Hoppa yfir valmynd
09. nóvember 2007 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Fundur með starfsmönnum Landbúnaðarstofnunar föstudaginn 9. nóvember

 

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa starfsfólk Landbúnaðarstofnunar og fara yfir eitt og annað er að starfsemi stofnunarinnar lítur og snertir ykkur þar af leiðandi mjög. Sameinað ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar og stofnanir þess standa nú frammi fyrir miklum áskorunum og þar mun mikið mæða á Landbúnaðarstofnun og starfsfólki hennar. Það má fullyrða að bæði ráðuneytið og stofnunin standi á tímamótum. Ég vísa hér m.a. til þess að Sameiginlega EES nefndin hefur samþykkt nokkrar ákvarðanir sem varða breytingu á undanþágu sem Ísland hefur haft frá I viðauka við EES samninginn og um leið tekur Ísland yfir nýja og verulega endurskoðaða löggjöf ESB um matvæli og fóður. Jafnframt mun Ísland fá formlega aðild að Matvælaöryggisstofnun Evrópu.

Á sama tíma er unnið að endurskipulagningu ráðuneytisins og þá hefur á Alþingi verið lagt fram frumvarp til laga þar sem lagt er til að Landbúnaðarstofnun verði að matvælastofnun eða matvælaeftirliti og fái þá ný verkefni með sameiningu stofnunarinnar og matvælasviða Fiskistofu og Umhverfisstofnunar.

Það má án efa fullyrða að fáar stofnanir Stjórnarráðsins horfi í dag til jafn umfangsmikilla og ögrandi breytinga og þeirra sem blasa við Matvælaeftirlitinu og ráðuneytinu á næstu mánuðum og árum. Ef til vill þarf í samanburði að hverfa til baka til þeirrar vinnu sem blasti við íslenskri stjórnsýslu í aðdraganda aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) fyrir rúmum áratug síðan. Þau verkefni sem nú liggja fyrir eru:

·        Byggja upp Matvælaeftirlitið, ákvarða innra stjórnskipulag þess, taka ákvörðun um staðsetningu starfsstöðva og þar með starfsfólks, auk þess að móta stefnu í störfum.

·        Ganga frá tillögum að nauðsynlegum lagabreytingum vegna breytinga á EES-samningnum.

·        Endurskoða íslenska matvælalöggjöf í samræmi við EES-skuldbindingar.

·        Skipuleggja matvælaeftirlitið í landinu þannig að framkvæmd þess uppfylli þær kröfur sem gerðar eru með lögum og reglum.

Af framansögðu er ljóst að verkefnin eru mörg og þó svo við fáum vissan aðlögunartíma, á sumum verkefnum að vera lokið á fyrri hluta næsta árs. Auk þess er gert ráð fyrir að Matvælaeftirlitið hefji störf þegar um næstu áramót. Ég vil því nota tækifærið og þakka Landbúnaðarstofnun fyrir að hafa tekið frumkvæði, í góðu samstarfi við matvælasvið Fiskistofu og Umhverfisstofnunar, að því að hefja nú þegar undirbúning að starfsemi Matvælaeftirlitsins.

Það er stefna ráðuneytisins að Matvælaeftirlitið verði leiðandi stofnun í neytendavernd á Íslandi. Örugg matvæli á borð neytenda, fræðsla um samsetningu matvæla, geymsluþol og annað sem varðar hagsmuni neytenda eru þar lykilatriði. Til að þessum markmiðum verði náð þarf að hafa öflugt eftirlit með frumframleiðsu matvæla og á það bæði við um landbúnaðarframleiðslu og framleiðslu sjávarafurða. Í fæðukeðjunni þarf rekjanleikinn síðan að vera til staðar allt frá frumframleiðslu og til fullbúinnar vöru. Ábyrgð matvælaframleiðenda er því einnig mikil.

Heilbrigði og velferð búfjár ásamt merkingum þess, eftirlit með fóðri og plöntuheilbrigði, allt eru þetta þættir sem verða á verksviði Matvælaeftirlitsins í flókinni fæðukeðju og reyndar eru verkefnin víðtækari, því starfsemin nær einnig til dýraheilbrigðis, dýravelferðar, plöntuheilbrigðis og annarra verkefna stofnunarinnar, sem ekki tengjast beint matvælaframleiðslu eða dreifingu matvæla. Matvælaöryggið er þó sá samnefnari sem tengir flest verkefni Matvælaeftirlitsins og fullyrða má að það eru ekki margir starfsmenn hér sem ekki koma að þeim málum með einum eða öðrum hætti.

Það er rétt að draga fram hér að auk Matvælaeftirlitsins er gert ráð fyrir að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga (HES) gegni eftir sem áður mikilvægu hlutverki í matvælaeftirliti og neytendavernd. Hins vegar mun Matvælaeftirlitið taka yfir hlutverk Umhverfisstofnunar við yfirumsjón með starfi HES og í því felst fræðslu- og leiðbeiningahlutverk, ásamt samstarfi um eftirlitsverkefni, svo nokkuð sé nefnt. Reynslan af endurskipulögðu starfi hjá ríkinu vegna matvælalöggjafar og matvælaeftirlits verður síðan að leiða í ljós hvort enn frekari samræming á störfum ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði mun eiga sér stað. Engar ákvarðanir í þá veru liggja nú fyrir.

Annað mál sem varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur ítrekað komið upp á yfirborðið og er það framkvæmd búfjáreftirlits, en þar sinnir Landbúnaðarstofnun nokkrum verkefnum í dag. Bein eftirlitsframkvæmd er þó á vegum sveitarfélaganna og hafa komið fram tillögur um breytingu á því fyrirkomulagi. Þetta mun ráðuneytið taka til frekari skoðunar.

Mér er einnig kunnugt um að starfsfólk Landbúnaðarstofnunar hefði kosið að breyting á skipan dýraverndarmála hefði orðið meiri en fram kemur í frumvarpi því sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Hér erum við komin að mikilvægum störfum dýralækna hjá Landbúnaðarstofnun, sem sinna fjölmörgum verkefnum vegna heilbrigðis og velferðar dýra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að reglur um flutning og aflífun búfjár verði undir stjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er vissum áfanga þar með náð, en frekari umræða um skipan dýravernar bíður þess að skipuð verði nefnd til að fjalla um málið. Því er ekki tímabært að segja frekar til um hvort, hvenær eða hvers eðlis slíkar breytingar gætu orðið. Ég vil hins vegar hvetja Landbúnaðarstofnun til að setja saman álitsgerð eða minnispunkta um þær breytingar sem stofnunin vill sjá og færa rök fyrir þeim.

Breytingar eru oft til góðs, en stundum gerast þær með miklum hraða og þá veltur það á samstilltu átaki okkar hvernig til tekst. Í tilfelli Landbúnaðarstofnunar og ykkar sem starfsmanna hafa orðið miklar breytingar á fáum árum og nú liggur fyrir að þeim er ekki lokið. Ég lagði á það áherslu að við endurskipan matvælamála yrði Landbúnaðarstofnun sá hornsteinn sem byggt yrði á. Stofnunin á, í samstarfi við nýjar starfseiningar og einnig starfsfólk ráðuneytisins, að hafa alla burði til að takast á við fyrirliggjandi verkefni. Þó svo stofnunin fái nú nýtt heiti er ætlunin að byggja á þeim grunni sem fyrir er, en að sjálfsögðu með því að aðlaga starfsemina að nýjum verkefnum.

Eitt af því sem fyrir liggur er skoðun á innra stjórnskipulagi, sem ég vænti að allir taki þátt í með opnum huga. Jafnframt þarf að skoða starfsemi umdæmisskrifstofa stofnunarinnar, m.a. vegna nýrra verkefna við rekstur Landamærastöðva, sem tengjast innflutningi sjávarafurða og búfjárafurða frá þriðju ríkjum. Reyndar er “Matvælaeftirlitinu” ætlað að fara með allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum, óháð því hvort vörurnar fara um Landamærastöðvar eða ekki. Að þessum þáttum þarf sérstaklega að huga og þá í samhengi við eftirlit með innflutningi og útflutningi á lifandi dýrum, fóðri, áburði, plöntum og öðrum vörum sem Landabúnaðarstofnun fer með nú þegar.

Til viðbótar þeim verkefnum sem ég hef þegar nefnt mun ég ætla mér tíma til að skoða hvort einhver breyting verður gerð á skipan þeirra stjórnsýsluverkefna sem Landbúnaðarstofnun tók við á sínum tíma frá Bændasamtökum Íslands. Að líkindum get ég leitað ráða í því samhengi hjá nýráðnum ráðuneytisstjóra, sem ég veit að mörg ykkar þekkja, og vil ég um leið nota tækifærið til að bera ykkur kveðju frá honum. Með þessu vil ég þakka ykkur fyrir áheyrnina og óska ykkur góðs gengis og góðrar skemmtunar þegar líður að kvöldi og þeirri hátíð sem þá verður haldin.  

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta