Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva
Góðir fundarmenn.
Breski forsætisráðherrann Harold Wilson sagði á sínum tíma að vika væri langur tími í stjórnmálum. Það getur vissulega margt gerst á einni viku en í víðara samhengi þá er nokkuð ljóst að hinir stóru atburðir taka lengri tíma. Þessi orð Wilsons vekja mann þó til umhugsunar um hvað við erum að fást við frá degi til dags og að margt getur vissulega breyst á undraskömmum tíma.
Þegar við stóðum í þessum sporum fyrir einu ári hér á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva hafði ég setið sem sjávarútvegsráðherra í fáeina daga. Við ræddum þau mál sem þá voru efst á baugi og ýmislegt af því sem var ofarlega í okkar huga fyrir ári er það enn.
Það fór ekkert á milli mála hvar eldurinn brann heitast. Hið háa gengi íslensku krónunnar hafði fyrir löngu valdið útflutningsgreinunum miklum búsifjum. Miklar verðhækkanir sem höfðu orðið á mörgum framleiðsluafurðum fleyttu mönnum að vísu yfir verstu og stríðustu flúðirnar, en það dugði ekki til.
Gengi íslensku krónunnar eitt það hæsta sem að útflutningsgreinarnar hafa mátt þola á síðustu áratugum. Við sáum á síðasta hausti ýmis neikvæð teikn á lofti fyrir þær greinar sem byggðu líf sitt á verðmæti sem framleiðslan skilaði á erlendum mörkuðum. Margir voru að kikna undan þessari byrði, sem þýddi milljarða tekjuskerðingu og rýrði verulega alla tekjumöguleika. Því meiri varð kvöðin á stjórnendur í fiskvinnslu og annarri útflutningsstarfssemi að standa sig, bregðast við og hagræða. Í raun var aðdáunarvert hvernig menn leituðu leiða til að hagræða, draga úr tilkostnaði og auka tekjur. Hér sannaðist enn að sjávarútvegurinn hefur mikla aðlögunarhæfni, þökk sé góðu starfsfólki og stjórnendum.
Það var þó nokkuð ljóst á þeim tíma að hvorki sjávarútvegurinn né aðrar atvinnugreinar gátu brugðist endalaust við þessu ástandi með því að fækka fólki og draga úr tilkostnaði. Og þrátt fyrir að við misstum aldrei sjónar á höfuðmarkmiðinu og þrátt fyrir að við gerðum okkur grein fyrir því að verkefnin væru ótæmandi og þrátt fyrir að við vissum það að möguleikar sjávarútvegsins væru miklir við allar venjulegar aðstæður þá hygg ég að öllum hafi verið ljóst að mikið lengur gat þetta ástand ekki varað.
Á aðalfundinum í fyrra rifjaði ég upp sögu af einyrkja í sjávarútvegi, sem brást við ábendingu um að hagræða enn og skera niður kostnað með því að segja: „Á ég að segja upp vinstri hendinni á mér á undan þeirri hægri?“. Og síðan sagði ég: „Varnirnar eru að bresta og við kynnumst því nú með uppsögnum víða um land. Þetta eru grafalvarlegir hlutir, sem enginn getur leyft sér að horfa fram hjá – slíkt geri ég að minnsta kosti ekki“.
Þetta var mín afstaða og þetta var mín sýn á þessum tímapunkti. Þarna var síst tekið of djúpt í árinni og reynslan sýnir að lýsingin var rétt. Þetta var grafalvarleg staða sem gat ekki gengið til lengdar. Í byrjun þessa árs vitnaði ég í spár greiningardeilda bankanna um að á árinu 2006 myndi íslenska krónan, ofurkrónan, taka að gefa eftir, í hönd færi gleðilegt gengislækkunarár. Sem betur fer varð það raunin, íslenska krónan tók að gefa eftir. Lækkunin brast hraðar á en menn hugðu og er í reynd mikið fagnaðarefni.
Ef við rýnum í athuganir og álit greiningardeilda bankanna þá gerðu flestir ráð fyrir því að gengi krónunnar lækkaði um mitt þetta ár. Sem betur fer höfðu þeir á röngu að standa. Sem betur fer rættust óskir og vonir okkar um að gengið veiktist fyrr. Það var gríðarlega mikið í húfi fyrir íslenskan sjávarútveg. Ég kynntist því vel að fjölmargir þeirra sem reka sjávarútvegsfyrirtæki horfðu með miklum og vaxandi kvíða til framtíðar, uggandi um rekstur fyrirtækja sinna eftir áramótin. Þegar ársreikningar fyrirtækjanna voru birtir og afkoma síðasta árs blasti við var eðlilegt að menn veltu fyrir sér hvort breytinga mætti vænta. Það var fyllilega ljóst að ýmis fyrirtæki í sjávarútvegi og á fleiri framleiðslusviðum hefðu ekki þolað viðlíka taprekstur til langs tíma. Menn voru í reynd staddir á ögurstundu, á liggjandanum, þegar gengi krónunnar fór loks að gefa eftir og vonir vöknuðu um vaxandi tekjur á komandi tíð.
Ég hef heyrt því haldið fram að frá efnahagslegu sjónarmiði hefði verið betra að gengið hefði gefið eftir síðar á árinu. Þessu er ég ósammála. Gengislækkunin hafði fyrir löngu boðað komu sína, með ýmsum hætti. Óstundvísi hennar var hins vegar farin að reyna nógsamlega á þolinmæði okkar og þegar hún loks lét á sér kræla varð hún mikill aufúsugestur útflutningsgreinanna. Hefðu þáttaskilin orðið síðar er eins víst að einhver fyrirtæki hefðu ekki þraukað. Við hefðum séð á eftir þýðingarmiklum burðarásum í byggðunum og mikilvægum fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi. Enginn vafi er á því að hækkandi markaðsverð á íslenskum fiskafurðum hélt lífinu í mörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi og gerði þeim kleift að halda áfram starfsemi sinni. Þessi verðhækkun, umfram það sem vænta mátti, skipti algjörlega sköpum fyrir tilvist sumra fyrirtækja.
Auðvitað eigum við ekki hægt um vik að spá í hvað framundan er. Það er ljóst að sú styrking sem orðið hefur á krónunni undanfarnar vikur er neikvæð fyrir íslenskan sjávarútveg. Það dregur úr tekjumynduninni. Ennþá erum við þó fjarri hættumörkum. Núverandi raungengisstig, er ekki farið að valda okkur teljandi búsifjum. Það er þó rétt að hafa varann á. Gengisvísitala sem er innan við 120 endurspeglar of sterka krónu og er umfram það jafnvægisgengi sem hagfræðingar eru almennt sammála um.
Athyglisvert er að hvenær sem breyting verður á gengi krónunnar, hvort heldur það hækkar eða lækkar, fer af stað söngur um fánýtí íslensku krónunnar. Í fyrra vildu sumir kasta krónunni af því hún væri of sterk. Núna segja sumir – og jafnvel hinir sömu – að henni megi varpa fyrir róða því hún sé svo veik. Ekki gengur þetta nú alveg upp. En um svona málflutning ætla ég ekki að hafa mörg orð. Vil einvörðungu leyfa mér að vitna í hinn harðduglega útgerðarmann Guðrúnu Lárusdóttur í Hafnarfirði, máli mínu til stuðnings. Í grein í bókinni 90 raddir sem er nýkomin út segir Guðrún:
„Tal um að ganga í Evrópusambandið eða að taka upp evru sem gjaldmiðil finnst mér að jafnist á við að glata áunnum réttindum í landhelgismálum.... Hvað varðar evru þá er aðeins hluti gjaldeyristekna okkar í þeirri mynt, aðrir gjaldmiðlar svo sem Bandaríkjadalur, japanskt jen og breskt pund eru alveg eins mikilvægir okkur. Nei höldum okkur við okkar íslensku krónu þó svo það kosti einhverjar sveiflur af og til.
Mikilvægi þess að varðveita einstaklingsframtakið ásamt því að búa fyrirtækjum heilbrigð viðskiptakjör er lykillinn að góðri framtíðarsýn fyrir Íslendinga nú og í framtíðinni.“ Þetta segir Guðrún Lárusdóttir í ritinu 90 raddir.
Ætla má að mikil hækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum hafi sitt að segja um þróun gengisins. Vaxtamunurinn hér á landi og erlendis freistar margra. Jöklabréfin svo kölluðu eru gott dæmi um það. Við vitum hins vegar að nú hyllir undir lok þessara vaxtahækkana að mati flestra þeirra sem um þessi mál véla og spá. Við hljótum líka að vænta þess að gengið geti orðið sjávarútveginum og útflutningsgreinum almennt hagstætt. Enda er það forsenda þess að við náum því jafnvægi í viðskiptum við útlönd sem eðlilegt er að við keppum að.
Ég hef áður haft á orði að sjávarútvegurinn sé í eðli sínu þekkingariðnaður sem krefjist gerhygli og þekkingar á fjölþættum sviðum. Það er hlutverk stjórnvalda að hlúa að og skapa skilyrði svo þessi þekkingariðnaður megi vaxa og dafna. AVS rannsóknasjóðurinn er eitt þeirra tækja sem við höfum yfir að ráða til að hlúa að hagnýtum rannsóknum og þróunarverkefnum í sjávarútvegi.
Árið 2006 er fjórða starfsár sjóðsins sem hefur vaxið og dafnað ár frá ári. Starfsemin í ár hefur verið með svipuðu sniði og á síðasta ári. Sjóðurinn hefur á þessu ári til ráðstöfunar 210 milljónir króna auk 19,1 milljóna vegna sérstakrar fjárveitingar til eldis sjávardýra. Auk þess hefur sjóðurinn samstarf við Líftækninet í auðlindanýtingu með þeim hætti að taka við umsóknum og meta þær í faghópum AVS. Sjóðurinn hefur svo einnig umsjón með umsóknum varðandi þorskkvóta til áframeldis.
Á árinu bárust 128 umsóknir um rannsóknastyrki og voru veittir 65 styrkir, samtals að upphæð um 231 milljón króna. Að þeim verkefnum sem hlutu styrk koma 120 einstaklingar frá u.þ.b. 80 fyrirtækjum, stofnunum og háskólum. Á því má sjá að samstarf í rannsóknum sem miðar að því að auka virði sjávarafurða er afar víðtækt. Þessu til viðbótar bárust 13 umsóknir um þorskkvóta og 7 umsóknir um styrki til líftækninetsins.
Stærstur hluti umsókna vörðuðu vinnsluþáttinn en 57 umsóknir bárust til slíkra verkefna. Veittir styrkir vegna verkefna sem tengjast vinnslunni námu alls tæpum 110 milljónum króna, styrkir til fiskeldisverkefna námu um 66 milljónum króna, styrkir vegna markaðstengdra verkefna um 30 milljónum og til líftækniverkefna tæpum 25 milljónum.
Frá upphafi hafa 433 umsóknir borist sjóðnum og alls verið veittir 210 styrkir sem nema um 640 milljónum króna. AVS-sjóðurinn veitir aldrei hærri styrki en sem nemur 50% af heildarkostnaði hvers verkefnis og því má segja með vissu að sjóðurinn hafi á þessum fjórum árum sem hann hefur starfað stuðlað að nýsköpun og rannsókna- og þróunarstarfsemi fyrir um a.m.k. 1 ½ milljarð króna og af því erum við afar stolt.
Ég ætla að nefna hér tvö dæmi um verkefni sem AVS-sjóðurinn hefur styrkt og sem skilað hafa umtalsverðum árangri, en dæmi um þetta eru mýmörg svo að af ótalmörgum er að taka:
Sjóðurinn styrkti verkefni Skagans hf. um beingarðs- og flakaskurð með háþrýstivatnsskurði. Markmið verkefnisins var að hagnýta nýtt ástand flaka sem fæst með yfirborðskælingu eða roðkælingu til að beita háþrýstivatnsskurði í flakasnyrtingu og niðurskurð. Með þessari aðferð fæst bætt afurðaskipting, dvalartíminn í vinnslunni styttist, meðhöndlun afurðanna minnkar og geymsluþol og gæði aukast.
Sjóðurinn styrkti einnig Sæplast hf. sem í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur þróað nýtt lagskipt fiskker. Markmið verkefnisins var að finna leiðir til að lágmarka neikvæð áhrif fargs á fisk í neðri lögum kerja. Nú hefur nýtt ker litið dagsins ljós og er það nokkuð lægra en flest fiskiker eru í dag, einnig léttara. Við stöflun lokar efra kerið því neðra án þess að skítur frá lyftara berist í neðra kerið auk þess sem rúmmálsnýting í lestum skipa og flutningstækjum verður umtalsvert betri. Nýja kerið staflast einnig með eldri kerum þannig að ekki er um kerfisbreytingu að ræða. Framleiðsla á þessu nýja keri er í undirbúningi.
Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2007 er gert ráð fyrir 235 milljóna króna fjárveitingu til AVS sem er 25 milljóna króna raungildishækkun frá fjárlögum þessa árs. Einnig er í frumvarpinu lagt til að veitt verði 10 milljóna króna tímabundið framlag í þrjú ár til markaðsöflunar fyrir eldisbleikju og 25 milljóna króna framlag til styrkingar verkefnis um kynbætur á eldisþorski. Þá er áfram gert ráð fyrir 19,1 milljón króna til eldis sjávardýra. Þetta skiptir miklu máli og var í raun staðfest strax í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í þessa veru. Með henni var lífsanda blásið í eldið sem við bindum með réttu miklar vonir við.
Það er sama hvort litið er til veiða eða vinnslu, matvælaöryggis, gæðamála, fiskeldis, aflameðferðar eða líftækni, það eru spennandi tímar framundan í rannsókna- og þróunarmálum í sjávarútvegi. En lykillinn að árangri er fyrst og fremst samvinna – samvinna einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda. Aðeins með samstilltu átaki allra þeirra sem að greininni koma næst viðunandi árangur.
Ég er þess fullviss að AVS rannsóknasjóður um aukið verðmæti sjávarafurða á enn eftir að dafna og skila verðmætum í þjóðarbúið sem munar verulega um.
Ágætu fundarmenn
Starfshópur um menntun millistjórnenda sem skipaður var á síðasta hausti hefur nú lokið störfum og skilað tillögum sínum. Verkefni hópsins var að gera tillögur í menntunarmálum millistjórnenda í fiskvinnslu, þ.e.a.s. verkstjóra og annarra stjórnenda sem standa nálægt vinnslunni, um umhirðu, hreinlæti og fagmennsku sem nauðsyn hefur þótt til að bæta úr.
Þegar liðið var á starf hópsins kom í ljós að Fjöltækniskóli Íslands vann að undirbúningi stofnunar sérstakrar sjávarútvegsdeildar þar sem eitt sérfaganna sem boðið verður upp á fjallar um vöruþróun og vinnslu. Þar verða kennd undirstöðuatriði í vinnslu sjávarafla, helstu vinnslueiningar og myndun ferla sem tengjast fiskiðnaði. Kennt verður um helstu aðferðir í vinnslutækni ásamt því sem fjallað verður um gæðatengda vinnslu, samsetningu, vinnslueiginleika og framleiðslu helstu afurða. Einnig mun skólinn bjóða upp á framhaldsnám í þessari grein. Fyrsta starfsár sjávarútvegssviðsins hófst svo í ágúst á þessu ári og verða tilgreindir námsþættir í boði á vorönn.
Það varð niðurstaða starfshóps ráðuneytisins að Fjöltækniskólinn væri sá aðili sem best væri í stakk búinn til að sinna námi af þessu tagi eins og sakir stæðu og í raun ekki ástæða til að vera í samkeppni við hann um nemendur. Aðalatriði málsins væri að bæta úr þeim þekkingarskorti sem orðið hefur vart í fiskvinnslunni eftir að rekstri Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði og fiskvinnsludeildarinnar á Dalvík var hætt.
Hópurinn lagði því til að ráðuneytið ræddi við Fjöltækniskólann um tilhögun menntunar millistjórnenda og gengi úr skugga um að verkstjórar og aðrir millistjórnendur í vinnslunni hefðu greiðan aðgang að þessum námsþáttum og þann sveigjanleika sem nauðsynlegur kynni að vera þessum hópi.
Ég ákvað að fara að þessum tillögum starfshópsins og við í ráðuneytinu höfum haft samráð við Fjöltækniskóla Íslands. Þessi námsþáttur hentar afar vel millistjórnendum í fiskvinnslu. Námið er krefjandi og gerir sömu kröfur og gerðar eru á háskólastigi en boðið er upp á sveigjanleika í skipulagningu og verkefnaskilum auk þess sem námið er blanda af fjarnámi og lotunámi. Allur búnaður skólans til kennslu, bæði tæknilegur og annar, er fyrsta flokks og aðstaða öll eins og best verður á kosið. Ef þátttakendur kjósa að taka próf að loknu námskeiði, gefur námið af sér einingar til háskólanáms.
Ég vil eindregið hvetja fiskvinnslufyrirtækin í landinu til að nýta sér þetta góða námstilboð. Ráðuneytið mun svo í framhaldinu einnig huga að menntunarkröfum við innleiðingu á ESB-reglugerðum sem varða starfsfólk við matvælaframleiðslu, þegar slík innleiðing fer fram.
Fyrir skemmstu var nýtt fyrirtæki í eigu ríkisins stofnað. Matís ohf. heitir það nú og verður til við sameiningu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Verið er að sameina þær einingar sem nú starfa á sviði matvælarannsókna á Íslandi, óháð uppruna hráefnisins, það er að segja hvort sem um er að ræða rannsóknir á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs eða iðnaðar. Þetta er mikilvægt skref þar sem mikil samlegð getur skapast við slíka sameiningu og rannsóknir á mismunandi matvælum samnýtast. Markmið sameiningarinnar er að efla rannsóknir og þróunarstarf. Þar sem lagðir eru saman kraftar, tæki og aðstaða gefast fyrirtækinu einstakir möguleikar á að eflast og tækifæri til að verða leiðandi á alþjóðamælikvarða. Hjá Matís verða starfandi um 90-100 manns.
Hlutverk Matís ohf. er að stunda rannsóknir og þróunarstarf annars vegar á sviði öryggis og heilnæmis matvæla og hins vegar á sviði nýsköpunar. Bæði sviðin eru mikilvæg fyrir íslenskan matvælaiðnað, neytendur og heilbrigðisyfirvöld. Lögð verður áhersla á upplýsingagjöf til neytenda sem tengist næringarefnum og óæskilegum efnum í matvælum, upplýsingar til neytenda um matvæli sem hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á heilsu fólks. Áhersla á þróun á nýjum matvælum og nýjum vinnsluferlum s.s. kerfi til að efla rekjanleika matvæla í samvinnu við fyrirtækin hér heima og erlendis verður líka mikil.
R.f. hefur lagt ríka áherslu á að vinna með sjávarútveginum á síðustu árum. Matís mun leggja aukna áherslu á samstarf við fyrirtækin á öllum sviðum matvælaiðnaðarins. Enn fremur hafa þeir aðilar sem sameinast nú í Matís lagt áherslu á að vinna með háskólum og það mun með nýrri og öflugri einingu styrkjast enn frekar. Stefnan er að vinna í auknum mæli með háskólunum og að styrkja íslenskt háskólaumhverfi á sviði Matís.
R.f. hefur starfað um allt land og hefur almennt jákvæða reynslu af þeirri uppbyggingu sem þar hefur verið. Hjá Matís verður einnig lögð áhersla á að starfa víða um land. Með eflingu rekstrarins skapast þarna ný tækifæri. Matvælafyrirtæki eru dreifð um allt og því er mikilvægt að starfsemi hins nýja fyrirtækis taki mið af því og sé staðsett þar sem bæði fyrirtækin eru og háskólastarfsemi.
Til viðbótar þá er Prokaria ehf. í eigu R.f. í dag og þar eru enn fremur samlegðarmöguleikar þar sem starfsemi Prokaria mun styrkja starfsemi Matís og uppbyggingu á matvælarannsóknum. Matís mun nýta sér styrkleika Prokaria og tengja það við þróun afurða á sviði líftækni sem hefur verið í gangi hjá R.f. Dæmi um slík verkefni hjá R.f. eru rannsóknir og þróunarverkefni á sviði próteina annars vegar og hins vegar á sviði ensíma hjá Prokaria. Enn fremur þá hefur Prokaria byggt upp öfluga erfðatæknieiningu hjá sér sem hefur lagt áherslu á verkefni t.d. á sviði fiskeldis og þar verða kraftarnir samnýttir.
Óhætt er að segja að miklar vonir séu bundnar við starfsemi Matís og ég vænti þess að starfsemi fyrirtækisins eigi eftir að bera ríkulegan ávöxt.
Góðir fundarmenn.
Á því rúma ári sem liðið er frá því ég tók við starfi sjávarútvegsráðherra hefur það vakið mikla athygli mína hvernig ímynd íslensks sjávarútvegs er í huga markaðsmanna sem starfa á þessum vettvangi erlendis, við kaup og sölu á íslenskum sjávarafurðum. Myndin er öll hin jákvæðasta og gefur okkur fyllsta tilefni til að vera stolt af okkar atvinnugrein. Þegar maður hugsar til síbyljunnar og þess neikvæða umtals sem stundum umlykur sjávarútveginn og umræðuna hér heima, þá kemur óneitanlega upp í hugann hversu frábrugðið þetta er því mati og áliti sem íslenskur sjávarútvegur nýtur á erlendri grundu. Það er gaman að vera fulltrúi lítils þjóðríkis þar sem maður skynjar að vel er eftir hlustað þegar við tjáum okkur um sjávarútvegsmál. Það á vel við í hinni alþjóðlegu umræðu um sjávarútveg að síðast nú í vikunni komu erlendir aðilar á fund minn í ráðuneytinu og sögðu: „Íslendingar eru fyrirmynd að flestu leyti á sjávarútvegssviðinu“. Við vitum þó sjálf að vitaskuld er ekki allt eins og best væri á kosið í greininni. Og fjarri er það mér að ætla að við getum ekki lagfært marga hluti svo um munar. Það breytir því hins vegar ekki að það starf sem Íslendingar í sjávarútvegi vinna í þágu þjóðarinnar með aðdáunarverðum hætti á að vera okkar stolt. Við eigum að viðurkenna að Íslendingar eru framúrskarandi á þessu sviði.
Ekki er langt síðan við heyrðum fréttir frá fjöldasamtökum, sem áður hafa gert okkur gramt í geði – WWF - sem hvöttu til þess að þorskur yrði ekki keyptur. Skipti þá engu hvar þessi fiskur væri úr sjó dreginn. Þetta er auðvitað hörmulegt. Við vitum að staða fiskistofna er með ýmsu móti í heiminum. En fullyrðingar almennt af þessu tagi eru rangar, misvísandi og eiga enga stoð í raunveruleikanum. Auðvitað vildum við Íslendingar vera í þeirri stöðu að geta veitt meira úr fleiri stofnum og aukið þannig tekjur okkar. Og það hlýtur að vera meginviðfangsefni okkar að stuðla að því. En við vitum samt að í alþjóðlegum samanburði getum við vel við unað. Margir horfa til okkar og ýmissa annarra þjóða öfundaraugum. Þess vegna er íslensk framleiðsla í sjálfu sér gæðamerki í hugum margra fiskkaupenda á alþjóðlegum markaði. Og þá vaknar spurningin: Getum við nýtt okkur þetta?
Á stundum er mikið rætt um hvort við Íslendingar getum með einhverjum hætti markað okkur sérstöðu með fiskafurðir okkar. Þetta hefur einnig tengst þeirri umræðu sem fram hefur farið um svokallaðar umhverfismerkingar. Af hálfu okkar í sjávarútvegsráðuneytinu hefur sú stefna verið mörkuð að atvinnugreinin sjálf eigi að hafa frumkvæðið í þessu og móta stefnuna. Það er farsælast, einfaldast og í raun óhjákvæmilegt. Hinu er ekki að neita að maður verður mjög var við það og í vaxandi mæli; að það er mikill áhugi af hálfu fiskkaupenda á að geta sýnt fram á það með trúverðugum hætti að sá fiskur sem við Íslendingar seljum sé veiddur úr sjálfbærum stofnum og að uppruna hans sé með einhverjum hætti getið. Þetta segja þessir menn af því að þeir líta á okkur sem ábyrga fiskveiðiþjóð sem standi vel að veiðum og vinnslu. Hér sé háþróað kerfi vörurekjanleika og framleiðslan góð og áreiðanleg. Þessi umræða um umhverfismerkingar er þó margslungin og snúin. En við verðum þó að móta okkur afstöðu til hennar. Ekki síst af því að hún er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, á alvöru dagskrá meðal kaupenda okkar og á hinum alþjóðlegu mörkuðum.
Ég tel að við séum nú við þær aðstæður að okkur beri að leggja okkur fram um að komast að niðurstöðu. Tími umræðunnar er brátt á enda. Við eigum að sjálfsögðu að móta okkar eigin stefnu í þessum efnum og á okkar eigin forsendum. Við eigum ekki að lúta yfirþjóðlegu eða fjölþjóðlegu valdi heldur fremur tryggja að þessi markaðssetning sé gerð á okkar forsendum og með okkar eigin hagsmuni að leiðarljósi. Flóknara er það mál nú ekki. Við höfum mikið að vinna og það er í okkar þágu að öllum sé ljós uppruni þeirrar vöru sem seld er héðan. Þá losnum við undan umræðum af því tagi sem ella gætu verið okkur hættulegar og málflutningur WWF er gott dæmi um. Ég vil því nota þetta tækifæri hér og beina því til fulltrúa fiskvinnslunnar að vinnu við þetta mál verði hraðað.
Góðir fiskverkendur.
Það hefur verið ánægjulegt að eiga við ykkur samstarf á því rúma ári sem ég hef setið í stóli sjávarútvegsráðherra. Mér er það vel ljóst og verður það æ betur ljóst hversu gott það er og mikilvægt að eiga farsælt samstarf við forsvarsmenn atvinnugreinarinnar og aðra þá sem innan vébanda hennar starfa. Samstarf af því tagi skiptir máli. Ekki bara fyrir stjórnmálamenn og stjórnsýsluna, heldur og einnig fyrir atvinnulífið sjálft. Það er mín einlæga ósk að þannig geti það orðið áfram í framtíðinni. Við eigum nefnilega sameiginlegt verk að vinna í þágu sjávarútvegsins og þar með þjóðfélagsins í heild.