Haustráðstefna Matís 15. nóvember 2007
Haustráðstefna Matís, 15. nóv. 2007
Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Einars Kristins Guðfinnssonar.
Ágætu tilheyrendur.
Í ævisögu séra Árna Þórarinssonar sem meistari Þorbergur Þórðarson ritaði eftir honum, segir Árni frá mataræði því sem tíðkaðist um sveitir Suðurlands er hann ólst upp á Miðfelli í Hrunamannahreppi um miðja 19. öldina.
Árni segir svo frá:
Fyrsta máltíð dagsins var etin klukkan 9 til 10. Hún var tvær merkur af flóaðri mjólk með hér um bil einn mörk af gulrófukáli út í.
Næsta máltíð var klukkan 1til 2 Hún var á vetrum suma daga harðfiskur, bræðingur og söl meðan til entist en aðra daga saltfiskur og kartöflur og lítið eitt af smjöri með og stundum kjötsúpa með gulrófum, líklega tveir spaðbitar handa fullorðnum og einn handa krökkum. Súpan var alltaf gerð úr vatni og möluðu bankabyggi. Síðasta máltíðin var um kl. 5 til 6 á kvöldin. Þá var flóuð mjólk með káli eins og á morgnana. Rúgbrauð sást aldrei nema í veislum og flatkökur voru hafðar á stórhátíðunum þremur, einnig á sumardaginn fyrsta, á réttardaginn á haustin og einu sinni á dag allan túnasláttinn en hann stóð að jafnaði hálfan mánuð í venjulegu tíðarfari. Á vorin var oft hart í ári og fólkið vanalega tekið að verða guggið í útliti þegar fram á leið. Þá voru kýrnar farnar að fornbærast svo að mjólkurmáltíðinni með kálinu á morgnana varð að sleppa. Þess í stað var gerður þykkur bankabyggsgrautur með mjólk. Miðdegismatur var þá enginn en flóuð mjólk með káli á kvöldin. En svo bar það við að hafður var harðfiskur eða harðir þorskhausar og söl og bræðingur í staðinn fyrir bankabyggsgrautinn á morgnana. Ýmsir sem fluttust burtu úr hreppunum komust svo að orði hver við annan er þeir minntust fyrri æfi sinnar, „Manstu eftir Hreppasultinum á vorin?“.
Okkur sem nú lifum þætti þetta víst fábrotinn matseðill og þar að auki teldist hann nú vart mikil undirstaða. Kaloríurnar voru ekki margar og fólk gerði ekki betur en að halda í sér lífinu. Samt var það nú svo að fólk vann langan vinnudag enda vökulögin og vinnulöggjöf öll í órafjarlægð í tíma og rúmi. Gildi matarins var á þessari tíð vegið eftir fitunni – þeirri orkuríku fæðu sem fólk sóttist eftir. Ekki fyrir löngu sagði fullorðin kona af Suðurlandi mér að jólamaturinn hennar í bernsku hefði verið bringukollskjötsúpa. Þeir feitu bitar sem nú eru lítils metnir voru þá hafðir í hátíðarréttinn.
Nú er öldin önnur hvað matinn snertir. Gnægð matar og góðra rétta og innihald þeirra bæði skilgreint og tilgreint, ekki aðeins hvort það er nú kjöt eða fiskur heldur hversu mikið af hinum og þessum efnum er í hverjum bitanum. Síðan fer hver maður í sína töflu og skoðar hvað hann má borða og hve mikið af hverju til að halda línunum eða hvað er bannað að borða ef hann á að framfylgja heilræðum læknavísindanna.
Við Íslendingar höfum það gott – ekki síst hvað matinn varðar og enginn líður sult. Vandamálið er fremur offita sem okkur er tjáð að stafi ekki hvað síst af óæskilegu innihaldi þess matar sem við neytum. Við Íslendingar eigum líka vísindafólk á heimsmælikvarða sem rannsakar og metur fæðuna og leggur sinn skerf að mörkum til þess að við getum við stært okkur af bæði hollum og hreinum matvælum.
Fyrst á annað borð ég fór að minnast á þann mat sem áður var borðaður hér á landi er það einnig næsta víst að sú fæða sem nú er á boðstólum getur á margan hátt verið varasamari en áður var, með öllum þeim íblöndunarefnum sem nú tíðkast ásamt fjölmörgum viðbótarefnum sem á einn eða annan máta hafa sest í fæðuna og koma frá nútímasamfélaginu. Það er krafa okkar að þessum efnum séu gerð skil og fólk upplýst um þau. Sú ráðstefna sem hér er haldin á vegum Matís er einmitt liður í því að upplýsa hvað verið er að gera á þessum vettvangi.
Góðir ráðstefnugestir.
Hlutafélagið Matís ohf. tók til starfa 1. janúar á þessu ári. Þar sameinuðust þrjár ríkisstofnanir sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í tengslum við matvælaiðnað. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Matís er því í senn nýtt og gamalt fyrirtæki. Nýtt hvað skipulag og uppbyggingu varðar en byggir um leið á áralöngu rannsóknastarfi og þekkingu.
Þetta starf krefst vel menntaðs fólks og hefur Matís nú þegar náð að byggja upp öflugt samstarf við háskóla landsins og í sameiningu er verið að mennta nýja sérfræðinga sem eiga eftir að gegna lykilhlutverki í matvælarannsóknum og nýsköpun. Þannig mun Ísland ná að halda sterkri stöðu sinni á alþjóðamörkuðum í framtíðinni.
Það er afar mikilvægt að á Íslandi starfi öflugt fyrirtæki á sviði matvælarannsókna, sem er í stakk búið til að takast á við auknar kröfur um öryggi og heilnæmi og er um leið í forystuhlutverki við að styðja við og ýta undir nýsköpun í matvælaframleiðslu landsmanna. Það var von okkar með stofnun fyrirtækisins að það gæti orðið öflugt bakland innlendrar matvælaframleiðslu og tryggt aðgengi afurða okkar að verðmætustu matvælamörkuðum heims. Matís vinnur jafnframt markvisst að því að byggja upp öfluga starfsemi víðs vegar um landið um leið og gengið er til samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Það hefur því mikið gerst á þessum tíu mánuðum sem Matís hefur starfað og lofar góðu um framhaldið.
Það er mjög ánægjulegt að hafa orðið vitni að þeim þrótti og athafnagleði sem einkennt hefur starfsemina frá fyrsta degi. Ekki svo að skilja að það hafi á nokkurn hátt komið á óvart. Síður en svo. Vitað var að þarna væri saman komið dugmikið fólk með yfirburða þekkingu á sínu sviði og því voru auðvitað bundnar miklar vonir við afraksturinn. Þær væntingar hafa ekki brugðist. Hvert verkefnið á fætur öðru hefur líka skilað áhugaverðum niðurstöðum sem oft og tíðum vekja athygli.
Ef ég tek fáein dæmi:
- Þá var fyrir skemmstu greint frá því að starfsmönnum Matís hefði tekist að rækta áður óþekktar hverabakteríur sem kunna að geyma áhugaverð ensím.
- Hvannalömb úr Dölunum vöktu mikla lukku í haust. Þar var bæði bragðgóð og athyglisverð nýjung á ferð sem vonandi verður til þess að bændur láti reyna á fleiri nýstárlegar hugmyndir og tilraunir í búskapnum.
- Ýsa var það heillin segir í nýrri skýrslu Matís þar sem birt er samantekt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja um neyslu Íslendinga á hinum ýmsu fisktegundum. Þar kemur m.a. fram að Íslendingar snæða ýsu öðrum fiskum fremur og kemur það sennilega fæstum á óvart. Þessi upplýsingar eru unnar úr viðhorfs- og neyslukönnun AVS verkefnisins „Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða“ sem gerð var í fyrra og vakti mikla athygli. Þar svöruðu rúmlega 2000 manns spurningum um fiskneyslu sína og viðhorf.
- Þá er vert að nefna afar mikilvægan þátt í starfseminni – vöktun lífríkis sjávar. Rannsóknin sem er viðvarandi og niðurstöður kynntar árlega, skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á að veiðar fari fram í ómenguðu umhverfi.
- Og ætli nýjasta dæmið um athyglisverð verkefni sem unnin eru hjá Matís sé ekki um íslenska grænmetið sem er yfirleitt ferskara og betra en það innflutta og fjallað var um í gær og morgun í fjölmiðlum.
Krafturinn var vissulega til staðar hjá einingunum sem runnu saman í Matís en þar hefur honum verið fundinn nýr farvegur svo eftir er tekið. Fyrirtækið ber líka víða niður. Sé litið til erindanna hér á eftir og þess sem kynnt er í básunum frammi er augljóst að fjölbreytt viðfangsefni og hagnýtar rannsóknir eru ær og kýr Matís.
Matarmenning er virkilega spennandi liður í dagskrá ráðstefnunnar og er óhætt að segja að á Íslandi sé margt óunnið á þeim vettvangi. Þar dettur mér til dæmis í hug að efla megi ferðaþjónustu á þessu sviði með áherslu á sérstöðu viðkomandi svæða. Það er einnig mjög áhugavert að sjá að Listaháskóli Íslands skuli taka þátt í ráðstefnunni. Matarhönnun er nýtt hugtak og verður gaman að fylgjast með hvernig hönnuðirnir eiga eftir að setja enn frekar mark sitt á vöruþróun og nýsköpun í íslenskum matvælaiðnaði en dæmi um mjög áhugaverðar hugmyndir má sjá í básunum hér frammi.
Fiskeldi stendur undir æ stærri hluta af neyslu sjávarfangs í heiminum og vex hlutur þess býsna hratt. Í þorskeldinum er því væntanlega fólginn mjög mikilvægur vaxtarbroddur sem við verðum að nýta og þróa. Unnið er að mikilvægum verkefnum í þorskeldi í samvinnu við fyrirtæki og erlendar og innlendar stofnanir og háskóla. Þar koma Vestfirðir sterkir inn. Þarna er verið að leggja grunninn að þorskeldi á Íslandi og nauðsynlegt að vandað sé til verka með þátttöku allra helstu sérfræðinga landsins.
Líftæknin er hugtak sem lengi hefur verið í loftinu sem töfraorð til að skapa mikil verðmæti í sjávarútvegi, landbúnaði og víðar. Það hefur ekki allt gengið eftir sem að var stefnt í þeim efnum, en aftur á móti er mikil gróska hjá Matís á þessu sviði ásamt erfðatækni. Mikið af vel menntuðu fólki starfar hjá Matís og er líklegt að fyrirtækið eigi eftir að vera leiðandi á Íslandi á þessum vettvangi. Prokaria líf- og erfðatæknisvið Matís hefur nú þegar komið allmörgum afurðum á markað og reglulega bætast nýjar vörur við úrvalið.
Ágætu gestir.
Eins og sjá má kennir ýmissa grasa á ráðstefnunni og til dæmis er spurt; Veistu hvaðan maturinn þinn kemur? Eflaust telja margir sig vita svarið – og þó. Við flest vitum að mjólkin kemur úr kúnni, kjötið af kindinni og fleiri skepnum og grænmetið úr görðunum – eða hvað? Fljótlega rekur okkur í vörðurnar. Fyrir nokkrum vikum fór ég í kynnisferð með Félagi garðyrkjubænda um Suðurland og leit á starfsemi þeirra – sá hvernig lítil gró breyttust í sveppi og hvaða næringu þeir þurftu; hvernig gúrkan óx upp af vikrinum einum eða steinullinni – bara með því að fá sérstakan vökva sem drýpur niður í rótina. Hver þessi efni voru er mér að meira og minna leyti ókunnugt um. Hvað éta þau dýr sem við borðum kjötið af, hvaðan kemur fiskurinn og hvað er þetta allt saman. Svo nærri okkur er maturinn og svo sjálfsagður er hann að við erum hætt að velta svona grundvallarspurningum fyrir okkur. Í upplýstu samfélagi ætti það þó að vera skylda hvers manns að vita eitthvað um þetta og annað sem að fæðunni snýr. Þar kemur til kasta Matís.
Erindin hér á eftir eiga það öll sameiginlegt að snerta okkar daglega líf á einn eða annan hátt og kynningarnar í básunum eru forvitnilegar í meira lagi. Megi þetta allt verða okkur bæði til gagns og ekki síður gamans. Ég segi Haustráðstefnu Matís setta.