Hoppa yfir valmynd
21. júní 2006 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Rf setur á stað fyrirtæki á sviði erfðagreininga og ensímtækni

Góðir áheyrendur

Mikill uppgangur hefur verið á Vestfjörðum á sviði rannsókna og þróunar í fiskeldi á undanförnum tveimur árum. Rótin að því  er meðal annars  gott samstarf rannsóknastofnana, fyrirtækja á svæðinu, bæjarfélagsins og háskóla. Samstillt átak þeirra  hefur gert Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins mögulegt að efla sína starfsemi verulega hér á svæðinu.

 

Fundurinn hér í dag er lýsandi fyrir þær breytingar sem hafa orðið á starfsemi Rf á undanförnum tveimur árum.  Henni var breytt þannig að dregið var úr þjónustumælingum og lagðar auknar áherslur á rannsóknir.  Hér á Ísafirði var í byrjun ráðinn einn sérfræðingur, Þorleifur Ágústsson,  á sviði fiskeldis.  Fyrir ári var ráðinn annar sérfræðingur, Guðrún Finnbogadóttir, og nú er búið að ráða þriðja sérfræðinginn, Jón Gunnar Schram,  til Rf á Ísafirði.  Þrjú störf hér á Vestfjörðum hafa þannig orðið til  á tveimur árum hjá Rf. Öflug uppbygging á sviði þorskeldisrannsókna og þróunarverkefna á sviði matvælavinnslu og nýrra afurða gerir þetta kleift.

 

Við uppbyggingu hér hefur verið lögð áhersla á áhrif ljósastýringar og er meginmarkmið rannsóknanna að seinka eða koma í veg fyrir ótímabæran kynþroska sem er mikið vandamál við eldi á þorski.  Hér er því um að ræða hátæknirannsóknir sem unnar eru í nánu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum.  Meðal nýrra verkefna hjá AVS sjóðnum svokallaða, en skammstöfunin stendur fyrir aukið virði sjávarafurða, er vert að nefna verkefni þar sem skoðuð eru næstu skref eftir að eldi lýkur, lögð er áhersla á vinnslu, nýtingu og gæði á eldisþorski.  Það væri áhugavert að sjá ný verkefni í framtíðinni sem leggja áherslu á að rannsaka frekar markaðssetningu á eldisþorski í samanburði við markaðssetningu á villtum þorski og í samkeppni við hann.

 

Mörg fyrirtæki taka þátt í þorskeldisrannsóknum hér vestra meðal annars þeim sem ég hef nefndi hér áðan. Meðal þeirra eru Hraðfrystihúsið Gunnvör, Álfsfell, 3 X stál, Þóroddur og fyrirtæki sem unnið hafa að þróun á nýrri beitutækni.

 

En lítum þá til verkefna sem nýverið hafa hlotið styrki úr innlendum og erlendum sjóðum og tengjast þróun þorskeldis í tilraunaeldiskvíum í Ísafjarðardjúpi.

 

Heildarvelta þeirra er rúmlega þrjú hundruð milljónir króna og er veltan hér fyrir vestan rúmlega eitt hundruð milljónir króna.   Í vestfirsku þorskeldiskörfunni munar mikið um styrk frá Evrópusambandinu sem er í heild um níutíu milljónir króna. Hlutur íslensku þátttakendanna í styrkveitingunni er umtalsverður, eða um þrjátíu milljónir króna. Tveir þorskeldis-framleiðendur með eldiskvíar í Álftafirði taka þátt í því verkefni, þ.e. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Álfsfell ehf. 

 

Þær tíu milljónir króna sem lagðar voru til af Sjávarútvegsráðuneytinu fyrir tveimur árum til að byggja upp rannsóknir hér á vestfjörðum hafa því margfaldast í þeirri uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað.  Þess má geta að til að tryggja frekari þróun í rannsóknum Rf á þessu sviði hefur Rf fengið til liðs við sig, auk starfsmannanna sem áður voru nefndir  Björn Þránd Björnsson sem er meðal fremstu sérfræðinga á sínu sviði og er prófessor við háskólann í Gautaborg.

 

Góðir gestir fundurinn hér í dag markar ákveðinn tímamót.  Síðustu tvö ár hefur Rf unnið að því að móta áherslur í rannsóknum og þróunarvinnu hér á svæðinu auk þess að afla fjármagns til rannsóknanna og fá hingað til liðs við sig sérfræðinga til að vinna að rannsóknarverkefnunum. Starfsemi stofnunarinnar hefur fests í sessi með tilstuðlan  okkar í sjávarútvegsráðuneytinu og með öflugum stuðningi AVS.  Einnig má geta þess að iðnaðarráðuneyti í samstarfi við sjávarútvegsráðuneytið hefur lagt til tíumilljónir króna til að byggja upp eldiskvíar og nýjan tækjabúnað við fiskeldið. Það  gerði mögulegt að efla rannsóknaraðstöðuna hér.

 

Eins og fram hefur komið hefur starfsemi Rf þróast mikið á undanförnum árum og framundan eru frekari breytingar á starfseminni.  Ný lög um stofnun matvælarannsókna ehf hafa verið samþykkt. Rf verður stór hluti af þeirri starfsemi. Með sameiningu matvælarannsókna Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matra sem er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans og Rannsóknastofu umhverfisstofnunar opnast miklir möguleikar á að byggja upp öfluga rannsóknareiningu á sviði nýsköpunar í matvælaiðnaði og leggja jafnframt áherslu á að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla með rannsókum á því sviði.

 

Þessu tengt vil ég nota tækifærið og tilkynna að á vegum Rf hefur verið stofnað einkahlutafélag sem tekur yfir meginhlutan af starfsemi líftæknifyrirtækisins Prókaría.

 

Prókaria hefur verð brautryðjandi á sviði erfðatækni til að nota við ensímþróun og erfðagreiningu á fiskum öðrum dýrum, örverum og umhverfi, þar á meðal til kynbóta í fiskeldi. Það tengist þannig uppbyggingu á fiskeldi sem unnið er hér fyrir vestan  Fyrirtækið hyggst mun halda áfram að stunda rannsóknir og þróun og veita innlendum og erlendum aðilum þjónustu  á þessum sviðum með sölu verkefna og alhliða erfðagreingarþjónustu.  Við yfirtöku reksturs Prokaria munu nær allir starfsmenn halda sínu hlutverki og Dr. Jakob Kristjánsson tekur þátt í breytingunum og rekstri hins nýja félags.

 

Rf hefur verið leiðandi afl með dyggum stuðningi fyrirtækja á hér á svæðinu í þeim miklu uppgangi í rannsóknum sem hér hefur átt sér stað.   Með því að sameina krafta allra þessarra aðila felast spennandi tækifæri að takast á við enn stærri og viðameiri rannsóknarverkefni sem, eins og þau sem unnið er að, geta skapað mikil verðmæti í nánustu framtíð. 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta