uppskipun og flutning afla. Vélvæðingin beindist þannig að öflun hráefnisins en ekki afurðavinnslunni.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því að hraðfrystihúsin hófu starfsemi sína um 1935 hefur orðið bylting í framleiðsluháttum sem er kunnari en frá þurfi að segja. Þar kemur auðvitað til aukin tækniþekking en sú tækniþekking hefur ekki hvað síst byggt á þeirri verkþekkingu sem fyrir er á hverjum tíma. Það þarf því ekki að fjölyrða um nauðsyn þess að styrkja og efla þann þekkingargrunn með menntun og fræðslu til fiskvinnslufólks - og framboð á slíkri menntun þarf að vera jafnt og stöðugt. Og það er ekki nóg að tala um það; því vel sagt er auðvitað allt annað en vel gert.
En hvenær menntar maður mann og hvenær menntar maður ekki mann? Ætli það séu ekki spurningar sem við megum spyrja hér í dag. Ég hafði sjálfur lagt að baki fleiri námsstundir á formlegri skólagöngu en flest samstarsfólk mitt hjá Íshúsfélagi Bolungrvíkur á sinni tíð, þegar ég vann þar meðfram menntaskóla og háskólanámi. Í fiskvinnslu hef ég unnið flest störf, meðal annars hin hefðbundnu kvennastörf, skorið úr og pakkað. Ég efaðist aldrei um að ég var þiggjandinn í þeirri sambúð með starfsfólki ÍB. Konurnar og mennirnir sem lærðu í skóla lífsins juku mikið við þroska minn á þessum árum í frystihúsinu. Þær sögðu mér réttilega konurnar í pökkuninni í frystihúsinu að ég skrifaði illa og ógreinilega þegar ég sótti til þeirra pönnurnar til að fara með í frystitækin. Þannig kenndu þær mér að vanda mig.
Maður vissi að mikið væri í húfi að vanda til verka, mæta á réttum tíma, eiga gott samstarf og kunna handbrögðin. Ég vann með fullorðnum heiðursmanni, Benjamín Eiríkissyni fyrrverandi sjómanni, ættuðum af Ströndum. Við vorum meðal annars að glassera fisk- sjö pundin á Rússland. Þá voru ekki þessir nýmóðins úðarar. Við böðuðum fiskinn ofan í hjólbörum. - "Vertu berhentur Einar, það stælir þig," sagði Benjamín og flutti þessi í millum yfir mér og fleiri strákum ódauðleg kvæði 19. aldar skáldanna, sem hann kunni ótrúlega mörg. Þetta var rétt hjá honum. Ég hafði gott af þessu. Ætli þetta séu ekki hin einu og sönnu mannauðsfræði, eins og þau eru kölluð upp á nýmóðins máta, nú til dags.
Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, undir stjórn sjávarútvegsráðuneytisins, hefur nú í 20 ár boðið upp á 40 klst. grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk og mun gera það áfram. En það þarf að byggja hér ofan á og gefa fiskvinnslufólki tækifæri til að bæta við þá menntun sem þar fæst. Hér verða fyrirtækin að koma til skjalanna, enda augljósir hagsmunir í húfi fyrir þau. Og það þarf líka að mennta stjórnendur í fiskvinnslu. Sjávarútvegsráðuneytið hefur nýverið komið á fót starfshópi sem hefur það verkefni að skipuleggja námskeið fyrir millistjórnendur í fiskvinnslu. Stefnt er að því að hægt verði að bjóða upp á slík námskeið frá og með næsta hausti og munu þau væntanlega fara fram í öllum landshlutum. Ég vænti þess að fyrirtækin komi auga á þær hagsbætur sem í þessu felast fyrir þau og nýti sér vel þetta tækifæri.
En hverjir eru hagsmunirnir og hverra eru þeir? Jú, hagsmunir starfsfólksins felast í því að auka hæfni sína og fagþekkingu sem og vitund um verðmæti þeirra starfa sem það innir af hendi, sem aftur leiðir til aukinnar starfsánægju og möguleika á starfsframa. Hagsmunir fyrirtækjanna felast þá í því að hafa á að skipa hæfu starfsfólki sem framleiðir verðmætari hágæðavöru á fullkomlega samkeppnishæfum markaði. Og þar sem fiskurinn er aðaltekjulind þjóðarinnar felast hagsmunir hennar augljóslega í auknum útflutningstekjum og betri þjóðarhag. Við eigum öll hagsmuna að gæta.
Ég minntist í upphafi á iðnbyltinguna í byrjun síðustu aldar. Fyrir arðinn af sjávarútvegi og margföldunaráhrif hans lögðu Íslendingar á undraskömmum tíma grunninn að því velferðarkerfi sem við búum við í dag. Þetta hefur oft verið þakkað framsýnum athafnamönnum sem höfðu áræði, kjark og þor til að leggja grunninn að því að fleyta þjóðinni inn í alþjóðlegan nútímann. En við skulum ekki gleyma öllum þeim konum og körlum sem með framlagi sínu gerðu þetta mögulegt. Þeim ber ekki síst heiðurinn.
Mig langar að lokum að nota þetta tækifæri hér til að þakka öllu því fiskvinnslufólki sem hefur sótt námskeið Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar. Á tímum svo fjölbreytts atvinnulífs sem nú, ber oft á skorti á vinnuafli í fiskvinnslu og hefur vinnslan því í auknum mæli flutt inn erlent vinnuafl. Þessir erlendu starfsmenn hafa staðið sig frábærlega vel og ég vil minna á nauðsyn þess að við tökum vel á móti þessu fólki og hugum vel að aðstæðum þess á vinnumarkaðinum. Einnig ber að þakka fyrirtækjunum fyrir þeirra þátt í menntun síns starfsfólks og verkalýðshreyfingunni fyrir aðkomu hennar að námskeiðunum. Síðast en ekki síst vil ég þakka öllum leiðbeinendum á námskeiðunum, sem með óeigingjörnum hætti hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar í þessum efnum og sumir hverjir starfað fyrir nefndina frá upphafi.
Ég óska Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar til hamingju með 20 ára afmælið og segi þessa ráðstefnu setta.