Ráðstefna á Ísafirði um móttöku innflytjenda
Í logni við ókunna strönd
ræða sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar á ráðstefnunni
Eru innflytjendur hvalreki eða ógn við samfélögin á landsbyggðinni?
Ísafirði 26-28. mars 2007.
Í einu af verkum söngvaskáldsins Harðar Torfasonar er guð spurður hvað hægt sé að gera við alla þessa útlendinga sem tröllríða þjóðfélaginu og ógna okkur innfæddum. Himnaföðurnum vefst ekki tunga um tönn og svarar: „Gefðu þeim blóm.... Já gefðu þeim blómvönd – og rúsínupoka með hnetum.“
Gagnstætt því sem margir telja hafa útlendingar lengi sett svip sinn á íslenskt þjóðlíf. Þeir hafa verið frumkvöðlar í margskonar starfsemi og má í því sambandi ekki síst vísa til menningarstarfs sem að á öndverðri síðustu öld var mjög borið uppi af erlendu fólki. Við hér á Vestfjörðum þekkjum þetta, en við höfum líka kynnst því nú áratugum saman hversu útlendingar hafa gegnt miklu hlutverki í samfélagi okkar. Mér er það sjálfum mjög í fersku minni þegar Nýsjálendingarnir og Ástralarnir fóru að streyma hingað til lands í kringum 1970. Þetta var ungt og lífsglatt fólk sem fór einskonar manndómsferðir um Evrópu, frétti af því að á Íslandi væri hægt að vinna sér inn mikla peninga með dugnaði og sóttist eftir störfum hér á landi. Þetta unga fólk setti mikinn svip á byggðarlögin á Vestfjörðum á þessum tíma. Tungumálaþröskuldurinn var ekki alvarlegur, við gátum flest bjargað okkur í ensku og samfélagið með hinu nýja fólki var glatt og skemmtilegt. Það tókust líka kynni sem stundum enduðu með hjónabandi og fólk settist hér að úr hinum fjarlægu heimshlutum og Íslendingar fluttu þangað.
Var þetta jákvætt eða neikvætt? Ég hef engan heyrt tala um annað en að áhrifin af öllu þessu hafi verið samfélagi okkar til góðs. Þarna liggur líka lykillinn að þessu. Tungumálið var ekki þröskuldur og við gerum okkur grein fyrir því að lykillinn að góðu samfélagi fólks úr ólíkum menningarheimum liggur í því að það geti rætt saman, það geti aðlagast og það er að mínu mati verkefni okkar nú, þegar Ísland er að breytast í hið mikla fjölmenningarsamfélag, að leggja okkur öll fram um að svo megi verða. Við getum það auðveldlega, þessi forríka þjóð.
Atvinnuþátttaka útlendinga hér á landi er mikil, hlutfallslega meiri en atvinnuþátttaka Íslendinga sem þó er mjög mikil. Þetta er öðruvísi en víða annars staðar þar sem atvinnuþátttaka innflytjenda er frekar lítil. Á Íslandi er hún hins vegar rúmlega 90% á móti til dæmis 50-60% á hinum Norðurlöndunum. Hér eru innflytjendur sem sagt virkir þegnar sem borga skatta sína og skyldur og leggja fjölmargt af mörkum til samfélagsins. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar fjölgaði atvinnuleyfum til útlendinga úr 1.206 á árinu 1996 í 6.367 á árinu 2005.
Þetta gerðist áður en við tókum þá ákvörðun að nýta okkur ekki heimildir í samningnum um hið evrópska efnahagssvæði sem heimilaði okkur að fresta því að opna á atvinnuréttindi nýrra þjóða ESB. Að mínu mati er það því í besta falli misskilningur og allt eins tilraun til blekkingar þegar menn gagnrýna þá ákvörðun stjórnvalda.
Svo skulum við ekki gleyma því að þessi ákvörðun okkar leiddi til þess að okkur tókst að má út ljótan blett á samfélagi okkar, sem voru þær starfsmannaleigur sem níddust á erlendu fólki, höfðu af því launin, létu það hírast í húsakynnum sem ekki voru mannabústaðir og undirbuðu vinnuafl með ólögmætum hætti. Ákvörðunin var því að mínu viti til farsældar og örugglega skynsamleg við þær aðstæður sem hafa verið og eru í okkar atvinnu- og efnahagslífi.
Stundum er sagt að tilkoma útlendinga hér á íslenskum vinnumarkaði hafi dregið úr lífskjörum og jafnvel haft vinnu af fólki. Þessu fer víðs fjarri. Ég var á dögunum í heimsókn hjá HB-Granda á Akranesi. Þar stóð yfir loðnuvertíð, það var unnið dag og nótt 24 tíma á sólarhring við að frysta og vinna loðnuhrogn. Forsvarsmenn fyrirtækisins vöktu á því athygli að forsendan fyrir því að hægt væri að vinna þessi verðmæti, búa til þessi miklu verðmæti, væri atvinnuþátttaka útlendinga og með því að þeir kæmu þarna til starfa þá opnuðust í rauninni ný og fleiri atvinnutækifæri fyrir Íslendinga. Með öðrum orðum: Atvinnuþátttaka útlendinganna væri í raun og veru aflvaki starfa hér á landi. Það er sem sagt ekki verið að stela frá okkur störfum, heldur þvert á móti búa þau til.
Í fiskvinnslu hafa útlendingar gegnt veigamiklu hlutverki. Árið 2005 unnu um 1220 útlendingar í fiskvinnslu, hafði fjölgað um 300 frá árinu 1998. Athyglisvert er að hér á Vestfjörðum hefur ekki orðið um fjölgun að ræða, það má segja að fjöldi útlendinga í fiskvinnslu hér á Vestfjörðum hafi á vissan hátt numið staðar og sé orðinn sá sem gera má ráð fyrir á komandi árum, enda er tækniþróunin þess eðlis að ekki má vænta fjölgunar starfa í fiskvinnslu á Íslandi. Hitt er auðvitað jafnljóst að útlendingum hefur fjölgað í öðrum atvinnugreinum og þeirri þróun verður ekki snúið við. Þetta er nákvæmlega hið sama og við sjáum að gerist í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Ísland er orðið að uppbyggingu mjög svipað nágrannaþjóðum okkar, við erum að verða í vaxandi mæli þjónustusamfélag og erlendu starfsfólki í þessum þjónustugreinum fer fjölgandi og er í raun og veru forsendan fyrir því að þessar greinar byggjast upp.
Hinu er þó ekki að neita að við erum lítið samfélag og við eins og aðrar þjóðir þurfum þess vegna að gæta ákveðins taumhalds. Við erum nú hluti hins evrópska efnahagssvæðis og þar er eitt grundvallaratriðið, frjáls för launafólks. Það sviptir okkur þó ekki rétti til ákveðinna grundvallarskilyrða og augljóslega mun það hafa áhrif á afstöðu okkar til útgáfu atvinnu og dvalarleyfa til fólks utan hins evrópska efnahagssvæðis. Það hefur einnig verið reyndin. Starfsfólk frá Evrópu hefur að mestu getað uppfyllt þarfir atvinnulífsins eftir vinnuafli og það hefur leitt til þess að þeim fækkar sem hingað koma frá öðrum heimshlutum.
__________________
Í hugum flestra Íslendinga er það eitthvað alveg sérstakt að vera Íslendingur. Okkur verður tíðrætt um uppruna okkar og hvernig Íslendingar þraukuðu í gegnum aldirnar á mögrum og grýttum jörðum og háðu hvern dag harða baráttu við óblíð náttúruöflin í harðbýlu, köldu landi. Og ekki síður er okkur tamt að tala um menningararfinn – tungumálið og bókmenntirnar. Eða hvernig okkur tókst að nútímavæðast í byrjun 20. aldar á met tíma.
Og vissulega höfum við sem Íslendingar margar ástæður til að vera stolt. Landið er gjöfult með öllum sínum auðlindum, náttúran mikilfengleg og mannlífið gott. Hér er kröftugt atvinnu- og efnahagslíf, lífskjör með því besta sem þekkist í heiminum, við erum að verða eins og aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við; samfélag með fjölbreytta atvinnustarfsemi og alþjóðlegt á flesta lund. Við eigum fágæt menningarverðmæti, lifum innihaldsríku lífi og erum í dag auðug þjóð – meðal ríkustu þjóða heims – og yfirleitt feit og pattaraleg á sál og líkama.
Einmitt þess vegna eigum við að vera mun betur en margar aðrar þjóðir í stakk búin til að taka vel á móti fólki frá öðrum löndum. Fólki sem kemur hingað til að vinna með okkur, halda hagkerfinu gangandi með okkur, hraða framþróun okkar – og fólki sem auðgar menningu okkar og mannlíf svo um munar. Við hljótum að fagna komu þess og leggja okkur fram um að standa vel að móttöku þess, hvort sem það kemur til lengri eða skemmri dvalar. Það er hagur okkar allra.
Og hvað innifelur það svo að standa vel að móttöku innflytjenda? Hér berum við vissulega öll ábyrgð, en að sjálfsögðu ber opinberum aðilum að fara á undan með góðu fordæmi. Opinber stefna í málefnum innflytjenda verður fyrst og fremst að miða að því að eyða fordómum í garð þeirra og að því að þeir eigi sem auðveldast með að aðlagast samfélaginu, án þess að missa sjónar af uppruna sínum, glata þjóðerniseinkennum sínum, tungmáli og menningu. Grunnurinn verður að vera sá að fjölmenningarlegt samfélag sé kostur og að margbreytileikinn auðgi íslenska menningu. Sérstaklega þarf að huga að upplýsingagjöf, túlkaþjónustu, vinnumarkaðsmálum, auknum rannsóknum á högum innflytjenda og síðast en ekki síst íslenskukennslunni. En það er líka eðlilegt að við gerum einnig kröfur sem samfélag. Þær fela m.a. í sér að gefa ekki eftir grundvallaratriði vestrænna lýðræðissamfélaga, um lýðræði, mannréttindi, jafnræði kynjanna, frjálslyndi og önnur slík vestræn lífsgildi. Þá kvöð hljótum við að gera ráð fyrir að menn fallist á. Því ella er hætt við að lýðræðishefðir og lífsgildi okkar snúist í andhverfu sína og bitni á okkur öllum.
Því má ekki gleyma að margt hefur verið gert vel í málefnum innflytjenda. Ég vil sérstaklega nefna aðila eins og Fjölmenningarsetur hér á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Alþjóðastofuna á Akureyri og Alþjóðahúsið í Reykjavík. Löggjafinn hefur sett lög um málefni útlendinga, m.a. um starfsmannaleigur, atvinnuréttindi útlendinga og nú síðast um útsenda starfsmenn erlendra fyrirtækja. Mörg fyrirtæki, ekki síst hér á Vestfjörðum, hafa staðið myndarlega að móttöku erlendra starfsmanna sinna og sýnt málefnum þeirra mikinn skilning, m.a. með því að bjóða upp á námskeið í íslensku.
Ókeypis íslenskukennsla er eitt af öflugustu tækjum til aðlögunar sem við getum boðið upp á. Þar þarf að haga málum þannig að öllum sé kleift að sækja slíkt nám með góðu móti. Það er hægara sagt en gert eftir langan vinnudag að eiga eftir að sækja svo og svo marga tíma, svo og svo oft í viku í tungumáli sem manni er fullkomlega framandi. Þar getur hver séð sjálfan sig.
Ég hef áður sagt frá því að ég hef falið Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar í samstarfi við Fjölmenningarsetur hér á Ísafirði að annast starfstengd íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn í fiskvinnslu á Íslandi. Íslenskukennslu verður fléttað inn í grunnnámskeið starfsfræðslunefndarinnar og námsefni hennar verður notað en aðlagað að þörfum útlendinga með litla íslenskukunnáttu. Þessi námskeið koma þá í stað hefðbundinna grunnnámskeiða nefndarinnar. Markmiðið með verkefninu er að byggja upp orðaforða og þekkingu í hverjum námsþætti fyrir sig, auka færni starfsmanna í íslensku, auðvelda þeim þannig verkin sem og tjáskipti innan fyrirtækisins og hvetja til enn frekara íslenskunáms. Einnig að auka starfsánægju sem aftur mun leiða til betra starfsumhverfis og meiri virðisauka í starfi.
Ætlunin er að byrja með einu 80 klst. námskeiði fyrir starfsmenn Íslandssögu á Suðureyri. Forsvarsmenn Íslandssögu hafa brugðist afar vel við hugmyndinni og eru tilbúnir til samstarfs og ég vil nota tækifærið hér og flytja þeim þakkir fyrir þessi jákvæðu viðbrögð. Að námskeiðinu loknu er ætlunin að halda sambærileg námskeið um allt land.
Við höfum heilmiklar skyldur, bæði gagnvart þessum nýju íbúum landsins og líka gagnvart samfélagi okkar. Við viljum að fólk geti búið í sátt og samlyndi og þá er ekki annað að gera en að auðvelda fólki þessi samskipti. Tungumálið er lykillinn að því.
_________________
Útlendingar sem hingað koma til lengri eða skemmri dvalar hafa mismunandi ástæður fyrir komu sinni. Flestir munu vera í leit að betri lífskjörum og margir hafa afar sára reynslu að baki. Okkur er hollt að minnast þess að við höfum sjálf verið í þeim sporum að þurfa að hefja nýtt líf í framandi landi, langt frá menningu okkar, fjölskyldu, vinum og yfirleitt öllu sem okkur var kært. Á tímabilinu 1870-1914 fluttust á fimmtánda þúsund Íslendingar úr landi í leit að betra lífi. Flestir voru allslausir. Sumir skildu börnin sín eftir og hugðust senda eftir þeim síðar en það reyndist ekki gerlegt í nærri öllum tilfellum. Margir fóru harðfullorðnir og allsendis óvissir um að lifa ferðalagið af. Vonin um betra líf var rík en óvissan algjör. Svanborg Pétursdóttir frá Skáleyjum var ein þeirra sem fluttust vestur um haf á þessum tíma. Hún orti svo:
Ég spyr, hvort við ævinnar enda
örlögin rétti mér hönd.
Og hvort að mér lánist að lenda
í logni við ókunna strönd.
Ég sagði áðan að við Íslendingar hefðum margar ástæður til að vera stolt af okkur sem þjóð. Vissulega er það sérstakt að vera Íslendingur. Og mér finnst sjálfsagt að hafa í heiðri gömul og góð íslensk gildi. En ef þjóðarstoltið fer að standa í vegi fyrir heilbrigðri framþróun þá verðum við að leggjast undir feld og endurskoða hug okkar, vegna okkar sjálfra og framtíðar afkomenda okkar. Slíkur hugsunarháttur getur beinlínis verið hættulegur hagsmunum fjöldans.
____________________
Ég vil að lokum þakka Háskólasetrinu og Fjölmenningarsetrinu fyrir að fá tækifæri til að tala hér í dag og fyrir þessa myndarlegu ráðstefnu um þátttöku og móttöku innflytjenda í dreifbýli.