Opnun Versins Vísindagarða á Sauðárkróki
Ágætu gestir.
Það er mikið ánægjuefni að fá tækifæri til þess að kynnast starfsemi Versins Vísindagarða hér í dag enda hefur sjávarútvegsráðuneytið stutt stofnum þess með ýmsum hætti. Ástæðan er sú að við teljum að Verið Vísindagarðar sé farsæl leið til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu, einkum í matvælaiðnaði. Hér er kennslu og rannsóknaaðstaða fyrir Háskólann á Hólum, Matís og fleiri sem vinna að uppbyggingu matvælaiðnaðar og verðmætasköpunar.
Verið er byggt á erlendri fyrirmynd sem hefur reynst góð leið til að efla byggðir og samfélög í nánu samstarfi fyrirtækja, háskóla, stofnana og sveitarfélaga.
Skagafjörður er því ákaflega heppilegur fyrir slíkt samstarfs. Hér eru öflugir skólar, háskóli, símenntunarmiðstöð og fjölbrautarskóli ásamt sterkum matvælaiðnaði. Hér er mikil gróska og hana er hægt að virkja enn betur með samstarfi þessara aðila.
Meðal spennandi verkefna sem unnið er að hér í Verinu eru rannsóknir á sjálfbærni í fiskveiðum, sem nýtist og kemur til móts við auknar kröfur neytenda um að veiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti. Það er að segja að ekki sé gengið á auðlindir við veiðar, eins og því miður á sér stað víða um heim. Matís og Hólar hafa unnið merkilegt starf á þessu sviði og erum við Íslendingar framarlega á því. Slíkar rannsóknir geta nýst fyrirtækjum okkar enn frekar í þeirri miklu samkeppni sem háð er um hylli neytenda víða um heim.
Ennfremur hefur Matís í samvinnu við Hólaskóla unnið að verkefnum sem snúa að rekjanleika í veiðum, vinnslu og sölu. Með rekjanleika fást nákvæmari upplýsingar um vöruna og geta seljendur sem búa yfir gæða afurð aðgreint sig betur frá öðrum á markaði.
Rekjanleiki er mikilvægur hlekkur í umhverfismerkingum sjávarafurða. Á ferðum mínum erlendis hef ég orðið áþreifanlega var við vaxandi áhuga og þrýsting um að íslenskar sjávarafurðir verði auðkenndar með svokölluðu umhverfismerki. Um þessar mundir vinnur Fiskifélag Íslands einmitt hörðum höndum að slíku. Sjávarútvegsráðuneytið hefur fylgst vel með og stuðlað að framgangi málsins. Í tengslum við þetta skrifaði ég í gær undir mikilvæga viljayfirlýsingu við Háskólann á Akureyri sem felur í sér að gengið verði frá samningi við skólann um að ritstýra og vinna að uppbyggingu gagnaveitu um haf og sjávarútveg á netinu. Skrifað var undir í hugbúnaðarfyrirtækinu Forsvari á Hvammstanga, þar sem starfsmenn hafa unnið að margháttuðum undirbúningi fyrir gagnaveituna undanfarið ár. Forsvar heldur nú áfram því umfangsmikla forritunarstarfi sem fyrirtækinu hefur verið falið og í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Góðir gestir.
Aðstaða fyrir tilraunaeldi hér og rannsóknir í fiskeldi hefur verið byggð upp af miklum myndarskap. Nú þegar hefur Matís komið sér upp aðstöðu fyrir tilraunaeldi í kerum í Verinu í samstarfi við fyrirtæki, skóla og fleiri aðila. Ekki má heldur gleyma fyrirtækinu Iceprotein, sem er með rekstur í Verinu, en það er í eigu Matís. Iceprotein vinnur prótein úr sjávarfangi sem öðrum kosti væri ekki nýtt nema að litlu leyti. Hátt verð fæst fyrir prótein á markaði og getur uppbygging Iceprotein hér á Sauðárkróki orðið upphafið af arðsömum rekstri fyrir heimamenn. Þessi verkefni öll lofa því góðu fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Af þessu tilefni langar mig einnig til að fara stuttlega yfir hver þróun í fjölda starfa úti á landi hefur verið undanfarin misseri hjá þeim stofnunum sem undir ráðuneyti mitt heyra. Hæst bylur í tómri tunnu hvarflar óneitanlega að manni þegar hlýtt er á málflutning þeirra sem hæst láta; um að engu hafi verið komið til leiðar í að fjölga störfum á landsbyggðinni. Því fer fjarri. Tölurnar tala sínu máli. Störfum á vegum Fiskistofu, Matís og Hafrannsóknastofnunarinnar hefur fjölgað um 25 á landsbyggðinni síðustu misseri og álíka fjöldi hið minnsta er fyrirsjáanlegur.
Í fyrra fjölgaði starfsmönnum Fiskistofu úti á landi um sjö, eða meira en helming og voru 13 um síðustu áramót. Á þessu ári hafa fjórir bæst í hópinn, einn á Ísafirði og þrír í Stykkishólmi. Fyrirsjáanlegt er að þeim fjölgar um sjö á þessu og næsta ári. Í lok árs 2008 verða því 24 starfsmenn Fiskistofu úti á landi. Þá er reiknað með að starfsmönnum fjölgi um tvo á Akureyri í náinni framtíð og hugsanlega líka um tvo bæði í Vestmannaeyjum og á Höfn. Á árunum 2006 – 2009 fjölgar störfum Fiskistofu á landsbyggðinni því um 20-24, eða sem nemur allt að einum fjórða af mannafla hennar. Þar við bætast þau störf sem fyrir voru utan höfuðborgarsvæðisins.
Hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem rann inn í Matís ohf. ásamt fleiri einingum um áramót, fjölgaði um rúmlega 12 stöðugildi á landsbyggðinni á kjörtímabilinu, auk þess sem fimm meistaraprófsnemar stunda nám sitt í samstarfi við Matís á Akureyri. Við tilurð Matís tekur starfsemin nú til hvers kyns matvælarannsókna og ljóst að með öflugri einingu skapast ný tækifæri. Matvælafyrirtæki eru dreifð um allt land og því mikilvægt að starfsemi hins nýja fyrirtækis taki mið af því. Það er líka skýr stefna Sjafnar Sigurgísladóttur forstjóra Matís og forvera þess að reka öfluga starfsemi úti á landi, enda er fyrirhugað að starfsmönnum fyrirtækisins á landsbyggðinni fjölgi um a.m.k. tíu á næstu tveimur árum eða svo.
Hvað Hafrannsóknastofnun snertir hefur veiðirannsóknasvið hennar á Ísafirði verið eflt til muna og störfum þar fjölgað. Alls vinna 17 starfsmenn Hafró utan höfuðborgarsvæðisins.
Það hefur sýnt sig að t.d. starfsemi eins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, nú Matís, hefur verið að byggja upp á Akureyri, skapar margvísleg tækifæri og getur orðið upphafið af arðsömum rekstri fyrir heimamenn. Þarna skapast möguleikar til að auka enn frekar við. Þegar Rf tók ákvörðun um að leggja niður þjónusturannsóknir á Akureyri og aðrir tóku við keflinu, þá var um leið lögð aukin áhersla á annars konar starfsemi, þ.e. rannsóknir. Það hefur skilað sér í eflingu rannsóknasamstarfs við fyrirtæki á svæðinu, fjölda nemenda í rannsóknatengdu framhaldsnámi og ekki síst fjölgun starfa á Akureyri á vegum fyrirtækisins. Þátttaka Matís í rannsóknar- og þróunarstarfi hér í Verinu hefur þetta m.a. að markmiði. Að búa í haginn fyrir atvinnulífið til að stuðla að frekari fjárfestingu og atvinnusköpun. Þetta á við um starfsemi rannsóknastofnana sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið víða um landið.
Ágætu gestir.
Verið hefur ekki aðeins mikið gildi fyrir rannsóknir og kennslu heldur býr það yfir mjög spennandi aðstöðu fyrir innlenda sem erlenda nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi. Það sama má segja um vísindafólk hvaðanæva úr heiminum, að það getur lagt leið sína hingað og stundað rannsóknir og eflt samstarf við vísindamenn hér á landi.
Það er mikilvægt að átta sig á því að ástæða þess að uppbygging á vísinda- og rannsóknasetrum, eins og hjá Verinu á Sauðárkróki og Matís, sem er með starfsstöðvar víða um land, er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að renna styrkum stoðum undir atvinnulíf á landsbyggðinni. Þessi starfsemi eykur verðmætasköpum og sérþekkingu og stuðlar að nýjum tækifærum sem landsbyggðinni þarf á að halda. Sem dæmi má nefna að Matís, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, rekur nú starfsstöðvar á Höfn, í Neskaupsstað, á Akureyri, á Ísafirði og í Reykjavík auk þess sem fyrirtækið á í samstarfi við fjölda fyrirtækja í matvælaiðnaði. Hjá Matís er unnið að fjölmörgum verkefnum í samvinnu við atvinnulífið; í fiskeldi, vöruþróun, líftækni og öðrum greinum sem tengjast matvælaiðnaði sem skilar sér í verðmætari vöru og blómlegra atvinnulífi. Með sama hætti gerum við okkur vonir um að Verið nái að tengja saman atvinnulíf annars vegar og vísinda- og rannsóknasamfélagið hins vegar til heilla fyrir Skagfirðinga og landsmenn alla. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu mikilvægt er að fjölga atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni og sömuleiðis námsmöguleikum. Þetta er liður í því.
Ég bind miklar vonir við Verið Vísindagarða og hef fundið fyrir miklum áhuga heimamanna og matvælafyrirtækja sem hyggjast stórefla iðnað og verðmætasköpun á svæðinu enn frekar á allra næstu árum. Það er því spennandi tækifæri framundan hér í Skagafirði sem nýtt verður öllum til hagsbóta.