Er lífrænn landbúnaður valkostur á Íslandi? 16. maí 2008
Einars K Guðfinnssonar, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra á málþinginu Er lífrænn landbúnaður valkostur á Íslandi? Haldið af LbhÍ í Norræna húsinu 16. maí 2008.
Fundarstjóri góðir fundarmenn.
Íslenskt atvinnulíf hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum en þó er það enn svo að matvælaframleiðsla er mikilvægasta framleiðslugreinin og sú sem skilar einna mestum virðisauka í þjóðarbúið. Mikill munur er á umfangi sjávarútvegs og landbúnaðar en sameiginlegt báðum þessum megingreinum matvælaframleiðslunnar er mikil og vaxandi krafa um meiri framleiðni og einnig að þær séu færar um að takast á við vaxandi alþjóðlega samkeppni.
Samkeppni um verð ræður miklu en gæðin; svo sem ferskleiki, bragðgæði og efnasamsetning annars vegar og hinsvegar samspil framleiðslunnar við ýmiss náttúrugæði, ráða því hvernig framleiðslan stenst þessa samkeppni. Á þetta hefur reynt með mismunandi hætti í sjávarútvegi og landbúnaði en þó er margt svipað með þessum megingreinum matvælaframleiðslunnar.
Í sjávarútvegi er allt kapp lagt á að varan sé sem ferskust eða að frysting, söltun eða önnur verkun sé með þeim hætti að upprunaleg gæði hráefnisins skili sér sem best í lokaafurðinni. Einnig verður nú mikilvægara með hverju árinu sem líður að hægt sé að svara spurningu neytenda um það hve sjálfbær framleiðslan er.
Er nýting auðlinda sjávar með þeim hætti að markmiðum alþjóðasamfélagsins um sjálfbæra þróun sé mætt? Er tekið tillit til líffræðilegs fjölbreytileika? Er framleiðslan vistvæn? Sjávarútvegurinn svarar þessum spurningum með veiðistjórnunarkerfinu sem er í sífelldri endurskoðun.
Landbúnaðurinn er á sömu slóð þó að það hafi brunnið á honum með öðrum hætti en sjávarútveginum, þar sem einungis lítið brot framleiðsunnar fer á erlendan markað. Á innanlandsmarkaði hefur minna reynt á beina samkeppni vegna tollaverndar, fjarlægðar og fleiri þátta. Þrátt fyrir þetta og jafnframt til að mæta óbeinni samkeppni milli vöruflokka hefur landbúnaðurinn um langt árabil leitast við að uppfylla sömu kröfur og sjávarútvegurinn og jafnvel gengið lengra á vissum sviðum.
Matvælastofnun sem áður starfaði í allnokkrum einingum undir þremur ráðuneytum tryggir að ýtrustu kröfum á sviði heilbrigðis og meðferðar á búpeningi sé mætt og fylgir afurðunum alla leið í hendur neytenda. Ýtarleg löggjöf stýrir heilbrigðis-og gæðaþáttum aðfanga til landbúnaðarins og sömuleiðis eru strangar reglur um alla starfsemi afurðastöðva.
Hvað varðar sjálfbærni framleiðslunnar þá beinist athyglin einkum að notkun bithaga og gildir það bæði um afrétti og heimalönd. Þannig var beitarþol afrétta eitt meginverkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um áratuga skeið og enn er sjálfbærni landnýtingar mjög ofarlega á baugi. Þetta hefur og verið leiðarstef í starfsemi Landgræðslu ríkisins þá öld sem sú stofnun og fyrirrennarar hennar hafa starfað. Sem dæmi liggur allt þetta starf allt til grundvallar því vottunarkerfi sem nefnist gæðastýrð sauðfjárrækt.
Allar skoðanakannanir benda til þess að íslenskir neytendur kunni vel að meta íslenska búvöru og treysti á gæði hennar og það eftirlitskerfi sem sett hefur verið upp. Að auki virðist vera innbyggður gæðaþáttur í íslenskri búvöru sem neytendur jafnt og matreiðslumenn kunna að meta að verðleikum. Þekktir erlendir matreiðslumenn taka undir þessa skoðun t.d á matvælahátíðinni Food and Fun sem haldin hefur verið í nokkur ár.
Í ljósi þeirrar ástandslýsingar sem ég hef hér stuttlega reifað er mjög áhugavert að rýna í hvað lífræn vottun búsafurða hefur að bjóða framleiðendum og neytendum á Íslandi og fagna ég því frumkvæði Landbúnaðarháskóla Íslands að efna til þessa málþings. Lífræn vottun landbúnaðarafurða hefur færst í aukana víða um heim og þær afurðir sem slíka vottun fá hasla sér aukið rúm í verslun með búvöru. All nokkur ríki í Evrópu og Evrópusambandið hafa stutt þessa þróun og sett sér stefnu um hlutfallslega aukningu lífrænt vottaðra afurða í búvöruframleiðslunni.
Landbúnaðarráðuneyti hefur sett reglugerð um Lífræna vottun á Íslandi en hún sækir sér stoðir í reglugerðir Evrópusambandsins og samþykktir IFOAM sem eru alþjóðleg samtök þeirra sem stunda framleiðslu á lífrænt vottuðum búvörum. Sala lífrænt vottaðrar búvöru og þá einkum grænmetis hefur farið vaxandi á Íslandi en það byggist á miklu leiti á innflutningi þar sem innlend framleiðsla er takmörkuð. Talsmenn lífræns vottaðarar framleiðslu á Íslandi hafa ítrekað lýst vonbrigðum sínum yfir því hversu lítill fjöldi framleiðenda hefur tekið upp þessa framleiðsluhætti og kallað eftir auknum beinum stuðningi við þetta framleiðsluform.
Vissulega hafa styrkir til lífrænnar framleiðslu verið lægri hér en í nágrannalöndum og það endurspeglar líklega umfang framleiðslunnar hingað til hér á landi. Menn verða að hafa í huga að framleiðslan mun alltaf hafa tilhneigingu til þess að endurspegla þörfina sem kemur fram í markaðnum. Ýmislegt bendir til þess að vaxandi eftirspurn sé nú eftir lífrænni framleiðslu. Því má þess vænta að íslenskir bændur bregðist við og freisti þess að uppfylla slíka aukna eftirspurn. Á það hefur og verið bent að verðþróun ýmissa aðfanga ýti ennfremur undir áhuga manna á framleiðslu á lífrænum afurðum. Ákvarðanir um slíkt hvíla þó á herðum bænda sjálfra sem hljóta að vega og meta þær á grundvelli afkomu sinnar og hagkvæmni þess að breyta um kúrs. Slíkt verður ekki gert með valdboðum, heldur er hér um að ræða niðurstöðu sem framleiðendur búvara komast sjálfir að út frá þeim forsendum sem þeir gefa sér.
Þessi málefni eru nú til umfjöllunar í endurskoðun búnaðarlagasamningsins. Ég hef óskað eftir því að menn fari yfir það hvort forsendur hafi breyst varðandi stuðning við lífræna framleiðslu og mun ég taka tillit til þeirra sjónarmiða sem bændur setja þar fram.
Góðir fundarmenn
Ég ítreka ánægju mína með að þetta málþing skuli haldið. Það er áhugavert að skoða hvaða tækifæri kunna að felast í þessari framleiðsluaðferð í íslenskum landbúnaði.
Jafnan verður þó að hafa hugfast að lífræn vottun felur í sér vottun á ákveðinni framleiðsluaðferð en segir ekki til um gæði vörunnar eða umhverfisálag við framleiðslu hennar. Nauðsynlegt er að njóta leiðsagnar vísindanna í þeim efnum með sama hætti og í hefðbundinni framleiðslu. Lífrænt vottaðar búvörur þurfa að standast sömu kröfur um heilnæmi og hefðbundin framleiðsla og sækja fram á markaði á grundvelli staðfestra upplýsinga um gæði og áhrif á umhverfið.
Þessi fundur sem Landbúnaðarháskóli Íslands stendur fyrir hér er liður í slíkri rýni og er ég þess fullviss að fleiri málstofur um ýmis álitamál í tengslum við lífræna vottun og stöðu hennar í íslenskum landbúnaði muni fylgja í kjölfarið.
Ég óska ykkur góðs gengis á þessum mikilvæga fundi.