Þorskastríðin þrjú
Endalok landhelgisdeilna voru vissulega mikill vendipunktur fyrir íslenskt samfélag. Yfirráð okkar yfir fiskimiðunum voru orðin óumdeild. Því fer hins vegar fjarri að þetta hafi verið endapunktur. Fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum fylgdi mikil ábyrgð, sérstaklega fyrir samfélag sem byggir efnahagslega farsæld sína á sjávarútvegi.
Sókn okkar í fiskistofnana í kringum landið, þróuð og tæknivædd fiskvinnsla og kröftugt markaðsstarf hefur lagt grunninn að þeirri velsæld sem við búum við hér á landi. Ábyrg fiskveiðistjórn er forsenda þess að svo megi verða áfram til lengri tíma. Ef við horfum í kringum okkur á fiskistofna Norður-Atlantshafsins finnum við því miður dæmi þess að of mikil sókn valdi hnignun eða jafnvel hruni fiskistofna. Slíkt ætti að minna okkur á mikilvægi þess að fiskveiðistjórnun okkar byggist á langtímahugsun en ekki stundarhagsmunum.
Mikilvægi endaloka landhelgisdeilna er mikið í þessu samhengi. Undanfarin 30 ár hefur það verið alfarið á okkar eigin ábyrgð að tryggja viðgang fiskistofnanna og sjálfbærni veiða. Við getum ekki bent á neinn annan ef okkur mistekst í því verkefni.
Þorskastríðin snérust vissulega um að tryggja að Íslendingar nytu afrakstrar fiskistofnanna í krinugum landið en ekki síður um að tryggja verndun fiskistofnanna svo sá afrakstur yrði okkur til góðs um ókomna framtíð. Við endalok deilna við útlendinga beindist athyglin hins vegar að umræðum innanlands um hvernig standa skyldi að fiskveiðistjórnun.
Sumarið 1978 sagði Gunnar H. Ólafsson skipherra að segja mætti að fjórða þorskastríðið væri hafið. Sagði hann það snúast um að "rækta upp aftur hálfdeydda fiskstofna í kringum landið." Stóri munurinn á þessu þorskastríði samanborið við hin fyrri væri hins vegar sá að nú stæði þjóðin ekki einhuga lengur, heldur rækjust hagsmunir á hagsmuni og bróðir væri á móti bróður. Taldi Gunnar að ef sigur yrði ekki unninn í þessu stríði væri væri "öllum öðrum sigrum í landhelgismálinu á glæ kastað."
Mjög mikið verk hefur verið unnið í þessu sambandi á þeim 30 árum sem liðin eru frá lokum landhelgismálsins. Íslendingar munu halda áfram að hafa mismunandi skoðanir á því nákvæmlega hvernig fiskveiðum er stjórnað. Alger samstaða um öll atriði er örugglega óraunhæft markmið. Þróunin hefur þó verið til víðtækari friðar. Umræðan um sjávarútvegsmálin er að breytast. Við veltum fyrir okkur sambúð einstakra skipaflokka og veiðarfæra. Við horfum út í heim til þeirra tækifæra sem við getum fundið og búið til á alþjóðlegum mörkuðum. Og síðast en ekki síst leggjum við fjármagn og frjóa hugsun í að þróa áfram tækni til þess að geta verið í fremstu röð jafnt á sviði veiða sem vinnslu. Þetta er mikið og ærið starf.
Takmörkun veiða er og verður nauðsynleg. Aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að gengið sé of nærri fiskistofnunum. Algerlega frjáls sókn í fiskistofna okkar myndi einfaldlega leiða til þess að þeir myndu hrynja einn af öðrum. Sigrarnir í landhelgismálum væru þá vissulega til einskis. Þess vegna verður það ætíð helsta markmið okkar í sjávarútvegmálum að freista þess að byggja upp fiskistofna okkar. Í því felast mestu möguleikar okkar til ávinnings og aukinnar auðsköpunar. Við vitum vel að framfarir okkar hafa leitt til þess að við erum nú að búa til fleiri krónur úr sama hráefnismagni og áður. Þetta breytir hins vegar engu um að mikilvægasta verkefni okkar er og verður að stækka sjálfa kökuna; fiskistofnana sem við veiðum úr. Það er og verður aðalatriðið. Jafnframt þessu vitum við að skilgreining fiskveiðiréttar, er ein forsenda efnahagslega skynsamlegrar auðlindanýtingar. Okkur getur sannarlega greint á - og greinir á - um hver slík skilgreining eigi að vera, en hitt er væntanlega hafið yfir allan vafa, að þessi réttur verður að vera skýr.
Við ákvörðun um hve miklar veiðar skuli heimila er nauðsynlegt að horfa til bestu upplýsinga sem við höfum á hverjum tíma. Rannsóknir á nytjastofnum og umhverfi hafsins eru því forsenda þess að við getum nýtt árangur þorskastríðanna okkur til hagsbóta. Rannsóknir á hafinu og lífríki þess eru stórt verkefni sem mun væntanlega aldrei ljúka, en erfitt er að gera of mikið úr þýðingu þess að sinna þessu vel.
Þótt vísindaleg þekking okkar sé ekki fullkomin er hún engu að síður sá grunnur sem við höfum til að byggja veiðitakmarkanir okkar á. En til þess að ná mesta hugsanlega árangri verðum við að skyggnast víða um gáttir. Þekkingarinnar leitum við vitaskuld fyrst og síðast hjá fræðimönnum okkar og vísindamönnum sem sinna hafrannsóknum á okkar vegum. Þar njótum við þess að upp hefur byggst í þjóðfélagi okkar á undanförnum árum mikil og vaxandi þekking á þessu sviði. Þeirrar vísindalegu þekkingar eigum við þess vegna að leita og það einnig sem víðast. Þess vegna meðal annars megum við ekki gleyma því, að þekking sjómanna og annarra þeirra sem vinna að sjávarútvegi, er mikilvæg og okkur ber að hyggja að þeirra sjónarmiðum í þessu samhengi.
Við höfum miðað fiskveiðistjórnun okkar við það að byggja upp sjávarútveg sem getur staðið undir þeim efnahagslegu væntingum sem við gerum til hans. Víða um heim tíðkast það að veita sjávarútvegi ríkisstyrki en á Íslandi þarf sjávarútvegurinn að vera efnahagslega sterkur sem megin atvinnuvegur okkar og að geta eflst á eigin forsendum. Færa má gild rök fyrir því að styrkur okkar sjávarútvegs felist ekki síst í því að þar hafa menn þurft að standa á eigin fótum og hafa ekki getað leitað í vasa skattborgara eins og samkeppnisaðilar sums staðar í grennd við okkur og víðar. Við mótun sjávarútvegsstefnu okkar munum við á hinn bóginn halda áfram að taka jafnframt tillit til annarra þátta, svo sem byggðasjónarmiða, við fiskveiðistjórn okkar. Sé vel að þeim málum staðið þurfa byggðasjónarmiðin alls ekki að torvelda okkur það meginmarkmið að sjávarútvegurinn sé öflug og efnahagslega sterk atvinnugrein og leggi mikið til efnahagslegrar velmegunar Íslendinga. Þvert á móti. Skynsamleg samtvinnun þessara sjónarmiða getur leitt til þess að meiri friður ríki um þessa grundvallaratvinnugrein okkar og óvissuþáttum – helsta óvini fyrirtækjastjórnenda – fækki þar með.
Góðir ráðstefnugestir,
Það kostaði mikil átök að ná þeim áfanga að fá lögsögu okkar yfir fiskimiðunum við landið almennt viðurkennda. Samstaða þjóðarinnar var mikilvæg til að við næðum markmiðum okkar. Umræður um áframhaldandi þróun innlendrar fiskveiðistjórnunar eru í sjálfu sér eðlilegar og jákvæðar. Við verðum þó að vona að áfram verði aukin samstaða um þau mál. Skortur á samstöðu má ekki verða til þess að við njótum ekki til fulls ávaxtanna af sigrum fyrri ára.
Það fer vel á því að minnumst núna hinna mikilverðu tímamóta, er lyktir fengust fyrir 30 árum, í áratugalanga baráttu okkar fyrir óskoruðum yfirráðarétti íslenska lýðveldsins yfir landhelgi okkar og efnahagslögsögu. Nú er að vaxa úr grasi kynslóð fólks sem ekki minnist þess elds sem á okkur brann í landhelgisstríðunum og á ef til vill erfitt með að setja sig í þau spor. Þess vegna höfum við svo ríkar skyldur, að halda þekkingunni vakandi. Í því samfélagi alþjóðavæðingar sem við lifum nú, mega sjónarmiðin sem lágu til grundvallar landhelgisbaráttunni hvorki gleymast né fyrnast. Það væri hættulegt og því eru kvaðir okkar svo ríkar að gæta þess að þeim meginsjónarmiðum verði ekki fórnað í þágu stundarhagsmuna líðandi stundar.