Afmæli Sambands Íslenskra Sparisjóða
Góðir fundarmenn.
Í upphafi máls míns langar mig til að óska Sambandi íslenskra sparisjóða til hamingju með 40 ára afmælið. Fjörtíu ár eru virðulegur aldur fyrir merkileg samtök eins og þessi. Ekki skyggir á sú mikla saga sem rekstur Sparisjóða á Íslandi leggur þessum góða félagsskap.
Mikilvægar breytingar á atvinnuþáttum á síðari hluta 19. aldar sköpuðu þörf fyrir miðlun fjármagns umfram það sem kaupmenn gátu sinnt. Útgerð var vaxandi atvinnugrein og þéttbýli fór að myndast. Útflutningur á sauðfé til Englands og mikil umsvif norskra síldarútgerðarmanna á Austfjörðum, ásamt fleiru,, leiddi ennfremur til aukins framboðs fjármagns. Þetta tvennt skapaði grundvöllinn fyrir rekstri fjármálastofnanna á Íslandi.
Fyrsti íslenski sparisjóðurinn var stofnaður af Mývetningum árið 1858 og ber því heiðursess, þó ekki hafi hann orðið langlífur í sinni fyrstu mynd. Næsta ár mun því marka 150 ára afmæli sparisjóðarekstrar á Íslandi. Elsti starfandi sparisjóðurinn er hins vegar Sparisjóður Reykjavíkur sem var stofnaður 1872. Nú Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf.
Það er engum blöðum um það að fletta að hið fertuga Sparisjóðasamband er komið á breytingaskeiðið. Miklar hræringar hafa átt sér stað í efnahagslífi landsmanna síðustu 15 ár eða svo, og sérstaklega á fjármálamarkaði. Hlutafélagavæðing og síðan sala á ríkisbönkunum hefur leitt til mun meiri vaxtar í starfsemi banka og fjármálastofnanna en nokkurn hafði órað fyrir. Nú er svo komið að á Íslandi eru starfræktir þrír stórir bankar á heimsmælikvarða, og fjármálageirinn orðinn tíundi hluti landsframleiðslunnar.
Síðastliðin ár hefur einnig borið á aukinni samkeppni á milli banka og sparisjóða, einkum á húsnæðislánamarkaði, en einnig á öðrum sviðum. Hagkvæmni stærðarinnar skiptir miklu máli í rekstri fjármálastofnanna, líkt og margra annarra atvinnufyrirtækja. Sérstaklega getur það skipt máli fyrir fjármögnun útlánastarfsemi að stofnunin sé stöndug, byggi á breiðum grunni, hafi aðkomu að helstu fjármagnsmörkuðum í krafti stærðar og tíðni viðskipta. Ennfremur er mikilvægt að fjármálastofnanir geti sýnt nægjanlegan sveigjanleika til að takast á við hugsanleg áföll eða tækifæri.
Sparisjóðirnir hafa ekki farið varhluta af þessum hræringum. Hefur nokkur umræða verið um, að ákvæði gildandi laga um starfsemi sparisjóðanna hafi ekki virkað sem skyldi, m.a. þau sem heimila breytingu sparisjóðs í hlutafélag, viðskipti með stofnfjárhluti og útgáfu nýs stofnfjár.
Til þess að fara yfir gildandi lagaumhverfi sparisjóðanna og gera tillögur til breytinga eftir atvikum hef ég sett á stofn nefnd sem mun fara heildstætt yfir ákvæði áttunda kafla laga um fjármálafyrirtæki með það að markmiði að lagaumhverfi sparisjóðanna verði ekki þessum fjármálafyrirtækjum hamlandi í ört vaxandi samkeppni á fjármálamarkaði.
Í nefndinni sitja Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, Tanya Zharov, lögfræðingur, Íris Björk Hreinsdóttir, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, samkvæmt tilnefningu Fjármálaeftirlitsins, Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri, samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sparisjóða, Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, samkvæmt tilnefningu Samtaka fjármálafyrirtækja, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Er við það miðað að nefndin ljúki störfum fyrir 1. júní á næsta ári.
Viðfangsefni nefndarinnar er ekki einfalt, því leita þarf leiða til að sætta mjög ólík sjónarmið. Annars vegar viðskiptaleg sjónarmið sem kalla á sameiningu og sveigjanlegra rekstrarform íslenskra Sparisjóða og hins vegar sjónarmið um samfélagslega ábyrgð.
Sparisjóðirnir hafa löngum haft sérstöðu á meðal fjármálafyrirtækja, að því leyti að þeir hafa ræktað samband sitt við samfélagið, fyrir utan hinu beinu viðskiptatengsl, betur en aðrar fjármálastofnanir. Það kemur auðvitað ekkert á óvart, enda Sparisjóðirnir að uppruna grasrótarhreyfing.
Það kallast samfélagsleg ábyrgð ef fyrirtæki láta sig velferð samfélagsins varða og leggja sitt af mörkum við að leysa samfélagsleg vandamál. Hvort heldur í sínu nærumhverfi eða í víðara samhengi. Fyrirtæki sýna samfélagslega ábyrgð með því að einblína ekki á hámörkun virðis fyrirtækisins sem markmiðs starfseminnar.
Í nýlegri rannsókn Magnúsar Óskars Hafsteinssonar kemur fram að framlög sparisjóða til menningarstarfsemi, sem hlutfall af hagnaði, eru um það bil þrisvar sinnum hærri en sambærileg framlög stóru viðskiptabankanna. Ennfremur kemur fram að sparisjóðir horfa síður á slík framlög sem þátt í markaðssetningu, og þar með hluta af almennum rekstrarmarkmiðum.
Eins og málum er fyrir komið er varasamt að alhæfa um íslenska sparisjóði, en ljóst er að stór hluti Sparisjóða tekur samfélagslegt hlutverk sitt alvarlega og af mun meiri festu en stærri fjármálastofnanir.
Um þetta snúast deilur víða í sparisjóðafjölskyldunni í dag. Annars vegar sjónarmið hagkvæmari rekstrar sem kallar á hlutafélagavæðingu og sameiningu sparisjóða, og hins vegar sjónarmið um að áfram standi sparisjóðir þétt að baki því samfélagi sem byggði þá upp.
Ég tel það afar mikilvægt að fundinn verði skynsöm leið sem greiði götu sparisjóða í aukinni samkeppni á fjármálamarkaði og tryggi þeim eðlilega samkeppnisstöðu, en um leið varðveiti félagslegt hlutverk sparisjóðanna, til að mynda í sérstökum samfélagssjóðum.
Kæru fundarmenn.
Fyrr í þessari viku samþykkti ríkisstjórnin að minni tillögu að leggja fyrir Alþingi nýtt frumvarp um sértryggð skuldabréf. Sértryggð skuldabréf eru tryggð með veði í fasteignatryggðum skuldabréfum eða skuldabréfum útgefnum af opinberum aðilum. Fjármálagerningar af þessu tagi hafa rutt sér rúms hin síðar ár í Evrópu og er markmiðið með nýjum lögum að gera útgáfu slíkra bréfa auðveldari og ódýrari.
Til þessa hafa aðeins stærstu fjármálastofnanir treyst sér í slíka útgáfu og sem hefur reynst tiltölulega kostnaðarsöm. Með nýjum lögum ætti þetta form að nýtast fleiri og smærri aðilum og þannig koma Sparisjóðum, annað hvort einum sér eða í samstarfi sín á milli, til góða.
Vonir standa til að þessi lög muni auðvelda fjármögnun húsnæðislána til lengri tíma og tryggja sem lægsta vexti til húsnæðiskaupenda í framtíðinni.
Að lokum vil ég ítreka árnaðaróskir mínar til hins fertuga Sambands íslenskra sparisjóða. Vissulega er mikið óvissuástand um framtíð einstakra Sparisjóða. Ekki má þó gleyma að úrlausnarefnin eru að mestu leyti lúxus-vandamál, þar sem þau snúa að ráðstöfun þess mikla höfuðstóls sem rekstur sparisjóða hefur skapað í gegnum áratugina. Að vissu leyti ætti fremur að tala um tækifæri en vandamál. Margháttuð tækifæri til að láta til sín taka í íslensku þjóðfélagi svo eftir verði tekið um aldur og æfi.
Allt er fertugum fært.