Hoppa yfir valmynd
18. mars 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ráðstefnu í Reykholti um eignarrétt og þjóðlendur 8. mars 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á ráðstefnu í Reykholti um eignarrétt og þjóðlendur 8. mars 2008.

Flutt af Sigurgeiri Þorgeirssyni.

 

Góðir tilheyrendur.

 

Ég vil byrja á því að lýsa yfir sérstakri ánægju með það framtak að kveðja til málþings  fræðimenn og lögspekinga til að fjalla um eignarrétt og hugtök honum tengd í aldanna rás. Einn dýrmætasti arfur hverrar þjóðar er menningin sem sagan geymir. Það er afskaplega viðeigandi að fræðileg umræða um þessi mál fari fram hér í Reykholti. Það hefur reynst íslenskri þjóð farsælast að hyggja að fortíðinni þegar grunnur framtíðar er lagður. Þetta á við um allt í okkar umhverfi, hvort sem við tölum um fólkið sjálft eða landið sem það byggir og síðast en ekki síst löggjöfina sem er ein mikilvægasta umgjörð samfélagsins og grundvöllur siðmenningar og velfarnaðar hverrar þjóðar. 

Eignarrétturinn er ein af grunnstoðum mannréttinda í íslensku samfélagi sem og hinum vestræna heimi. Hann er okkur svo helgur að rétt og nauðsynlegt þótti að verja hann sérstaklega í Stjórnarskrá landsins. Skilgreining og afmörkun eignarréttarins hefur svo verið sífellt verkefni löggjafans, meðal annars á grundvelli úrlausna dómstóla, frá því land byggðist. 

Í hinum gömlu lögbókum Grágás og Jónsbók frá því  á fyrstu öldunum eftir landnám eru ákvæði um eignarrétt á landi og fyrirmæli um landnot sem gefa okkur til kynna hversu mikilvæg lög og regla voru samfélaginu í öndverðu. Sum þessara ákvæða eru enn í gildi. Það sýnir framsýni höfunda lögbókanna. Það hefur síðan verið verkefni Alþingis og dómstólanna að móta þessa löggjöf og færa til samtíma viðhorfa. Í þeirri sögu eru nokkur atvik sem eru áhrifavaldar. 

Þar má fyrst nefna setningu vatnalaganna 1923. Stórhuga áform um virkjunarframkvæmdir á hálendi Íslands á öndverðri síðustu öld komu á stað umræðu um eignarhald á vatnsafli í ám og fossum á afréttum. Það má segja að með skýrslu Bjarna Jónssonar frá Vogi til Fossanefndarinnar hafi umræðan varðandi eignarhaldið á hálendinu mótast. Deilur og óvissa um eignarhald á afréttum og hálendinu voru svo viðloðandi eftir miðja síðustu öld og verða nokkur þáttaskil þegar Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu í dómsmáli um Landmannaafrétt, í svokölluðum Landmannaafréttardómi 1981, að afréttarlandið sjálft sé einskis manns eign.  Lögin um þjóðlendur á Íslandi eru leidd af þessum dómi og eru raunar sett í kjölfar þess sem þar segir, að löggjafinn hafi valdheimildir til að setja um þetta skýrar reglur.   

Það dylst engum að deilur hafa verið um framkvæmd þjóðlendulaganna. Það er skiljanlegt þegar tekist er á hendur jafn viðamikið og viðkvæmt verkefni eins og segir fyrir um í lögunum, að ákvarða mörk eignarlanda og þjóðlendu. Þau tímamörk sem sett voru í upphafi um  framkvæmd laganna eru liðin, og ljóst að enn munu mörg ár líða uns endanleg niðurstaða liggur fyrir um þjóðlendur á Íslandi. Fjármálaráðherra hefur reyndar lagt á það áherslu, að menn leggi nú meira upp úr vönduðum vinnubrögðum en flýti við að klára verkefnið. Hátt á þriðja tug hæstaréttardóma hafa fallið um þjóðlendur og eignarlönd og fyrir liggur að fjórum slíkum hefur verið skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Það er freistandi að velta fyrir sér hvort eitthvað hefur farið öðruvísi um framkvæmd laganna um þjóðlendur á Íslandi en ætlað var við setningu þeirra á alþingi árið 1998. Í því sambandi vakna nokkrar spurningar.  Eru ákvæði laganna víðtækari en ætlað var í upphafi? Eru hinar almennu sönnunarreglur sem lögin kveða á um bærilegar og verður af öryggi risið undir kröfunni um sönnun á eignarrétti? Við getum einnig spurt þeirrar spurningar hvort nægar rannsóknir hafi legið fyrir á inntaki eignarréttar á landi í aðdraganda lagasetningarinnar. Þá vaknar einnig spurning um hvort umræða um lögin og áhrif þeirra hafi verið næg meðal hagsmunaaðila.  Þetta segi ég í ljósi þess að á þeim tíma sem lögin voru sett var almenn samstaða um lagasetninguna.  Allt eru þetta góð og gild umfjöllunarefni. Við getum allavega  verið sammála um það að það málþing sem hér er til stofnað hefði að ósekju mátt fara fram 10 árum fyrr.

Ég vil vekja á því athygli hér, að fjármálaráðherra hefur nú beitt sér fyrir breyttu verklagi við undirbúning á kröfulýsingu ríkisins í þjóðlendumálum, sem hann vonast til, -og ég tek undir með honum-, að verði til þess að kröfulýsingar ríkisins valdi ekki þeirri úlfúð sem borið hefur við á undanförnum árum. Breytingin felst í því, að ríkið fær lengri frest til undirbúnings kröfum sínum og mun ekki leggja fram kröfur fyrr en umfangsmikil rannsókn skjala og hvers kyns nauðsynlegra heimilda hefur farið fram. Allt á þetta að stuðla að vandaðri kröfugerð, og loks er vert að geta þess, að ríkið ákvað í fyrra að una úrskurði óbyggðanefndar á Norð-Austurlandi, þar sem nefndin taldi, andstætt kröfugerð ríkisins, að land jarða næði saman í fjalllendi. Þessi ákvörðun hlýtur að einfalda nokkuð kröfugerð ríkisins í framhaldinu, þar sem líkt háttar til.

Það er von mín að málþing það sem háð er hér í dag megi verða málefnalegt innlegg í umræðuna um eignarrétt á landinu fyrr og nú. Ég leyfi mér einnig að vona að bærileg sátt megi ríkja þegar endanleg niðurstaða er fengin um eignarlönd og þjóðlendur á Íslandi.   

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta