Ársfundur Veiðimálastofnunar 27. mars 2008
Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar,
á ársfundi Veiðimálastofnunar 27. mars 2008
Ágætu ársfundar- og ráðstefnugestir
Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér og taka þátt í nokkurs konar uppskeruhátíð eftir fengsælt veiðisumar. Mikilvægt er að áhugafólk um stangveiði, laxfiska og hreinlega lífið í vatninu komi saman og líti yfir farinn veg og horfi til framtíðar. Þá er mikilvægt að fara yfir málin og leita ráða hvað snertir stórlaxinn því ekki viljum við missa þá höfðingja úr íslensku ánum.
Mikil auðæfi eru fólgin í íslenskum vötnum og ekki síður í þeim fiskstofnum sem þar þrífast. Mikil verðmæti eru fólgin í lax- og silungsveiðum. Þannig er efnahagslegt virði stangveiða í þjóðarbúinu metið um 12 milljarðar á ári. Stangveiði styður við um 1.200 störf á ári og er meginstoð búsetu á sumum svæðum landsins. Þá stundar um þriðjungur þjóðarinnar stangveiði sem er gríðarlega vinsæl og mikilvæg tómstundaiðja margra Íslendinga. Í stangveiðinni fer saman holl útivera í íslenskri náttúru og oft gleði yfir góðum feng.
Vel hefur tekist til í veiðimálum hér á Íslandi, laxastofnar okkar standa sterkar en víðast annars staðar og arður af veiðinni er meiri en í öðrum löndum. En við þurfum að vera vel á verði til að viðhalda þessu góða ástandi. Það verður ekki síst gert með öflugu rannsóknastarfi, eins og unnið er hjá Veiðimálastofnun. Fylgjast þarf vel með laxastofnum og ekki síst þarf að auka rannsóknir í sjó, en miklar breytingar hafa orðið á endurheimt laxa úr sjó, einkum stórlaxa. Mikilvægt er því að búa vel að þeirri auðlind sem fólgin er í veiðistofnum í ám og í vötnum.
Við eigum mörg ónýtt tækifæri í nýtingu silungsstofna og að fá meiri arð af þeirri veiði. Þarna eru miklir möguleikar. Afar mikilvægt er fyrir landsbyggðina og þar með land og þjóð að nýta þessi verðmæti meira og betur. Verkefnið er margþætt. Virkja þarf landeigendur og veiðifélög, byggja upp aðstöðu fyrir veiðimenn og kynna nýjar og lítt þekktar veiðilendur. Efla þarf athuganir á veiðimöguleikum og veiðiþoli fiskistofnanna. Síðast en ekki síst þarf að hlúa að nýjum stangveiðimönnum. Kynna þarf ungu fólki stangveiðina og fátt er betra en að leiða það þannig í faðm íslenskrar náttúru.
Eins og kunnugt er, var skipulagi stjórnarráðsins breytt af núverandi ríkisstjórn og tóku þær breytingar gildi um síðustu áramót. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sameinuðust og til varð nýtt ráðuneyti. Sjálfur er ég ekki í vafa um að þessar breytingar eru til góðs og leiða til eflingar stjórnsýslunnar í heild. Með þeim skapast ný sóknarfæri sem við eigum að nýta okkur, enda fer vel á því að þessir tveir grundvallaratvinnuvegir íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, fylki nú liði í sama ráðuneyti og vinni að hagsmunum sínum og þjóðarinnar í heild. Með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur tekið til starfa nýtt öflugt og kraftmikið ráðuneyti byggt á góðum grunni. Verkefni okkar eru af margvíslegum toga og sum mjög umfangsmikil. Um leið og kraftarnir sameinast leggjum við þyngra lóð á vogarskálarnar í uppbyggingu þessara tveggja atvinnugreina. Þessi breyting hefur mikil áhrif, einnig á veiðimálin.
Nú hefur verið ákveðið að breyta skipulagi og lögum er lúta að þessum málaflokki. Lög um fiskeldi verða sameinuð í einn lagabálk, en voru áður í tveimur lagabálkum eftir því hvort um var að ræða eldi ferskvatnsfiska eða sjávarfiska. Lögum um fiskræktarsjóð verður breytt, en áralangar deilur hafa verið um greiðslur raforkufyrirtækja í sjóðinn. Verði það frumvarp að lögum sem nú liggur fyrir, mun það styrkja sjóðinn og gera starf hans öflugra, en sjóðurinn er einkar mikilvægur við rannsóknir og uppbyggingu á veiðivötnunum.
Þá verður stjórnsýsla veiðimála færð frá Matvælastofnun til Fiskistofu en sú starfsemi fer betur með starfsemi Fiskistofu, ekki síst eftir að Landbúnaðarstofnun varð að Matvælastofnun, sem var góð og þörf breyting. Á Fiskistofu verður sérstakt svið, Veiðimálasvið, sem mun hafa með höndum stjórnsýslu veiðimála og verður þessi breyting til að styrkja umsýslu starfseminnar.
Veiðimálastofnun mun áfram starfa sem sjálfstæð stofnun. Hún er afar mikilvæg og hefur sinnt sínu hlutverki vel en þó er æskilegt að efla hana enn frekar. Til skoðunar er í ráðuneytinu hvort heppilegt sé að breyta um rekstrarform og gera hana að opinberu hlutafélagi. Ein ástæða fyrir slíkri breytingu er að Veiðimálastofnun hefur miklar sértekjur og starfar því að hluta á samkeppnismarkaði. Slík breyting reyndist vel hjá Matís og hefur hleypt miklum þrótti í þá starfsemi. Ráðuneytið mun á næstunni skoða vandlega með stjórnendum og starfsfólki Veiðimálastofnunar hvort heppilegt sé að breyta stofnuninni í opinbert hlutafélag. Ég vil hins vegar undirstrika að um þessi mál hefur ekki enn fengist niðurstaða. Leiðarljós okkar er og verður heill þess starfs sem unnið er að á vettvangi Veiðimálastofnunar.
Góðir ráðstefnu- og ársfundargestir.
Vettvangur sem þessi er afar mikilvægur. Bæði til að örva faglega umræðu en einnig til að gera okkur kleyft að bera saman bækur okkar og vekja máls á þýðingarmiklu umræðuefni. Slík umræða er kveikjan að skoðanaskiptum sem reynsla vísindamanna og skóli lífsins hafa fært okkur heim sanninn um að er oft forboði skynsamlegrar niðurstöðu. Þess vegna eru ársfundurinn og ráðstefnan í kjölfarið mikilvæg.
Ég vil að endingu færa öllum þeim sem hlut eiga að máli og hafa komið að undirbúningi þessara funda mínar bestu þakkir. Að svo mæltu vona ég að þið eigið ánægjulega og gagnlegan fund hér í dag.