Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Vorráðstefna Matís og Matvælastofnunarinnar 16. apríl 2008

Setningarávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á vorráðstefnu Matís og Matvælastofnunar 16. apríl 2008.

Góðir ráðstefnugestir.

Yfirskrift þessarar vorráðstefnu sem Matís og Matvælastofnun standa fyrir er matur, öryggi og heilsa og spurt er hvaðan kemur maturinn okkar og hvað er í honum? Þetta á vel við því fyrir hálfum mánuði mælti ég fyrir nýrri matvælalöggjöf á Alþingi þar sem neytendavernd er lykilatriði. Með breytingunum á að auka matvælaöryggi og tryggja hagsmuni neytenda. Um leið skapast íslenskum matvælaframleiðendum fleiri tækifæri til að markaðssetja vörur sínar á evrópska efnahagssvæðinu. Þar hafa íslenskar sjávarafurðir verið í frjálsu flæði og til að halda þeirri stöðu er nauðsynlegt að endurskoða matvælalöggjöf okkar og -eftirlitið. Að öðrum kosti yrði afar erfitt að flytja vörur út til Evrópusambandsins því þá væri litið á Ísland sem þriðja ríki með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Eftir því sem milliríkjaviðskipti með matvæli aukast og framboð verður fjölbreyttara er mikilvægara en nokkru sinni að huga að uppruna þeirra matvæla sem á boðstólum eru og borðum neytenda. Í þessu sambandi er rekjanleiki lykilatriði, bæði hvað snertir öryggi matvæla og ekki síður markaðssetningu afurðanna.

Ísland hefur náð langt í að skapa framleiðsluumhverfi matvæla sem þekkt er fyrir hreinleika og öryggi. Í því felast mikil tækifæri fyrir framleiðendur og seljendur, bæði hér heima og til landvinninga á erlendri grund. Mikið hefur áunnist á síðustu árum við kynningu og markaðssetningu íslenskra afurða erlendis og þar er hreinleiki hráefnisins einn helsti styrkleiki markaðsstarfsins. Þá hafa framleiðslufyrirtæki í matvælaiðnaði tekið á móti erlendum aðilum

sem hafa haft hug á að læra af heimamönnum og fræðast um þann árangur sem náðst hefur í öruggri framleiðslu. Skapist hér á landi hefð fyrir metnaðarfullri framleiðslu matvæla - þar sem hreinleiki er í fyrirrúmi - skapast um leið þekking sem hæglega getur orðið að dýrmætri söluvöru til erlendra aðila, í formi ráðgjafar og jafnvel rannsóknavinnu á grundvelli íslenskrar reynslu.

 

Eitt er að selja íslensk matvæli úr landi en annað er að fá útlendinga til að heimsækja Ísland gagngert til að njóta allra þeirra dásemda sem íslenskt hráefni hefur upp á að bjóða. Hugtakið matarferðamennska er tiltölulega nýtt af nálinni. Inntak þess konar ferðaþjónustu felur í sér mikil tækifæri ekki hvað síst á landsbyggðinni. Áhugi eykst jafnt og þétt á framleiðslu á afurðum sem tengjast ákveðnum svæðum og einnig sögunni á hverjum stað. Með markvissri gæðastjórnun og markaðssetningu má hugsa sér að nýtt kort af Íslandi geti höfðað mjög til erlendra ferðamanna. Á því mætti t.d. merkja einstök landsvæði þeim krásum sem viðkomandi svæði sérhæfir sig í og hefur hefð fyrir. 

Ég hef sett á laggirnar nefnd  til ráðuneytis um hvernig best megi standa að og greiða fyrir þróun heimavinnslu og sölu afurða hjá bændum. Nefndinni er ætlað að hafa náið samráð við stjórn Beint frá býli – Félags heimavinnsluaðila, sem tók til starfa á hlaupársdag.  Glöggt má merkja að áhugi bænda fyrir slíkri heimavinnslu afurða eykst hratt um þessar mundir. Þarna felst vaxtarbroddur sem vert er að hlúa að, því hvers kyns nýsköpun af þessu tagi getur orðið greininni lyftistöng. Nefndin á að liðka fyrir og stuðla að árangursríku samstarfi hins opinbera og hagsmunaaðilanna.

Í þessu samhengi öllu skiptir gríðarlegu máli að rekjanleiki matvæla liggi fyrir  og sé augljós svo áhugasamir geti áhyggjulaust notið þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Með því að leggja metnað í öryggisþáttinn gefst geysimikið sóknarfæri í markaðssetningu þar sem krafa um rekjanleika verður sífellt háværari hjá neytendum. Þeir láta sér ekki lengur nægja að vita hvað þeir borða, heldur vilja líka vita hvar, hvenær og við hvaða skilyrði maturinn varð til.

 

Ekki er ólíklegt að framleiðendur sem virða þessa sjálfsögðu kröfu neytenda að vettugi muni fara halloka í sínum rekstri til lengri, ef ekki þegar til skemmri tíma litið. Með því að efla alla upplýsingasöfnun þegar í stað getur Ísland náð forskoti í hinu nýja alþjóðlega umhverfi matvæla þar sem rekjanleikinn er kominn í öndvegi. Miklu skiptir að með samstilltu átaki og metnaði nái Ísland að vera í fararbroddi frá byrjun í stað þess að dragast aftur úr. Þróunin lætur ekki bíða eftir sér. Rannsóknir, upplýsingaöflun og upplýsingagjöf er lykilatriði í að efla öryggi matvæla.  

Ýmsir hafa áhyggjur af opnun markaða og auknum innflutningi matvæla, sérstaklega í kjölfar fyrirhugaðra breytinga á matvælalögunum. Í því sambandi er rétt að minna á að matvælalöggjöfin er eitt, en tollar- og magntakmarkanir sem íslensk stjórnvöld ákveða - annað. Það er þó ljóst að breytingarnar leiða m.a. til þess að flugfarþegar geta tekið með sér hrátt kjöt hingað til lands frá ríkjum EES. Umfangsmeiri viðskipti ráðast aftur á móti væntanlega af því hvaða stjórntækjum verður beitt. Enda er það ekki markmið nýrra laga að auka milliríkjaviðskipti með hráar kjötvörur, heldur fyrst og fremst að stuðla að matvælaöryggi og neytendavernd. Með öðrum orðum; fyrirhuguð löggjöf er ekki viðskiptalöggjöf, heldur matvælalöggjöf.

Hvað harðnandi samkeppni snertir þá eru vöruþóun og hvers kyns nýjungar nauðsynlegar. Þar njóta íslenskar landbúnaðarvörur einnig góðs af jákvæðri afstöðu íslenskra neytenda. Því er mikilvægt að búvöruframleiðendur hér á landi og vinnslustöðvar þeirra gæti vel að merkingum á framleiðsluvörum sínum svo ekki fari á milli mála hvaðan varan kemur. Það hafa garðyrkjubændur til dæmis orðið áþreifanlega varir við. Með því að sérmerkja sínar afurðir með íslensku fánaröndinni hefur salan aukist. Þarna er lögð áhersla á sérstöðuna og íslenska upprunann sem hvort tveggja höfðar greinilega vel til neytenda og það að vonum.

Þegar horft er til framtíðar þarf að huga að þeirri sérstöðu sem hér er, bæði hvað varðar góða stöðu vegna búfjársjúkdóma og það mikla matvælaöryggi sem við njótum. Alvarlegir dýrasjúkdómar og alvarlegir matarsjúkdómar eru fátíðir hér á landi.  Búa þarf svo um hnútana að unnt verði að fylgjast vel með því að ekki verði gefið eftir varðandi heilbrigði og heilnæmi þess kjöts sem heimilt verður að flytja inn.  Við höfum háð aldalanga baráttu við að tryggja heilbrigði íslenskrar framleiðslu og náð þar góðum árangri. Okkar ætlan er að tefla þessu ekki í tvísýnu. Því markmiði verður aðeins náð með samstilltu átaki matvælafyrirtækja og öflugu eftirliti, þannig að alvarlegir dýrasjúkdómar berist ekki til landsins og matvæli hér á markaði standist settar kröfur.

Við þessar breytingar er rétt - samhliða varfærni - að horfa til þeirra tækifæra sem gefast og takast á við ógnanirnar. Sókn er besta vörnin. Sækjum því fram með sérstöðu og styrk íslenskrar matvælavinnslu að vopni, tryggjum örugga framleiðslu, blásum nýju lífi í aldagamla verkþekkingu og einföldum regluverkið án þess að gefa afslátt á öryggi og heilnæmi íslenskra matvæla. Mikilvægt er að hið opinbera styðji við framleiðendur með einföldu og skilvirku starfsumhverfi sem ekki kemur í veg fyrir nýsköpun heldur styður við framþróun í matvælavinnslu sem víðast á landinu. Tækifæri liggja m.a. í handverkinu og eldri matarhefðum og nauðsynlegt er að styðja við þessa þróun með rannsóknum og nýrri þekkingu.  Miðað við þróunina um þessar mundir á matvælamörkuðunum er þekking á uppruna matvælanna og rekjanleiki mikil verðmæti sem ættu að geta skapað íslenskri matvælaframleiðslu sérstöðu.  

 

 

Góðir ráðstefnugestir.

Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um landbúnaðarvörur hér í dag, enda hefur umræða um nýju matvælalöggjöfin mest megnis snúist um þær og hvaða afleiðingar lögin hafi á íslenskan landbúnað. Við megum þó ekki gleyma að þau hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn, svo mikla að tæpast verður undirstrikað með fullnægjandi hætti. Matís og Matvælastofnun hafa líka báðar mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna gagnvart grundvallaratvinnuvegunum tveimur. Báðar eru að taka sín fyrstu skref á sumum sviðum - Matís liðlega eins árs og Matvælastofnun fárra mánaða. Ég vil nota tækifærið og óska starfsmönnum þeirra velfarnaðar og heilla og veit að vinna þeirra á eftir að bera ríkulegan ávöxt sem endranær.

Að svo mæltu segi ég vorráðstefnu Matís og Matvælastofnunar setta.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta