66. Fiskiþing, 27. apríl 2007
Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra
á 66. Fiskiþingi
Góðir fundarmenn.
Íslenskur sjávarútvegur er á margan hátt einstakur, bæði vegna hinnar miklu þýðingar sem hann hefur í íslensku þjóðarbúi en ekki síður vegna þess orðspors og álits sem hann nýtur víða um heim. Gamalt máltæki segir, svipull er sjávaraflinn og við vitum jafnframt að sjávarútvegurinn hefur ætíð þurft að heyja harða baráttu á mörkuðum um víðan heim. Að þessu leyti hefur greinin á margan hátt búið við sérstöðu á Íslandi. Ýmsar atvinnugreinar hér á landi voru lengst af verndaðar með tollum og einnig pólitískum ákvörðunum um verðlagningu. Að sönnu var það líka að einhverju leyti svo með sjávarútveginn. Rekstrarumhverfi hans mótaðist og markaðist af þeim pólitíska veruleika sem var til staðar þegar afskipti hins opinbera af atvinnulífinu voru beinni og meiri en nú og menn töldu ekki óhætt að láta markaðsöflin ráða för í íslensku atvinnulífi. Engu að síður var sjávarútvegurinn með þá sérstöðu að vera umfram allt útflutningsgrein, fá tekjur sínar á erlendum mörkuðum og á þeim slóðum var hann ekki verndaður. Sjávarútvegurinn þurfti ætíð að heyja sína baráttu á eigin forsendum, oft og tíðum við atvinnugreinar og keppinauta sem nutu verndar og stuðnings opinberra aðila í heimalandi sínu.
Það er ábyggilegt að þessi reynsla hefur haft sín áhrif og orðið til góðs. Á meðan keppinautarnir voru slæfðir vegna aðstoðar hins opinbera mátti íslenskur sjávarútvegur standa á eigin fótum.
Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein fyrir þessu. Að sjávarútvegurinn okkar, hefur orðið að stæla sig og styrkja til þess að takast á við harða samkeppni á heimsvísu. Það er líka ástæða til þess að minna á það og oftar en einu sinni, að íslenskur sjávarútvegur nýtur álits á alþjóðavísu. Það er ekki þannig, eins og stundum er látið í veðri vaka í íslenskri umræðu, að hann standi sig ekki vel. Íslenskur sjávarútvegur nýtur mikils álits og það að verðleikum.
Íslenskir sjómenn eru afkastamiklir, íslenskt fiskverkunarfólk framleiðir góða vöru, íslensk fyrirtæki standa sig vel í alþjóðlegri samkeppni og í því sambandi vitum við að fyrirtæki til að mynda í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sóst eftir Íslendingum og fjárfestingum íslenskra aðila á sínu sviði. Einfaldlega vegna þess að sóst er eftir þekkingu og fjármagni sem ekki er til staðar í þeirra eigin ranni.
Við vitum auðvitað vel að það er margt sem betur gæti farið hér í umhverfi og aðstæðum sjávarútvegsins. Einnig er ljóst að tækifæri eru til að gera enn betur, alveg eins og í öllum atvinnugreinum. Framfarir í sjávarútvegi eru þó engu að síður mjög miklar.
Við sem höfum ekki starfað innan greinarinnar um nokkra hríð og þar get ég talað af reynslu, gerum okkur grein fyrir því að svo margt hefur breyst á þeim vettvangi að ómögulegt væri fyrir okkur sem ekki höfum verið þar daglega innanborðs að koma þar til starfa nema afskaplega ókunnug. Breytingarnar eru svo miklar að mér er til efs að þær hafi nokkru sinni orðið svo miklar innan atvinnugreinarinnar á jafn skömmum tíma.
Sjávarútvegurinn einkennist af sóknarhug. Menn þekkja þann ramma sem unnið er út frá og reyna að búa til sem mest verðmæti úr því sem aflinn og tekjugrundvöllurinn leyfir. Það er heillandi fyrir okkur stjórnmálamenn sem störfum í návígi við greinina að fylgjast með. Þetta er til vitnis um framfarahug og mikla trú á að hægt sé að gera enn betur á morgun en í dag.
Við erum líka í nýrri stöðu. Sjávarútvegurinn hafði á vissan hátt mikla yfirburði yfir margar atvinnugreinar í landinu vegna þýðingar sinnar fyrir útflutningsverðmæti og af ýmsum öðrum ástæðum. Núna heyr hann harðari samkeppni bæði um fólk og fjármagn heldur en nokkru sinni áður og það er afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum augljósu sannindum. Það er kannski dálítið sérkennilegt í sjálfu sér að þurfa að hafa orð á þessum hlutum, svo augljósir ættu þeir að vera.
Innan sjávarútvegsins er hugað að ýmsum þáttum. Í fyrsta lagi get ég auðvitað nefnt þá miklu tæknibreytingu sem hefur átt sér stað. Sjávarútvegsfyrirtækin og staða þeirra hefur búið í haginn fyrir önnur fyrirtæki sem leitað hafa tæknilegra lausna fyrir greinina og síðan yfirfært þær lausnir á aðrar framleiðslugreinar.
Nýjasta tækni við geymslu og skipulag flutningsmála hefur breytt miklu. Sú samgöngubyltingin sem orðið hefur í landinu hefur skapað ný tækifæri við framleiðslu á ferskum afurðum í öllum landshlutum. Menn sækja nú út á markaði og nýta til þess greiðar flutningsleiðir til og frá landinu og nýjustu fjarskiptatækni. Sjávarútvegurinn er með öðrum orðum framsækin atvinnugrein þar sem stjórnendurnir og starfsfólkið er stöðugt að reyna að leita nýrra lausna og sækja fram. Þetta er sú umræða sem ég skynja innan íslensks sjávarútvegs. Umræða sem lýsir árvekni og framfarahug.
Gerðar eru kröfur til okkar stjórnmálamanna um að tryggja öruggt rekstrarumhverfi í atvinnulífinu almennt, þannig að óvissuþáttunum fækki, því óvissan er ætíð óvinur rekstrarmannanna. Vitaskuld hafa stjórnmálamenn mikil völd og völdum fylgir ábyrgð. Sú ábyrgð leggst óhjákvæmilega á herðar okkar stjórnmálamanna að horfa ætíð til þess, þegar kemur að atvinnulífinu að það sé skipulagt með þannig að það gagnist því sem best. Þetta á ekki síst við um sjávarútveginn, því við vitum að ef honum gengur vel þá batna lífskjörin í landinu, en ef honum gengur illa þá verða þau lífskjör lakari.
Hið stóra verkefni stjórnmálamanna hlýtur að vera að búa svo um hnútana að lífskjör þjóðarinnar batni. Það hefur raunar gerst með ótrúlegum hætti undanfarin ár. Lífskjör á Íslandi hafa batnað hraðar en flestir þorðu að vona, eða um 75% frá árinu 1994 sem er nánast einsdæmi í okkar heimshluta. Dettur mönnum í hug að slíkt hefði gerst ef sjávarútvegurinn hefði verið einhver dragbítur í íslensku efnahagslífi, svo stór og þýðingarmikill sem hann er? Auðvitað ekki.
Ágætu fundargestir.
Á Fiskiþingi í fyrra færði ég í tal að á ferðum mínum erlendis verð ég hvarvetna var við sívaxandi áhuga og þrýsting á að íslenskar sjávarafurðir verði auðkenndar með svokölluðu umhverfismerki, eða beitt verði því sem kallað er á enskri tungu „eco-labeling“. Sama er og uppi á teningnum hjá fjölda gesta sem komið hafa á minn fund, ekki hvað síst eru það margs konar ómissandi milliliðir og miðlarar íslenskra sjávarafurða sem þarna eiga í hlut.
Þetta mál ber sífellt hærra í umræðunni, bæði innanlands og utan. Ljóst er að nú velta menn ekki lengur fyrir sér hvort koma eigi á íslensku umhverfismerki heldur með hvaða hætti og hvenær. Að þessu vinnur greinin undir forystu Fiskifélagsins.
Sem dæmi um hve aðkallandi málið er orðið, má nefna að á mjög fjölsóttri alþjóðlegri ráðstefnu um sjávarútvegsmál í Noregi í lok febrúar voru umhverfismerkingar langefstar á baugi. Þær voru megininntak ræðu minnar þar og í pallborði svaraði ég fjölda fyrirspurna um hvert Íslendingar stefna í þessu máli. Margir fundargesta voru á því að Marine Stewardship Council, MSC, væri eina rétta leiðin og það hreinlega á heimsvísu. Ég lagði ríka áherslu á að fleiri kostir kæmu til greina. Íslendingum hugnaðist ekki MSC og við erum hreint ekki ein um að hafa ímugust á því merki.
Þótt margir kaupenda okkar erlendis á fiskafurðum segi hag Íslendinga best borgið innan MSC þá tel ég að þeir séu fleiri sem álíti mjög mikilvægt að vera ekki algjörlega undir handarjaðri þess. Menn vilja fá raunverulegan og trúverðugan valkost en það er engan vegin vandalaust að útbúa hann.
Á fundi OECD og FAO nú á dögunum, þar sem ég flutti opnunarerindi, sátu m.a. fulltrúar nokkurra mjög stórra verslunarkeðja vestan hafs og austan, þar á meðal bæði Tesco og Walmart. Þar á bæ er lögð ofuráherslu á rekjanleika og trúverðugar umhverfismerkinga. Áhyggjurnar lúta þó m.a. að því að mikill fjöldi slíkra umhverfismerkja er til, sem skapar ákveðinn ruglanda á markaðnum.
Það er því ljóst að alveg frá fyrsta degi verður íslenskt umhverfismerki að undirstrika sérstöðu íslenskra sjávarafurða og treysta orðspor okkar. Jafnframt því að hafa fullkominn trúverðugleika og markast af gagnsæi á öllum stigum. Við verðum að gera okkur grein fyrir að ákvörðun af þessu tagi mun hafa ýmsar afleiðingar í för með sér, t.d. um mótun auðlindanýtingar okkar. Það breytir því þó ekki að mínu mati, að við eigum að stíga þetta skref og nýta það til að treysta stöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum.
Undanfarin misseri hefur sjávarútvegsráðuneytið beitt sér fyrir uppbyggingu á gagnaveitu um haf og sjávarútveg á vefnum. Markmiðið er að gera aðgengilegar fyrirliggjandi upplýsingar um vistkerfi og náttúru hafsins við Ísland, sjálfbæra nýtingu auðlinda, efnainnihald- og heilnæmi sjávarfangs, sem og upplýsingar um hagrænt samhengi og mikilvægi nýtingar auðlinda hafsins fyrir efnahag landsins.
Hjá Forsvari á Hvammstanga hefur verið unninn margháttaður undirbúningur fyrir gagnaveituna; hönnunarskýrsla og forritun. Nú er komið að næsta áfanga sem er samþætting og uppbygging. Á þriðjudaginn var skrifaði ég einmitt undir mikilvæga viljayfirlýsingu um þetta efni við Háskólann á Akureyri. Í henni felst að fyrir 1. júní nk. verði gengið frá samkomulagi við Háskólann um að hann taki að sér ritstjórn og vinnu við uppbyggingu gagnaveitunnar fram að opnum hennar, sem áætluð er eftir ár eða svo, þ.e. í lok maí 2008. Á sama tíma vinnur Forsvar áfram að sínum málum í nánu samstarfi við þá starfsmenn Háskólans á Akureyri sem þessu starfi sinna og sérstakan stýrihóp sem komið verður á laggirnar á vegum ráðuneytisins.
Mér er það mikið fagnaðarefni að sjá gagnveitumálið komin á skrið að nýju. Bæði er það mér auðvitað visst kappsmál að sjá þessi störf unnin úti á landi og eins hitt og þess vegna tek ég þetta upp hér, að gagnaveitumálin og umhverfismerkingin tengist föstum böndum. Því grunnhugsun ykkar er eins og ég best fæ skilið að miðla traustum og jafnvel vottuðum upplýsingum til kaupenda og þá frekar til markaðsstjóra og slíkra aðila heldur en hins almenna kaupenda. Gagnaveitan á einmitt að innihalda slíkar upplýsingar, en gagnaveitan verður ekki hefðbundin vefsíða heldur upplýsingaveita sem sækir gögn víða að og verður í sífelldri þróun. Opnunin eftir rétt rúmt ár markar því ekki endi heldur upphaf.
Gagnveitan verður þannig bakbeinið í upplýsingaflæðinu sem tryggir framgang væntanlegrar umhverfismerkingar íslenskra sjávarafurða. Þrátt fyrir það verðið þið að halda áfram ykkar störfum af fullum krafti því keppinautarnir sitja ekki auðum höndum.
Góðir fundarmenn.
Ég fylgist með vaxandi aðdáun og áhuga með þeirri umræðu sem fer fram innan sjávarútvegsins. Um leið fyllist ég þó stundum dálitlum kvíða yfir því hve hin pólitíska umræða um sjávarútveginn annars vegar og hins vegar umræðan innan greinarinnar er gjörólík. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga að skoðanir séu skiptar um mál eins og auðlindanýtingu. Þetta er stór pólitískt álitamál og mismunandi skoðanir óhjákvæmilegar. Og ég á ekki við það þegar ég segi; að ég hafi nokkrar áhyggjur af þeim skilum sem eru í raun á milli hinnar kraftmiklu umræðu innan sjávarútvegsins um viðfangsefni líðandi stundar og verkefni framtíðarinnar annars vegar og hinnar pólitísku umræðu um sjávarútveginn hins vegar.
Það sem ég á við er að á sama tíma og sjávarútvegurinn hefur verið að breytast, þróast, dafna og taka framförum er hin pólitíska umræða um sjávarútvegsmál í meginatriðum hin sama og hún var þegar ég hóf feril minn á Alþingi árið 1991. Hún hefur lítið þróast og er bundin við mjög svipuð viðfangsefni og áður. Stóra breytingin er hins vegar sú að umræðan er ekki jafn stríð sem fyrr, hún er ekki jafn harðneskjuleg og áður eða óvægin. En galli hennar er sá að viðfangsefnin eru ekki þær breytingar og þau tækifæri sem sjávarútvegurinn felur í sér og stjórnmálamenn þyrftu að hafa í huga.
Það er auðvitað einkennilegt að þurfa að minna á það í almennri umræðu um sjávarútvegsmál að sjávarútvegurinn sé atvinnugrein sem eigi að lúta nákvæmlega sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar í þessu landi. Því ef hann gerir það ekki þá verður hann einfaldlega undir í samkeppni hér innanlands. Það mun fljótt hafa áhrif á stöðu greinarinnar á erlendum vettvangi, möguleikum hennar á að skapa sér nýjar tekjur og að sækja fram.
Þegar ég nú, við þessar viðkvæmu aðstæður vegna nálægðar kosninga, færi þetta í tal þá vakir eingöngu fyrir mér að reyna að hvetja til þess að umræðan á þjóðmálavettvangnum þokist nær því sem veruleiki sjávarútvegsins endurspeglar. Við hverfum að sjálfsögðu ekki frá pólitískum deilum um pólitísk álitaefni. En þegar rætt er um hagsmuni og skipulag þessarar þýðingarmiklu atvinnugreinar verður að hafa í huga og taka tillit til þeirra breytinga sem orðnar eru.
Eitt vil ég nefna í þessu sambandi. Á undanförnum árum hafa framlög hins opinbera til rannsóknar og þróunarstarfs stóraukist. Sem betur fer að mínum dómi og ég hygg flestra annarra. Nú veitum við tvöfalt meira fjármagni til vísinda- og þróunarstarfs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en ríki Evrópusambandsins. Við eigum að vera stolt af þessu en það þarf að gera betur og auka þetta fjármagn og hækka hlutfallið enn. Þar þurfum við í sjávarútveginum að gæta þess að verða ekki eftirbátar. Sjávarútvegurinn umfram margar atvinnugreinar á mjög mikið undir því að rannsókna og þróunarstarfsemi sé sinnt. Hér eru öflugar rannsóknastofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun. Stofnað hefur verið nýtt og öflugt fyrirtæki, Matís, sem miklar vonir eru bundnar við á sviði matvælarannsókna. Sem betur fer er mikill og vaxandi áhugi innan sjávarútvegsfyrirtækjanna á þessum þætti. Það sést á því að fyrirtækin sækjast eftir fjármagni til þessara viðfangsefna og eru AVS sjóðurinn og Verkefnasjóður sjávarútvegsins góð dæmi um það.
Við þurfum að stefna að því að efla þessa sjóði og tryggja þannig aukið fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfs og meiri fjölbreytni í rannsóknum til þess að ná sem bestum árangri.
Ég hef nú í máli mínu vakið athygli á því hvernig sjávarútvegurinn er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Það sannast einnig og ekki síst í því að við erum háð samningum við aðrar þjóðir og ríkjasamband um nýtingu mikilvægra fiskistofna. Það er því sérlega ánægjulegt að geta sagt það með sanni núna að við höfum náð afskaplega mikilvægum áföngum á þessu sviði frá árinu 2005. Það er hægt að fullyrða að staða þessara mála nú sé betri en hún hefur verið um árabil a.m.k.
Seint á árinu 2005 sömdu Ísland, Evrópusambandið, Færeyjar og Noregur um stjórn kolmunnaveiða. Á síðasta ári gerðust Rússar svo aðilar að stjórnuninni og þar með voru öll ríkin sem taka þátt í veiðunum aðilar að samkomulagi um stjórn þeirra. Ofveiði á kolmunna hafði verið mikil árin á undan og ljóst að illa hefði farið fyrir stofninum ef ekki hefði verið samið. Reyndar eru kolmunnaveiðar enn of miklar, miðað við hvað stofninn þolir til langs tíma, en hluti af samkomulaginu var ákvörðun um að draga jafnt of þétt úr veiðum þannig að þær verði í samræmi við ráðgjöf vísindamanna að loknum fimm árum.
Fyrir þessa samninga hafði aldrei verið í gildi heildstætt alþjóðlegt samkomulag um skiptingu veiðiréttar varðandi kolmunna. Því er óhætt að fullyrða að um er að ræða mikilvæg tímamót. Með samningum var ekki aðeins komið í veg fyrir líklegt hrun stofnsins, heldur einnig skapaðar aðstæður til þróunar í veiðunum í átt að hámörkun aflaverðmætis. Ekki er lengur til staðar neitt kapphlaup milli þjóða um að veiða sem mest til að halda sínum hlut samanborið við aðra. Þjóðirnar ganga nú að sinni hlutdeild og geta einbeitt sér að því að fá sem mest verðmæti úr henni.
Snemma á þessu ári gerðu Ísland, Evrópusambandið, Færeyjar, Noregur og Rússland samning um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Samkomulag var í gildi árin 1996-2002, en síðan þá hafði engin alþjóðleg stjórnun verið í gildi og ofveiðin var að vaxa hratt. Þannig námu veiðar ársins 2006 um þriðjungi umfram það sem þjóðirnar höfðu verið sammála um að væri sjálfbært. Umframveiðin hafði vaxið um meira en 100% frá árinu á undan og það stefndi vissulega í óefni. Við höfum reynslu af því hvernig það endar þegar við stundum kerfisbundnar ofveiðar á þessum stofni og höfum engan áhuga á að endurtaka þá sögu.
Samkvæmt nýja samningnum er hlutur Íslands nokkuð minni en hann var árin 1996-2002 en í staðinn er aðgangur íslenskra skipa að norsku lögsögunni mun meiri. Vissulega hefðum við viljað sjá niðurstöðu sem væri enn hagstæðari. Við tökum hins vegar heils hugar undir það sjónarmið sem allir deiluaðilar hafa sett fram, að mikilvægi þess að hafa samning í gildi er mjög mikilvægt. Það skapar stöðugleika í stjórnunarumhverfinu og setur útgerðina í þá stöðu að geta einbeitt sér að því að hámarka aflaverðmæti frekar en að vera í kapphlaupi um að veiða sem mest. Í þessu sambandi get ég endurtekið það sem ég sagði þegar gengið var frá samkomulaginu: eini sem hægt er að segja að hafi sigrað í þessu sambandi er heilbrigð skynsemi. Hagsmunir okkar felast einfaldlega í því að vera í góðu samstarfi við nágranna okkar og nýta sameiginlegar auðlindir af skynsemi.
Góðir þingfulltrúar,
Ég hef notað fjölmörg tækifæri til að hamra á því hversu mikil hátækniatvinnugrein sjávarútvegurinn er orðinn. Í honum felst mikil þekkingarstarfsemi sem krefst menntunar í samræmi við það og atgervis okkar færasta fólks. Því finnst mér þema Fiskiþingsins – sjávarútvegur og menntun – eiga einkar vel við. Hér á eftir verður farið rækilega yfir þessi mál og fyrirlestrarnir og umræðurnar verða eflaust gott veganesti á þeirri vegferð sem við blasir. Það þarf að hlynna vel að þessum þætti og endurvekja áhuga ungs fólks á greininni. Nú sem fyrr er þetta fjölbreytt og krefjandi framtíðaratvinnugrein sem ungt fólk á mikið erindi í.
Með þessi atriði að leiðarljósi sem ég hef tæpt á og fleiri til, byggjum við upp enn kröftugri og öflugri sjávarútveg - landi og þjóð til heilla.