Hoppa yfir valmynd
07. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Fagráðstefna skógræktargeirans haldin á Hvolsvelli 3. - 4. apríl 2008.

Fagráðstefna skógræktargeirans,

haldin á Hvolsvelli 3.-4. apríl 2008.

Ráðstefnuslit.

Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Einars Kristins Guðfinnssonar.

Ágætu ráðstefnugestir.

 

Mér er það ánægja að ávarpa ykkur fáeinum orðum við slit þeirrar ráðstefnu skógræktarfólks sem hér hefur staðið í 2 daga.

 

Eflaust hefði það talist til stórra tíðinda áður fyrr að skógræktarfólk gæti komið til slíks fundar og rætt málefni skóga á faglegum grundvelli í svo langan tíma. Þetta er samt staðan í dag og henni ber að fagna.  Skógrækt er orðin viðurkennd, bæði sem búgrein og sömuleiðis er fjölþætt mikilvægi skóga fyrir landið í heild öllum ljóst.

 

Ég hef ekki getað setið ráðstefnu ykkar en sé litið til þeirrar dagskrár sem ráðstefnan innihélt og þeirra erindi sem hér hafa verið flutt er öllum ljóst að ræktun skóga er orðinn umtalsverður þáttur í okkar þjóðarbúskap.  Sömuleiðis má öllum vera ljóst að nýting skóga og fjölþætt hlutverk hans að öðru leyti er mun meiri en ýmsir vafalaust halda.

 

Hér er hvorki tími til, né mér ætlað, að ræða einstaka þætti skógræktarinnar en samt sem áður leyfi ég mér að staldra við tvö atriði sem hér hafa verið til umræðu.

 

Vitundarvakning hefur orðið hjá þjóðum heims um fjölþætt gildi skóga.  Áður og jafnvel fram til þessa hefur að stærstu leyti verið litið til beinna timburafurða þeirra og vil ég minna á að við stofnun Héraðsskóga fyrir tæpum 20 árum síðan var markmiðið þeirra fyrst og fremst timburskógrækt.  Síðan þá hafa menn gert sér ljósari grein fyrir að skógurinn hefur fleira notagildi en timburframleiðslu og sé aðeins litið til könnunar sem fram hefur farið á heimsóknum landsmanna í skóga kemur í ljós að fjöldi heimsókna er ótrúlega hár.

 

Á vettvangi Norðurlandanna hafa ráðherrar beint sjónum að verðmæti skóga fyrir samfélög, atvinnulíf, útivist, ferðaþjónustu, umhverfi. Á sameiginlegum fundi þeirra ráðherra sem um skógarmál fjalla var fyrir þremur árum, samþykkt að efla umræðu um skóga, meðal íbúa, yfirvalda, skógareigenda, atvinnulífs og félagasamtaka.

 

Með því er ætlunin að gera staðbundin og svæðisbundin verðmæti skóga sýnilegri og með því er einnig leitast við að hvetja sveitarfélög til þess að taka ábyrgð á gildum skógarins innan þeirra marka sem lögsaga þeirra nær til.  Sömuleiðis er ætlunin að þróa frekar möguleika sveitarfélaga til þess að færa sér í nyt skóga til útivistar og til þess að fegra umhverfi þeirra, og bæta þjónustu þannig að almenningur njóti enn frekar útiveru í skógunum.

 

Í annan stað vildi ég undirstrika þátt skóga í kolefnisbindingu.

Segja má að umræða um kolefnisbindingu og kolefnislosun sé nýtt fyrirbrigði, - alla vega í þeim mæli sem nú er.  Þetta var eitthvað sem vísindamenn vissu um en fyrir almenning var binding og losun kolefnis atriði sem ekki þurfti að hafa áhyggjur af.

 

Nú er staða þessara mála í allt öðrum farvegi og ljóst að losun kolefnis er of mikil og þörf á aðgerðum þar til bóta.  Í þeirri umræðu hefur oft verið bent á möguleika Íslands umfram flestar þjóðir að rækta skóg sem mótvægisaðgerð gegn losun kolefnis.  Sérstaða Íslands er sú að hér er sem næst skóglaust land.  Áður var talið nær vonlaust að rækta hér skóg en nú vita allir – í gegnum reynslu og rannsóknir að landið hefur upp á alla möguleika að bjóða í þeim efnum.

 

Svo ný sem þessi umræða er í dag, má hiklaust halda því fram að hvergi sér fyrir endann á henni, né fram komin öll atriði málsins.  Ljóst má hins vegar vera að hvers konar skógrækt er málinu til góða og okkur til tekna.

 

Við þurfum því að vera vel vakandi gangvart þessum málaflokki og hver veit nema Íslendingar geti á þessu sviði lagt meira fram en okkur grunar og að þróun skógræktar í landinu verði hraðari og meiri en búist var við.  Með þessu er ég að hvetja okkur til að fylgjast vel með og nýta okkar stöðu, jafnframt því að leggja fram okkar skerf til loftslagsmála.

 

Fleiri atriði á dagskrá ykkar vöktu vissulega athygli þótt ég ræði þau ekki sérstaklega.  Ég endurtek hins vegar hvað það er ánægjulegt að vita hvað málefni skóganna eru víða komin á dagskrá, ekki aðeins hjá þeim sem skógrækt stunda, heldur og meðal almennings og stjórnvalda.

 

Góðir ráðstefnugestir.

 

Við þær breytingar á Stjórnarráðinu sem ákveðnar voru á síðasta ári og tóku gildi um áramótin kom í hlut míns ráðuneytis að vera í forsvari fyrir nýskógrækt á vegum landshlutaskóganna sem er lang stærsti aðilinn á þeim vettvangi.

Ég mun beita mér fyrir auknu fjármagni til verkefnanna, ekki aðeins í þeirra þágu heldur í þágu landsmanna allra og þjóðarinnar.  Það ætti að vera okkar sameiginlega markmið að efla nýskógræktina eins og kostur er á.

 

 

 

Ágæta ráðstefna.

 

Nóg hafið þið fengið af ræðuhöldum og ekki ástæða fyrir mig að hafa þessi lokaorð ráðstefnunnar miklu fleiri.

 

Ég endurtek þakkir mínar fyrir að fá að ávarpa ykkur fáeinum orðum og um leið og ég slít ráðstefnunni vil ég óska ykkur og öllu skógræktarfólki góðrar ræktunar og góðs gengis í framtíðinni.

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta