Hoppa yfir valmynd
18. október 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðafundur Landssambands smábátaeigenda 18. október 2007

Ræða Einars Kristins Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda á Grand Hóteli 18. okt. 2007

Ágætu smábátasjómenn.

 

Það eru gamalkunn sannindi sem minna á sig æ ofan í æ að veður getur skipast skjótt í lofti. Ég held að menn geti verið tiltölulega sammála um að harðvítugar deilur um sjávarútvegsmál voru farnar að minnka hér á landi allra síðustu ár frá því sem áður var. Þetta var athyglisverð og góð þróun. Í stað þess að deila eingöngu horfðu menn fram á veginn og einblíndu á tækifærin sem felast í þessum grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Umræðan var ekki jafn stríð og heiftúðleg. Sjávarútvegurinn verðskuldar að rætt sé um þau merkilegu viðfangsefni sem fengist er við innan greinarinnar, bæði í stórum fyrirtækjum og smáum, jafnt í útgerð sem fiskvinnslu, við markaðssetningu úti í hinum stóra heimi og þannig mætti áfram telja.

 

Ég tel að sjávarútvegurinn hafi um alllangt skeið liðið fyrir hina neikvæðu umræðu. Það er ekki dregin upp mynd af áhugaverðri atvinnugrein þar sem ungt fólk gæti haslað sér völl. Þetta hefur verið til trafala fyrir sjávarútveginn og þess vegna var ástæða til að fagna því að umræðan skuli hafa verið farin að snúast á aðra vegu. Því er hins vegar ekki að neita að á ný hefur brugðið í aðra átt. Ástæðan er einföld. Við stóðum frammi fyrir því rétt fyrir sjómannadag á þessu ári að okkar helsta vísindastofnun á sviði fiskveiðiráðgjafar, Hafrannsóknastofnunin, lagði til þriðjungs samdrátt í veiðum á okkar mikilvægasta nytjastofni – þorskinum.

 

Þessi bitri veruleiki sem við mönnum blasti hafði vitaskuld áhrif á umræðuna um sjávarútvegsmálin. Ég vil árétta að það er ekki ástæða til að kvarta undan umræðunni. Umræða um grundvallaratriði í sjávarútvegsmálum er nauðsynleg, óhjákvæmileg og forsenda þess að við getum leitt fram skynsamlega niðurstöðu. Það er þó ástæða til að hvetja til þess að umræðan sé málefnaleg og hafi það að markmiði að skila niðurstöðu til hagsbóta fyrir okkur öll.

 

Í sjálfu sér kom ekki á óvart að stofnunin teldi að staða þorskstofnsins hér við land væri ekki jafn góð og æskilegt væri. Í ástandsskýrslunni frá því í fyrra voru kveikt viðvörunarljós, sem við hlutum að taka alvarlega. Ég gerði það að minnsta kosti. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem út kom á síðasta ári voru stjórnvöld hvött til þess að setja  sér markmið við endurreisn þorskstofnsins og dragi úr afla næstu árin svo hrygningarstofninn  nái að vaxa í þá stærð sem gefur langtímaafrakstur, 350 til 400 þúsund tonn. Var í því sambandi bent á nokkrar leiðir að þessu setta marki.

 

Mín niðurstaða þá var hins vegar sú að ég hefði ekki fullnægjandi forsendur til að taka afstöðu til þessara ábendinga Hafrannsóknastofnunarinnar eins og málum var háttað á þeim tíma. Þetta þyrfti að skoða í víðtækara samhengi. Því fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að leggja mat á málið til að reyna að glöggva okkur á því hverjar yrðu afleiðingarnar af mismunandi aflaákvörðun fyrir byggðir, fyrir útgerðarflokka og fyrir sjávarútveginn í heild - auk hinna þjóðhagslegu áhrifa að öðru leyti. Þessar upplýsingar lágu fyrir þegar leið á síðasta júnímánuð. Þær ásamt ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar voru grundvöllur þeirrar umræðu sem ég átti síðan við hagsmunaaðila og fjölmarga aðra á síðastliðnu sumri.

 

Niðurstaðan varð sú sem allir þekkja. Menn hafa sagt við mig að ég hafi með því horfið frá hugmyndafræðinni um fiskifræði sjómannsins. Það er rangt.

Fiskifræði sjómannsins er hins vegar ekki alveg réttnefni. Það er eðlilegra að kalla þetta fiskifræði sjómannanna vegna þess að þær skoðanir sem koma fram þeirra á meðal eru svo misjafnar. Þær hins vegar skipta miklu máli. En að lokum hlýtur ákvörðunin að hvíla á herðum sjávarútvegsráðherra hverju sinni sem hann tekur svo með stuðningi ríkisstjórnarinnar.

 

Við höfum byggt á svokallaðri aflareglu undanfarin ár. Ég breytti henni nokkuð í fyrra í átt við það sem lagt hafði verið til af sérfræðingum, þó að ákvörðunin um að draga úr veiðihlutfallinu hafi ekki verið tekin þá. Nú fól ákvörðunin það í sér að við festum sem lágmark tiltekinn heildarafla um tveggja ára skeið. Með öðrum orðum: Við vitum að þorskaflinn á þessu og næsta fiskveiðiári fer ekki niður fyrir 130 þúsund tonn. Það er ljóst að hefði ég kosið einhvers konar millilendingu hefði verið útilokað að festa lágmarksaflamark til tveggja ára. Árgangaskipting þorskstofnsins eins og hún mælist í stofnstærðarmælingum, hefði ekki gefið neitt tilefni til slíks. Þvert á móti. Himinhrópandi líkur eru á því, að tillaga næsta fiskveiðiárs hefði þá falið í sér frekari niðurskurð.

 

En hverjar eru ástæður þess að við minnkuðum heildaraflann svo mikið nú? Þær eru í meginatriðum þrenns konar: Í fyrsta lagi er það niðurstaða Hafrannsóknastofnunarinnar að stærð veiðistofnsins sé nú metin nálægt sögulegu lágmarki. Í öðru lagi er stærð hrygningarstofnsins aðeins helmingur þess sem talið er að gefi hámarksafrakstur. Og í þriðja lagi þá hefur nýliðun síðustu sex ára verið slök og meðalþyngd allra aldurshópa er í sögulegu lágmarki. Loks má nefna atriði sem miklu máli skiptir. Því miður er stærsti fiskurinn í veiðistofninum nú aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var, t.d. ef skoðað er 20 ár aftur í tímann. Allt eru þetta alvarleg mál.

 

Fjarri er það mér að halda því fram að þorskstofninn okkar hafi verið að hruni kominn. Það er nefnilega kjarni málsins. Við áttum val. Sú leið að fara sér hægar var sannarlega til staðar, en að mínu mati hefði hún skaðað sjávarútveginn til lengri tíma litið og því kaus ég að fara þá leið sem allir þekkja. Veit ég vel að í hópi smábátaútgerðarmanna, eins og margra annarra, er óánægja með þessa ákvörðun mína. Margir töldu að eðlilegt væri að kæra sig kollóttan um tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar og gera ekkert með þær. Það var hin opinbera afstaða Landssambands smábátaeigenda.

 

Ég get vel skilið að um tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar séu skiptar skoðanir. Hafrannsóknir eru afskaplega vandasöm vísindi og vitaskuld eru þar mikil skekkjumörk. Það sjáum við t.d. á því að Hafrannsóknastofnunin hefur nú árum saman að eigin mati ofmetið stærð þorskstofnsins. Það er hins vegar mat margra starfandi sjómanna nú að stofnunin vanmeti stofninn svo um muni. Vonandi hafa sjómennirnir á réttu að standa. Vonandi er staða þorskstofnsins betri en Hafrannsóknastofnunin telur. Það mun þá koma fram í endurmati á stofninum.

 

Ég verð hins vegar viðurkenna og segja hér hreinskilnislega að það stofnstærðarmat sem Landssamband smábátaeigenda leggur til grundvallar því að fara nær 100 þúsund tonnum fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar finnst mér afskaplega ótrúverðugt. Því þótt skekkja kunni að vera til staðar og sé sannarlega til staðar í stofnstærðarmatinu sjálfu, þá trúi ég því ekki að sú skekkja nemi slíku magni að það réttlæti að fara tæplega 100 þúsund tonnum fram úr ráðleggingum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég er því ósammála tillögu Landssambands smábátaeigenda. Reyndar höfðu allir aðrir hagsmunaaðilar hugmyndir um heildaraflamark sem var mun lægra og fól í sér niðurskurð sem um munaði í langflestum tilvikum.

 

Ríkisstjórnin gerði sér afskaplega vel grein fyrir því að afleiðingar svo mikils niðurskurðar yrðu neikvæðar fyrir byggðir sem háðar eru sjávarútvegi og þá sem starfa við greinina. Auðvitað er þetta áfall fyrir þjóðarbúið í heild, en það áfall er samt hjóm miðað við þær byrðar sem sjávarútvegssamfélögin, fyrirtæki í sjávarútvegi og starfsfólk þeirra þurfa að bera vegna minnkandi aflaheimilda í þorski.

 

Enginn skyldi leyfa sér að gera lítið úr því. Mér er a.m.k. afskaplega vel ljóst hvaða afleiðingar þetta hefur og því hlaut þessi ákvörðun mín að vera þungbær og erfið. Ég kvarta þó ekki undan þeirri ábyrgð sem ég tókst á hendur, hún hlaut að fylgja starfi mínu. Ríkisstjórnin hefur kynnt margs konar mótvægisaðgerðir, sem ég veit að ýmsir hafa reynt að gera lítið úr. Ég ætla í sjálfu sér ekki að orðlengja mjög um þessar aðgerðir, einungis vekja athygli á því að hluti þeirra hafði það að markmiði og leiðarljósi að reyna að tryggja áfram fjölbreytt útgerðarform. Tryggja að áfram gætu starfað sjálfstæðir einyrkjar út um allt land í stærri og minni útgerðum svo það fjölþætta útgerðarmynstur sem alla tíð hefur verið styrkur íslensks sjávarútvegs gæti þannig haldið áfram.

 

Ákvörðunin um að efla Byggðastofnun sem var gagnrýnd harðlega af ýmsum, var m.a. tekin í þessum tilgangi. Við gerðum okkur ljóst að ýmsir kynnu að eiga erfitt framundan vegna minnkandi tekna. Sú ákvörðun að beina því til Byggðastofnunar að koma til liðs við útgerðarfyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki við þessar aðstæður, hefur það að leiðarljósi að koma fyrirtækjunum í gegnum þann mikla brimskafl sem kvótaniðurskurðurinn felur í sér. Það er líka ánægjulegt til þess að vita að bankastofnanir okkar, þær öflugu fjármálastofnanir sem við þekkjum hér á landi og starfa um allt land, hafa almennt tekið því vel að taka á með sjávarútvegsfyrirtækjunum til þess að komast í gegnum erfiðleikana.

 

Ég hef trú á því að nú hafi verið skapaðar fjárhagslegar forsendur til að menn geti staðið af sér storminn og tekist á við verkefni framtíðarinnar. Í þessu sambandi skiptir öllu máli að fyrir liggi klárt og kvitt og óumdeilt að þeir sem nú taka á sig byrðarnar og skerðinguna njóti ávaxtanna þegar betur horfir með þorskstofninn okkar.

 

Góðir fundarmenn.

Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna við gerð svokallaðrar vigtarreglugerðar. Ég ætla í sjálfu sér ekki að orðlengja um efnisatriði hennar, flest ykkar þekkja þau. Reglugerðin var unnin í miklu samstarfi og samráði við fjölda fólks víðsvegar að af landinu og úr atvinnugreininni. Mjög var reynt að vanda til verksins og tók það lengri tíma en við flest hugðum. Vigtarreglugerðin tók gildi nú um mánaðamótin ágúst/september – við upphaf nýs fiskveiðiárs. Nokkur reynsla er komin á það starf og kom engum á óvart að ýmsir hnökrar komu í ljós enda er það augljós og óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að gera svo veigamiklar breytingar á flóknu regluverki. Nú erum við í sjávarútvegsráðuneytinu og Fiskistofu að fara yfir ýmsar ábendingar um það sem betur má fara og verður það lagfært eftir því sem forsendur gefa tilefni til.

 

Í tengslum við þennan undirbúning að nýrri vigtarreglugerð fór fram athugun á slægingarstuðlinum svokallaða eins og kunnugt er. Sú nefnd sem undirbjó tillögur að breyttri vigtarreglugerð lét fara fram athuganir sem unnar voru af Matís (áður R.f.) þar sem að ætlunin var að leiða fram tölur um slægingarstuðla sem fyrst og fremst leiddu til þess að rétt væri vigtað. Aðalatriði þess máls er auðvitað að vigtin endurspegli það sem rétt er. Hin gamla setning sem tengist sögu Skúla Magnússonar landfógeta mældu rétt strákur er grundvallaratriði í þessum efnum og getur varla valdið ágreiningi.

 

Það er skemmst frá því að segja að þessar athuganir leiddu til þess að gerð var tillaga um að lækka slægingarstuðulinn talsvert frá því sem verið hefur. Í þorski hefur slægingarstuðullinn verið 16%. Tillaga var gerð um að fara a.m.k. niður í 12% og var það ákveðið á sínum tíma þegar vigtarreglugerðin var upphaflega lögð fram og átti að taka gildi fyrir rúmu ári síðan. Vegna þess að vigtarreglugerðin frestaðist ákvað ég jafnframt að fresta því að nýr slægingarstuðull tæki gildi þótt í sjálfu sér gætu þetta verið óskyldir hlutir. Ég taldi hins vegar eðlilegast að þessar tvær ákvarðanir sem grundvölluðust á vinnu sömu nefndarinnar yrðu samferða þegar þar að kæmi.

 

Nú var það hins vegar svo að við hinn mikla niðurskurð ákvað ég að láta hina nýju tölu um slægingarstuðulinn ekki taka gildi. Ástæðan var ekki sú að ég teldi að 12% talan væri í sjálfu sér röng, heldur gerði ég mér grein fyrir því að með því að láta slægingarstuðulinn taka gildi á sama tíma og verið væri að skera niður þorskaflann um þriðjung, þá kæmi það sérstaklega illa niður á tilteknum útgerðarflokkum. Áður en ég tók þessa ákvörðun hafði ég fengið margar áskoranir í þá veru frá fjölmörgum, sérstaklega smábátaeigendum víða um landið. Ég hlustaði á þau rök og brást við með þeim hætti sem að allir vita; slægingarstuðullinn er ennþá 16%.

 

Það hefur hins vegar vakið athygli mína og heilmikla undrun að frá því að þessi ákvörðun var tekin hef ég hvorki heyrt hósta né stunu né yfir höfuð nokkur viðbrögð frá einum einasta fulltrúa sem starfar innan vébanda Landssambands smábátaeigenda. Ég hef lesið samviskusamlega, sem ég geri alltaf, ályktanir einstakra svæðafélaga og sé hvergi nokkurstaðar vikið að þessari umdeildu ákvörðun minni varðandi slægingarstuðulinn. Ég álykta af þessu tómlæti að þýðing ákvörðunar minnar um að taka ekki upp hinn nýja slægingarstuðul við þessi fiskveiðiáramót, hafi ekki skipt því máli sem mér var sagt. 

 

Nú vil ég víkja að öðru máli, sem skiptir líka miklu fyrir þá umræðu sem snýr að smábátaeigendum. Mikill styr hefur staðið um svokallaðan byggðakvóta og er það ekki að undra. Þetta er umdeilt fyrirkomulag eins og við öll vitum. Ég hef reynt að sníða annmarka af þessu kerfi eins og mér hefur verið unnt. Ég fagna því að á síðasta Alþingi var samþykkt samhljóða frumvarp sem ég flutti og fól í sér breytingar á lagaumhverfi byggðakvótans þannig að þeim málum er nú betur fyrir komið en áður. Alltaf má þó gera betur. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að nú beri okkur að gera byggðakvótann þannig úr garði að: Í fyrsta lagi endurspegli hann betur breytingar sem verða í heildaraflamarki einstakra byggðalaga t.d. við sölu eða kaup á kvóta. Og í öðru lagi tel ég eðlilegt að stefna að því að byggðakvótinn renni til færri byggðalaga en núna er.

 

Þetta mun auðvitað hafa röskun í för með sér. Það verða menn að gera sér ljóst. Mér finnst nefnilega eins og ýmsir líti þannig á að byggðakvótinn sé eins konar almenn uppbót á aflaheimildir manna. Sú er þó ekki hugsunin á bak við byggðakvótann. Hann á að þjóna tilteknum tilgangi.

 

Í lögum er tilgangur byggðakvótans og hinna sérstöku aflabóta  útlistaður með þessum hætti:

Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.
   
2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig:
   
a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.
   
b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.

 

Ég tel að byggðakvótinn eigi ekki að vera stór og við eigum ekki að stefna að því að stækka hann frá því sem nú er. Það myndi síst af öllu leysa vanda heldur skapa ennþá fleiri vandamál en þau sem við glímum við um þessar mundir.

 

Aðalatriðið er að úthlutun byggðakvótans sé markviss og sanngjörn og dragi ekki úr þeirri hvatningu sem þarf að vera til staðar hjá útgerðum eins og annars staðar í atvinnulífinu; þ.e.a.s. hvatann til að standa sig vel og gera betur. Við þurfum líka að byggja inn í úthlutunarreglurnar aðferð sem leiðir til þess að byggðakvótinn virki betur þegar skyndilegar breytingar verða í verstöðvum vegna missis kvóta eða samdráttar í fiskvinnslu.

 

Gagnrýnt hefur verið að seint hafi gengið að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2006/07. Það á sér sínar skýringar. Eins og ég nefndi áðan voru ný lög samþykkt samhljóða við lok þings síðasta vor. Þar voru reglur hertar, kæruferlar gerðir skýrari og kærufrestur lengri. Allt miðaði þetta að því að auka réttindi þeirra sem hlut eiga að máli. Í kjölfar lagasetningarinnar var gefin út reglugerð með almennum viðmiðunum um hvernig úthluta bæri byggðakvótanum. Sveitarfélögunum var jafnframt gefinn kostur á að óska eftir að settar yrðu sérreglur hjá þeim eftir efnum og aðstæðum á hverjum stað. Það gerðu 26 sveitarfélög en aðeins sex ákváðu að styðjast eingöngu við almennu reglurnar. Að auki hafa nokkur sveitarfélaganna óskað eftir að breyta sérreglum sínum eftir að annmarkar komu í ljós að þeirra mati við frumúthlutun Fiskistofu. Allt þarf þetta að fara eftir hefðbundinni leið hvað snertir t.d. birtingu og kærufrest. Fyrir vikið hafa hlutirnir dregist. En það er auðvitað ekki þannig að sjávarútvegsráðuneytið hafi verið að tefja úthlutun þessa kvóta. Breytingarnar sem gerðar voru leiddu einfaldlega til þess að það er tímafrekara að úthluta honum en gert var ráð fyrir.

 

Mig langar að rifja upp nokkrar staðreyndir. Reglugerðir varðandi byggðakvóta voru tilbúnar og útgefnar 16.maí sl. og byggðust á lögum frá því fyrr um vorið. Bréf til sveitarstjórna var sent strax í kjölfarið og þeim gefinn kostur til 4. júni að óska eftir sérreglum, kysu þær að viðhafa þær. Samkvæmt lögum og reglugerð ber svo að auglýsa reglurnar á vef sjávarútvegsráðuneytisins. Mjög vandlega þurfti að fara yfir þær reglur sem sveitarfélögin lögðu til og gæta þess að þær væru að fullu og öllu í samræmi við lög og stjórnsýslureglur. Engu að síður var búið að auglýsa reglur allra sveitarfélaganna 26, einum mánuði eftir að óskir þeirra um sérreglur höfðu borist ráðuneytinu. Eftir það komu hins vegar fram athugasemdir einstakra sveitarfélaga sem í stöku tilvikum kölluðu á að hefja þurfti ferlið að nýju. Slíkt lýsir því að við gerum strangar kröfur til þeirra sem hlut eiga að máli og að við leggjum áherslu á gagnsæi þeirra reglna sem stuðst er við. Til viðbótar komu fram þó nokkrar kærur frá aðilum sem höfðu eitthvað við úthlutunarreglurnar að athuga. Slíkar kærur geta leitt til tafa allt að tveimur mánuðum, en það er sá tími sem ráðuneytið hefur samkvæmt reglugerð til að úrskurða um efni kæranna.

 

Þá er þess og að geta að í lögum er afdráttarlaust skilyrði um að engir fái byggðakvóta til ráðstöfunar nema að hafa lagt fram og landað til vinnslu í heimabyggð sinni tvöföldu því magni sem nemur úthlutuðum byggðakvóta til viðkomandi báts. Hefur það reynst einstaka útgerðum nokkur þraut að uppfylla það skilyrði. Sjálfur er ég sannfærður um að úthlutun fyrir yfirstandandi fiskveiðiár mun nú ganga greiðlegar fyrir sig og er þess því að vænta trúi ég að byggðakvótinn muni liggja fyrir sem fyrst á næsta ári.

 

Góðir fundarmenn.

Á aðalfundum ykkar hef ég oft vikið að virkni línuívilnunarinnar eins og hún birtist í tölum frá Fiskistofu. Veit ég vel að línuívilnun er umdeild. Hún hefur sína kosti en auðvitað má líka benda á ýmsa ókosti henni samfara. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hún virki með jákvæðum hætti og að hún geti styrkt byggðalög sem af ýmsum ástæðum standa höllum fæti. Ég tel því að henni eigi að viðhalda en geri mér um leið grein fyrir að við þær aðstæður sem nú eru uppi þá vegur hún þungt og reyndar þyngra en oft áður þegar aflaheimildir hafa verið meiri. Þegar við skoðum tölur um línuívilnun er athyglisvert að sjá og blasir við að hún dreifist allvíða um landið eins og ég hef áður bent á. Það má segja að áhrifa hennar gæti markvissast og mest á þremur landsvæðum. Á Vestfjörðum, á Snæfellsnesi og á Suðurnesjunum. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem að þið þekkið jafn vel og ég. Því finnst mér giska ósanngjörn sú gagnrýni að línuívilnun lýsi sérhagsmunapoti.

 

Smábátaútgerð í landinu er gríðarlega öflug. Smábátar veiddu á síðasta fiskveiðiári yfir 80 þúsund tonn. Einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi ekki síst í ljósi þess að aflaheimildir, t.d. í þorski voru einungis 190 þúsund tonn. Þorskafli smábáta var um 43 þúsund tonn. Það er ljóst að þetta er útgerðarform sem hefur vaxið mjög mikið undanfarin ár.

 

Það er fróðlegt að skoða hvernig afli smábáta skiptist, annar svegar eftir heimahöfnum og hins vegar eftir löndunarhöfnum. Þar er þetta nokkuð misjafnt og endurspeglar auðvitað það sem að við vitum; að smábátaeigendur eru nokkuð kvikir og færa sig til eftir því hvernig afli gefur sig á veiðislóðinni. Engu að síður eru þessir bátar mjög oft og í vaxandi mæli, tengdir fiskvinnslustöðvum og skipta þar af leiðandi miklu máli í fiskvinnslu víða um landið.

 

Þetta er á margan hátt jákvæð þróun. Smábátaútgerðin er fyrir löngu búin að slíta sínum barnsskóm. Í dag einkennist útgerðin af mörgum öflugum bátum, í bland við smærri báta með minni aflaheimildir. Smábátaútgerðin er því í senn fjölbreytt sem fyrr og að sama skapi öflugri en áður. Bátarnir þjóna betur því hlutverki að tryggja hráefni fyrir fiskvinnsluna allan ársins hring enda er slíkt forsenda nútímalegrar og kröftugrar fiskvinnslu. Kaupendur á erlendum mörkuðum krefjast áreiðanleika við afhendingu á vörum. Ekki bara stundum og þegar best er og blíðast, heldur allan ársins hring. Hinir öflugu bátar sem eru innan krókaflamarksins hafa reynst kjörnir til hráefnisöflunar víða um landið. Þær tölur sem við sjáum um landaðan afla krókaaflamarksbátanna sýna okkur það.

 

Góðir smábátasjómenn.

Rétt er það að við fundum núna í skugga mikils samdráttar í aflaheimildum í þorski. Smábátaeigendur eiga hins vegar ekki að leggja árar í bát, langt frá því. Þeir hafa fengið stóraukinn hlut í þeim aflaheimildum sem deilt er út hér við land og það hafa orðið miklar breytingar á rekstarumhverfi þeirra. Þær breytingar hafa leitt til gríðarlegs styrks smábátaútgerðarinnar. Við eigum að trúa því að framundan séu betri horfur í þorskafla okkar. Sjómenn tala um að ástandið sé betra en fræðimenn okkar segja. Fræðimennirnir segja hins vegar að með niðurskurðinum nú leggjum við grundvöll að vaxandi þorskstofni. Í báðum tilvikum leiðir því röksemdafærslan til þess að við hljótum að ætla að framundan séu betri tímar fyrir þorskveiðiútgerðina í landinu.

 

Þess vegna skiptir máli að okkur takist að komast í gegnum þennan skafl nú með tilstyrk stjórnvaldsaðgerða og með hjálp þeirrar miklu fiskverðshækkunar sem orðið hefur á undanförnum árum. Ég trúi því þess vegna að smábátaútgerð, eins og aðrir þættir sjávarútvegsins eigi sér blómlega framtíð þótt sannarlega hafi syrt í álin þessi misserin. Við skulum heita því að reyna að finna þær lausnir sem í okkar valdi standa til að komast áfram veginn og tryggja að sjávarútvegurinn verði sem fyrr burðarásinn og dráttarklárinn í íslensku efnahagslífi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta