Hoppa yfir valmynd
12. júní 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Sjómannadagurinn 11. júní 2006

Ágætu sjómenn, fjölskyldur sjómanna og aðrir þeir sem á mál mitt hlýða.

Sjómannadagurinn gegnir miklu og margvíslegu hlutverki í samfélagi okkar. Hann er auðvitað  einstæður hátíðisdagur sem varla á sér hliðstæðu í nokkru öðru þjóðfélagi þar sem ég þekki til. En á Sjómannadaginn stilla menn líka saman krafta sína og minna á það sem betur má fara í umhverfi sjómanna. Þannig er Sjómannadagurinn líka dagurinn til þess að halda á lofti málstað sjómanna og rétti þeirra og fer sannarlega vel á því.

 

Stundum er okkur sagt að staða sjómanna og ímynd sjómannsstarfsins hafi breyst og orðið óskýrari í þjóðfélagi okkar sem einkennst hefur af mikilum breytingum og sem gengið hefur í gegn um hreina atvinnulífsbyltingu.  En er það svo? Það er að vísu rétt að margt hefur breyst. En eitt hefur þó ekki breyst og það er að í hugum landsmanna hafa sjómenn einstæða stöðu og enginn er sá til sem ekki gerir sér grein fyrir þýðingu sjómannsstarfsins fyrir uppbyggingu samfélags okkar.

  

Fyrir skemmstu stóðum við í  sjávarútvegsráðuneytinu að vel heppnaðri og fjölsóttri ráðstefnu á Ísafirði þar sem fjallað var um ímynd og menningu sjómanna frá ýmsum hliðum.  Það er óhætt  að segja að erindin hafi verið hvert öðru fróðlegra og skemmtilegra, þar sem brugðið var upp mynd af sjómönnum að fornu og nýju. Á þessari ráðstefnu kom einmitt skýrt fram hve staða sjómannsins er einstæð  -  jafnt í sögu okkar og samtíma.

 

Fyrr á árinu var greint frá ánægjulegum niðurstöðum í skoðanakönnun sem IMG-Gallup gerði meðal sjómanna og sýndi að stórlega hefur dregið úr brottkasti fisks á Íslandsmiðum. Það var sannarlega lofsvert.  En það var líka spurt um fleira og þar eru niðurstöðurnar ekki síður fagnaðarefni.

 

Sjómenn voru spurðir um viðhorf þeirra til starfs síns.  Meira en áttatíu og fjórir af hundraði kváðust mjög ánægðir eða frekar ánægðir með starf sitt. Þessi mikla ánægja er með því besta sem þekkist í viðlíka könnnunum á meðal starfsstétta. Engu skiptir hvort litið er til búsetu, fjölskyldutekna, stöðu um borð eða hve lengi menn hafa verið á sjó. Munurinn er ekki marktækur. Sjómenn eru  því ákaflega ánægðir í starfi.  

 

Og það  kom fleira áhugavert  í ljós í þessari könnun. Sjómenn eru líka mjög stoltir af starfi sínu. Spurt var um hversu sammála eða ósammála ertu fullyrðingunni: Ég er stoltur af starfi mínu. Svörin endurspegluðu ánægjuna og reyndar gott betur því tæplega 86 af hundraði kváðust mjög eða frekar sammála fullyrðingunni. Þar sem stolt siglir fleyið fer líka stolt áhöfn.

 

Svörin við þriðju spurningunni þurfa svo ekki að koma á óvart með hliðsjón af þessum tveimur fyrri. Þar var spurt hve lengi menn reiknuðu með að vera til sjós. Fjörutíu og þrír af hundraði gerðu ráð fyrir að vera til sjós lengur en næstu fimm ár. Tæplega fjórðungur næstu tvö til fimm ár. Tæp 12% næstu tvö ár, þrettán og hálft prósent í ár til viðbótar og 8,6 af hundraði reiknaði með að hætta innan árs. Með öðrum orðum: Tveir þriðju þeirra sem nú eru á sjó telja líklegt að sjómennska verði þeirra lifibrauð næstu tvö til fimm ár eða þaðan af lengur. Sjómennskan  er framtíðarstarfið. Svona afdráttarlausa afstöðu taka menn ekki nema vera vissir í sinni sök. Það er gott að vera sjómaður að þeirra eigin mati og þeir eru bæði ánægðir og stoltir af starfi sínu.

 

Þetta eru góð tíðindi  sem ég tel að skipti miklu máli. Fyrst og fremst vitaskuld fyrir sjómennina sjálfa og fjölskyldur þeirra, en einnig fyrir þjóð okkar í heild,  vegna þeirrar þýðingarmiklu stöðu sem sjómenn gegna í þjóðfélagi okkar.

Minnumst þess ætíð að sjávarútvegurinn færði okkur á síðustu öld frá örbirgð til alsnægta. Það er næsta  einstakt að þjóð skuli hafa byggt upp samfélag sitt með einni atvinnugrein að heita má.

 

Ein forsenda þess voru  yfirráðin yfir landhelginni. Og nú fyrir skemmstu minntumst við einmitt þess að 30 ár eru liðin frá því að fullnaðarsigur vannst í landhelgisbaráttunni. En þó að yfirráðarétturinn sé nú í höndum okkar þá heldur  baráttan áfram þótt með öðrum hætti sé. Nú berum við ábyrgð á nýtingu okkar mikilvægustu auðlindar og getum ekki reitt okkur á nokkra aðra.  Það verður  ætíð helsta markmið okkar í sjávarútvegmálum að freista þess að byggja upp fiskistofnana. Í því felast mestu möguleikar okkar til ávinnings og aukinnar auðsköpunar. Við vitum vel að framfarir okkar hafa leitt til þess að við erum nú að búa til fleiri krónur úr sama hráefnismagni og áður.

 

Sannarlega  hefur margvíslegur árangur náðst. Við nýtum nú fleiri nytjastofna en áður. Verðmætin sem við höfum búið til með auðlindanýtingunni, þekkingunni og tækniframförunum hafa aukist ár frá ári. Það breytir því hins vegar ekki að við getum ekki unað við að ná ekki meiri árangri. Afraksturinn er ekki sá sem við hefðum kosið eða viljað við uppbyggingu ýmissa fiskistofna. Í uppbyggingu okkar helsta nytjastofns, þorsksins gengur hvorki né rekur. Það eru vonbrigðin miklu. Nýleg veiðiráðgjöf sem okkur var kunngerð um síðustu helgi segir í raun  að okkur miði  ekkert hvað þorskinn áhrærir. Það getum við ekki búið við. Í rauninni eigum við ekki nema einn kost;  sem er sá að skapa þær forsendur að við sjáum uppbyggingu helsta nytjastofns okkar á næstu árum.

 

Nú verðum við með öðrum orðum að móta okkur uppbyggingarstefnu til lengri tíma varðandi þorskstofninn. Slíkt verður ekki gert nema að vel íhuguðu ráði þar sem kallað verður eftir skoðunum vísindamanna, sjómanna og annarra þeirra sem geta lagt til þeirrar umræðu. Við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því að slíkt getur - og mun að öllum líkindum -  kalla á tímabundnar fórnir. Þau úrræði sem helst hefur verið bent á,  leiða til minnkandi veiði á einhverjum sviðum sem mun hafa neikvæð áhrif á tekjumyndun sjávarútvegsins til skemmri tíma. Slíkt er því þá aðeins réttlætanlegt að við teljum að það færi okkur árangur sé litið til lengri tíma. Þetta er okkar stóra verkefni á komandi tímum.

 

Við lifum á tímum alþjóðavæðingar á flestum sviðum. Sjávarútvegurinn þekkir þetta. Hann er fyrsti alvöru útrásaratvinnuvegurinn. Forsenda þess að hann dafnar hér er markaðsaðgangurinn erlendis. Ákvörðun úti í heimi hefur áhrif á okkur og ákvarðanir okkar geta jafnvel haft áhrif langt út fyrir landsins steina. Þær ákvarðanir sem við tökum og máli skipta verðum við að íhuga nú, betur en nokkru sinni fyrr með hliðsjón af þessu.

 

Þetta á ótvírætt við þegar við ákveðum heildaraflamark okkar. Til okkar er litið utan úr heimi sem mikils fyrirmyndarlands að flestu leyti í sjávarútvegi. Menn lofa ábyrga auðlindanýtingu Íslendinga, þekkja tækniframfarirnar í sjávarútveginum og gapa í forundran yfir afköstum íslenskra sjómanna. Afurðirnar sem við framleiðum njóta álits fyrir vöruvöndun og fyrir að vera unnar úr sjálfbærum stofnum. Þessi velvilji og góði orðstír á snaran þátt í því að fiskafurðir okkar eru svo eftirsóttar sem raun ber vitni.

 

Það að við vitum að fiskurinn er íslenskur er gæðastimpill í sjálfu sér, sagði við mig stór erlendur fiskkaupandi fyrir skemmstu. Þetta álit verður þar af leiðandi til margra fiska metið. Þessu orðspori megum við því ekki glutra niður fyrir nokkurn mun. Og þetta verðum við því meðal annars að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir um aflaheimildir og auðlindanýtingu fyrir næsta ár.

 

 Góðir sjómenn, fjölskyldur sjómanna og aðrir tilheyrendur

 

Það hefur síður en svo verið tekið út með sitjandi sældinni að stunda sjómennsku hér við land. Um það vitna mörg hræðileg slys og fjöldi þeirra sem hvíla í votri gröf. Við getum þó glaðst yfir því að við höfum náð árangri. En það er ekki nóg. Þarna höfum við enn mikið verk að vinna og um það verk ríkir samstaða allra landsins þegna.

 

Í Fossvogskirkjugarði hér í Reykjavík er minnisvarði sem nefnist Minningaröldur sjómannadagsins. Á þessar minningaröldur eru skráð nöfn þeirra sjómanna sem hvíla í votri gröf. Í sjómannadagsræðu sinni í fyrra sagði Árni M. Matthiesen forveri minn frá því, að til að minnast þeirra sem þessi örlög hlutu í seinni heimsstyrjöldinni ætlaði ríkisstjórnin að tryggja að nöfn þeirra allra yrðu skráð á Minningaröldurnar. Það hefur nú verið gert með atbeina Sjómannadagsráðsins og minningu hinna látnu sjómanna þannig sýndur verðugur sómi.

 

Sjómannadagurinn er hátíð sjómanna og þar með hátíð allrar þjóðarinnar. Okkur ber öllum að sýna honum verðskuldaðan sóma með þátttöku okkar. Á þessum mikla hátíðisdegi færi ég sjómönnum og fjölskyldum þeirra heillaóskir og vænti þess að eiga áfram gott samstarf við þá og samtök þeirra í framtíðinni.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta