Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda 10. apríl 2008
Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við setningu aðalfundar
Landssamtaka sauðfjárbænda 10. apríl 2008.
Ágætu aðalfundarfulltrúar,
Það er ánægjulegt að vera viðstaddur þessa setningu aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda og fá um leið tækifæri til að fara nokkrum orðum um fáein mál sem hvað heitast brenna á bændum. Þar er af nógu að taka um þessar mundir.
Enginn velkist í vafa um að íslenskur landbúnaður hefur tekið miklum breytingum og stórstígum framförum á undanförnum árum. Þetta á við um sauðfjárframleiðsluna ekki síður en annan landbúnað. Landbúnaðurinn þarf eins og aðrar atvinnugreinar að tileinka sér nýjustu tækni, en um leið að halda niðri kostnaði. Við vitum að framleiðsluferillinn er langur og því ekki alls kostar samanburðarhæfur við hefðbundna framleiðslu, s.s. í sjávarútvegi og iðnaði. Uppbygging og tæknivæðing felur í sér fækkun og stækkun búa, en er um leið tækifæri til framtíðar og mun styrkja íslenska búvöruframleiðslu í sífellt opnara samkeppnisumhverfi, sem bændur og úrvinnslugreinar landbúnaðarins hrærast í. Við vitum líka að þróun síðustu ára hefur fært sauðfjárframleiðslu fjær mesta þéttbýlinu og úr héruðum þar sem annars konar landbúnaður á borð við skógrækt, rekstur frístundabyggða og fleira hefur skotið dýpri rótum og stuðlað meðal annars að hærra jarðaverði. Þessi þróun er að mínu mati hvorki slæm né óæskileg og getur orðið til þess að styrkja búsetu á svæðum sem ella ættu undir högg að sækja. Þetta kallar hins vegar á rót og röskun, en hvort tveggja er óumflýjanlegur fylgifiskur þess þjóðfélags breytinga sem við lifum í.
Það er heldur ekki svo, eins og stundum er haldið fram, að bændur starfi í vernduðu umhverfi og þurfi ekki að taka tillit til samkeppni eða aðstæðna að öðru leyti. Þvert á móti er landbúnaðurinn í margs konar samkeppni um fólk og fjármagn og í samkeppni við innfluttar matvörur ýmis konar og þarf þess vegna að beita öllum úrræðum til að hagræða og lækka kostnað. Mikill árangur hefur einmitt náðst í þessa veru, ekki aðeins hjá bændum sjálfum, heldur einnig í slátrun og við vinnslu afurða þar sem þróunin heldur stöðugt áfram. Í þessu sambandi vil ég brýna fyrir sláturleyfishöfum að láta ekki deigan síga í þessum efnum. Sláturkostnaður er tiltölulega hár hér á landi og því nauðsynlegt samkeppninar vegna að leita allra leiða til þess að lækka hann og gildir þá einu hvort það er gert með sameiningu sláturhúsa og/eða aukinni tæknivæðingu. Þá verða vinnslustöðvar landbúnaðarins að vera stöðugt á verði í þeim tilgangi að þjóna neytendum sem best. Vöruþóun og nýjungar eru lykilatriði í harðnandi samkeppni til þess að halda hlut sínum og helst að sækja á. Að mínu mati er ljóst að íslenskir neytendur vilja kaupa íslenska vöru og því er mikilvægt að búvöruframleiðendur hér á landi og vinnslustöðvar þeirra gæti vel að „merkingum“ á framleiðsluvörum sínum. Í þessu sambandi vil ég nefna athyglisverðan árangur sem íslensk garðyrkja hefur náð á undanförnum misserum í merkingum á framleiðsluvörum sínum með því að sameinast um notkun á fánaröndinni.
Aukinn kostnaður við aðföng hefur valdið miklum áhyggjum og mun hafa neikvæð áhrif á landbúnaðinn og raunar þjóðarbúið í heild. Því miður eru engar horfur á, að þær kostnaðarhækkanir sem skollið hafa á landbúnaðinum að undanförnu, s.s. á fóðri, áburði og eldsneyti gangi til baka í bráð. Þvert á móti eru fóðurvörur og áburður enn að hækka og sér ekki fyrir endann á því. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það að þessi þróun er bændum afar erfið, en jafnframt eru úrræðin ekki mjög mörg. Inngrip ríkisins, til dæmis með tímabundnum niðurgreiðslum, er til dæmis ekki alveg einfalt mál og árangurinn yrði væntanlega í besta falli umdeilanlegur. Það hefur því sjaldan verið brýnna en nú, að bændur og ráðunautar þeirra velti við hverjum steini til að ná fram sem hagkvæmastri nýtingu allra aðfanga. Sama gildir að sjálfsögðu um fjárfestingar. Þar geta bændur örugglega náð umtalsverðum árangri með því að vega og meta, betur en margir gera, arðsemi hverrar fjárfestingar áður en í hana er ráðist, hvort heldur er í tækjum, fasteignum eða öðrum framleiðsluþáttum.
Um sl. áramót tók gildi nýr sauðfjársamningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar til 6 ára og gildir hann til 31. desember 2013. Ég bind miklar vonir við þennan nýja samning og tel hann að mörgu leyti marka framfara spor til eflingar og um leið starfsöryggis fyrir sauðfjárbændur á komandi árum, en markmið samningsins eru:
- Að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda.
- Að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli.
- Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.
- Að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar.
- Að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.
Þá er einnig rétt að rifja upp að helstu efnisatriði samningsins:
- Framlög ríkisins hækkuðu um 300 millj. kr. og eru 3.538 millj. kr á fyrsta ári samningsins. Framlögin lækka síðan í áföngum á samningstímanum um nær 1% á ári að raunvirði.
- Samningurinn er nokkuð einfaldaður frá eldri samningi. Greiðsluleiðum til bænda var fækkað, t.d. voru jöfnunargreiðslum breytt í beingreiðslur auk þess að undanþága frá útflutningsskyldu er felld niður í áföngum. Útflutningsskylda fellur svo niður frá og með framleiðsluárinu 2009.
- Nýmæli í samningnum er sérstakt ákvæði um veitingu fjármuna til að efla nýliðun í stétt sauðfjárbænda.
- Framlög til gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu eru aukin og verða hærra hlutfall af greiðslum til bænda af samningsfé, en samkvæmt eldri samningi.
- Bændur sem eru orðnir 64 ára eiga áfram kost á að gera samning um búskaparlok án þess að tapa rétti til beingreiðslna.
- Greiðslur vegna ullarframleiðslu eru óbreyttar.
- Ákvæði um aðilaskipti að greiðslumarki eru óbreytt.
Að undanförnu hefur verið unnið að innleiðingu og framkvæmd samningsins, s.s. endurskoðun á reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sem tekið hefur gildi, og auglýstar hafa verið reglur um nýliðunar- og átaksverkefna. Þá gerir samningurinn ráð fyrir að framkvæmd og ábyrgð flytjist í auknum mæli til Bændasamtakanna, t.d. hvað varðar markaðsstarf og birgðahald.
Sumir bændur og jafnvel félög sauðfjárbænda hafa ályktað um að hætt verði við að leggja niður útflutningsskylduna frá 1. júní 2009. Í þessu sambandi vil ég benda á að þetta var eitt af helstu ágreiningsefnunum milli bænda og ríkisvaldsins við gerð nýja sauðfjársamningsins. Ágreiningurinn var leystur með því að ríkisvaldið ákvað að koma með aukið fjármagn inn í samninginn þ.e.a.s. 300 m.kr. og var samningstíminn lengdur um eitt ár frá því sem áður hafði verið rætt um. Um þetta varð samkomulag milli bænda og ríkisins sbr. 5. gr. samningsins, og það er ljóst að erfitt verður að snúa þarna til baka.
Þegar EES samningurinn var gerður á sínum tíma, en hann tók gildi hér á landi 1. janúar 1994, hafði Ísland undanþágu fá nokkrum veigamiklum málum á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðar. Þessar undanþágur féllu niður á ýmsum sviðum sjávarútvegsins árið 1999 en undanþágan hélt áfram hvað landbúnaðinn varðaði. Með tilkomu nýrrar matvælalöggjafar í Evrópusambandinu, sem er samræmd fyrir allar tegundir matvæla, jafnt búfjárafurðir sem sjávarafurðir, lá ljóst fyrir að Ísland yrði að yfirtaka reglur ESB um búvöruframleiðslu, ef við ætluðum að halda stöðu okkar á innri markaði ESB fyrir sjávarafurðir og jafnframt að styrkja möguleika til útflutnings á landbúnaðarafurðum. Um tveggja ára skeið hefur verið unnið að samkomulagi um yfirtöku á viðauka I við EES samninginn.
Samkomulag þessa efnis var staðfest í sameiginlegu nefndinni í lok október sl. Samkomulagið felur í sér að samræmdar reglur gildi í aðal atriðum hér á landi og í löndum Evrópusambandsins að því er varðar eftirlit með framleiðslu matvæla. En það er þó mikilvægt, að við höldum áfram undanþágu varðandi lifandi dýr, þannig að slíkur innflutningur verður áfram bannaður.
Í síðustu viku mælti ég fyrir frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum sem nauðsynlegar eru samfara yfirtöku viðaukans. Reiknað er með að þessi nýja matvælalöggjöf komi að fullu til framkvæmda í lok október á næsta ári.
Með tilkomu þessarar nýju matvælalöggjafar er ljóst að breytingar verða við innflutning á ýmsum matvælum. Vörur sem Evrópusambandið samþykkir eða viðurkennir eiga í heilbrigðislegu tilliti greiðan aðgang inn til landsins. Hins vegar er tollameðferð breytileg eftir uppruna vörunnar. Tökum dæmi af vöru frá Nýja–Sjálandi. Sé varan viðurkennd af Evrópusambandinu, á hún greiðan aðgang til landsins á grundvelli heilbrigðisreglna, en tollameðferð er önnur frá Nýja-Sjálandi en frá Evrópusambandinu. Þá fellur niður krafa um þrjátíu daga „frystiskyldu“. Við þá breytingu verður ekki neinn greinarmunur gerður á frosnum eða ófrosnum vörum. Ísland mun á hinn bóginn eins og Noregur og Svíþjóð hafa leyfi til þess að krefjast sérstaks “salmonelluvottorðs” á grundvelli svokallaðrar „viðótartryggingar“. Þessi krafa er gerð með tilliti til góð ástands í þeim málum hér á landi og er mikilvæg til að vernda heilsu manna.
Mér hefur fundist það nokkuð sérstakt að fylgjast með þeirri umræðu sem orðið hefur frá því að frumvarp það sem hér er gert að umræðuefni var lagt fram. Fyrir það fyrsta vegna þess að aðdragandinn að fyrirhugaðri lagasetningu hefur verið langur. Það eru liðin tvö ár eða svo frá því að hin pólitíska ákvörðun var tekin hérlendis um að lögfesta efni þeirra reglna ESB sem liggja til grundvallar nýrri matvælalöggjöf.
Í annan stað vegna þess að mér hefur fundist að einstaka menn – og það jafnvel menn sem ég ætla að telji sig ná máli í þjóðfélagslegri umræðu – láti eins og sá kostur hafi verið til staðar að hafna algjörlega því að taka upp efni þessarar löggjafar án þess að það hefði áhrif á stöðu matvælaframleiðslu okkar, hverju nafni sem hún nefndist.
Gleymum því ekki að Evrópa er lang mikilvægasta markaðssvæði okkar. Möguleikar okkar á því að stunda útflutning matvæla stendur bókstaflega og fellur með því að þangað eigum við greiðan aðgang með matvæli okkar, hvort sem það er fiskur, kjöt, eða mjólkurafurðir. Með því að viðhalda óbreyttu ástandi hefðum við í raun dæmt útflutning okkar á þessum vörum til Evrópu til eins konar útlegðar. Litið hefði verið á þær sem þriðja lands framleiðslu og það þarf ekki að hafa um afleiðingar þess nokkur fleiri orð.
Þetta er bakgrunnur þessa frumvarps sem nú er komið til meðferðar í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd Alþingis. Þeir sem telja að það frumvarp sé óþarft eða til óþurftar eiga nú það verk fyrir höndum að benda okkur á aðra valkosti sem tryggja um leið hagsmuni matvælaútflutnings okkar inn á markaði Evrópu, okkar lang mikilvægustu markaði.
Það hefur nokkuð borið á því í umræðunni undanfarna daga, að menn óttist að með hinni nýju löggjöf séu allar varnir landbúnaðarins brostnar og nú muni alls konar kjötafurðir flæða yfir án heilbrigðisskoðunar og tollverndar. Þetta er auðvitað ekki þannig vaxið. Í fyrsta lagi felur þessi lagabreyting ekki í sér neinar breytingar á tollvernd. Og ég vil ítreka það sem ég hef sagt æ ofan í æ. Ég hef engin áform uppi um að ganga hraðar fram í lækkun tolla en alþjóðlegar skuldbindingar munu krefjast, nema gagnkvæmar tollaívilnanir fáist í staðinn til að styrkja útflutningsmöguleika landbúnaðarins í breyttum heimi. Það er nauðsynlegt að árétta að íslenskum stjórnvöldum ber að reyna að stuðla að því að greiða leið fyrir íslenskar framleiðsluvörur inn á erlenda markaði. Það hafa stjórnvöld alltaf og ævinlega gert og þannig verður það. Slíkt verður hins vegar ekki gert nema með gagnkvæmum samningum og eru hinir fjölmörgu fríverslunarsamningar okkar við aðrar þjóðir glöggt dæmi um það. Ég held líka að enginn sá sem til dæmis hefur átt í samskiptum við ESB, - sem ég tek þó fram að hafa verið almennt góð, - velkist í vafa um að þar á bæ muni menn nokkurn tíma opna glufur í tollmúra sína fyrir íslenskar framleiðsluvörur nema að fá eitthvað í staðinn. Þess vegna miðast þær viðræður sem nú eiga sér stað við það að ná samkomulagi sem fela í sér gagnkvæmar tollalækkanir sem báðir aðilar telja hagkvæma.
Í annan stað er opnunin eingöngu gagnvart ESB, sem hefur á undanförnum árum hert mjög mikið alla matvælalöggjöf sína og eftirlit, jafnvel svo okkur þykir nóg um á stundum. Nægir í þessu sambandi að minna á þær kröfur sem sláturleyfishafar þekkja frá ESB varðandi aðbúnað og hreinlæti í sláturhúsum hér á landi sem hafa aflað sér leyfis til útflutnings inn til ESB landa. Því tel ég ekki að við tökum umtalsverða áhættu á heilbrigðissviðinu með þessari breytingu. Í þessu sambandi vil ég því árétta, að engin matvæli verða flutt inn á grundvelli þessara fyrirhuguðu laga sem ekki hafa fengið blessun stofnana á hinu evrópska efnahagssvæði sem hafa sömu stöðu og okkar nýja og öfluga Matvælastofnun, MAST.
Hvað sem þessu líður er afar mikilvægt fyrir okkur að gæta vel að því að unnt sé að fylgjast með því að ekki verði gefið eftir varðandi heilnæmi og heilbrigði þess kjöts sem heimilt verður að flytja inn, samkvæmt frumvarpinu. Við höfum háð aldalanga baráttu við að tryggja heilbrigði íslenskrar framleiðslu og á ýmsum sviðum náð þar miklum árangri. Það er okkar ætlan að tefla því ekki í tvísýnu.
Á hinn bóginn er enginn vafi í mínum huga um, að þegar opnað verður á möguleikann til að flytja inn ófrosið kjöt frá EES-svæðinu, muni það eitt og sér auka áhuga á innflutningi kjöts og þar með veita aukna samkeppni hér. Ég tel jafnframt, að í ljósi þessara breytinga, og ekki síst vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á alþjóðasamningum á síðasta áratug og við vorum aðilar að, sé erfitt að hafna til langframa öllum innflutningi á dilkakjöti, sem aðeins hefur verið leitað eftir síðustu ár. En ég hef ekki áhyggjur af því að íslenskt lambakjöt standist ekki þá samkeppni, með hæfilegri tollvernd, sem flestir eru sammála um að halda. Er í þessu sambandi rétt að undirstrika að í þeirri miklu umræðu sem hefur orðið síðustu vikur um tollamál hefur hvergi verið vikið að því að draga úr tollvernd íslenskrar dilkakjötsframleiðslu.
Við vitum að íslenskir neytendur hafa afar jákvæða afstöðu gagnvart íslenskum landbúnaðarafurðum. Þær merkingar sem íslenskir garðyrkjubændur hafa á sínum afurðum og ég vék að hér að undan, hafa skilað þeim betri sölu auk þess sem þær hafa ótvírætt upplýsingagildi fyrir neytendur. Mér er kunnugt um að á vettvangi íslenskra bænda hefur verið að því hugað að taka upp sambærilegar merkingar almennt fyrir íslenskar landbúnaðarvörur. Það tel ég vera skynsamlega hugsun og lýsi því yfir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er reiðubúið til þess að vinna að slíku með bændum standi hugur manna til þess. Alveg óháð hinni nýju matvælalöggjöf tel ég að slíkar merkingar feli í sér markaðsleg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað, sem menn eigi að reyna að nýta sér.
Ég greindi frá því í síðustu viku að við þær aðstæður, sem nú eru uppi, tel ég ekki einungis rétt heldur óhjákvæmilegt að fella niður það sem eftir stendur af kjarnfóðurtolli, en það eru nú 3,90 kr á kg af blönduðu fóðri, þótt það skipti kannski ekki sköpum fyrir sauðfjárbændur. Um þetta hefur margsinnis verið ályktað af kúabændum, Búnaðarþingi og fleirum. Ég hef ákveðið að breyta reglugerð um greiðslur úr fóðursjóði nr. 31/1996 á þann hátt, að frá 1. maí nk. verði allar fóðurblöndur frá ríkjum evrópska efnahagssvæðisins gjaldfrjálsar, en áfram verði innheimt óbreytt gjald af blöndum frá öðrum löndum. Þessi breyting verður tímabundin til næstu áramóta, og framhaldið ræðst af því hvernig samningar um gagnkvæmar tollaívilananir á landbúnaðarvörum þróast milli okkar og Evrópusambandsins.
Góðir aðalfundarfulltrúar,
Við lifum sannarlega á breytingatímum. Breytingar fela í sér tækifæri, sem við skulum reyna að grípa. Það er eðlilegt að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi landbúnaðinum stöðugleika í rekstrarumhverfi eins og öðru atvinnulífi. Þess vegna er þróun æskilegri en kollsteypur. Nú um áramótin tók gildi nýr sauðfjársamningur sem vitaskuld verður virtur í hvívetna. Sannarlega er viss órói í starfsumhverfinu vegna verðhækkana á aðföngum. Samt sem áður sjáum við tækifærin blasa við og margt bendir til þess að samkeppnisstaða landbúnaðarins batni í framtíðinni, meðal annars vegna þróunar á alþjóðlegum matvörumörkuðum. Ég hef því sem fyrr fulla trú á landbúnaðinum og möguleikum hans og veit að hann mun sem fyrr gegna lykilhlutverki í þjóðlífi okkar um ókomna tíð.