Hoppa yfir valmynd
04. júní 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Sjómannadagurinn 3. júní 2007

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á sjómannadeginum 3. júní 2007 flutt á hátíðardagskrá í Reykjavík

 

Ágætu sjómenn, fjölskyldur sjómanna og aðrir þeir sem á mál mitt hlýða.

 

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur en um leið dagur þar sem sjómenn og aðrir Íslendingar stilla saman strengi sína og minna á það sem betur má fara í umhverfi okkar. Í raun og veru er sjómannadagurinn einstakur hátíðisdagur sem hafður er í hávegum um land allt. Víða í sjávarplássum ber hann hæst allra samkomudaga. Stundum má sjá tár á hvarmi þegar menn minnast liðinna atburða, kannski ljúfsárra, fara yfir söguna og þátttöku sjómanna í að afla lífsbjargarinnar, til heilla fyrir alla landsmenn.

 

En við gleðjumst líka og komum saman til þess að undirstrika mikilvægi starfa sjómanna, árétta stöðu fjölskyldna þeirra og draga fram þýðingu sjávarútvegsins fyrir þjóðarbú okkar.

 

Það er staðreynd að þótt allt velkist og breytist í samfélaginu þá gera menn sér enn grein fyrir þeirri grundvallarþýðingu sem sjávarútvegurinn hefur fyrir atvinnulífið í landinu, fyrir framvindu efnahagslífsins og hvernig þjóðinni vegnar í bráð og lengd.

 

Þrátt fyrir að æ minni hluti landsmanna starfi við sjávarútveg gera menn sér grein fyrir þýðingu atvinnugreinarinnar og þó að nýjar atvinnugreinar hafi orðið til getur enginn velkst í vafa um að sjávarútvegurinn er samt sem áður burðarstykkið sjálft.

 

Sjómannadagurinn er ekki síst mikilvægur til þess að árétta þessa staðreynd en einnig til þess að opna fólki í öðrum atvinnugreinum, sem hefur ekki daglegt samneyti við sjávarútveginn í störfum sínum eða tómstundum, leið að íslenskum sjávarútvegi og gera því grein fyrir stöðu hans og þýðingu.

 

Við Íslendingar erum þjóð sem eigum allt okkar undir því að vel takist til við nýtingu náttúruauðlinda. Það er ekki algengt að svo sé, sérstaklega ekki hjá þjóð sem býr við þau lífskjör sem við þekkjum hér á landi. Það segir okkur líka, hvílík ábyrgð er lögð á okkar herðar. Það að við höfumnáð  svo góðum árangri á efnahagssviðinu er til marks um að vel hefur verið að verki staðið í sjávarútvegi. Stærð sjávarútvegsins í efnahagskerfi okkar er slík að úrslitum ræður um velferð okkar sem þjóðar, hvort vel takist til í þessari undirstöðuatvinnugrein.

 

Þegar við mörkum stefnu okkar um nýtingu sjávarauðlinda markast það ekki einasta af  ábyrgð gagnvart okkur sjálfum sem nú erum ofar moldu, heldur fyrst og fremst gagnvart afkomendum okkar. Okkur ber að skila náttúruauðlindunum í að minnsta kosti jafn góðu ásigkomulagi og við tókum við þeim. Þetta er sjálfbær nýting auðlinda og augljós öllum sem starfa að sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Þessu gerir íslenska þjóðin sér grein fyrir því við ætlum ekki að byggja á sjávarútvegi eingöngu til skamms tíma. Þetta er atvinnugrein sem hér eftir sem hingað til verður burðarás og grundvöllur í efnahagslífinu. Þess vegna eru svo miklar skyldur lagðar á okkar herðar.

 

Frá ársbyrjun 2006 og allt fram á þetta ár voru  efnahagsleg skilyrði sjávarútvegsins almennt hagstæð. Fiskverð á erlendum mörkuðum hækkaði og lækkun á gengi krónunnar í upphafi síðasta árs jók tekjur sjávarútvegsins sem og annarra útflutningsgreina. Þetta stuðlaði síðan að hærra fiskverði hér á landi. Allt hefur þetta bætt kjör sjómanna svo óumdeilt er. En þessar aðstæður geta verið svipular eins og sjávaraflinn. Á erlendum mörkuðum hafa menn skynjað þrýsting til verðlækkana og gengi krónunnar er nú 12% óhagstæðara fyrir útflutningsreinarnar en það var við síðustu áramót. Þetta er vond og óæskileg þróun. Núverandi styrkur krónunnar er óhagstæður íslenskum sjávarútvegi og umfram það sem hægt er að búa við. Það er alveg ljóst að svona getur þetta ekki gengið til lengdar.  Hátt gengi stórskaðar útflutningsgreinar eins og sjávarútveginn og við getum ekki vænst þess að verðhækkanir í erlendri mynt bæti það upp.

 

Um þetta leyti á ári hverju birtast upplýsingar og ráðgjöf frá vísindamönnum okkar um stöðu fiskistofna. Það verður að segjast eins og er að nú síðustu árin hafa þær stöðugt valdið vonbrigðum þegar kemur að helsta nytjastofninum, þorskinum. Frá fiskveiðiárinu 2004 til 2005 hafa tillögur vísindamanna kveðið á um að minnka leyfilegan hámarksafla í þorski, sem vitaskuld hefur áhrif á stöðu og tekjur íslensks sjávarútvegs. Enn á ný hafa borist tíðindi í þessa veru því miður.

 

Mat Hafrannsóknastofnunar á þorskstofninum nú er í samræmi við það sem lesa mátti út úr niðurstöðum togararallsins fyrr á árinu og kemur þeim því ekki á óvart sem skoðuðu það. Í ástandsskýrslu síðasta árs var enn fremur hvatt til þess að verulega yrði dregið úr veiðiálagi á þorsk. Í  áliti Hafrannsóknarstofnunarinnar, er enn hert á því og lagðar fram beinar tillögur í því skyni.

 

Ég minni á að nú er í gildi svo kölluð aflaregla varðandi þorskinn og sem var staðfest á ríkisstjórnarfundi á síðasta ári.  Sú regla felur í sér að þorskkvóti yrði á þessu fiskveiðiári 178 þúsund tonn í stað þeirra 130 þúsund tonna sem tillaga Hafrannsóknarstofnunar felur í sér.

 

 

Það er ljóst að við stöndum  frammi fyrir erfiðum ákvörðunum sem liggja þurfa fyrir nú í sumar. Ég hygg að við þessar aðstæður sé skynsamlegast að við setjumst niður; hagsmunaaðilar, stjórnmálamenn úr öllum flokkum og vísindamenn og förum yfir þessi mál. Þetta er ekki ákvörðun sem rasað er að, þetta er ekki ákvörðun sem menn taka umhugsunarlaust. Þetta er ákvörðun sem í bráð hefur mikil áhrif á tekjur þeirra sem standa í sjávarútvegi. Þetta er ákvörðun sem hefur síðan áhrif  á stöðu þjóðarbúsins og atvinnustig og getur í lengd haft mikið að segja fyrir afkomu þjóðarinnar. Í því öllu saman felst okkar ábyrgð. Ég vil sérstaklega taka fram að ég hef hug á að eiga gott samstarf um þessi mál á þverpólitískum grundvelli og hyggst leita eftir því við forystumenn stjórnmálaflokkanna.

 

Í fyrra  fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu og skoða áhrif af mismunandi veiðihlutfalli á þorski. Niðurstaðna þeirrar vinnu, sem staðið hefur nú um eins árs skeið, er að vænta innan tíðar. Þá má gera ráð fyrir að mynd okkar af stöðunni liggi skýrar fyrir og hver áhrif mismunandi ákvarðana yrðu á þjóðarbúið, einstök byggðarlög, svæði og atvinnugreinar. Að fengnum þeim upplýsingum, sést betur sú heildarmynd sem nauðsynleg er. Það dugar ekki þegar ákvörðun af þessu tagi er tekin, að myndin sem við höfum sé brotakennd. Hún verður að vera heildstæð.

 

Ég hvet því til og óska eftir góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila og þá sem að þessari ákvörðun koma á komandi vikum. Ég lít ekki þannig á að þetta sé tími mikilla upphrópana eða sleggjudóma. Þetta er tími yfirvegaðrar yfirferðar þar sem við reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslensks sjávarútvegs og byggðanna sem eiga líf sitt undir öflugum sjávarútvegi. Og til lengri tíma litið vegna hagsmuna þess fólks - æskunnar - sem á að erfa landið.

 

Góðir sjómenn og aðrir tilheyrendur.

 

Við Íslendingar erum gæfurík þjóð, við erum sjálfstæð þjóð. Þær ákvarðanir sem við tökum um nýtingu okkar sjávarauðlinda, hverju nafni sem þær nefnast, eru okkar ákvarðanir. Í því hefur gæfa okkar falist. Við lifum á tímum þar sem margt breytist og þar sem við þurfum að taka tillit til hagsmunanna í kringum okkur. Við erum ekki eyland í þeim skilningi að ákvarðanir okkar mótist ekki af því sem gerist í umheiminum í kringum okkur. Engu að síður höfum við hið endanlega og fulla vald á þessum ákvörðunum.

 

Aðrar þjóðir sem afsalað hafa sér þessu valdi standa ekki í þessum sporum og hafa ekki einu sinni forsendur til þess að velta fyrir sér þeim spurningum sem lúta að nýtingu náttúruauðlindanna sjálfra. Þessu skulum við ekki gleyma og þetta þurfum við að hafa í huga nú þegar við tökumst á hendur vandasamt verk. En þetta þýðir líka að ábyrgðin er okkar. Við flytjum hana ekki á annarra herðar. Það erum við sem tökum afleiðingum gjörða okkar.

 

Góðir sjómenn.

 

Hlutverk ykkar og þýðing sjómannsstarfsins fyrir íslenskt þjóðarbú verður aldrei ofmetið. Þakklæti okkar, annarra Íslendinga, til sjómanna er því mikið. Á þessari hátíðarstundu ber okkur líka að hafa í huga hlut fjölskyldna ykkar, maka og barna sem á margan hátt er sérstakt, ekki hvað síst vegna fjarvistanna. Því miður hefur það ár sem liðið er frá síðasta sjómannadegi ekki liðið án sjóslysa. Enn höfum við því verið minnt á hættur hafsins. Þess vegna þarf öryggi sjómanna ætíð að vera forgangsmál. Um það er örugglega mikil sátt í samfélaginu.

 

 

Þegar hendir sorg við sjóinn

syrgir tregar þjóðin öll

 

Ég færi þeim sem eiga um sárt að binda vegna sjóslysa, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

 

Ég sagði í upphafi að þrátt fyrir að margt breyttist í okkar þjóðfélagi þá gerðu Íslendingar sér ennþá grein fyrir þýðingu sjómannsstarfsins. Þess vegna söfnumst við saman við hafnir og á bryggjum landsins til þess að fagna góðum degi, til þess að fagna sjómannadeginum.

 

Kæru  sjómenn og fjölskyldur: Til hamingju með sjómannadaginn.

Takk fyrir.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta