Hoppa yfir valmynd
03. september 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

40 ára afmæli Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, 31. ágúst 2007

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar, landbúnaðarráðherra í tilefni þess, flutt 31. ágúst 2007

 

Ágæta samkoma, heiðraði sendiherra Noregs - Margit Tveiten.

Til hamingju með daginn.

Við erum hingað saman komin til að fagna merkum áfanga í sögu íslenskrar skógræktar; 40 ár eru liðin frá því Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins hóf starfsemi sína hér á Mógilsá. Það er kunnara en frá þurfi að segja að rannsóknastöðin var þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga og ég get fullyrt að sú gjöf kom sér vel og hefur ávaxtað sitt pund ef svo má segja.

Rætur frændsemi og vináttu liggja djúpt og eru sterkar milli Noregs og Íslendinga, og þarf engan að undra; náskyldar þjóðir af sama uppruna og bú að sömu menningu.

Timbur, smíðavið og ýmsa verkkunnáttu er lýtur að nýtingu skógarafurða höfum við fengið frá Noregi og get ég m.a. nefnt að fjölmörg timburhús voru flutt tilhöggvin hingað til lands og prýða marga staði enn. Þá höfum við sótt ýmsa þekkingu er lýtur að skógrækt til Noregs og nægir þar að nefna fjölda Íslendinga sem stundað hafa skógræktarnám við Háskólann í Ási og komið þaðan fullnuma í fræðunum og nýtt þekkingu sína við íslenska skógrækt.

Norðmenn gerðu sér hins vegar grein fyrir því að þessi frændþjóð þeirra átti langt í land hvað skógrækt varðaði og að flest vantaði til að rækta mætti á Íslandi skóg með sæmilegu móti. Þótti þeim ráð að hlaupa undir bagga og gefa þessari skóglausu þjóð eitthvað sem um munaði svo að hún gæti orðið sæmilega bjargálna hvað þetta varðaði.

Það var sjálfur Ólafur V. Noregskonungur sem hingað kom færandi hendi fyrir 40 árum síðan og færði Íslendingum 1 milljón norskra króna sem þjóðargjöf frá Norðmönnum og skyldi gjöfinni vera ætlað að styrkja íslenska skógrækt og vera jafnframt sýnilegur minnisvarði til framtíðar um þessa höfðinglegu norsku þjóðargjöf.

Niðurstaðan varð sú að upp reis Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins hér á Mógilsá á Kjalarnesi, - á jörð sem var þá berangur einn. Breyting hefur orðið þar á eins og sjá má.

Ágæti sendiherra Noregs.

Enn leyfi ég mér fyrir hönd Íslendinga að flytja norsku þjóðinni kærar þakkir fyrir þeirra höfðinglegu gjöf.

Góðir gestir.

Ég ætla mér ekki að rekja frekar sögu Mógilsár undanfarin 40 ár, - til þess eru aðrir betur bærir. Hitt er mér ljóst, bæði nú og áður, hve þessi gjöf Norðmanna og það starf sem unnið hefur verið á Mógilsá hefur verið Íslendingum mikilvægt. Þekking sem þaðan er runnin, byggð á tilraunum og rannsóknum á skógi, hefur skipt sköpum fyrir allt skógræktarstarf Íslendinga.

Við skulum hafa í huga að ekki eru nema fáeinir áratugir síðan vafasamt var talið að hægt væri að rækta skóg á Íslandi og örfá ár síðan talið var að það yrði ekki gert nema á takmörkuðum svæðum landsins.

Allt er þetta breytt og nú vita menn að hægt er að rækta skóg á öllu landinu og sem meira er - með hreint ágætum árangri. Ég er þess fullviss að þessi nýja afstaða byggir ekki hvað síst á því þekkingarstarfi sem hér hefur verið unnið á Mógilsá.

Það er löngu vitað, að eigi atvinnuvegur eða hvaða framkvæmdir sem eru að takast vel, verður þekking og reynsla að vera til staðar. Íslensk skógrækt er ung að árum og kannanir hafa sýnt að hún nýtur velvildar hjá þjóðinni. Að sama skapi má fullyrða að þjóðin fylgist með árangrinum. Því er afar mikilvægt að við framkvæmdina sé vel að verki staðið; að valin séu rétt erfðaefni til ræktunar, að rétt sé að ræktun staðið og skóginum viðhaldið með réttum hætti. Það voru þessi sjónarmið sem réðu því að hér á Mógilsá var komið á fót rannsóknarstöð í skógrækt.

Málefni skógræktar hafa verið vistuð í landbúnaðarráðuneytinu frá því það tók til starfa og áður í atvinnumálaráðuneytinu. Nú er ljóst að það breytist eins og kunnugt er.

Mér er hér og nú skylt að nefna að þótt og þrátt fyrir að málaflokkurinn fari frá landbúnaðarráðuneytinu, að þá verði enn sem áður að vera mikil og góð samvinna milli íslensks landbúnaðar og íslenskra sveita við þá sem stjórna skógræktinni og þar með rannsóknum og tilraunum á hennar vegum.

Í fyrsta skipti má sjá vísi að því að skógræktin sé að verða atvinnugrein, - ný búgrein hér á landi. Hún sem slík verður að geta sótt sér þekkingu og það hlýtur að vera skylda þeirra sem yfir viskubrunninum ráða að gæta þess að þar sé jafnan eitthvað í að sækja fyrir þá sem þangað þurfa að leita.

Ágætu hátíðargestir.

Um leið og ég óska Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins til hamingju með 40 ára farsælt starf, leyfi ég mér að láta þá von í ljós að skógræktarrannsóknir megi áfram eflast og dafna og að þær skili áfram og enn frekar mikilvægum niðurstöðum til þeirra sem á þurfa að halda.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta