Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva 28. september 2007
Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva 28. september 2007
Ágætu fundargestir.
Við erum hér stödd á aðalfundi Samtaka fiskvinnslunnar í skugga umtalsverðra uppsagna sem hafa átt sér stað í stórum fiskvinnslufyrirtækjum. Þær koma í kjölfar annarra uppsagna sem þegar hafa orðið í ýmsum fyrirtækjum, stórum og smáum, víða um landið. Minni aflaheimildir þýða einfaldlega að störfum fækkar jafnt til sjós og lands. Enginn sem hugsaði þau mál gekk þess dulinn að samdráttur aflaheimilda mundi leiða til minni atvinnusköpunar.
Enginn getur heldur á þessari stundu útilokað að til frekari uppsagna komi, því miður. Minni aflaheimildir þýða lægri tekjur útgerðar og fiskvinnslu, sjómanna og fiskverkunarfólks. Við þær aðstæður leita stjórnendur allra leiða til þess að draga úr kostnaði. Uppsagnir starfsfólks eru meðal þeirra úrræða, eins og við vitum. Þegar ríkisstjórnin kynnti, við ákvörðun aflaheimilda næsta árs, að ætlunin væri að leggja fram sérstakar tillögur til þess að bregðast við var það gert vegna þess að ljóst var að minni aflaheimildir leiddu til færri starfa í sjávarútvegi. Sagt hefur verið að slíkar aðgerðir hafi verið tilefnislausar vegna þess að heildarumsvifin í þjóðfélaginu séu svo mikil að engin þörf hafi verið á slíkum úrræðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Því er ég ósammála. Sannarlega er þensla víða í samfélaginu. En sú þensla er ekki í þeim byggðum sem háðastar eru þorskveiðum og vinnslu. Þar er þörf á atvinnusköpun eins og ég hygg að öllum sé ljóst sem þennan fund sitja.
Það er óhætt að segja að flest hafi breyst í starfsumhverfi fiskvinnslunnar frá því við hittumst hér um þetta leyti á síðasta ári. Þar ber auðvitað hæst ákvörðun mína og ríkisstjórnarinnar um heildarafla fyrir nýhafið fiskveiðiár.
Þegar litið er til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar annars vegar og ákvörðunar minnar hins vegar þá blasir við að tíðindalítið var varðandi flesta fiskistofnana. Þeim mun meiri tíðindi fólust hins vegar í niðustöðunni um okkar veigamestu nytjategund, þorskinum. Alvarleg viðvörunarljós voru kveikt í fyrra af hálfu Hafrannsóknastofnunarinnar. Kaus ég að undirbúa málið sem best með því m.a. að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skoða ýmsa þætti aflaákvörðunarinnar með hliðsjón af stöðu atvinnugreinanna, einstakra hluta sjávarútvegsins, sjávarútvegsbyggðanna og ýmsu öðru því sem mér fannst nauðsynlegt til þess að átta mig á þeirri heildarmynd sem liggja þyrfti fyrir áður en ákvörðun yrði tekin. Þetta fannst mér nauðsynlegt að gera. Aflaákvörðun er ekki bara ákvörðun sem er líffræðilegs eðlis. Hún hefur efnahagslegar afleiðingar; jafnt í bráð og lengd. Þess vegna var svo nauðsynlegt að kunna skil á hinum efnahagslegu og þar með rekstrarlegu afleiðingum ákvarðana varðandi heildaraflann.
Án þess að ég ætli að fara út í grundvallaratriðin í þeirri ákvörðun sem kunngerð var í byrjun júlímánaðar þá er mikilvægt að menn hafi aðalatriðin í huga sem eru þessi: Að mati vísindamanna okkar er viðmiðunarstofn þorsksins of lítill og nýliðun þorskstofnsins hefur ekki tekist sem skyldi það sem af er þessari öld.
Vandinn sem við glímum við í ljósi þessara upplýsinga er því vandi sem takast þarf á við í framtíðinni. Við vitum að aflabrögð voru góð en miðað við það mat sem fyrir liggur á stöðu einstakra árganga sem eiga að bera uppi veiðina á næstu árum þá var öllum ljóst að grípa þyrfti í taumana. Spurningin var eingöngu sú hversu langt ætti að ganga í þessum efnum og/eða hvort taka ætti ákvörðun um nægilega minnkun sóknarinnar í einum eða tveimur áföngum. Mín niðurstaða var sú sem ríkisstjórnin var sammála um og við kunngerðum í byrjun júlí.
Mér er mætavel ljóst hvaða afleiðingar slíkt mun hafa og ríkisstjórnin hefur kynnt í þessu sambandi ýmsar mótvægisaðgerðir til að bregðast við. Um þær aðgerðir eru vitaskuld skiptar skoðanir. Telja sumir að slíkar aðgerðir séu óþarfar, til marks um eyðslu úr ríkissjóði og til skaða fyrir efnahagslífið, en aðrir að ekki sé nóg að gert. Um það mál ætla ég hins vegar ekki að fjölyrða hér og nú.
Á þessum vettvangi langar mig hins vegar til að reyna að átta mig á, reifa og deila með ykkur skoðunum á hver áhrif þorskaflaskerðingarinnar kunna að verða á markaðinn fyrir íslenskan fisk og þá einkanlega þorskinn, á næstu misserum. Frá markaðslegu sjónarmiði þá stöndum við sem betur fer vel hvað snertir sölu á okkar þorskafurðum. Verðið hefur hækkað og að nokkru vegið upp það óhagræði sem greinin hefur búið við undanfarið vegna allt of sterkrar íslenskrar krónu. Þetta er afskaplega mikilvægt og hefur fleytt sjávarútveginum í raun í gegn um öldudal gengisbrælunnar sem við höfum upplifað.
Það þarf ekki að hitta að máli marga kaupendur að íslenskum fiski til að skynja að áhugi á verslun með íslenskan fisk er mjög mikill víða. Það álit og það orðspor sem við höfum notið undanfarin ár vinnur þar með okkur. Ég skal játa að stundum hefur mér fundist nóg um þegar ég hitti fulltrúa kaupenda á erlendum mörkuðum, stjórnmálamenn og starfsbræður mína í öðrum löndum sem ljúka miklu lofsorði á það sem við höfum gert í íslenskum sjávarútvegi. Fjarri er það mér að gera lítið úr þeim árangri sem við höfum náð en stundum finnst mér að menn hafi full gyllta mynd af því sem gerst hefur í okkar góðu atvinnugrein.
Engu að síður er það svo að í samanburði við mjög margar aðrar þjóðir hefur árangur Íslendinga verið afar góður. Margar þjóðir hafa mátt búa við algeran brest í sínum helstu nytjastofnum, sem ekki hefur tekist að laga og árangurinn í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja víða um lönd hefur ekki verið góður miðað við það sem við þekkjum hér á landi. Fyrir vikið hafa mjög margir sóst eftir fjármagni og sérfræðiþekkingu Íslendinga inn í sinn sjávarútveg. Íslenskur sjávarútvegur og afurðir hans er í raun og veru gæðastimpill, sem fullt mark er tekið á.
Það skiptir auðvitað miklu máli að varðveita okkar góða orðspor. Við vitum líka að það getur verið auðvelt að tapa því á skömmum tíma en tekur langan tíma að byggja það upp. Orðspor okkar hefur ekki síst markast á því að menn telja að við göngum af ábyrgð um íslensku fiskveiðilögsöguna. Og sú er líka raunin.
Nákvæmlega hið sama gildir vitaskuld um markaðinn fyrir okkar afurðir. Hann hefur byggst upp á löngum tíma. Markaðsaðstæður hafa upp á síðkastið verið okkur hagstæðar af ýmsum ástæðum og þess vegna skiptir miklu máli að geta uppfyllt þarfir viðskiptavinanna. Ella er hættan auðvitað sú að aðrir leysi okkur af hólmi.
Skammtímavandinn getur orðið ýmiss konar á erlendum mörkuðum. Það er auðvitað ljóst mál að sú ákvörðun að draga úr þorskaflaheimildunum um þriðjung getur valdið erfiðleikum á mörkuðum okkar. Ýmsir fiskverkendur munu standa frammi fyrir því að geta ekki uppfyllt þarfir sinna viðskiptavina. Það er vandi til skemmri tíma sem getur hins vegar orðið lengri tíma vandamál ef ekki er gætt að. Þetta viðfangsefni er hins vegar hrein hátíð hjá þeim ógöngum sem við myndum rata í ef þorskstofninn stækkaði ekki. Við eigum því mikið undir því að vel takist til með stækkun þorskstofnsins á komandi árum.
Stóra málið er því að úr rætist og framundan sé aukið framboð með stækkandi veiðistofnum. Við skulum þó ekki gera okkur í hugarlund að sú breyting gerist á einni nóttu eða með einhverjum ógnar hraða. Vonirnar standa fyrst og fremst til þess að það takist að byggja upp þorskstofninn þannig að á komandi árum verði hann öflugur.
Ég legg hins vegar áherslu á að staðan var auðvitað ekki sú að þorskstofninn hafi verið í útrýmingarhættu á því tímabili sem ákvörðunin var tekin. Hún var tekin fyrst og fremst með framtíðarhagsmuni að leiðarljósi og til að tryggja að ekki þyrfti að grípa til enn erfiðari aðgerða síðar. Þetta var rökrétt skref í ljósi þess sem við höfum sjálf talað fyrir á alþjóðlegum vettvangi.
Það var því ekki af einhverri meinbægni sem ég ákvað að fara með heildarafla í þorski ofan í 130 þúsund tonn, eins og mér finnst stundum mega skilja af umræðunni. Þvert á móti varð það niðurstaðan að þessi leið væri hagfelldari fyrir sjávarútveginn þótt vissulega væri hún erfið. Lítilsháttar en viðvarandi niðurskurður aflaheimilda á næstu árum, sem var hinn kosturinn, hefði að mínu mati verið miklu verri kostur fyrir atvinnugreinina.
-----
Ágætu gestir.
Í byrjun júní sótti ég fund í Lundúnum þar sem saman voru komnir fulltrúar margra helstu kaupenda íslenskra sjávarafurða í Bretlandi. Fundurinn var haldinn til að kynna íslenska fiskveiðistjórn og auðlindanýtingu. Frumkvæði að fundinum hafði LÍÚ og að honum komu helstu markaðsaðilar okkar í Bretlandi og sendiráð okkar þar í landi. Þetta var fáeinum dögum eftir að Hafrannsóknastofnunin kynnti ráðgjöf sína og greindi Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs frá niðurstöðunum, jafnframt því sem Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur LÍÚ flutti erindi og ég ávarp.
Það vakti athygli mína á þessum fundi hve kaupendur spurðu ákveðið um hver yrðu viðbrögð mín við tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ekki leyndi sér hvar áhersla þeirra lá. Þeir vitnuðu til þess orðspors sem við Íslendingar nytum á alþjóðlegum vettvangi vegna auðlindanýtingar okkar og létu í ljósi að ákvörðunin nú gæti orðið nokkur prófsteinn á trúverðugleika okkar.
Minnugur þessa, sendi ég fundarmönnum bréf þar sem aflaákvörðunin var tíunduð og það álit mitt að þetta væri íslenskum sjávarútvegi fyrir bestu – til lengri tíma litið.
Það er skemmst frá því að segja að viðbrögð þeirra sem sent hafa svarbréf eru öll á sömu lund. Bréfritarar lýsa einróma stuðningi við ákvörðunina. Hún hafi verið sú eina rétta í stöðunni, framtakið sé lofsvert, öðrum til eftirbreytni og auki hróður Íslands sem leiðandi þjóðar á þessu sviði.
Kaupendurnir sjá vitaskuld einnig annmarka á þessu fyrir sitt leyti. Þeir draga fram vandamálin sem verða samfara því að framboðið minnkar. Og enn frekar láta þeir í ljós áhyggjur af því að vegna meiri samkeppni um minni fisk hækki verðið. Við kvörtum auðvitað ekki yfir hærra fiskverði en þó verður að gæta þess að boginn verði ekki spenntur um of og íslenskur fiskur verðlagður út af markaðnum. Við þekkjum það að of mikil og skyndileg verðhækkun getur hefnt sín, þótt síðar sé. Það getur verið erfitt og jafnvel ógjörningur í sumum tilfellum að endurheimta tapaðan markað eða markaðshlutdeild. En þrátt fyrir að kaupendurnir sjái fram á að verð hækki þá lýstu þeir því samt sem áður yfir að vegna þessarar ábyrgu afstöðu til nýtingar auðlindarinnar hyggðust þeir enn frekar en áður kaupa þorsk héðan.
Eins og gefur að skilja gæti þó verið annmörkum háð fyrir þá að kaupa meira en áður en þetta eru auðvitað ánægjuleg tíðindi. Ég tel að í þessu geti því falist markaðsleg tækifæri. Við hljótum að hamra á þessum þáttum, ekki síst í ljósi yfirlýsts vilja flestra helstu kaupenda okkar að vita um uppruna fisksins til þess að geta borið þær upplýsingar á borð fyrir viðskiptavini sína. Þetta sýnir líka hvert lykilatriði það er að gæta að og verja það góða orðspor sem íslenskur sjávarútvegur nýtur og að hingað sé litið til fyrirmyndar að sjálfbærri og ábyrgri nýtingu auðlindarinnar.
Í samhengi við þetta liggur beint við að víkja að umhverfisyfirlýsingunni um íslenskar fiskveiðar sem kynnt var í byrjun ágúst. Krafa markaðarins um upplýsingar um hvernig staðið er að veiðum nytjastofna eykst stöðugt. Við höfum ekki farið varhluta af þrýstingi á að íslenskar sjávarafurðir verði merktar sérstaklega, til staðfestingar því að nýting fiskistofnanna sé með ábyrgum hætti og í samræmi við afrakstursgetu þeirra. Við þessu varð að bregðast til að tryggja áfram öndvegissess íslenskra afurða.
Fiskifélag Íslands hefur í samstarfi við aðildarfélög sín unnið að því að mæta þessum kröfum. Fyrsta skrefið er yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar þar sem gengið var út frá því að hugtakið „íslensk fiskveiðistjórnun“ hefði jákvætt gildi í hugum þeirra sem kynnt hafa sér sjávarútveg. Með umhverfisyfirlýsingunni lýsa ábyrgir aðilar innan sjávarútvegsins, sem fást við stjórnsýslu, rannsóknir og starfa innan greinarinnar hvernig íslensk fiskveiðistjórnun virkar.
Fiskifélagið hefur í framhaldinu unnið frekar í þessum málum og mun vonandi fyrir árslok hafa tilbúna staðla, sem gera framleiðendum sjávarafurða kleift að fá vottað af óháðum aðila að sú afurð, sem boðin er til sölu hafi verið unnin úr hráefni, sem aflað hefur verið undir íslenskri fiskveiðistjórnun. Vottun af þessu tagi myndi vera stórt skref fram á við til þess að fullnægja þeim kröfum sem nú eru uppi á mörkuðum sjávarafurða. Í kjölfarið gætu framleiðendur svo fengið að nota sérstakt merki á afurðir sínar til staðfestingar því að þeim skilyrðum sé fullnægt.
Yfirlýsingin er undirbúningur fyrir þetta vottaða ferli og fyrst og fremst gerð í þeim tilgangi að árétta að við Íslendingar stundum ábyrgar veiðar. Víða er höndlað með fisk sem er ólöglega veiddur eða veiddur úr stofnum sem eru ofnýttir. Kaupendur krefjast því í vaxandi mæli upplýsinga um uppruna vöru og því er mikill styrkur fyrir greinina að geta lagt þetta fram.
Umhverfisyfirlýsingin hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis sem og hér heima og viðbrögðin við henni verið góð. Hún er samin á ensku og í kjölfar mikils áhuga ytra hefur hún verið þýdd bæði á frönsku og þýsku og er innan skamms einnig væntanleg á spænsku.
-----------
Góðir fundarmenn.
Eins og kunnugt er tók Matís - Matvælarannsóknir Íslands til starfa í upphafi þessa árs. Þar sameinuðust þrjár einingar sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og -þróun og úr varð öflugt nýsköpunar- og rannsóknafyrirtæki. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbærni umhverfisins.
Helstu markmið Matís eru að stuðla að nýsköpun og öryggi í matvælaiðnaði, stunda öflugt rannsókna- og þróunarstarf, auka verðmætasköpun og efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi. Höfuðáhersla fyrirtækisins er að sinna arðvænlegum rannsóknaverkefnum í samvinnu við atvinnulífið.
Gott dæmi um nýsköpunarverkefni sem getur leitt til aukinnar samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs er rannsókn á mismunandi nýtingu flaka eftir veiðisvæðum. Í ljós hefur komið að nýting flaks af þorski sem er veiddur út af Suðausturlandi er t.d. betri heldur en af þorski sem er veiddur út af Norðurlandi. Þá nýtast flök betur frá júní til ágúst en aðra ársfjórðunga. Þetta er samstarfsverkefni Matís og nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja sem eflaust eiga eftir að njóta góðs af niðurstöðunum.
Eitt af stóru verkefnum Matís eru eldisrannsóknir á þorski, bleikju og lúðu. Eldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur á þessu sviði. Ljóst er að fiskeldi getur, ef rétt er að málum staðið, orðið mikill vaxtarbroddur hérlendis. Með því að hraða þróuninni væri hægt að margfalda framleiðslugetu greinarinnar, skapa aukin atvinnutækifæri víða um land og útvega gott hráefni fyrir kröfuharða markaði. En ég ítreka viðvörunarorð sem ég hafði uppi á fundi á Ísafirði í fyrradag og vara við gullgrafarstemningu í tengslum við þorskeldið. Við eigum að taka næstu skref á grundvelli reynslu frumkvöðlanna og þeirri þekkingu sem þeir og vísindasamfélagið búa yfir.
Matís sinnir ekki bara nýsköpunarstarfsemi heldur annast fyrirtækið einnig vöktun á lífríki hafsins umhverfis Ísland. Slíkar rannsóknir skipta miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum og gera okkur kleift að sýna fram á að veiðar fari fram í ómenguðu umhverfi. Ágætt dæmi um rannsókn af þessum toga er skýrsla Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þar kemur fram að mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum.
Með stofnun Matís er búið er að sameina öflugar einingar í framsækið rannsókna- og nýsköpunarfyrirtæki og hefur sú sameining tekist vel. Fyrirtækið er með starfsemi á sjö stöðum víðs vegar um landið og er þar af leiðandi mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Ég horfi bjartsýnn til framtíðar fyrir hönd Matís og vænti mikils af starfseminni í bráð og lengd.
-----------
Góðir áheyrendur.
Það má heita orðið árvisst og er reyndar sennilega tíðara, að umræður hefjiast hér á landi um kosti og galla þess að leggja niður íslensku krónuna. Um það snýst sú umræða sem hefur það að leiðarljósi að taka upp evruna, þ.e. að kasta krónunni. Þetta er ekki ný umræða og þess vegna finnst mér það hlálegt en um leið ergilegt, að hlusta á þegar menn tala með þeim hætti að nú þurfi að hefja upplýsta umræðu. Vita menn ekki að umræða um Evrópumál hefur staðið linnulítið um margra ára skeið? Muna menn ekki umræðuna um EES-samninginn og hafa menn ekki tekið eftir því að þessi Evrópuumræða hefur verið mjög áberandi af hálfu stjórnmálamanna, álitsgjafa í fjölmiðlum og hinna svokölluðu talandi stétta í þjóðfélaginu? Almenningur hefur aftur á móti minni áhuga á þessu tali. Þetta er hins vegar spennandi umræða og sannarlega skiptir hún máli.
Ég fullyrði hins vegar að um fá mál hefur jafnmikið verið rætt og ritað eins og Evrópumálin og flesta anga þeirra. Sjálfur sat ég í nefnd sem forsætisráðherra skipaði um Evrópumálefni og skilaði viðamikilli skýrslu rétt fyrir síðustu alþingiskosningar. Í upphafi þess verks reyndum við að átta okkur á umfangi umfjöllunar um þessi mál það sem af væri og þá kom í ljós að stórir staflar af skýrslum höfðu safnast upp á nokkrum síðustu árum.
Það er því ekki svo að umfjöllun hafi skort. Hitt er annað mál að umræðan um að kasta íslensku krónunni hefur oftar en ekki einkennst af einhverri óskhyggju um að það kynni að leysa öll heimsins vandamál. Vöruverð hér myndi lækka, draga úr gengissveiflum og betri skilyrði skapast fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta er óskapleg einföldun á flóknum veruleika. Ég held að flestir þeir sem rætt hafa þessi mál við fólk frá löndum sem horfið hafa frá eigin mynt þekki að víðast hvar hefur það leitt til tímabundinna verðhækkana, að minnsta kosti að mati almennings.
Það er líka þannig að hagstjórnarvandinn verður ekki úr sögunni við að leggja krónuna af. Þótt margir telji að með upptöku evru eða annars gjaldmiðils hér á landi yrði gengissveiflum útrýmt að mestu leyti, þá er það ekki svo að allir séu á eitt sáttir um það. Við skulum ekki gleyma því að jafnvel stór myntsambönd eins og evran og eins og bandaríkjadalur hafa sveiflast gegnum tíðina og fyrir því gefst engin trygging að þannig verði það ekki líka í framtíðinni. Það eru því á ferðinni ýmiss konar falsrök þegar rætt er um kosti og galla evrunnar. Hinu er þó ekki að neita að það er hægt að færa tiltekin rök fyrir upptöku evru sem enginn sem vill láta taka sig alvarlega í þessari umræðu lítur framhjá. Þau rök eru m.a. tíunduð rækilega í skýrslu Evrópustefnunefndar og nægir að vísa til þess. Það eru hins vegar líka á því mjög veigamiklir gallar sem menn verða að horfast í augu við. Þeir eru fyrst og fremst að með því afsölum við okkur hagstjórnartæki sem getur skipt miklu máli. Síðan er hitt að hagsveiflur hér á landi eru ekki endilega í takt við hagsveiflur á því myntsvæði sem við kynnum að vilja taka okkur bólfestu.
Það er því ljóst að mikið misgengi og erfiðleikar gætu orðið hér í efnahagsstjórn ef við værum hluti af myntbandalagi þar sem gangur efnahagslífsins væri annar en hér á landi. Það er t.a.m. ljóst að á undanförnum mánuðum hefðum við orðið að beita gríðarlega hörðum aðgerðum í ríkisfjármálum ef við hefðum starfað innan Evrópumyntarinnar, evrunnar. Við hefðum örugglega orðið að draga mjög úr útgjöldum ríkisins til að minnka þensluna hér innanlands sem hefði trúlegast haft áhrif á atvinnustig, laun opinberra starfsmanna og þjónustu hins opinbera með einhverjum hætti.
Þetta er hin pólitíski veruleiki sem menn verða auðvitað að horfast í augu við. Það er ljóst mál að með því að varpa fyrir róða þeim hagstjórnartækjum sem íslenski Seðlabankinn hefur yfir að ráða þyrftum við að beita þeim sem eftir stæðu með óbilgjarnari og afdráttarlausari hætti en áður.
Ég skil vel að ýmsir hafi efasemdir um íslensku krónuna þótt ég hafi þær ekki. En það er ljóst mál að menn verða að vanda sig við röksemdafærsluna þegar fjallað er um svo alvarlegan hlut og þvílíkt grundvallaratriði sem staða íslenska gjaldmiðilsins er. Menn taka ekki ákvarðanir á grundvelli falsraka. Menn breyta ekki um kúrs í þessum efnum á grundvelli upplýsinga sem ekki standast. Í þessari umræðu er vandasamt að taka þátt og hún krefst mikillar þekkingar og yfirvegaðrar afstöðu.
Ég hef tekið eftir því að forsvarsmenn stórra fyrirtækja hafa talað um nauðsyn þess að hverfa frá íslensku krónunni í sínum rekstri. Það er ákvörðun fyrirtækja og getur vel sýnst eðlileg út frá þeirra sjónarhóli, um það dæmi ég ekki. Fyrirtæki sem sækir sínar tekjur og hefur sín umsvif á erlendum vettvangi getur þess vegna talið að sér henti að slíta frekar tengslin við Ísland og er það auðvitað ákvörðun stjórnenda viðkomandi fyrirtækja. Það er að mínu mati hins vegar ekki rök fyrir því að íslenska þjóðin varpi frá sér sínum eigin gjaldmiðli.
Og má ég svo bæta enn einu við, sem mér finnst stundum gleymast, ef til vill vegna þess að velgengnin hefur byrgt mönnum einhverja sýn.
Það er ástæða til þess að undirstrika að styrkur fjármálastofnana okkar ræðst meðal annars af því efnahagsumhverfi sem þær starfa í. Því þótt bankarnir hafi eflst mjög á eigin forsendum með útrás, nýbreytni og fleiri stoðum undir reksturinn, er ljóst að eitt og sér dygði það ekki.
Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbanka Íslands víkur meðal annars að þessu í viðtali við Fréttablaðið 25. febrúar sl. Þar segir hann:
„Það kemur nú bönkunum til góða hversu mikilvægir þeir eru í íslensku efnahagskerfi í heild sinni og hvaða þýðingu þeir hafa í greiðslumiðlunarkerfi landsins. Moodys lítur meðal annars á það sem styrk að þeir skuli vera staðsettir í ríki þar sem seðlabanki fari með prentunarvald, það er eigin mynt.“
Þetta er athyglisvert og verðskuldar að á það sé bent. Gagnstætt því sem ýmsir hafa sagt þá felst styrkleiki í íslensku krónunni. Hér ekki vísað í pólitískt mat, heldur mat alþjóðlegs matsfyrirtækis, sem nýtur slíks álits að skoðanir þess ráða lánshæfi banka, fjármálastofnana og heilla þjóðríkja. Eftir þessu ber því að hlusta og þessa staðreynd ber að undirstrika.
Góðir fundarmenn.
Það er vandi að stýra íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum við þær aðstæður sem nú eru. Mikil ferð er á efnahagslífinu, uppbygging á fjölmörgum sviðum og samkeppni hörð um fólk og fjármagn. Sjávarútvegurinn hefur úr minna hráefni að moða almennt vegna þorskaflaniðurskurðarins. Við höfum hins vegar séð hvernig stjórnendur greinarinnar hafa náð þeim ævintýralega árangri að búa til meiri verðmæti úr minna hráefni. Markaðsaðstæður eru okkur hagfelldar, kunnátta og þekking starfsfólks og stjórnenda er ótvíræð. Það er því mín trú að upp úr þessum öldudal muni okkur takast að sigla, þótt vænta megi ágjafar. Trú mín á íslenskan sjávarútveg og það fólk sem þar starfar er því sem fyrr algjörlega óbilandi.