Hoppa yfir valmynd
20. maí 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Draumur hins djarfa manns

Ræða sjávarútvegsráðherra á ráðstefnunni "Draumur hins djarfa manns"
í Háskólasetrinu á Ísafirði laugardaginn 20. maí 2006


Skáldið sem talaði til landa sinna og sagði að lítt dygði að dorga dáðlaust upp við sand, þegar sá guli væri utar, hafði lög að mæla. Sá guli – þorskurinn, frægasti fiskur í heimi, eins og komist hefur verið að orði, – var ekki alltaf á grunninu. Menn þurftu ekki bara fley og fagrar árar. Menn þurftu að geta sótt utar, dýpra, víðar. Þannig var baráttan alltaf háð. Í fyrstu næsta ójafn leikur þar sem maðurinn glímdi við Ægi konung og náttúruöflin næsta vopnlítill. En nú höfum við jafnað metin og vel það. Í raun erum við orðin svo voldug og öflug, að náttúruauðlindunum stafar ógn af afli okkar, nema við færum það í skipulag. Sækjum í náttúruauðlindirnar þannig að við göngum aldrei of nærri þeim. Við skilum þeim í hendur afkomendanna, í að minnsta kosti jafn góðu ásigkomulagi og við tókum við þeim af forfeðrunum. Þetta kalla menn í nútímanum sjálfbæra nýtingu. Það veltur svo meðal annars á skipulagi alls þessa hvort við getum stundað þessar sjálfbæru veiðar þannig að þær verði að sem mestu gagni og ábata fyrir þjóðarbúið og þeirra sem innan sjávarútvegsins starfa.

Í raun og veru var barátta fyrri aldar fólks með hreinum ólíkindum. Einkanlega fyrir það hve lítt miðaði svo óskaplega lengi.

Barátta íslenskra sjómanna við náttúruöflin var lengst af háð við erfiðar aðstæður. Segl og árar, máttur og afl mannsins var það sem menn höfðu til að bera. Það gerðist í rauninni fátt í hér um bil eitt þúsund ár. Auðvitað þróuðu menn veiðarfæri sín eitthvað, vitaskuld lærðu menn stöðugt betur á baráttuna við náttúruöflin en merkilegt er það að allt fram yfir aldamótin 1900 voru menn að beita sömu tækni við fiskveiðar og gert hafði verið öld eftir öld allt frá því að land byggðist og það vekur sífellda undrun þegar við veltum því fyrir okkur við hverjar aðstæður menn stunduðu sjávarútveg hér á landi. Þó var sjávarútvegurinn gullkista svo vitnað sé í heiti ævisögu þess manns sem ásamt öðrum stóð fyrir upphafi af mestu framfarabyltingu á Íslandi. Hér á ég vitaskuld við Árna Gíslason formann á Ísafirði. Og þótt landbúnaður hafi verið meginatvinnugrein Íslendinga fram yfir síðustu aldamót gegndi sjávarútvegurinn og sókn í fiskinn alltaf miklu hlutverki. Menn fóru í verið, verstöðvar byggðust upp og athyglisvert er, eins og fram kemur í stórvirki Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskir sjávarhættir, að verstöðvar á Íslandi skuli hafa verið 326 á árabátaöld og var þó örugglega ekki allt upp talið. Þriðjungur þessara verstöðva var í Vestfirðingafjórðungi, þar af 18 bara hér við Ísafjarðardjúp. Þetta sýnir að sjávarútvegurinn var bjargræðið þótt menn hefðu höfuðatvinnu sína af landbúnaði.

Í þessu harðbýla landi þurfti sjómennskuna til svo menn hefðu í sig og á. Fróðlegt er að velta því upp að á 19. öldinni þegar menn fluttu í stórum stíl vestur um haf á vit ævintýra og vonar um betri tíð, þegar menn settust að á sléttum Norður-Ameríku, sneiddu þeir þjóðflutningar héðan af landi að mestu hjá þeim byggðum sem afkomu sína sóttu mest til sjávarins. Vestfirðingar fóru í litlum mæli vestur um haf, en þjóðflutningarnir urðu frá hinum búsældarlegu landbúnaðarhéruðum t.d. í Þingeyjarsýslu, Múlasýslum, Skagafirði og Eyjafirði. Menn sóttu bjargræðið í sjóinn og hlunnindi bjargs og báru héldu í mönnum lífinu. Þess vegna bjuggu þeir áfram á búum sínum hér fyrir vestan, þar sem gullkistan var nægtarborðið og vegna þess að baráttan snérist um að lifa af.

Hið stóra stökk fram á við – svo ég bregði fyrir mig kínverskri hugtakanotkun – varð strax eftir aldamótin með vélvæðingu íslenska fiskiskipaflotans, með upphafi togaraútgerðar og vélvæðingu fiskvinnslunnar í landinu á þriðja áratug aldarinnar. Þetta var hin íslenska iðnbylting reynd. Það er í raun og veru ótrúlegt ævintýri að hugsa til þess að einungis rúmlega ein öld er liðin frá þessum tíma.

Ætli við þekkjum ekki ýmis hér inni til manna sem stunduðu sjómennsku í atvinnuskyni á árabátum. Ég get að minnsta kosti nefnt dæmið af honum afa mínum, eða honum Sigurgeiri mági hans, eða Afla Kitta sem reru – í bókstaflegri merkingu þess orðs – til fiskjar á fyrstu árum 20. aldar hér við Djúp.

Ísland hefur verið á hraðferð inn í nútímann allt frá þessum tíma. Ég er þeirrar skoðunar að við nútímamenn höfum of lítið hugað að þessu sögulega samhengi. Ég tel ennfremur að sjávarútvegurinn eigi hér sérstökum skyldum að gegna. Okkur ber að minnast þessara hluta, okkur ber að setja þjóðfélagsbreytingar tuttugustu aldarinnar í samhengi við þær breytingar og þær framfarir sem sjávarútvegurinn stuðlaði að og var aflvaki fyrir. Það stendur engum nær en okkur. Þess vegna var það til marks um mikla framsýni og skilning á sögulegri þýðingu sjávarútvegsins þegar fyrirrennari minn Þorsteinn Pálsson hafði með öðrum forgöngu að því að saga sjávarútvegs á Íslandi var rituð af Jóni Þ. Þór sagnfræðingi. Það má svo sem segja að Þorsteinn hafi þar haft ríkari skyldur en margur annar; honum hafi borið að gjalda torfalögin. Afkomandi Árna Gíslasonar hlýtur að láta sér blóðið renna til skyldunnar. Enda stóð ekki á því og hlutur Þorsteins er mjög þakkarverður.

Það er dálítið gaman að velta því fyrir sér hvernig þessir framfaratímar hafa átt sér stað. Við skulum ekki gleyma því að á margan hátt hófust þessir framfaratímar í þjóðfélagi gríðarlegrar stöðnunar. Ísland var óskaplegt fátæktarríki á þessum tíma. Verkskipulag, nútímaleg verkaskipting og hvað þá vélvæðing var svo víðs fjarri því þjóðfélagi sem við lýði var um þar síðustu aldamót. Nútímaþjóðfélag sem byggir á verkaskiptingu fólks, fyrirtækja og landa hafði ekki haldið innreið sína. Menn lifðu þarna ekki bara á annarri öld, mælt á kvarða tímans, heldur í þeim skilningi að við vorum svo fjarri flestu því sem einkenndi 20. öldina þegar á leið.

Þess vegna varð verkefnið svo risavaxið. Menn þurftu ekki bara að tileinka sér nýja tækni heldur líka nýjan hugsunarhátt. Vélvæðingin var mönnum auðvitað sjálf framandi. Það þurfti hreinlega að brjóta af sér hlekki vanahugsunar. Telja má með ólíkindum hversu hratt það gerðist þegar að því kom. Þess ber þó að geta að nýjar hugmyndir höfðu skotið rótum á hinu pólitíska sviði. Svo hafði framfarasóknin sem fylgdi baráttunni fyrir sjálfstæðinu vitaskuld skapað nauðsynlegan jarðveg fyrir það sem á eftir kom. Allt skipti þetta miklu máli. Menn urðu móttækilegri fyrir nýjum hugmyndum. Enda er það engin tilviljun að mörg önnur framfaramál fara að verða fyrirferðarmeiri á þessum tímum en áður.
Það er til marks um þann framfarahug sem ríkti á þessum árum að þótt almenn ótrú hafi verið ríkjandi á vélbáta þegar Árni Gíslason hóf vertíðarróðra frá Bolungarvík það ár 1903, sáu menn að vélknúinn bátur gat sótt miklu fastar og aflað betur en árabátur og hófu strax að panta vélar í báta sína. Þremur árum síðar voru komnar vélar í alla sexæringa í Bolungarvík auk þess sem þær voru settar í báta víðar við Djúpið. Það var eins og hið íslenska lag – þetta sem við köllum stundum að drífa í hlutunum – hafi látið þarna á sér kræla. Mér er næst að halda að hin gamla vertíðarhugsun hafi átt sinn þátt í að byggja upp íslensku aðferðafræðina, sem nú hefur líka smitast út í allar atvinnugreinar. Uppgripshugsunarhátturinn hefur nefnilega reynst okkar ágætlega svona mestan part að minnsta kosti. Það var að minnsta kosti með ólíkindum að þjóðin sem sótt hafði sjóinn með svipuðu lagi í þúsund ár vélvæddi flotann sinn hér um bil á einni nóttu.

Ekki vantaði úrtöluraddirnar á þessum tíma. Haft var eftir einum mætum formanni, að um vorið yrðu komnir margir járnklumparnir upp á kamb og átti þá við að menn væru búnir að hirða vélarnar úr bátum sínum og setja þær í land. Svo vantrúaður var hann á gildi vélaraflsins.

Ég hef upp á síðkastið vakið athygli á því, að í rauninni sé sjávarútvegurinn fyrst og fremst þekkingariðnaður. Hann krefst mikils atgervis og það verkefni að veiða fisk og koma honum á sem skemmstum tíma inn á borð neytenda vítt og breytt um heiminn er verkefni sem ekki er á hvers manns færi, það útheimtir mikla þekkingu og fjölþætta menntun og starfsreynslu. Þetta er eitt af því sem gerir sjávarútveginn svo áhugaverðan.Við erum að upplifa hvert framfaraskrefið á fætur öðru í íslenskum sjávarútvegi og vegna íslensks sjávarútvegs. Það fer því vel á því að við hyggjum að framtíðinni nú þegar við reynum að setja starf íslensks sjávarútvegs og íslenskra sjómanna sérstaklega í það samhengi sem viðeigandi er. Okkur fannst þess vegna mjög vel viðeigandi og raunar fara best á því, að setja íslenska sjómenn í öndvegi á þessari ráðstefnu.

Var það ekki Einar Benediktsson sem sagði að við skyldum huga að fortíðinni ef við vildum byggja eitthvað frumlegt. Og það var líka hann – framfaramaðurinn sjálfur sem sagði að vilji væri allt sem þyrfti. Þessi orð gætu hvoru tveggju verið einkunnarorð sjávarútvegsins í gegn um tíðina. Við þurfum að hyggja að sögu okkar og læra af henni. Og við sjáum hvernig sjávarútvegur okkar hefur tekið risastökk inn í framtíðina. Og ekki bara það. Hann hefur skapað þjóðfélagi okkar framtíð; nýja framtíð. Því það er óumdeilt að sjávarútvegurinn leiddi framfarasóknina okkar. Og þarna byggðum við á verkaskiptingu, markaðsbúskap og kostum frjálsra viðskipta. Sjávarútvegurinn var stundaður sem alvöru atvinnugrein. Menn sérhæfðu sig. Þeir tóku áhættu í atvinnurekstri sínum, tóku oft áhættusamar ákvarðanir. Oft gekk miður en oftar vel og þess vegna sáum við framfarirnar eiga sér stað hverjar á fætur annarri. Breytingarnar eru undraverðar, þær gerast svo hratt. Verkskipulag í fiskvinnslu sem var við lýði þegar ég sló úr pönnum oní íshúsi sá ég á dögunum sem safngrip – í bókstaflegri merkingu – í nýja sjóminjasafninu í Reykjavík. Vonandi veit það þó ekki á að ég eigi brátt erindi á slíkt safn líka!

Forsenda alls sem við höfum gert í íslenskum sjávarútvegi var líka markaðsaðgangurinn sjálfur. Sjávarútvegurinn okkar var hluti af þeirri alþjóðlegu verkaskiptingu sem smám saman komst á vegna kosta frjálsra alþjóðlegra viðskipta. Við stunduðum sjávarútveg af því við gerðum það betur en þeir sem við vorum að keppa við. Við gátum boðið fram vöru okkar, krafist almennt talað hærra verðs á mörgum sviðum og komist upp með það. Þetta var meðal annars vegna þess að við reyndum sífellt að bæta verkskipulagið, auka afköstin, framleiðni og arðsemi til þess að standast samkeppnina. Ástæðan var líka einföld: Við áttum engan annan kost. Við gátum ekki sótt í aðra innlenda sjóði til þess að styðja við bak okkar sjávarútvegs. Þess vegna urðu menn að standa sig.

Nákvæmlega í þessum sporum erum við í dag. Sjávarútvegurinn er alþjóðleg atvinnugrein sem heyr dag hvern harða samkeppni, oft á tíðum meira að segja ósanngjarna samkeppni vegna þess að keppinautar okkar njóta opinbers stuðnings skattborgara milljónaþjóðanna. Og er það ekki til marks um árangur að hvarvetna þar sem maður kemur á erlendri grundu og hittir menn sem starfa og þekkja til á sviði sjávarútvegs er lokið lofsorði á það sem við erum að gera hér á landi. Við vitum svo sem ósköp vel að þar er ekki allt fullkomið. En mér finnst nauðsynlegt að menn viti að þannig er talað um það fólk sem stundar hér sjávarútveg. Það er talað um okkur af virðingu vegna auðlindanýtingar, vegna þekkingar, vegna afkasta, vegna vöruvöndunar, vegna tækninnar, vegna markaðsþekkingar og svo mætti áfram telja. Þetta eru ekki mín orð eða einhverra hlutdrægra eða einhverra sem hugsanlega gætu átt hagsmuna að gæta. Þetta er bara dómur þeirra sem vinna með okkur, eða í samkeppni við okkur á erlendri grundu. Mér finnst gott að heyra það og þeir sem fá svo góðan dóm á erlendri grundu – það er starfsfólk í íslenskum sjávarútvegi – eiga skilið að fá að vita af þessu.

En hyggjum nú aðeins aftur að sögunni. Þegar þeir Árni Gíslason og Sophus Nielsen settu tveggja hestafla Möllerupmótorinn oní hann Stanley – litla sexæringinn hans Árna – hrundu þeir ekki aðeins af stað vélvæðingu í sjávarútvegi. Áhrifanna gætti ekki síður í uppbyggingu þekkingar á sviði véla og tækni. Vélsmiðjur risu um land allt. Þar sem áður ríkti algjör fákunnátta á tæknisviðum spratt hún upp. Menn sóttu sér iðnnám og þannig varð til nýr grunnur menntunar og þekkingar sem hefur haft áhrif sem endalaust væri hægt að rekja.

Nú er sagan að endurtaka sig. Tæknivæðing í sjávarútvegi kallar á nákvæmlega hið sama. Við sjáum hvernig upp hafa byggst og byggjast enn fyrirtæki sem leita lausna fyrir sjávarútveginn sem eiga rætur sínar að rekja til bestu hugsanlegu þekkingar á sviði fjölþættrar hátækni sem er á heimsmælikvarða. Það var ánægjuleg undirstrikun alls þessa þegar þeir öflugu einstaklingar, eigendur fyrirtækisins 3X Stál hér á Ísafirði tóku á móti verðskuldaðri viðurkenningu, sjálfum Útflutningsverðlaunum forseta Íslands síðasta vetrardag og slógust þar með í hóp öflugustu útflytjenda landsins á fjölþættum sviðum. Þetta fyrirtæki byggir vöxt sinn vitaskuld á hugkvæmni stjórnendanna og góðu starfsfólki. En ég fullyrði að það hefði ekki orðið það sem það er í dag, nema vegna þess að það starfar í nábýli við sjávarútveginn. Það er í rauninni sprottið út úr höfði sjávarútvegsins – svo ég bregði nú fyrir mig myndlíkingu úr grískri goðafræði.
Það er þetta samhengi – sögulega samhengi og samtvinnun sjávarútvegs og annarra atvinnugreina – sem er svo mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir.
Hvað sem líður annarri atvinnulegri uppbyggingu þá blasir það stöðugt við að sjávarútvegurinn er burðarásinn og verður það um ókomna tíð. Þangað þarf því að veljast öflugasta fólkið. Aukin áhersla verður því á menntun fólks í sjávarútvegi og tengsl greinarinnar við hátækni, menntun, þróun og vísindi. Í þessu húsi þar sem við erum nú stödd – sem eitt sinn hýsti merka sjávarútvegsstarfsemi – er einmitt að verða til slíkur klasi þekkingar og er þess vegna dæmigert fyrir það sem ég hygg að muni einkenna sjávarútveg okkar í æ ríkari mæli.

Góðir fundargestir

Tilefni þess að við erum hér saman komin er að nú hefur komið út þriðja og síðasta bindi mikils ritverks Saga sjávarútvegs á Íslandi, sem Jón Þ. Þór hefur ritað. Þetta er mikið og vandað verk sem ég er afar ánægður með. Ég vil þakka höfundi hins mikla ritverks, sem ég hygg að verði ekki einasta bautasteinn á verksögu hans, heldur einnig - og það varðar mestu - ekki síður verðugt sögulegt leiðarljós um sjávarútveginn sem muni glæða áhuga almennings á þessu mikilvæga viðfangsefni, sem saga sjávarútvegsins er.

Ritið var samið að tilhlutan sjávarútvegsráðuneytisins og var upphafsmaður þess Þorsteinn Pálsson þáverandi sjávarútvegsráðherra. Eftirmaður hans og forveri minn, Árni M. Mathiesen, var einnig mjög áhugasamur um ritun verksins og lagði því mikið lið. Hafrannsóknastofnunin undir forystu forstjóra hennar, þeirra Jakobs Jakobssonar og Jóhanns Sigurjónssonar skapaði höfundi verksins aðstöðu. Auk þeirra hafa fjölmargir aðrir veitt því lið að ljúka þessu mikla og merka verki. Kunnum við öllum þeim kærar þakkir.

Mér er það sérstök ánægja við þetta tilefni nú að greina frá því að öll þrjú bindi ritverksins eru aðgengileg á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins á netinu, án endurgjalds. Það er trú mín að þannig nýtist verkið enn betur en ella öllum þeim sem áhuga hafa á sögu sjávarútvegs á Íslandi, hvort sem það eru nemendur, fræðimenn eða leikmenn.

Við verklok ritunar sögu sjávarútvegs á Íslandi ræddum við um hvernig þessara tímamóta yrði minnst svo viðeigandi væri. Ég nefndi að ég teldi rétt að við efndum til ráðstefnu þar sem tilefnið væri sjávarútvegurinn í sögulegu ljósi. Eftir undirbúning þar sem að verki komu starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins, þau Hulda Lilliendahl, Arndís Ármann Steinþórsdóttir og Björn Friðrik Brynjólfsson, auk höfundar verksins Jóns Þ. Þórs og útgefanda Jóns Hjaltasonar sagnfræðings á Akureyri, varð niðurstaðan sú ráðstefna sem hér er að hefjast. Margir hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning og vil ég í því sambandi sérstaklega geta Peters Weiss forstöðumanns háskólasetursins sem hefur reynst okkur ómetanleg hjálparhella. Ég er ákaflega ánægður með fyrirkomulag hennar og tel að þau umræðuefni sem að við munum hlýða á hér á eftir séu fjarska áhugaverð. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa komið að verkinu og undirbúningnum þeirra góða starf og þann mikla áhuga og hugkvæmni við val á umræðuefni sem þau hafa sýnt. Í því sambandi færi ég framsögufólki sérstakar þakkir fyrir framlag þeirra og það hversu vel þau öll tóku í að undirbúa og flytja erindi.


Þegar að því kom að undirbúa ráðstefnu þessa taldi ég að ekki færi betur á nokkru öðru en að henni stýrði heiðursmaðurinn Jón Páll Halldórsson. Hann hefur fyrir löngu vakið athygli og aðdáun allra sem fylgjast með, hvernig hann hefur verið vakinn og sofinn yfir því að tryggja að sögu sjávarútvegs yrði sem mest og best haldið til haga og hlut greinarinnar haldið á lofti. Þar sameinaðist í einum og sama einstaklingnum, reynsla manns sem áratugum saman var í forystu sjávarútvegsins bæði hér og á landsvísu og varði þar að auki takmörkuðum tómstundum ötuls athafnamanns í að varðveita og draga fram sögulegar staðreyndir um sjávarútveginn. Það er því með sérstakri ánægju sem ég færi Jóni Páli stjórn fundarins og veit að hún gæti ekki verið í betri höndum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta