Hoppa yfir valmynd
02. júní 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Opið hús og opnun heimasíðu Landbúnaðarstofnunar, laugardaginn 2. júní 2007

Ágæta starfsfólk Landbúnaðarstofnunar og aðrir góðir gestir.

Ég vil í upphafi þakka fyrir það tækifæri að fá að hitta ykkur og samgleðjast á þessum degi, þegar Landbúnaðarstofnun býður fólki að koma og skoða starfsaðstöðu stofnunarinnar og kynnast þeim mikilvægu málefnum sem hún vinnur að.

Landbúnaðarstofnun hefur nú starfað á annað ár og þar af rúmt hálft ár í þessu nýja húsnæði. Ég vil því líka nota þetta tækifæri til að óska starfsfólki og ykkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu aðstöðu og er þess fullviss að hér er og verður unnið gott og gagnlegt starf í þjónustu við íslenskan landbúnað, fyrirtæki og neytendur.

Ágæta samkoma.

Mér er það sönn ánægja að vera viðstaddur þessa athöfn hér í dag og fá að segja nokkur orð.

Eins og öllum er kunnugt hefur mér verið falið að fara með málefni íslensks landbúnaðar ásamt sjávarútvegsmálum og sannarlega hlakka ég til að takast á við þá ábyrgð sem því fylgir. Í örstuttu máli vil ég nota þetta tækifæri til að fara nokkrum orðum um þetta hlutverk mitt.

Einhverjum kann að finnast að hér sé um óskilda atvinnuvegi að ræða en í mínum huga og svo fjölmargra annarra, sem til þeirra þekkja, er svo alls ekki.  Í raun má segja að íslenskur landbúnaður og íslenskur sjávarútvegur séu systur af sama meiði.  Þetta voru og eru enn þeir grundvallartvinnuvegir sem íslenska þjóðin hefur lifað á frá því landnám hófst og staðreyndin er sú að án þeirra hefðu Íslendingar ekki komist af og risið upp í þær hæðir í samfélagi þjóðanna sem raun er á. 

Við frumstæð skilyrði og erfiðar aðstæður tæknilega séð og hvað veðráttu og önnur náttúruöfl varðar, börðust íslenskir sjómenn og íslenskir bændur – sem lengst af voru hinir sömu – við að brauðfæða þjóðina og afla henni tekna – og það tókst með þeim glæsilega árangri að í dag er litið til Íslands í leit að þekkingu og gæðaframleiðslu þessara atvinnuvega.

Við þekkjum það tilsvar þegar tekist hefur að sigrast á einhverju vandamáli að sagt sé: “Nú get ég”, og sannarlega er það svo að nú geta margir gert góða hluti og eru að gera góða hluti til hagsbóta fyrir land og þjóð.  Hlutur sjávarútvegs og landbúnaðar má hins vegar hvorki gleymast í þeirri umræðu né vera fyrir borð borinn. 

Breytingar hafa orðið miklar og við höfum borið gæfu til þess að fylgjast með þróuninni og taka upp ný vinnubrögð sem vissulega hafa kallað á miklar og oft og tíðum sársaukafullar aðgerðir hjá báðum þessum undirstöðuatvinnuvegum.  Báðir eiga það sameiginlegt að vera stundaðar af harðduglegu fólki um allt land og eru í raun undirstaða þess að allt landið er í byggð.  Að því vil ég stuðla áfram og leggja mitt að mörkum svo vel takist til. 

“En maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman.” Þar reynir líka á alla þá aðila sem vinna við og þjóna þessum atvinnuvegum á óbeinan hátt.  Nauðsynlegt er að efla þá og gera þeim kleift að sinna sínu hlutverki sem best.  Ein af þeim stofnunum landbúnaðarins sem miklu hlutverki hefur að gegna er einmitt Landbúnaðarstofnun.

Landbúnaðarstofnun hefur á sínu fyrsta starfsári lagt mikla áherslu á að skilgreina hlutverk sitt, setja fram greinargott yfirlit yfir verkefni og móta sér framtíðarsýn. Verkefnin eru fjölþætt og þegar gestir skoða húsnæði stofnunarinnar geta þeir séð hver þau eru. Hér liggur einnig frammi kynningarefni, sem fólk getur tekið með sér til nánari skoðunar.

Ég fagna því einnig að stofnunin hefur sett sér gildi, sem eiga að vera ráðandi í öllum störfum, en þau eru árvekni, framsækni, traust og gegnsæi. Í þessum gildum kemur m.a. fram að stofnunin skal nota upplýsingatækni til að leiðbeina viðskiptavinum sínum og til að tryggja þeim aðgang að nauðsynlegum gögnum. Heimasíða stofnunarinnar gegnir þar lykil hlutverki.

Það er mér sönn ánægja að opna hér í dag nýja heimasíðu Landbúnaðarstofnunar. Mikil vinna hefur verið lögð í hönnun síðunnar og þar má fá upplýsingar um verkefni og starfsemi Landbúnaðarstofnunar, ekki aðeins hér á aðalskrifstofu hennar á Selfossi, heldur einnig við umdæmisskrifstofur hennar um allt land. Markmiðið með nýrri heimasíðu er að viðskiptavinir geti með auðveldum hætti nálgast upplýsingar, nauðsynleg umsóknareyðublöð og önnur gögn sem varða hagsmuni og starfsemi þeirra. Í framtíðinni er einnig stefnt að rafrænum viðskiptum og að viðskiptavinir geti nálgast upplýsingar um stöðu mála sem eru til umfjöllunar hjá stofnuninni.

Ágæta samkoma.

Ég vil óska Landbúnaðarstofnun til hamingju með þennan mikilvæga áfanga í starfseminni, sem ég er fullviss um að mun eiga þátt í að bæta og auka samskipti stofnunarinnar, viðskiptavina og neytenda um allt land. 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta