Hoppa yfir valmynd
01. júní 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Skólaslit Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri 1. júní 2007

Rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Ágúst Sigurðsson, starfsfólk, nemendur og gestir.

Það er mér ánægja að fá að segja hér nokkur orð við útskrift nemenda frá þessari merku menntastofnun íslensks landbúnaðar sem hefur þjónað atvinnuveginum í rúma öld. Sannarlega hefur margt breyst á þeim tíma í íslenskum landbúnaði, honum til framdráttar og sannfæring mín og vissa er sú að þar hafa bændaskólarnir gengt viðamiklu hlutverki.

Mikil breyting hefur orðið á þeim skóla sem upphaflega var stofnaður 1899 og hét Búnaðarskólinn á Hvanneyri, yfir í það að verða Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.  Sú breyting á þó kannski fyrst og fremst rætur að rekja til þess að skólayfirvöld á hverjum tíma, atvinnuvegurinn sjálfur hafa fylgst með allri þróun og verið meðvitaðir um að taka upp ný vinnubrögð, innleiða nýja tækni og fræða nemendur um það besta sem uppi er, atvinnuveginum til hagsbóta.  Í grunninn er hugmyndafræði hin sama og áður, að mennta bændur þessa lands til að stunda með bestu þekkingu íslenskan landbúnað.

Ágæta samkoma.

Mér hefur verið falin sú mikla ábyrgð að fara með málefni landbúnaðar og sjávarútvegs.  Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við það verkefni og veigra mér ekki við að halda því fram að enn sem áður eru þetta grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar. Margt er líkt með þeim báðum, stundaðar af dugmiklu fólki, ekki síst á landsbyggðinni og eiga óefað stærstan þátt í að landið allt er byggt.  Nóg um það að sinni.

Eins og ykkur er líka kunnugt hefur verið rætt um  að færa málefni landbúnaðarskólanna frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytisins.  Vissulega kann það að virðast stór breyting og vissulega er eftirsjá í svo miklum stofnunum sem landbúnaðarháskólarnir eru, en þetta þarf hvorki að þýða neina allsherjar uppstokkun eða breytingar á þeim markmiðum sem þessum stofnunum er ætlað að sinna og það er fyrir mestu. Markmiðið hlýtur að vera hið sama og hefur verið leiðarljósið í störfum skólanna hingað til

Íslenskur landbúnaður verður að hafa það tryggt að til staðar verði á hverjum tíma öflug skólastofnun til að miðla til íslenskra bænda þekkingu og fræða þá  um það besta sem völ er á hverju sinni atvinnuveginum til hagsbóta.  Ég er með þessu að segja að afar brýnt er að atvinnuvegurinn sjálfur hafi áfram aðkomu að því námi sem hér fer fram og landbúnaðarháskólinn hafi það ávallt í fyrirrúmi að þjóna sem best íslenskum landbúnaði, - uppfylla þær kröfur sem til hans eru gerðar á þeim vettvangi.  Von mín og vissa er að svo verði.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur bæði miklu hlutverki að gegna og er með víðtæka starfsemi.  Ekki aðeins er hér á Hvanneyri mikið umleikis, heldur eins og hjá stöndugum bónda áður fyrr eru rekin útibú víðs vegar um landið sem mynda í heild þá öflugu stofnun sem Landbúnaðarháskólinn er.  Reykir, Möðruvellir, Stóra-Ármót, Hestur, Keldur og Keldnaholt eru styrkar stoðir sem nauðsynlegar eru til þekkingaröflunar, rannsókna og annarra vísindastarfa sem skólanum eru nauðsynleg.  Landbúnaðarháskólinn er öflug stofnun, telur hátt í 120 starfsmenn, nemendur um 300 og auk þeirra um og yfir 1000 nemendur sem stunda endurmenntun af einhverju tagi. 

Meistaranemum fjölgar og eru þeir um 30 á þessu ári og 4 doktorsnemar. 

Viðfangsefnin eru fjölbreytt; Búfræði, garðyrkja, umhverfismál, skógrækt og landgræðsla, búvísindi, hestafræði og hvers konar rannsóknir.  Þá er samstarf við skóla og þekkingarsetur á erlendum vettvangi sem hlýtur að teljast nauðsynlegt í nútíma samfélagi. Já gamli Hvanneyrarskóli stendur fyrir sínu. Í dag er verið að brautskrá nemendur. 

Ágætu útskriftarnemendur.

Það er stór áfangi í lífi hverrar manneskju að ljúka ætlunarverki og svo er um ykkur sem útskrifist nú frá Landbúnaðarháskóla Íslands.  Við tekur annar skóli ekki minna virði – það er lífsins skóli.  Eitt er að læra og annað að nýta sér þekkinguna.  Nú er komið að því að þið nýtið þá þekkingu sem þið hafið fengið í ykkar námi, ykkur og atvinnuveginum til hagsældar.  Svo sannarlega standa vonir mínar og óskir til þess að ykkur muni vel farnast og að sú fræðsla sem þið hafið notið verði heilladrjúg. Til hamingju með prófin og Guð og gæfan fylgi ykkur og fjölskyldum ykkar í framtíðinni.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir að fá að ávarpa samkomuna, óska starfsfólki og nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands farsældar og vænti þess að fá að eiga gott og náið samstarf við þá stofnun sem íslenskum landbúnaði er svo nauðsynleg.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta