Kynningarfundur á Ísafirði um þorskeldi 26. september 2007
Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
á opnum kynningarfundi á Ísafirði um þorskeldi, 26. september 2007
Ágætu gestir.
Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri til að koma hingað og vera með ykkur og fá að heyra af eigin raun um stöðu fiskeldis hér á landi, sér í lagi á Vestfjörðum, enda hefur framþróunin í þorskeldi verið hvað mest hér á þessu svæði af landinu öllu.
Eldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur í rannsóknum og þróun á þessu sviði. Í þorskeldisrannsóknum hér á landi hefur verið unnið að því að seinka kynþroska þorsks eins og mögulegt er svo hann haldi áfram að stækka þannig að hægt verði að auka hagkvæmni í eldinu. Uppbygging þorskeldis á Íslandi í atvinnuskyni er mjög mikilvægt en um leið áhættusamt langtímaverkefni sem krefst samstillts átaks opinberra aðila og einkafyrirtækja.
Eitt af stóru verkefnum Matís eru eldisrannsóknir og þróun í eldi fyrir þorsk, bleikju og lúðu. Matís hefur á Vestfjörðum rannsakað leiðir til þess að tryggja að eldisþorskur nái sláturstærð á sem skemmstum tíma. Notuð eru sérhönnuð ljós fyrir sjókvíaeldi sem koma í veg fyrir að þorskurinn upplifi skammdegið, en þegar sumri fer að halla og sól lækkar á lofti fer þorskurinn að þroska með sér kynkirtla. Hann verður svo kynþroska að vori og hrygnir frá febrúar til maí.
Með því að hraða þróun í fiskeldi hér á landi er mögulegt að margfalda framleiðslugetu fyrir greinina, skapa aukin atvinnutækifæri víða um land og útvega gott hráefni fyrir kröfuharða markaði. Fram hefur komið hjá norskum prófessor að ekki sé hægt að ala þorsk fyrir sunnan Bergen í Noregi sem ætla má að gefi Íslandi aukið tækifæri á þessu sviði. Það er því ljóst að fiskeldi getur nýst afar vel við að byggja upp hagkvæma grein í íslenskum sjávarútvegi, ekki síst við firði á landsbyggðinni þar sem nægilegt rými er til staðar.
Við erum nú á þessum tímapunkti stödd á eins konar þröskuldi hvað þorskeldið áhrærir. Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíðina og hvert skuli stefna. Þrotlaus, kostnaðarsöm og þolinmóð vinna er að baki. Við höfum lært mikið og nú er komið að því að taka skrefin fram á við. Þótt öllum spurningunum hafi ekki verið svarað vitum við að það felast miklir möguleikar í þorskeldinu; möguleikar sem ég er ekki einn um að binda miklar vonir við.
En gáum að okkur. Mér finnst ég skynja núna dálítið svipaða umræðu um þorskeldið og í árdaga þeirrar atvinnustarfsemi. Gullgrafarastemninguna. Hún á lítinn rétt á sér. Þorskeldið krefst sem fyrr mikils fjármagns og þekkingar sem bara fæst af reynslu og með vísindalegri nálgun. Menn byggja ekki upp þorskeldi eins og hendi sé veifað. Það krefst allt annarra vinnubragða og gríðarlegrar ögunar. Það kennir okkur reynslan og er hún ekki alltaf ólygnust? Hér inni má finna menn með þessa miklu reynslu og þekkingu sem geta borið um allt þetta. Það er á grundvelli þeirrar reynslu sem ég held að við eigum að byggja okkar næstu skref. Og því tel ég að stjórnvöld eigi að styðja við slíka viðleitni af hálfu atvinnugreinarinnar sjálfrar, þar sem menn byggja á þeirri þekkingu sem hefur safnast upp innan fyrirtækjanna og í vísindasamfélaginu okkar.
Prokaria, sem er líftæknisvið Matís, hefur ennfremur unnið náið að eldisrannsóknum með því að rannsaka fiskafjölskyldur; skoða vöxt og kynþroska út frá erfðaefnum. Með slíkri aðferð er hægt að velja hvaða fjölskyldur henta best til eldis og býður þetta upp á ýmsa spennandi möguleika. Nú þegar er farið að selja slíkar rannsóknir erlendis, svo sem til Noregs.
Vonast er til þess að hægt verði að selja þessar rannsóknir víðar þegar fram líða stundir. Matís gerir sér ennfremur vonir um að notfæra þekkingu Prokaria, á sviði erfðatækni og erfðagreiningar, fyrir matvælaiðnaðinn í heild sinni. Þar eru því tækifæri til að tengja upplýsingar um samsetningu og innihald í matvælum við upplýsingar um neyslu matvæla.
AVS-sjóðnum er fátt óviðkomandi þegar kemur að uppbyggingu í sjávarútvegi, og er markvisst reynt að hafa fjölbreytnina að leiðarljósi og skapa ný tækifæri við hlið hefðbundinna greina. Þorskeldið hefur allt frá byrjun skipað veglegan sess hjá AVS, stutt af árlegri kvótaúthlutun til áframeldis á þorski. Þannig hefur fyrirtækjum gefist tækifæri til að öðlast reynslu, þekkingu og færni til að takast á við vaxandi atvinnugrein. AVS hefur einnig styrkt verkefni sem tengist kynbótum í þorskeldi. Þá hefur sjóðurinn átt þátt í að renna styrkari stoðum undir bleikjueldi þar sem hátt á annan tug milljóna er varið í markaðsátak fyrir bleikjuafurðir.
Árið 2007 er fimmta árið sem AVS úthlutar til rannsókna og þróunarverkefna í sjávarútvegi. Á þessum fimm árum hefur AVS-sjóðurinn veitt hátt á þriðja hundrað styrki að upphæð tæpar 900 milljónir kr. Er þetta innan við helmingur kostnaði þessara verkefna og því má fullyrða að AVS hefur gert það að verkum að unnin hafa verið rannsókna- og þróunarverkefni í íslenskum sjávarútvegi fyrir rúma 2 milljarða.
Langflest þessara verkefna eru samvinnuverkefni fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um allt land. Allnokkrir mastersnemar hafa tengst verkefnum AVS og innan skamms munu fyrstu doktorsnemarnir ljúka sínu námi sem byggt er að stórum hluta á verkefnum styrktum af AVS. Þannig hefur sjóðurinn náð að efla þekkingu og laða að nýja og velmenntaða sérfræðinga í sjávarútvegi.
Sjávarlíftækniverkefni hafa einnig verið á borði AVS ásamt fjölbreyttum verkefnum er tengjast hefðbundnum sjávarútvegi, svo sem veiðum og vinnslu og einnig eru nokkur verkefni styrkt sem taka á markaðssetningu nýrra og hefðbundinna afurða.
Sjávarútvegsfyrirtæki munu áfram gegna lykilhlutverki í uppbyggingu þorskeldis hér á landi á næstu árum en þó með aðkomu hins opinbera að nokkrum þáttum. Sem dæmi má nefna að veittur var beinn styrkur til uppbyggingar á kynbótafiski sem nemur 25 m.kr. á ári til Icecod í gegnum AVS.
Norðmenn hafa haft forystu í þorskeldi í heiminum og því er sérstaklega áhugavert að byggja upp markvisst samstarf við SINTEF sem er norsk tæknirannsóknastofnun í Þrándheimi. Það er ljóst að Norðmenn og Íslendingar geta lært mikið hvor af öðrum þar sem afkoma sjávarútvegs landanna byggist mjög mikið á þorski.
Ágætu gestir,
Eins og ég nefndi í upphafi leggur Matís mikla áherslu á nýsköpun, öflugt rannsókna- og þróunarstarf og verðmætasköpun. Þessi mikla þekking sem er til staðar hjá fyrirtækinu nýtist allri landsbyggðinni því Matís er staðsett á 7 stöðum víðs vegar um landið. Þá hefur verið lögð mikil áhersla á að fjölga sérfræðistörfum á landsbyggðinni, svo sem hér á Vestfjörðum. Fyrirtækið leggur ennfremur áherslu á að laða að erlenda aðila til landsins, eins og fulltrúa SINTEF hingað á Vestfirði, til þess að þróa alþjóðlegt samstarf enn frekar og efla þekkingu til hagsbóta fyrir svæðið.
Matís er því mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni til framtíðar og sem fyrr vænti ég mikils af starfinu.