Ávarp ráðherra á aðalfundi Félags hrossabænda 9. nóvember
Ágætu hrossabændur.
Mér er það mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér á aðalfundi Félags hrossabænda. Ég þykist vita að við öll sem hér erum saman komin deilum þeirri skoðun sem mörg okkar líta raunar á sem staðreynd, að íslenski hesturinn sé einstakur í sinni röð og í margháttaðri starfsemi með hann búi fjölþættir möguleikar.
Á nýliðnu sumri sótti ég mér til stóránægju og mikils fróðleiks glæsilegt heimsmeistaramót á íslenskum hestum sem fram fór í Oirschot í Hollandi. Heimsmeistaramótin eru ásamt með landsmótunum orðnar glæsilegar fagsýningar en um leið hörku keppni með miklum styrkleika og jafnframt vinasamkoma allra unnenda íslenska hestsins hvaðanæva úr heiminum. Það er okkur Íslendingum afar kærkomið, hvernig sem á það er litið, að fólk erlendis frá nái að deila íslenska hestinum með okkur.
Íslenski hesturinn hefur nú verið kynbættur með markvissum hætti í um hundrað ár og hefur sóknarþunginn í kynbótastarfinu verið aukinn jafnt og þétt og höfum við Íslendingar fært okkur nýjustu þekkingu í kynbótafræði í nyt í því starfi. Auk upplýsingatækninnar og þekkingar í lífeðlisfræði með DNA-greiningum og slíku. Mest áberandi birtingarmynd hagnýtingar upplýsingatækninnar er World-Fengur sem er framúrakarandi tæki og er raunar einstakt í heimi búfjárræktarinnar að slíkt fjölþjóðlegt kerfi sé til um eitt búfjárkyn. Árangurinn er sá að íslenski hesturinn er nú í dag kunnur í alþjóðlega hestaheiminum sem frábær sporthestur en jafnframt hefur tekist að viðhalda því eðli í kyninu að hann er um leið fjölskylduhestur og reiðhestur fyrir allan almenning. Íslenski hesturinn getur raunar komið fram í ólíkum hlutverkum allt eftir því hvernig hann er til hafður.
Þið eruð fulltrúar þeirrar búgreinar sem tekist hefur á hendur að rækta íslenska hestinn með sífellt meiri gæði að leiðarljósi. Afrekshross og afburða fagmennska er það sem dregur vagninn en hinu megum heldur ekki gleyma að það er almenn áhugamennska í hestamennsku sem skapar grasrótina. Þessi herskari fólks sem vill og kann að njóta hestsins sem vinar og félaga í almennum útreiðum og ferðalögum eða að hafa almennt sálufélag við hestinn án þess að ætla sér beinlínis annað en bara að njóta.
Nú nýverið féll frá gamall skagfirskur bóndi sem ég veit að flest ykkar hafið kannast við og jafnvel þekkt, hann hét Björn Runólfsson kenndur við bæ sinn Hofsstaði í Viðvíkursveit. Hann var löngum ekki kallaður annað en Bjössi á Hofsstöðum og undir því kenninafni reikna ég með að flest ykkar þekki hann en Bjössi sagði eitt sinn í blaðaviðtali að Lífshamingja manns markaðist af því að hve miklu leyti menn segðu JÁ VIÐ LÍFINU!
Í þessu er fólgin djúp speki, sá einstaklingur sem segir já við lífinu, hann vill lifa lífinu lifandi og þá ekki bara um stutta stund heldur lengi og til að svo megi verða er ekki nóg bara að grípa til og neyta heldur líka að leggja til og auðga. Það eru fá viðfangsefni betur til þessa fallin en einmitt hestamennskan. Að byggja upp hest er einmitt dæmi um slíka lífsjátningu og ekki síður hrossaræktin. Með því að takast á við hestamennsku og hrossarækt segir fólk svo sannarlega já við lífinu. Það tekst á við skapandi starf með erfiðu og agandi viðfangsefni, það auðgar lífið og kennir mönnum að takast á við mótlæti með æðruleysi og sigra með stillingu. Þannig auðgar hestmennskan mannlífið og gerir það betra.
Ágætu tilheyrendur ekki ætla ég hér að þreyta ykkur með löngum ræðuhöldum en vil minna á að hrossaræktin og hestamennskan er órjúfandi þáttur íslenskrar þjóðmenningar og íslensks landbúnaðar.
Síðustu tvo áratugina eða svo hefur átt sér stað hrein framfarabylting í íslenskri hrossarækt og hestamennsku. Grunnurinn var lagður þar á undan með eljustarfi ár eftir ár og áratug eftir áratug. Enn má þó betur gera. Íslensk stjórnvöld hafa með vaxandi þunga gefið þessu starfi gaum en hinu megum við ekki gleyma að hið opinbera hefur stutt hrossaræktina með framlögum frá upphafi í gegnum búfjárræktarstyrki og framlög til leiðbeiningaþjónustu. Þannig ber að vinna; leggja grunninn traustlega og líta langt fram um veg en reikna ekki endilega með að öll daglaun verði heimt strax að kvöldi. Þetta veit ég að mörg ykkar skiljið sem lagt hafið ómælt fé og erfiði í uppbyggingu eigin ræktunar og starfsemi innan hrossageirans.
Opinberir styrkir til hrossaræktarinnar hafa þó verið mikið minni en til annarra greina landbúnaðarins og það hygg ég að hafi verið gæfusamt fyrir greinina auk þess sem frjálst framtak og markaðslausnir hafa alltaf verið viðhafðar. Það hefur sem sagt náð að dafna frjáls framtaksandi í greininni. Ég vil í störfum mínum sem ráðherra stuðla að því að vegur íslenska hestsins verði meiri en nokkru sinni í krafti þessa anda. Besta leiðin til þess er að þið sem hestinum unnið og kunnið með hann að fara fáið sem mest svigrúm og tækifæri til að sinna verkum ykkar og þær aðstæður vil ég taka þátt í að skapa.
Lifið heil og þakkir fyrir áheyrnina og megi fundarstörf ykkar hér í dag ganga sem best.